Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Óskar Hafsteinn Óskarsson

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi

Fyrirsögnin er úr bréfi Páls postula og er lesin við kirkjulega hjónavígslu. Kærleikurinn er þeirrar náttúru að í hvert skipti sem þú tekur af höfuðstólnum og gefur annarri manneskju þá vex höfuðstóllinn um leið. Þarna gilda önnur hagfræðilögmál en í heimi viðskiptanna. Við erum reyndar ekki sérfræðingar í hagfræði en eftir því sem við komumst næst er mikilvægt að höggva ekki of nærri höfuðstólnum. Að undanförnu hafa þær raddir heyrst að með því að veita samkynhnegðum hlutdeild í hjónabandinu á sama hátt og gagnkynhnegðum sé verið að rýra gildi hjónabandsins, eða jafnvel eyðileggja það. Við höfum velt þessu fyrir okkur á alla kanta og niðurstaðan er eindregin: Með því að veita samhynhneigðum rétt til hjónavígslu erum við að undirstrika að við erum öll jöfn frammi fyrir Guði. Við erum að undirstrika að kærleikurinn er umburðarlyndur. Við erum að segja að hjónabandið sé dýrmætt og við viljum að tveir einstaklingar sem unnast eigi að fá að staðfesta það frammi fyrir Guði og mönnum með því að játa gagnkvæma ást virðingu og trú. Það verður enginn heimskari af því að miðla af visku sinni. Það sama á við um kærleikann sem vex og dafnar í jöfnu hlutfalli hjá gefanda og þiggjanda. Þarna eru margföldunaráhrif sem ekki þarfnast frekari skýringa.

Athöfnin

Í hjónavígsluathöfn flytur prestur ávarp eða ræðu og í framhaldinu eru lesnir textar úr Ritningunni sem valdir eru eftir tilefninu. Síðan játast brúðhjónin hvort öðru og gefa loforð um að elska, virða og vera trú. Prestur lýsir því yfir í heyranda hljóði að þau verði hjón bæði fyrir Guði og mönnum. Þá er farið með bæn fyrir hjónabandinu og síðan er Drottinleg blessun. Er þá nema von að margir velti fyrir sér hvað standi í veginum fyrir því að samkynhneigð pör hljóti slíka helgun á ráðahag sínum?

Band ástar og trúfesti

Hjónabandið rýrnar ekki við það að samkynhneigðir fái þar hlutdeild, það þverrt á móti festist í sessi. Sáttmálinn er sá sami, játningin sú sama, ráðahagurinn er sá sami og réttindin. Af hverju þurfum við þá að kalla þetta öðru nafni? Er það kannski til að undirstrika aðgreininguna, að vígsla karls og konu sé Guði þóknanlegri og í meiri samhljómi við lífsins lög? Við hvað erum við hrædd? Ef þetta eru skilaboðin: Við erum tilbúin að blessa sambúð samkynhneigðra en það getur aldrei kallast hjónavígsla og hjónaband því það er frátekið fyrir karl og konu, þá erum við komin í ógöngur. Þetta snýst nefnilega ekki um frátekningu eða einkarétt heldur um að ráðahagur sé viðurkenndur og opinberaður fyrir Guði og mönnum. Hjónabandið er band ástar og trúfesti fyrst og fremst. Við spyrjum ekki um möguleika þeirra sem vilja ganga í hjónaband til þess að fjölga mannkyninu, heldur um ást, virðingu og trúfesti. Því miður er það oft þannig að minnihlutahópar þurfa að bíða eftir„meirihlutanum“ á meðan hann hugsar og segist ekki enn vera tilbúinn. Þetta er vont ekki síst vegna þess að málið snýst um sjálfsögð samfélagsleg réttindi og tilfinningar fólks. Fræðsla og skoðanaskipti hafa skilað okkur áleiðis í rétta átt. Höldum ótrauð áfram.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5213.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar