Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Ægisson

Ha?

Ég verð sjaldan kjaftstopp, en það gerðist nú samt á dögunum. Ég hafði verið með erindi í lokuðum klúbbi, um Tóríno-líkklæðið, og bauð upp á fyrirspurnir að því loknu, átti von á einhverju í tengslum við hið stórmerka efni, en viti menn, upp fór hönd í salnum, og rödd barst þaðan, með eftirfarandi spurningu: „Var Jesús til í raun og veru? Er það alveg víst? Er saga hans ekki bara tilbúningur og skrök?“

„Ha?,“ varð mér að orði. Ég vissi eiginlega ekki hvort ég ætti að fara að gráta eða hlæja, en velti því svo fyrir mér örsnöggt, hvort eyrun hefðu numið þetta rétt. Það hefði ekki komið á óvart, ef þetta hefðu verið ungmenni í byrjun fermingarfræðslu vetrar, enda er ýmsu varpað þar fram til umræðu, eins og gefur að skilja, en hreint út sagt ógnvænlegt var að heyra slíkt af vörum einstaklings á miðjum aldri, í byrjun 21. aldar, og það á Íslandi. Þegar mér varð ljóst, að þetta var ekki misheyrn, reyndi ég að svara eftir bestu getu. En mér var sannarlega brugðið.

Þetta rifjaði upp fyrir mér söguna af konunni á Akureyri, sem hélt því fram að Jörðin væri flöt, en ekki svífandi hnöttur í geimnum. Og meinti það. Ekki eru mörg ár síðan, 10-15 í mesta lagi. Ég hélt alltaf að hún væri að grínast, en svo var ekki.

Hinum var líka fúlasta alvara.

Við leit á Netinu hef ég síðan komist að því, að margt fólk er enn að velkjast í þessum efa, og heldur því jafnvel blákalt fram, sumt hvert, að þetta barn Maríu sé eintómur hugarburður, ef ekki fölsun kirkjunnar. Langoftast eru vantrúaröflin þar á bak við, hafandi það eitt að takmarki að meiða og skemma.

En það er líka greinilegt, að ekki er sama um hvern er verið að fjalla. Eitt lítið dæmi er gríski heimspekingurinn Sókrates. Hann var uppi rúmlega 400 árum f.Kr. og vitneskju um hann er aðallega að finna í skrifum annars frægs heimspekings, lærisveinsins Platons. Samt er enginn í vafa um, að þar sé réttilega greint frá. En í tilviki Jesú frá Betlehem og Nasaret er efast um flest og þó komu lærisveinar hans beint eða óbeint að samningu margra bóka Nýja testamentisins, þar sem um hann er fjallað. T.d. mun Símon Pétur vera aðalheimild Markúsarguðspjalls, að því er fræðimenn telja. Þetta sýnir, að hér eru frekar ójafnir leikar.

Hvar er nú hlutleysið?

Framhjá því verður ekki litið, að aðalheimildir um líf og störf meistara kristinna eru guðspjöllin fjögur, og þau kannski fleiri, ef nýlegir handritafundir eru teknir með í reikninginn; þar á ég aðallega við Tómasarguðspjall, en fleira er til. Út frá viðmiði sagnfræðinnar mun það vera ókostur eða galli, að þau skrif virðast öll ættuð úr innsta hring fylgismanna Krists. Á mælikvarða nútímans hlýtur það að merkja, að í ævisöguritun sé affarasælast að vera ekkert að ræða við aðstandendur eða vini þess, sem um á að fjalla.

Það yrði skrýtin bók.

Nokkurt ósamræmi er á milli áðurnefndra rita Biblíunnar um einstakar staðreyndir, það er ekkert launungarmál. En ef um plott er að ræða frá upphafi, hefði þá ekki verið eðlilegra, að postularnir og aðrir fylgismenn hefðu sammælst um þessa hluti algjörlega, til að koma í veg fyrir að slíkt gerðist?

Svindl á prófum kemst iðulega upp á þann hátt.

Í alvöru talað, er við öðru að búast, að allt sé ekki nákvæmlega eins í frásögnunum, ef þær hafa lifað í munnlegri geymd um hríð, áður en þær voru fyrst skráðar á blað?

En ef þetta eru ekki nógu merkileg plögg, er rétt að benda á, að Krists er einnig getið í skrifum utankirkjumanna 1. og 2. aldar. Einn þeirra er Flavíus Jósefus (u.þ.b. 37-95 e.Kr.), sagnaritari af gyðingaættum, í 18. bók í verki sínu, Antiquitates Judaicae („Saga Gyðinga“). Þar segir m.a.:

Um þetta leyti kom fram Jesús nokkur, vitur maður, ef það leyfist að kalla hann mann. Því hann vann máttarverk, og kenndi þeim, sem fagna sannleikanum. Hann laðaði marga að sér, bæði Gyðinga og aðra. Hann var Messías, og þegar Pílatus hafði dæmt hann, að áeggjan leiðtoga á meðal okkar, til dauða á krossi, þá gáfu þeir ekki upp trúna á hann, þeir sem höfðu elskað hann frá upphafi. Hann birtist þeim aftur lifandi á þriðja degi. Spámenn Guðs höfðu sagt fyrir um þetta og ótal undur önnur sem tengjast honum, og jafnvel fram á þennan dag hefur flokkur kristinna, sem nefndur er eftir honum, ekki horfið af sjónarsviðinu.

Annar er rómverski sagnfræðingurinn Publíus Kornelíus Takítus (u.þ.b. 55-120 e.Kr.), sem ræðir um Krestus, í „Annálum“ sínum; og eins gerir landi hans og starfsbróðir, Gaíus Svetoníus Tranquillus (u.þ.b. 69-130 e.Kr.), einkaritari Hadríanasar keisara, í bók sinni „Ævi Kládíusar.“ Og meira að segja eitt helgirita Gyðinga, Talmúd, frá 2. öld e.Kr., segir frá því, að Jesús hafi verið tekinn af lífi „eins og glæpamaður“.

Hér er bara fátt eitt talið upp, rúmsins vegna. En niðurstaðan er skýr.

Lokaorðin tek ég úr hinu virta alfræðisafni Encyclopedia Britannica, þar sem verið er að fjalla um ofannefnda vitnisburði. En þar segir:

Þessir óháðu textar sanna, að ekki einu sinni andstæðingar kristninnar efuðust í fyrndinni um að Jesús hafi verið raunverulegur. Það byrjaði ekki fyrr en með lítt grunduðum athugasemdum nokkurra rithöfunda í lok 18. aldar, á 19. öld, og í upphafi þeirrar 20.

Um höfundinn7 viðbrögð við “Ha?”

 1. Magnús Erlingsson skrifar:

  Ísraelskur fræðimaður, Shlomo Pines, hefur fundið forna arabíska þýðingu á texta Jósefusar, sem hugsanlega er nær frumtextanum en uppskriftir kristinna ritara. Hún er á þessa leið:

  “Um þær mundir kom fram vitur maður að nafni Jesús. Hann var þekktur fyrir kenningar sínar og dyggðuga framkomu. Og margir Gyðingar og fólk af öðrum þjóðum urðu lærisveinar hans. Pílatus dæmdi hann til krossfestingar og dauða. En lærisveinar hans sneru ekki baki við kenningum hans. Þeir skýrðu frá því að hann hefði birst þeim þremur dögum eftir krossfestinguna og væri lifandi og þess vegna væri hann Messías, sem spámennirnir hefðu sagt að vinna myndi kraftaverk. Og kristnir menn, eins og þeir voru nefndir eftir þetta, eru enn á sjónarsviðinu allt til þessa dags.”

 2. Árni Svanur skrifar:

  Takk fyrir þennan pistil Sigurður. Mig langar að bæta við tveimur vísunum í efni þar sem fjallað er um þessa spurningu um tilvist Jesú:

 3. Matti skrifar:

  Ha Siggi?

  Þjóðkirkjupresturinn Sigurður Ægisson er með vikulegan pistil á sunnudögum í Morgunblaðinu. Síðasta sunnudag hét pistillin Ha? og fjallaði um efasemdir varðandi tilvist Jesú. Þá er átt við tilvist Jesú á jörðinni fyrir tvöþúsund árum, en ekki meinta tilvist hans á himnum í nútímanum. Þó svo að það sé ánægjuefni að prestar þjóðkirkjunnar velti sagnfræðilegum grunni ýmissa atriða guðspjallanna um Jesú og jafnvel sjálfri tilvist hans, þá vona ég samt að málflutningur kirkjunnar eigi ekki eftir að vera í líkingu við pistil Sigurðar.

 4. Bjarni Randver Sigurvinsson skrifar:

  Óhætt er að segja að ekki sé allt gáfulegt sem leynist undir sólinni. Fram hafa komið fjölmargir sértrúarsöfnuðir með ótrúlegustu kenningar og er enginn skortur af slíku hér á landi fremur en víða annars staðar. Nýverið birtist t.d. grein í Morgunblaðinu þar sem því var haldið fram að fræðimenn væru sammála um að Jesús hefði ekki verið líflátinn á krossi heldur staur en sá málflutningur er fyrst og fremst í anda Votta Jehóva. Ennfremur eru starfandi á Íslandi a.m.k. tveir sértrúarsöfnuðir sem halda því fram að Jesús hafi sennilega aldrei verið til en sá málflutningur er fyrst og fremst grundvallaður á langsóttum samsæriskenningum sem tiltölulega fáir taka alvarlega en er engu að síður farið rækilega í í guðfræðináminu hér heima og er full ástæða til. Auðvitað má deila um réttmæti þeirrar túlkunar á Jesú sem alla tíð hefur tíðkast í postullegri trúarhefð og nægir að líta í þær fjölbreyttu heimildir sem eru að finna í ritsafni Nýja testamentisins til að sjá að margvíslegur ágreiningur var til staðar innan frumkirkjunnar allt frá upphafi. En þegar betur er að gáð grundvallast sá málflutningur á óskhyggjunni einni að Jesús hafi aldrei verið til og upphaf kristindómsins hafi verið eitt allsherjar samsæri. Fyrir þá sem vilja kynna sér betur þann anga guðfræðinnar sem þessar samsæriskenningar sækja töluverðan innblástur til má t.d. benda á bókina Hidden Jesus: How the Search for Jesus Lost Its Way eftir Philip Jenkins, prófessor í sagnfræðilegum og trúarlegum rannsóknum við Pennsylvania State University í Bandaríkjunum, en hún er gefin út af Oxford University Press.

 5. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Mig langar persónulega að vita hvernig Sigurður getur komist að þeirri niðurstöðu að lærisveinar eða lærisveinar þeirra hafi skrifað guðspjöllin og að mótsagnir (sem eru ekki bara smávægilegar) séu tilkomnar vegna munnlegrar geymdar. Er ég sá eini sem sér mótsögnina í þessu?

  Auk þess væri fróðlega að vita hvaða sértrúarsöfnuði Bjarni Randver er tala um, vissi ekki af því að það væru söfnuðir sem hefðu tilvistarleysi Jesú sem kennisetningu. Hvaða trúfélög eru þetta?

 6. Matti skrifar:

  Fyrirgefðu Bjarni, hvaða sértrúarsöfnuði ertu að tala um?

  En þegar betur er að gáð grundvallast sá málflutningur á óskhyggjunni einni að Jesús hafi aldrei verið til og upphaf kristindómsins hafi verið eitt allsherjar samsæri.

  Nú skil ég ekki, hvernig tengist eitthvað samsæri þeirri hugmynd að Jesús hafi ekki verið til? Ertu að segja að öll trúfélög sem byggja á vafasömum grunni séu þar af leiðandi byggð á samsæri?

  Hvað segir Guðfræðinámið um klæðið frá Tórínó?

 7. Óli Gneisti skrifar:

  En þegar betur er að gáð grundvallast sá málflutningur á óskhyggjunni einni að Jesús hafi aldrei verið til og upphaf kristindómsins hafi verið eitt allsherjar samsæri. Fyrir þá sem vilja kynna sér betur þann anga guðfræðinnar sem þessar samsæriskenningar sækja töluverðan innblástur til má t.d. benda á bókina Hidden Jesus: How the Search for Jesus Lost Its Way eftir Philip Jenkins,

  Í fljótu bragði sýnist mér Jenkins aðallega að vera að tala um Tómasarguðspjall og önnur “ný” guðspjöll en ég sé ekki að hann tali um Míþras, Díónýsus, Ósíris né aðra guði sem eru kjarni “Jesus myth” kenningana. Ef þú getur bent á einhverja bók sem reynir að hrekja þær kenningar þá yrði ég mjög glaður.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6774.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar