Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Eva María Jónsdóttir

Foreldrahlutverk til sölu

Þegar við þessi fullorðnu tölum um að bæta kjör okkar, kemur hækkandi krónutala fyrst upp í hugann. Ef við fengjum að skyggnast inn í hugarheim barns er líklega allt annað uppi á teningnum. Því börn eru enn ekki búin að læra að meta allan heiminn til fjár.

Einn af sérfræðingum okkar í vinnumarkaðsmálum talaði í útvarpið um daginn og spurði hvort við værum almennt meðvituð um hvaða fórnir ofurlaunamenn þurfa að færa til að fá fúlgurnar að launum. Hann sagði að eftir því sem launin hækka, þá eykst krafan um að vera alltaf til staðar fyrir vinnuna. Allt annað, líka börnin, eiga þá að víkja þegar vinnan kallar.

Þetta leiðir hugann að þeim alræmdu orðum sem bárust með norðanvindinum um daginn: að alvöru menn fái alvöru laun og fari því ekki í alvöru í feðraorlof. Það er kannski bara rétt eftir allt saman.

Nýlega kom fram hjá þeim sem rannsaka hvernig gengur að ná hinu gullna jafnvægi á milli atvinnu- og einkalífs að þó sveigjanleiki starfsmanna hafi aukist, þá hefur jafnvægi á milli atvinnu og einkalífs minnkað, á kostnað fjölskyldunnar.

Þetta er merkileg þróun. Því við erum ekki jafn ómissandi í atvinnulífinu og við erum sem foreldrar. Maður kemur í manns stað í atvinnulífinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr. En enginn er færari um að sjá um lítið barn en foreldrarnir.

Það er ekki undarlegt að ásókn eftir góðri stöðu á vinnumarkaði og háum launum sé almenn, þar sem eini mælikvarðinn sem við þekkjum örugglega öll eru peningar. En við verðum að þora að spyrja erfiðra spurninga. Er hægt að kaupa af okkur réttinn til fjölskyldulífs? Það er kannski óráð að halda lengur áfram með þessar vangaveltur og komast að þeirri óþægilegu niðurstöðu að fólk sé jafnvel tilbúið til að selja frá sér foreldrahlutverkið ef rétt verð er í boði. Að til séu börn sem búa við efnisleg gæði af bestu sort, en fái engan tíma með öðruhvoru foreldri sínu eða báðum. Að við séum flest tilbúin að kyngja sívaxandi kröfum frá atvinnulífinu, frekar en að spyrna við fótum og segja stolt: Ég heiti Jón Jónsson og ég er foreldri.

Ég velti fyrir mér hvort þessi þróun muni einhverntíma snúast við. Hvort raddir barna okkar megni einhverntíma að yfirgnæfa hamaganginn í vinnunni. Hvort hógvær ósk afkvæmanna um að við setjum foreldrahlutverkið í fyrsta sæti rétt á meðan þau eru bara litlar manneskjur sem þurfa að láta leiða sig styrkri hendi út í lífið, heyrist og sé virt af öllum sem byggja þetta land.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1913.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar