Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sólveig Anna Bóasdóttir

Hjónabandið – viðhorf og vandi

– Siðfræðilegar hugleiðingar

Það er af svo ótrúlega mörgu af taka þegar ræða skal um hjónabandið. Viðhorf sögunnar til þess hafa verið svo margvísleg – svo og skilningur sögunnar á því hver sé vandi þess á hverjum tíma.

Í okkar samtíma, í þeirri orðræðu um hjónabandið sem átt hefur sér stað hér á landi að undanförnu, kemur þetta berlega í ljós. Viðhorfin eru ólík og og þar sem sumir sjá vanda gera aðrir það ekki. Ef brugðið er grófu mælitæki yfir samtímaorðræðuna sýnist mér að sjá megi tvenns konar nálganir innan hennar; annars vegar nálgast fólk fyrirbærið hjónaband frá sjónarhóli eðlishyggju, hins vegar mótunarhyggju. Með öðrum orðum, hjónabandið er það sem það er, samkvæmt eðli sínu og hlutverki og getur ekki eða má ekki verða örðuvísi. Það er einungis fyrir karl og konu. Aðrir ómaki sig ekki. Mikilvægasta hlutverk þess er barnaeignir og uppeldi. Svo mætti smætta fyrri nálgunina.

Síðari nálgunina mætti smætta niður í eftirfarandi: hjónabandið er manngerð samfélagsstofnun, það hefur verið það sem það hefur verið, og mun að flestöllu leyti halda áfram að verða það þótt tveir einstaklingar af sama kyni taki til við að rækja þær skyldur sem það leggur þeim á herðar.

Við hér á Íslandi erum ekki eyland í þeirri merkingu að sú umræða og sú togstreyta sem á sér stað nú varðandi hjónabandið sé ótengd því sem hefur verið að gerast annarsstaðar. Það sem á sér stað hér hjá okkur nú ætti sér ekki stað, ef ekki væri fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað t.d. í Bandaríkjunum sl 10 til 15 ár. Við erum angi þeirrar umræðu, á því leikur enginn vafi. Pólitík og guðfræði blandast þar heldur betur saman líkt og hér. Burðarveggir hugmyndafræði hægri-kristnu íhaldsaflanna sem Bush stjórnin hefur gert að sínum eru: þjóðernishyggja þar sem lögð er áhersla á að Norður Ameríka sé kristin, útvalin þjóð Guðs. Velþóknun Guðs beinist að meginundirstöðu samfélagsins, hinu gagnkynhneigða hjónabandi og fjölskyldu og þeim gildum sem þessu tengjast. Þau gildi ganga út á að kynjahlutverk innan fjölskyldunnar ruglist ekki. Um þessa hugmyndafræði segir Kathy Rudy, siðfræðiprófessor við Duke háskóla:

Samkynhneigt fólk hefur orðið meginskotmark krossferðar hinna hægri-kristnu hugmyndafræði sem gengur út að skilgreina hvað sé kristið og Guði velþóknanlegt og hvað ekki. Samkvæmt skilgreinungu hinna hægri-kristnu er allt samkynhneigð fólk lauslátt (vegna þess að það lifir kynlífi sínu utan hjónabands) og það er ósiðlegt og þ.a.l. ekki kristið. Slíkt fólk á heima einhversstaðar annars staðar en í hjónabandi. (Rudy, 1997:60)

Sagan endurómar í samtíðinni á vissan hátt. Hliðstæð umræða um hver megi vera með hverjum í hjónabandi hefur átt sér stað fyrr. Í Bandaríkjunum var fólki með hvítan og svartan hörundslit lengi bannað að giftast. Um 1960, þegar Richard og Mildred Loving skutu máli sínu til dómara, nefnilega því máli að þau, annað svart, hitt hvítt, höfðu verið handtekin fyrir ganga í hjónaband kvað dómari Virgínuríkis upp dóm með eftirfarandi orðum: „Almáttugur Guð skapaði kynþættina hvíta, svarta, gula, brúna og rauða og setti þá í mismunandi heimsálfur . . . Sú staðreynd að hann aðgreindi kynþættina sýnir að hann hafði ekki í hyggju að þessir kynþættir blönduðust.” (Coontz, 2005, 256)

Hugtakið kynþátt (race) hafa margir fræðimenn yfirgefið sem óvísindalegt orð byggt á fordómum um eðlislægan mismun hópa fólks með mismunandi útlit, hugtak sem eigi sér sögulegar skýringar sem ekki séu viðurkenndar í dag. (Hopkins, 2005, 4.kafli)

Til að gera langa sögu stutta lauk máli þeirra Richard og Mildred þannig að hjónaband þeirra var viðurkennt af hæstarétti Bandaríkjanna árið 1967 sem kvað upp úr að hjónaband tilheyrði grundvallarmannréttindum sérhvers manns, sbr. 16. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu Þjóðanna frá 1948. Þessi mannréttindi eigi allir menn óháð hörundslit, kynferði, trú, móðurmáli og uppruna.

Frá þeirri stundu (1967) hefur samkynhneigt fólk, fyrst í Bandaríkjunum, en síðar víðar í heiminum, krafist þess að fá þessi grundvallarmannréttindi og fá að ganga í hjónaband. Nixon Bandaríkjaforseti sem kommenteraði á þessa kröfu árið 1970 sagðist styðja heils hugar þau nýfengnu réttindi sem fólk af mismunandi kynþætti hefði fengið varðandi hjónabandið, en hvað varðar hjónaband samkynhneigðra sagði hann: ég get ekki gengið svo langt – það mun verða árið 2000. (Contz, 2005, 256)

Bandaríkin eru í hópi iðvæddra ríkja eitt afturhaldssamasta landið þegar kemur að kynlífs- og fjölskyldumálum. 42% Ameríkana sögðu árið 2002 að samkynhneigð væri siðferðislega röng á meðan aðeins 5% Spánverja hugsuðu svo. Þetta segir þó ekki alla söguna – þetta sjónarmið virðist kynslóðabundið – helmingur 18 og 19 ára fólks í Bandaríkjunum sögðust 2004 vera fylgjandi hjónaböndum samkynhneigðra.

Og hjónabandið er það sem ætluðum að tala um! Því það er einmitt það sem samkynhneigðir fóru fram á, þegar árið 1967 – í nafni grundvallarmannréttinda. Nú vilja menn og konur aðskilja þetta tvennt: hjónabandið og mannréttindin. Sú skoðun sem hljómar af vörum margra sem segja sig lýðræðis- og mannréttindasinna er einhvernveginn svona: Látum þau hafa sömu réttindi og ég og maðurinn minn/konan mín, en í guðanna bænum ekki kalla það hjónaband!

Er einhver ógnun í því fólgin, eitthvert menningarsögulegt slys í augsýn, ef þessi tiltölulega fámenni hópur samkynhneigðra sem vill ganga í hjónaband og jafnframt kalla það hjónaband, fær að gera það?

Þeir sem óttast það virðast mér ekki vera staddir í samtímanum heldur í samfélaginu eins og það var fyrir svona 50 árum. Sambúð fólks og fjölskyldumunstur eru gjörbreytt síðan fyrir þremur - fjórum áratugum. Orsakavaldurinn er ekki samkynhneigt fólk heldur gagnkynhneigt. Há skilnaðartíðni, fjöldi einstæðra foreldrar og óvígð sambúð gagnkynhneigðs fólks hefur þegar breytt ímynd hjónabandsins og grundvallarþýðingu þess fyrir persónulegt og samfélagslegt líf fólks. Hjónabandsímyndin er þegar umbreytt vegna breytts aferlis fólks og nýrra möguleika sem það eygir í lífi sínu. Það að eignast barn er ekki það í dag sem þær voru fyrir nokkrum áratugum, hvað þá fyrr á öldum. Fólk sem áður gat ekki orðið foreldrar getur það nú með hjálp tækni eða leiða sem liggja til annara landa þar sem umkomulaus börn bíða ættleiðingar.

Aldrei fyrr í sögunni búa svo margir einir, ganga aldrei í hjónaband. Sá stóri hópur fólks sem af ýmsum ástæðum gengur aldrei í hjónaband hefur nú þegar dregið úr vægi hjónabandsins sem samfélaglegrar og efnahagslegrar nauðsynjar. Þetta fólk er nú þegar orðinn hópur sem mark er tekið á pólitískt og efnahagslega séð – alveg óháð hjúskaparstöðu þess.

Hjónabandið var einu sinni hluti þroskaferils sem fólk þurfti að fara í gegn um á leið sinni til ábyrgðar og virðingar í samfélaginu. Hjónabandið var eins og að fara gegnum menntaskóla í dag: allir þurfa að gera það til þess að fá aðgang að æðri menntunarstigum. Maður þarf skírteinið upp á vasann til að komast áfram.

Þannig var hjónabandið en er það ekki lengur. Það opnaði dyrnar að framtíðinni og virðingunni sem fylgdi því að vera fullorðin. Þetta er ekki raunin í dag. Vissulega leyfir hjónabandið þetta enn, en það eru svo margar aðrar leiðir til að fjárfesta í framtíðinni en hjónabandsleiðin.

Allar þessar miklu breytingar og margar fleiri hafa umbreytt nútíma hjónabandi í hinum iðnvædda hluta heimsins, breytingar sem eru algerlega óafturkræfar. Með þessu er ég ekki að segja að hjónabandið sé dæmt úr leik. Í flestum löndum heldur hjónabandsstofnunin forréttindum sínum fram yfir aðrar tegundir sambúðar. Ég er ekki heldur að segja að fólk hafi misst virðinguna fyrir hjónabandinu, fyrir gildum þess og þeim heitum sem þar eru gefin. Þvert á móti eru það kannski fleiri en áður, sögulega talað, sem velta því fyrir sér hvað felist í hinu góða hjónabandi, sem aftur er kannski ástæða þess að fólk velur að skilja. Fólk gerir auknar kröfur um að lifa góðu lífi, siðferðilega góðu lífi í hjónabandi þar sem gagnkvæm virðing ríkir. Ofbeldi karla gagnvart konum um gjörvallan heim á drjúgan þátt í hjónaskilnuðum. Konur flýja víða hið vonda hjónaband sem byggir á valdi og ofbeldi. Svo ef við erum að tala um ógn gegn hjónabandinu í samtímanum þá er ekki hægt að líta fram hjá þeirri ógn sem eru gagnkynhneigðir eiginmenn sem beita eiginkonur sínar ofbeldi. Það fyrirbæri er hins vegar ekkert nýtt í sögunni.

Allar hugmyndir á Vesturlöndum um hjónabandið eru gjörbreyttar frá því fyrir 100 árum, frá því fyrir 50 árum. Lýðræðis- og mannréttindabylgjur frá því upp úr 1960 hafa gjörbreytt hugsunarhætti fólks almennt varðandi líf sitt, ekki síst hið persónulega líf. Fyrirvinnu-eiginmaðurinn frá því um 1950 og hin hamingjusama eiginkona hans með ryksuguna, þvottavélina, strauvélina og öll hin tækin, - ekki bara eru þau gjörsamlega horfin af sjónarsviðinu, heldur líka sem draumsýn eða hugsjón.

Hjónabandsbyltingin stendur ekki fyrir dyrum – hún hefur þegar átt sér stað. Vissulega standa margir gáttaðir enn, eins og gengur og vilja snúa hjólinu tilbaka. Það sem einn lítur á sem feng sér annar sem skaða, jafnvel óbætanlegt tjón. Sjálf lít ég ekki á það sem tjón að opna hjónabandið, bjóða samkynhneigð pör velkomin í það.

Ef tala á á siðfræðilegum nótum um hjónabandið snýst það tal um hið góða líf, um gæði og innihald hjónabandsins fremur en form þess. Ég legg til að við tölum fyrst um hvað sé hið góða og eftirsóknarverða varðandi hjónabandið og síðan um hvað sé hið rétta að gera varðandi spurningar samtímans. Þannig hugsaði Tómas frá Akvínó. Einnig Lúther. Þannig hugsaði líka Jesús þegar hann braut gegn ýmsum boðum lögmálsins af því að tilgangurinn var góður og afleiðingarnar einnig. Jesús leit til hins góða markmiðs frekar en ríkjandi reglna, hann setti gildin og hið góða ofar hefðbundum reglum og því sem samfélagið kallaði hið rétta.

Í stað þess að einblína á það sem skilur á milli okkar og hinna, milli gagnkynheigðra og samkynhneigða – í stað þess að eyða orkunni í hluti eins og hvað þeirra samband megi hugsanlega heita sem sé líkt okkar en þó ekki það sama, þá spyr ég með siðfræðina að leiðarljósi, hvort okkur beri ekki að undirstrika hið sameiginlega – það sem við öll sam- og gagnkynhneigt fólk eigum sameiginlegt sem manneskjur. Það er hið góða sem við þurfum að hlúa að, því sameiginlega. Öll erum við ólík, hið mikilvæga er sameiginleg mennska. Fyrir hvern er það mikilvægt að viðhalda mismun á milli hópa – hver vinnur á þess konar hugsun?

Ef við venjum okkur af því að undirstrika þennan mismun á milli þeirra og okkar og því sem er ólíkt með okkur, þurfum við brátt ekkert á þessum orðum að halda samkynhneigð og gagnkynhneigð. Þau eru dæmigerð sköpun evróskrar menningar og geðlæknisfræði skömmu fyrir þar síðustu aldamót, þar sem menn voru alteknir af áhuga á hinu afbrigðilega, sjúka og óeðlilega. Hugtökin sam- og gagnkynhneigð ganga sér eðlilega til húðar í samfélagi sem leitast við að sjá mennsku allra í stað þess að undirstika stöðugt mismun á milli hópa fólks. Þessi andstæðuhugtök, alveg eins og kynþáttahugtakið byggja á hugmyndum um grundvallar mismun. Hinn almenni maður les alltof mikið inn í þessi hugtök, nokkuð sem viðheldur fordómum. Kynvillingshugtakið er horfið, sjúkdómsstimpill þess fólks sem elskar fólk af sama kyni líka. Andheitið samkynhneigðir og gagnkynhneigðir má gjarna hverfa líka. Það þjónar engum góðum tilgangi að viðhalda því.

Allt fólk er kynverur og flestir þrá að eignast gott líf, í siðferðilegri merkingu, með annarri manneskju. Það nægir og ætti að nægja kristnu fólki sem vill hið góða og einnig veg hjónabandsins sem mestan. Hjónabandið líður ekki undir lok. Siðmenningin ekki heldur. Þau eru ekkert öðruvísi en við!

Um höfundinn2 viðbrögð við “Hjónabandið – viðhorf og vandi”

 1. Björn Erlingsson skrifar:

  Gott innlegg!

 2. Kristinn Ásgrímsson skrifar:

  Kæra Sólveig.
  Eftir lestur greinar þinnar koma upp í hugann orð Páls postula: ” Svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist” En hann er greinilega það sem þú kallar “Hægri kristin”
  Ég get ekki sagt að þín viðhorf kallist kristin.
  Biblían talar um Krist sem dó fyrir syndir mannanna, þú talar um manngildissjónarmið.
  Ég fæ ekki betur séð, en að grein þin sé gróf atlaga að kristinni kennigu. Með vinsemd og virðingu.
  Kristinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5496.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar