Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Bjarni Harðarson

Jesús var landsbyggðarmaður

Það er sjálfsagt við hæfi að guð almáttugur og hans einkasonur séu kallaðir til vitnis á sjálfri páskahátíðinni. Enda var það gert í skemmtilegu viðtali sem birtist í páskablaði okkar við séra Axel Árnason prest. Þar spyr þessi skeleggi baráttumaður hvað Jesú hefði þótt um Kárahnjúka.

Þessi spurning hefur leitað á mig síðan ég las þetta og nú á vökunótt í sumarbyrjun dettur mér í hug að leita svara við henni. Verður þá fyrst fyrir að velta fyrir sér hverskonar maður Jesús frá Nasaret var.

Jesús var smiður og eins og ég þekki þá stétt manna þá eru þeir í senn hjartahreinir og framkvæmdaglaðir. Svo mjög sumir þeirra hér í Flóanum glaðir til framkvæmdanna að mér gengur hálf illa að fá þá til að skilja að ekki skuli moka Ingólfsfjalli miskunnarlaust ofan í húsgrunna eða teppaleggja Hellisheiði malbiki.

Annað sem nokkru skiptir í þessu er að Jesús var afdalamaður. Kemur nokkuð gott þaðan, spurðu farísear og aðrir vandlætarar höfuðborgarinnar þegar þeir heyrði að maður þessi væri norðan úr Galíleu. Byggðavandamál var vissulega til staðar í Palestínu á dögum frelsarans og sumt líkt þeim vandamálum sem við þekkjum á Íslandi í dag. Íbúar Jerúsalem og gjörvallrar Júdeu litu niður á Galíleubúa og Samverjar voru flokkaðir óalandi líkt og Vestfirðingar meðal okkar í dag. Þessar byggðir máttu snapa gams og var fátt ofgott.

Í raun og veru hefur sárafátt breyst í mannheimum frá dögum Jesú. Enn á fullt erindi til okkar boðskapur hans um að hver skyldi fyrst huga að bjálka í eigin auga áður en hann fer að fjargviðrast yfir flísinni í auga náungans. Og mér verður hugsað til þessa þegar sveitungar mínir hér á suðvesturhorninu fara mikinn vegna náttúruspjalla á Austurlandi. Fólk sem er sjálft á góðri leið með að leggja heilt hérað undir samfellt asfalt.

Mannsonurinn frá Nasaret kenndi okkur að við yrðum að ávaxta okkar pund, nýta okkur guðs gjafir og hjálpa okkur sjálf. Allt þetta hefur verið gert með skynsamlegum hætti með Kárahnjúkavirkjun. Hún er bjargvættur byggðarlags sem átti undir högg að sækja, svo mjög að horfði til landauðnar. Sú landeyðustefna að enginn megi nota náttúrunnar gjafir utan Orkuveita Reykjavíkur á suðvesturhorninu er óskemmtilega bara hol og innantóm. Í ofanálag dónaskapur gagnvart því fólki sem á sína átthaga utan þessa malbikaða hluta landsins.

Þau rök að með Kárahnjúkavirkjun séu unnin óafturkræf spjöll á landinu eru ekki síður innantóm. Vissulega skilja mannvirki eftir sig menjar í landinu, jafnt í Grafarholti sem Kárahnjúkum. En engin heilsteypt eða skynsamleg mannvistarkenning boðar að maðurinn skuli ganga svo um jörðina að engin sjáist fótsporin. Og fráleitt er það boðskapur Nýja Testamentisins. En okkur er vissulega uppálagt að fara vel með guðs gjafir. Það gerum við hvergi betur en með því móti að nýja okkur fallþunga íslenskra jökulvatna. Betri leið til umhverfisvænnar orkuöflunar er vandfundin.

(Um Norðlingaöldu ætla ég ekki að tala í þessum pistli,- enda allt það mál talsvert flóknara en ég hef hvorki sannfæringu þar til að styðja Axel frá Tröð né Lalla frænda.)

Nú getur vel verið að ég hafi alveg misskilið guðsspjöllin. Það hafi einmitt verið meining almættisins að byggðalög eins og þau sem eru á Austfjörðum fari forgörðum. Ég veit það ekki, enda alltaf erfitt að geta í vilja guðs í stjórnmálum. Margir hafa þess vegna talið æskilegast að halda honum utan við þau. En úr því spurt er,- já, þá held ég að Jesús frá Nasaret hljóti að vera ánægður með bæði Kárahnjúka og álver á Reyðarfirði.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Jesús var landsbyggðarmaður”

  1. Jón Valur Jensson skrifar:

    Gæti ekki allt eins verið, að frelsari okkar ætlist til þess að við leysum slík vandamál mannfækkunar í byggðum með einfaldari hætti – með því að hafna þeirri kvótastefnu, sem hér hefur ríkt og ENGAN árangur borið ? Með því að hætta nánast loðnuveiðum og ekki sízt með því að auka þorskkvóta til grisjunar á ungfiski sem ella er étinn af langsoltum kynbræðrum þeirra? Með því að hætta að trúa á Hafrannsóknarstofnun, sem hefur gert minna gagn en ekkert í þessum málum – lofað stækkun fiskistofna sem EKKI hefur gengið eftir. Stækkuðum kvóta ber að úthluta ekki sízt til sjávarbyggða úti á landi, ekki (nema í mesta lagi þriðjungi) til kvótagreifanna. – Með kærri kveðju, Bjarni. Jón Valur Jensson

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3419.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar