Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnlaugur A. Jónsson

Myndbannið og íslam - Hver móðgar mest?

Ekkert lát er á mótmælum í hinum múslimska heimi vegna teikninga sem birtust í dönsku dreifbýlisblaði fyrr í vetur. Í hinum vestræna heimi er fólk fyrst og fremst undrandi og reynir að skilja hvað hafi eiginlega gerst. Ótal álitsgjafar eru kallaðir í viðtöl eða koma sjálfviljugir fram á sjónarsviðið og gera sitt til að upplýsa málið. Mér sýnist ljóst að þessar myndbirtingar hefðu aldrei valdið slíkum úlfaþyt ef ástandið hefði ekki verið óvenjulega viðkvæmt fyrir í samskiptum ólíkra menningarheima.

Miklu skiptir að menn haldi ró sinni og leitist við að stilla til friðar. Mannkynssagan kennir okkur að af litlum neista getur oft orðið mikið bál. Því miður virðist ástandið í hinum íslamska heimi einkennast af flestu öðru en rósemi nú um stundir. Og mörg bál hafa þegar verið kveikt og ekki síst í eða við dönsk sendiráð austrulöndum nær. Danir hafa þegar tapað ótöldum milljarða í útflutningstekjur og er það þó varla stærsta áhyggjuefnið eins og mál hafa þróast.

„Hver móðgar íslamstrú meira? Útlendingur sem leitast við að teikna spámanninn eftir lýsingum lærisveina hans, eða múslimi sem hleður á sig sprengiefni og gerir sjálfsmorðsárás í brúðkaupsveislu í Amman eða annars staðar,“ segir í leiðara jórdanska dagblaðsins Shihan á dögunum (skv. mbl.is) vegna þeirrar mótmælaöldu sem risið hefur í fjölmörgum íslömskum löndum að undanförnu. Þar vísar jórdanska dagblaðið í eitt af þremur hryðjuverkatilræðum sem framin voru í Amman í Jórdaníu í nóvember fyrra. „Hvort veldur ímynd íslamstrúar og múslimum meiri skaða? Skopmynd eða myndskeið af því þegar gísl er tekinn af lífi með sverði undir hrópum manna um að Guð sé mikill?“ spyr ritstjórinn. Sú spurning kostaði hann starfið og fangelsisvist hlaut hann víst einnig.

Sjónarmið hans var þó lofsvert. Hann leitaðist við að skilja og skýra sjónarmið þeirra sem allir í hinum múslimska heimi virðast gagnrýna. Með sama hætti ættum við að reyna að skilja hvað það er sem særir múslima svo mjög. Múgæsing kann aldrei góðri lukku að stýra. Þeir sem tala gegn henni og reyna að skilja og skýra andstæð sjónarmið eiga jafnan heiður skilinn.

Sjálfur tel ég mig eindreginn stuðningsmenn þess að borin sé virðing fyrir lífs- og trúarskoðunum annarra hópa. Það sama myndu vafalaust flestir Íslendinga segja um sig. Myndbannið er heittrúuðum múslimum mikið hjartans mál, það er miðlægt í trú þeirra og þeim er það heilagt. Það skyldu menn ekki svívirða að ástæðulausu. Ritsjórn Jyllands-posten gat sagt sér að myndirnar sem blaðið birtu myndu kalla á vandræði. Alveg sérstaklega vegna þeirrar spennu sem ríkir milli ólíkra menningarheima nú um stundir.

Á vesturlöndum lofsyngja menn mál- og prentfrelsið en gleyma gjarnan að því fylgir ábyrgð. Sjá þó ágæta grein Árna Páls Árnasonar lögfræðigns í Mbl á dögunum. „Mannasiðir eða málfrelsi?“ (mbl 7.2.2006, s. 24). Þar kemst hann vel að orði er hann skrifar: „Grundvallargildi Vesturlanda fela í sér frelsi með ábyrgð, en ekki heimild til að smána aðra án ábyrgðar.“

Hitt liggur þó fyrir að myndbirtingar eru fjarri því óþekktar í íslam eins og Dagur Þorleifsson segir réttilega í Fréttablaðinu í á dögunum (7.2.2006). Myndbirtingar Jótlandspóstsins hafa hins vegar verið túlkaðar sem “einn ein niðurlæging” hins kristna menningarheims á múslimum – ástandið var einfaldlega svo viðkvæmt fyrir. Öfgamenn hafa líka hlaupið undir bagga, dreift grófum myndum af Múhammeð, myndum sem aldrei voru birtar í dreifbýlisblaðinu danska. Það blað er nú að verða eitthvert hið þekktasta í heiminum en hefði líklega afþakkað athyglina hefðu menn þar á bæ séð þróunina fyrir.

Engu að síður finnst mér viðbrögð múslima yfirgengileg. Það hefur ekki þótt tiltökumál meðal íslamskra hópa að brenna vestræna þjóðfána sem hafa innihalda krosstáknið og eru heilög tákn viðkomandi þjóða. Og nú hafa þeir gengið mikið lengra en það. Kveikt í sendiráðum Dana og hóta lífláti öllum þeim sem á einhvern hátt eru taldir tengjast myndbirtingunum. Fréttir í morgun greinir frá því að nokkrir hafi þegar látið lífið í öllum þeim hamagangi sem orðið hefur vegna þessa máls sem flestum okkar hér á landi virðist ekki hafa verið stórt í sniðum í upphafi.

Myndbannið er raunar runnið úr Gamla testamentinu og er meira að segja meðal boðorða okkar kristinna manna þó að við gleymum því yfirleitt - enda það oft vandlega falið. Múslimar hafa í gegnum aldrinar litið þetta boð misjöfnum augum eins og kristnir menn og Gyðingar einnig. En yfirleitt hefur það gegnt margfalt stærra hlutverki þar en í kristninni þar sem það er yfirleitt sniðgengið með þeim orðum að Kristur hafi numið lögmálið úr gildi eða einhverju hliðstæðu. Hin ofsafengu viðbrögð vegna myndbirtinga dansks dreifbýlisblaðs af Múhammeð spámanni eru raunar sérlega fróðlegt dæmi um áhrifasögu Gamla testamentisins. Þar liggja jú ræturnar, að vísu harla djúpt, en engu að síður þar.

En ég held, hvað sem öllu líður, að jórdanski ritstjórinn hafi hitt naglann á höfuðið. Öll þau hryðjuverk og dráp á saklausum borgurum sem framin er í nafni ýmissa samtaka sem kenna sig með einum eða öðrum hætti við íslam gera auðvitað ennþá minna úr þeim trúarbrögðum heldur en skopmyndir þær sem birtust í Jyllands posten. En sá boðskapur hans reyndist fjarri því til þess fallinn að leysa málið.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4302.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar