Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Hann er upprisinn

Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret hinum krossfesta. Hann er upprisinn. Hann er ekki hér.Mark. 16.6

Guð er Guð lífsins. Lífið er sterkara en dauðinn. Það segja páskarnir, það staðhæfir fregnin um upprisu hins krossfesta. Upplausn og eyðing er sett mörk, hinu forgengilega er ætlað að ummyndast í hið óforgengilega og hinu dauðlega í hið ódauðlega og dauðinn uppsvelgdur verða í sigur.

PáskaeggGuð er Guð sem endurnýjar og endurskapar og endurlífgar. Guð er Guð sem tími og rúm setja ekki skorður og sem enginn getur lokað fyrir, sett innsigli á, eignað sér. Guð er Guð lífsins, uppspretta allrar vonar og þrár, markmið vonar vorrar. Guð er Guð lífsins sem kallar Jesú frá dánarheimum sem frumgróða þeirra sem sofnaðir eru og tákn fyrir heiminn. Guð er Guð lífsins sem eins mun uppvekja oss. Því svo elskaði Guð heiminn.

Og við sem þráum svör, við sem leitum merkingar, leitum að tilgangi þjáningar og dauða, við sem viljum ekki gefast upp þegar dauðinn hrósar sigri, þegar steinum uppgjafar og vonleysis, trúleysis og hjartakulda er velt fyrir einum af öðrum, skelfumst eigi! Jesús hinn krossfesti er upprisinn! Hann er upprisan og lífið.

Þjáningin verður ekki auðveldari viðfangs, raunaspurningarnar ekki auðleystari, ranglætið í heiminum hverfur ekki, valdníðslan og yfirgangurinn víkur ekki undan. En boðskapur upprisunnar hjálpar okkur að takast á við það. Hjálpar okkur að skynja mynstur og merkingu möguleika sem heimurinn þekkir ekki og skilur ekki. Ljósið sem sigrar myrkrið, lífið sem sigrar dauðann. Og ásamt með Maríu Magdalenu og Maríu móður Jakobs, Salóme og öðrum vinum hans, systkinum og lærisveinum um heimsbyggðina alla höldum við páska.

Kristur er upprisinn. Já, hann er sannarlega upprisinn!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6789.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar