Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Lúxus að vera trúaður

Svo virðist sem enginn komist í gegnum lífið án þess að fá sinn skammt af sorg, kvíða, úrræðaleysi, vonleysi og áhyggjum. Stundum geta vandamálin verið þess eðlis að þau séu fyrir löngu vaxin okkur yfir höfuð og engin leið fyrir venjulega manneskju að greiða úr þeim öllum. Hvað gerum við þá? Í fjótu bragði virðumst við hafa um tvennt að velja: Annars vegar gefast upp, bogna eða brotna. Hins vegar að reyna að halda haus, berjast og streða til síðasta blóðdropa. Báðir þessir kostir eru á þann hátt slæmir að þeir draga úr starfsþreki okkar og draga úr lífsgæðum. Sá sem gefst upp, bognar og brotnar er ekki fær um að sinna sínum þörfum, né annarra. Hann getur ekki notið hæfileika sinna eða starfsgetu. Sá sem reynir að halda haus, berjast og streða, getur vissulega flotið á því í ákveðinn tíma, en séu erfiðleikarnir, áhyggjurnar, sorgin og kvíðinn sem þeim fylgir, langvarandi er ekki hægt að komast endalaust áfram á baráttuþrekinu einu saman.

Þeir sem eiga í baráttu við langvarandi vandamál, sem geta verið af hvaða toga sem er, s.s. skilnaður, dauðsfall, langvarandi veikindi, langvarandi veikindi náinna aðstandenda eða barna, óregla, dópneysla barna, fjárhagserfiðleikar, erfið uppeldisskilyrði, afkomuvandamál, atvinnuvandamál, samskiptaerfiðleikar og námserfiðleikar svo eitthvað sé nefnt komast ekki hjá því að horfast í augu við vandann. Vandinn getur orðið eins og ókleift fjall. Hugsunin fer að snúast um það eitt, hvernig komast megi yfir þetta fjall. Hvernig hægt sé að leysa vandamálin.

Þeir sem ekki eru tilbúnir að gefast upp og leggjast undir sæng og sleikja sárin heldur vilja bæta ástandið leita gjarnan aðstoðar til vina, ættingja og til„kerfisins”. Þeir komast fljótt að raun um að þar er þó eingöngu að finna takmarkaða hjálp. Vandinn og orsök hans heldur samt áfram að vera jafn nagandi og krefjandi – jafnvel svo krefjandi að hann er farinn að ræna nætursvefni og hvíld. Öll orkan fer í það að hafa öll bönd í sínum höndum. Það er verkefni sem enginn ræður í raun og veru við. Hvað er þá til ráða?

Það besta sem hægt er að gera í erfiðum kringumstæðum, sem stundum virðast jafnvel vonlausar, er að leggja alla hluti í hendur Guðs og leitast þannig við að finna slökun og ró. Leggja frá sér öll þessi bönd sem okkur hættir svo til að vilja hafa í okkar höndum og leggja þau í hendur Guðs sem mun vel fyrir sjá. Þetta er lúxus hins trúaða. Það er lúxus að eiga trú í hjarta sínu því slík trú er ávísun á innri frið og breytt viðhorf til erfiðleika.

Það er munaður að geta falið alla erfiðleika og allar áhyggjur æðra valdi sem mun hugsa um að greiða úr flækum og láta allt fara vel.

Á þennan hátt býður Guð okkur hönd sína í erfiðleikum og mótbyr lífsins. Grípum í hönd hans. Við höfum ekki orku til annars.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Lúxus að vera trúaður”

 1. Grétar Einarsson skrifar:

  Takk fyrir fallegan pistil.

  Það eru auglýsingar í sjónvarpinu nú um stundir frá bankastofnun einni þar sem koma fram mismunandi hugmyndir um velgengni. Er það ekki líka hægt að líta á það sem velgengni að hafa trú og að fela líf sitt Guði?

  Það er að minnsta kosti mikil gleði!

 2. irma_sjofn_oskarsdottir skrifar:

  Takk fyrir góð og falleg orð

 3. oliver skrifar:

  Víst er það satt að menn leita huggunar í trúnni þegar ílla gengur, eða um sjúkleika og sorg er ræða. En sannar það ekki ótvírætt að trúarandinn er ekki svo nátengdur gleði sem sorg. Trúin er þá ekkert annað en andleg hækja til að sætta sig við það að þetta líf er óréttlát. Eða hinn algóði himna faðir er svo óréttlátur að hann vil ekki skipta sér af mannkyninu heldur dæmir okkur þegar við erum dauð og engin sér.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3856.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar