Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Einar Sigurbjörnsson

Hjónaband – samvist – sambúð

Inngangur

Með frumvarpi til laga um réttarstöðu samkynhneigðra er samkynhneigðum pörum veittur réttur sambærilegur á við rétt fólks í hjónabandi eða sambúð. Mjög mikil sátt ríkir um það meðal Íslendinga að réttarstaða samkynhneigðra skuli leiðrétt að þessu leyti. Á hinn bóginn er ekki einhugur um hvort sambúð fólks af sama kyni geti kallast hjónaband eða hjúskapur og hjónaband sé þá skýrgreint kynlaust eða kynhlutlaust. Að auki deila menn um hvort prestar eigi að koma að stofnun slíks sambands sem vígslumenn. Um hvorugt þetta atriði ríkir sátt í röðum kirkjunnar manna, hvorki meðal leikra né lærðra og nær ágreiningurinn út fyrir raðir þjóðkirkjuþegna.

Kristinn hjónabandsskilningur

Hugtökin hjúskapur og hjónaband hafa hingað til verið notuð um sambúð karls og konu og nær sú orðanotkun langt út fyrir hinn kristna heim og virðast öll lög og hefðir meðal manna hníga í eina átt að þessu leyti. Svo litið sé á kristindóminn þá virðast biblíuleg rök vera eindregin og sömuleiðis rök kirkjulegrar hefðar. Það sem hefur mótað þennan skilning kristindómsins er frásögn 1. Mósebókar af sköpun mannsins, karls og konu, þar sem segir:

Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. Og Guð blessaði þau og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm og margfaldist og uppfyllið jörðina …“ (1Mós 1.27-28a)

Út úr þessum vitnisburði hafa kristnir menn lesið í fyrsta lagi að sérhver einstaklingur sé skapaður í mynd Guðs, í öðru lagi að skipting mannlífsins í karllegt og kvenlegt sé hluti þess að vera skapaður í Guðs mynd og loks að samlíf karls og konu sé eðlilegt líf skapaðrar tilveru og ekki afleiðing syndafallsins. Biblíulegur átrúnaður, bæði gyðinglegur og kristinn, hefur í samræmi við það lagt áherslu á gildi hverrar persónu og sömuleiðis litið samskipti kynjanna jákvæðum augum.

Mök fólks af sama kyni eru hins vegar litin neikvæðum augum í Biblíunni bæði Gamla og Nýja testamentinu. Á því kunna að vera menningarsögulegar skýringar, m.a. þær að á því menningarsvæði þar sem Biblían mótaðist var kynlíf í ýmiss konar mynd snar þáttur í ýmsum trúarathöfnum og voru í þeim athöfnum oft notuð börn, bæði stúlkur og drengir. Spámenn Gamla testamentisins fordæmdu þess háttar guðsdýrkun og mótmæltu því að Guði verði þjónað með kynlífsathöfnum. Þeir staðir í Nýja testamentinu sem fordæma mök fólks af sama kyni kunna að standa í sambandi við hliðstæð atriði því að á dögum frumkirkjunnar var það nokkur tíska í Rómarveldi að fólk iðkaði kynlíf með samkynja einstaklingum. Einkum var þetta áberandi meðal heimspekinga og annarra menntamanna. Grískir heimspekingar voru mjög uppteknir af því að menntamenn ættu að temja ástríður sínar og lifa lífi í hófsemi og sjálfsafneitun. Að temja ástríðurnar er hins vegar ekki létt eins og dæmin sanna og þá var því oft haldið fram að gætu menn ekki tamið ástríður sínar ættu þeir fremur að fá þeim útrás með körlum (jafnvel drengjum) en konum. Kristnir kirkjufeður voru margir hverjir vel menntaðir heimspekingar og tóku hina heimspekilegu afstöðu til ástríðna í arf og fannst hún vera í samhljóman við lögmál Biblíunnar. Því hertu kirkjufeðurnir mjög á kröfunni um hreinlífi og sjálfsafneitun og hvöttu menn til að halda algerlega aftur af kynhvöt sinni með meinlætum. Þeir kölluðu kristindóminn oft hina sönnu heimspeki – vera philosophia – því að þeir álitu að fyrir utan það að vera hin sanna lífssýn þá veitti trúin mönnum vopn í baráttunni við ástríðurnar. Einlífi varð því hugsjón manna á dögum fornkirkjunnar og álitið göfugri lifnaður en hjónaband.

Samt sem áður missti kirkjan aldrei sjónar af því að hjónabandið væri meðal góðra gjafa skaparans sem með því viðhéldi sköpun sinni. Á miðöldum fór kirkjan í Vestur-Evrópu að kenna að hjónabandið væri sakramenti og hefur rómversk-kaþólska kirkjan haldið í þann skilning. Rómverska kirkjan skilgreinir hjónabandssakramentið þannig að hjónaband sé sáttmáli milli karls og konu sem byggist á samsinni beggja og sem þau staðfesta frammi fyrir presti og tveim vottum. Grunnur hjónabandsins er sagður vera skipun Drottins í sköpuninni og vegna þess er hjónaband algild skipan meðal allra manna. Fyrir kristna menn á Kristur að hafa hafið hjónabandið til sakramentis í því skyni að gefa fólki náð til að rækja skyldur hjónabandsins. Ein afleiðing þess að miðaldakirkjan hóf hjónabandið til sakramentis var að lög og reglur um hjónabandið voru látin falla undir kirkjuleg yfirvöld og sifjalöggjöf álitinn hluti kirkjuréttarins. Og það ber að ítreka að það er ekki athöfnin hjónavígsla sem er sakramenti að rómverskum-kaþólskum skilningi heldur er það hjónabandið eða lífssamband hjónanna sjálft sem er sakramenti.

Lúther hafnaði því að hjónabandið væri sakramenti og taldi að það væri skikkan skaparans og veraldleg stofnun. Með því átti Lúther fyrst og fremst við að sifjarétturinn væri á valdsviði veraldlegra yfirvalda og gætu sifjalög þess vegna verið mismunandi frá einu landi til annars. Um leið ítrekaði hann að sem skipan sett af Guði með sköpuninni væri hjónaband karls og konu heilög stofnun og bæri ríkisvaldinu að virða það sem slíkt. Hann lagði þó ekki til að hróflað væri við þeirri skipan að prestar væru áfram vottar að stofnun hjónabands og mótaði sjálfur form fyrir hjónavígslu sem hér var notað lítið breytt frá því á 16. öld og fram á upphaf 20. aldar. Kirkjuskipanin eða Ordinansían frá 1537 segir um það á þessa leið:

Með ektapersónur hjúskaparins vegna hafa Guðs orðs þjenarar ekki að gjöra, nema það sem viðvíkur þeirra samtenging og að hugsvala þeirra sorgmæddar samviskur en allt annað heyrir til veraldlegrar valdstjórnar.

Þarna er átt við það að prestar skuli einungis standa sem vottar að þeim gerningi sem stofnun hjúskapar er og flytja hjónunum orð Guðs og biðja fyrir þeim og ásetningi þeirra. Samtenging hjóna er þannig í senn embættisskylda prests sem trúnaðarmanns ríkisvaldsins og sálgæsluhlutverk hans. Á síðari tímum hefur reyndar hugtakið sálgæsla verið sjúkdómavætt og litið á það öðru fremur sem eins konar áfallahjálp fyrir fólk sem hefur lent í einhverjum skelfilegum aðstæðum. Svo er ekki að kristnum guðfræðilegum skilningi heldur er sálgæsla prests að biðja fyrir fólki, uppörva það, styrkja og blessa.

Biblíuleg og náttúruréttarrök

Það hefur verið almenn samstaða meðal kristinna manna fram á þennan dag að hjónaband sé samband karls og konu og hafa kristnir menn byggt þá kenningu á biblíulegum og náttúruréttarlegum rökum. Lengstum hafa kristnir menn álitið að hjónaband karls og konu væri eina gilda samband kynjanna og hvers konar kynferðislegar athafnir utan hjónabands væru syndsamlegar (sbr. orðatiltækið „að lifa í synd“). Rökin út frá Biblíunni eru áðurnefnd skipun Drottins til mannsins, karls og konu, að vera frjósöm og margfaldast. Náttúruréttarrökin eru þau að mök karls og konu leiði til getnaðar nema einhverjar hindranir komi í veg fyrir það. Annars konar kynmök hafa verið álitin ónáttúruleg þar eð þau geti ekki haft eðlilegar eða náttúrulegar afleiðingar í getnaði. Það er á þeim grundvelli að rómversk-kaþólska kirkjan kennir að hindranir gegn getnaði verði að vera náttúrulegar en ekki gerðar af manna völdum og bannar þ.a.l. getnaðarvarnir.

Mótmælendakirkjur hafa flestar frjálslyndari afstöðu til t.d. getnaðarvarna. Deildar meiningar hafa verið um kynlíf utan hjónabands þó að áhersla kennimanna hafi jafnan verið sú að kynlíf og ábyrgð fari saman. Í því sambandi má minna á skýringu Lúthers á 6. boðorðinu þar sem segir að boðorðið sé fyrst og fremst hvatning til okkar um að lifa „hreinlega og siðlega í orðum og verkum og sérhver hjón elski og virði hvort annað.” Ýmsar rannsóknir á sálar- og félagslífi mannsins hafa leitt til nýrrar þekkingar í sambandi við kynverund mannsins sem hefur knúið kristið fólk til þess að endurskoða sitthvað í því sem áður fyrr var talinn sannleikur í sambandi við kynlíf og samlíf fólks. Þarna hafa guðfræðingar og kennimenn viljað vera opnir um leið og bent hefur verið á ákveðnar hættur sem s.k. kynlífsbylting hefur leitt af sér svo sem í sambandi við klámvæðingu. Í því efni hefur kristið fólk og fólk annarra lífsskoðana bundið bandalag.

Sambönd samkynhneigðra

Íslenskt samfélag hefur viðurkennt samkynhneigð og heimilar samkynhneigðum að vera í sambúð og nefnist það „staðfest samvist“ í lögum frá 1996. Með því náðu samkynhneigðir mikilsverðri réttarbót. Verði fyrirliggjandi frumvarp um réttarstöðu samkynhneigðra að lögum verður staða þeirra enn bætt.

Þjóðkirkjan hefur tekið málefnum samkynhneigðra vel og stutt réttarbætur þeim til handa þó að skoðanir einstakra manna bæði í hópi leikra og lærðra hafi verið skiptar. Meginvandinn snertir hvort sambúð samkynhneigðra geti kallast hjónaband og hvort prestar geti komið að stofnun samvistar þeirra sem vígslumenn.

Eins og áður greindi hefur kirkjan litið neikvætt á mök fólks af sama kyni og beitt í því sambandi fyrir sig bæði biblíulegum og náttúrlagalegum rökum. Þeim ritningarstöðum sem fordæma að karlar leggist með körlum og konur með konum hefur lengst af verið beint gegn fólki er hneigðist að einstaklingum sama kyns og margir kristnir menn túlka þá ritningarstaði enn þann dag í dag þannig að þarna sé verið að fordæma fyrirbærið samkynhneigð sem slíkt. Aðrir vilja túlka þá staði með öðrum hætti og telja að þeir standi í ákveðnu menningarlegu og trúarlegu samhengi og beri að skilja þá út frá því. Til viðbótar vitna þeir í niðurstöður ákveðinna nútímarannsókna á sálar- og félagslífi fólks sem hafa gefið í skyn að samkynhneigð geti verið sumu fólki eðlileg. Þessi tvenn andstæðu sjónarmið valda því að uppi eru gagnstæðar skoðanir meðal kristinna manna. Sumir halda fram að sé fólk samkynhneigt og ráði ekki við hneigð sína eigi það að halda aftur af sér og lifa einlífi. Aðrir vilja koma til móts við samkynhneigt fólk og samþykkja að það lifi saman í sambúð enda sé því samkynhneigð eðlileg. Þarna takast m.ö.o. á tvö gagnstæð sjónarmið til Biblíunnar og hefðarinnar.

Hjónavígsla

Orðið hjónavígsla er gamalt í málinu og hefur verið notað frá því á miðöldum um það er karl og kona eru gefin saman í hjónaband. Að baki kirkjulegum orðum og hugtökum á íslensku liggja latnesk orð. Sé skyggnst til latínunnar, þá verður fyrir að íslenska orðið vígsla er notað sem þýðing á a.m.k. þrem latneskum orðum sem eru ordinatio, consecratio og benedictio. Ordinatio á við um prestsvígslu, consecratio (helgun) hefur verið notað um kirkjuvígslu og benedictio (blessun) um hjónavígslu. Um hjónavígslu var stundum notað orðið coniugatio sem þýðir tenging. Í þessari orðanotkun fylgja Íslendingar öðrum Norðurlandaþjóðum sem eins og við hafa notað orðið vígsla sem þýðingu á mismunandi latneskum orðum. Síðar var orðið vígsla líka notað í veraldlegri merkingu eins og þegar farið var að tala um brúarvígslu og vígslu skóla um það er brýr eða skólar voru tekin í notkun. Þegar það var heimilað að fólk gæti gifst borgaralega, var sú athöfn líka nefnd hjónavígsla og viðkomandi embættismaður nefndur vígslumaður. Gissur Einarsson þýddi Kirkjuskipanina eða Ordinansíuna úr latínu um 1540 og þá þýddi hann kaflaheitið um hjónabandið orðrétt eftir latínunni og nefnir kaflann: „Hversu að fólk skal samtengja með hjúskaparbandi.“ (Á latínu: „Ritus conjugendi matrimonialiter.“) Yngri þýðing Kirkjuskipanarinnar segir á hinn bóginn: „Um hjónabandið, hvernig hjón skulu saman vígjast“ og styðst þar annaðhvort við málhefð eða fylgir dönsku þýðingunni sem notar sögnina vie í sama kafla.

Þegar hjón eru gefin saman í kirkju er það samband sem hjónin sjálf hafa stofnað til og einsetja sér að halda staðfest í votta viðurvist og blessað. Að því loknu er beðið fyrir þeim ásetningi hjónanna að lifa saman í hjónabandi. Samband hjónanna – hjónabandið – byggist á þeirra eigin samsinni og ásetningi.

Sama gildir um önnur sambúðarform. Þau byggjast á samsinni þeirra sem ætla sér að lifa saman.

Við fyrstu sýn virðist vera auðvelt að segja að málið sé leyst og enginn vandi sé að gifta samkynhneigð pör til jafns á við hjón. En málið á sér fleiri hliðar. Samband karls og konu er sérstakt og sinnar tegundar og er byggt inn í sjálft sköpunarferlið. Frá fornu fari hefur kirkjan kennt að Guð viðhaldi sköpun sinni á óbeinan hátt með þeim aðferðum sem skapaðar verur hafa til að fjölga sér. Hjá manninum er það ást karls og konu sem leiðir til þess að barn verður til. Ást fólks af sama kyni getur ekki leitt til þess. Gagnkynhneigt fólk getur komið í veg fyrir getnað með ýmsum aðferðum. Eins eru til hjón sem ekki geta eignast börn. Þau eiga þess kost að ættleiða börn og á síðari árum hefur tæknifrjóvgun komið til sögunnar sem kostur fyrir hjón sem ekki geta eignast barn með venjubundnum, náttúrulegum hætti.

Samkynhneigð pör geta ekki eignast barn með sama hætti og karl og kona og verða að grípa til ættleiðingar eða tæknifrjóvgunar. Með þessu er ekki sagt að ættleiðing eða tæknifrjóvgun sé óeðlilegur háttur á barneignum heldur er þar um að ræða hátt sem menn hafa sett bæði með því að hafa skapað lagaleg og félagsleg skilyrði og með því að tæknigeta mannsins leyfir. Andstæðurnar eru því ekki eðlilegt – óeðlilegt heldur náttúrulegt og tæknilegt. Kirkjan getur tæplega sett sig upp á móti því að samkynhneigð pör ættleiði börn og samkynhneigðar konur gangist undir tæknifrjóvgun. Um það á að vera hægt að setja lög sem þá jafnframt taka mið af velferð barnanna. Það er heldur ekki hægt að horfa framhjá því að aðstæður barna í íslensku samfélagi nútímans eru mjög mismunandi og fjölskyldumynstur orðið margbrotið. Það er meginregla (prinsíp) að best sé barni og því eðlilegast að alast upp hjá föður og móður eða í sambandi þar sem karllegt og kvenlegt kemur saman. Þar með er ekki sagt að annars konar uppeldi sé nauðsynlega óeðlilegt eða óhollt.

Niðurlag

Kristin hefð gengur út frá því að blessun hjónabands eða hjónavígsla sé blessun á sambandi karls og konu þar eð það samband sé liður í áframhaldandi sköpun Guðs. Í sambandi sínu eru karl og kona samverkamenn Guðs við að viðhalda mannkyni. Löggjöf um hjónaband er ekki síst sett til þess að tryggja börnum rétt og lífsviðurværi. Samband samkynhneigðra getur ekki leitt til barnsgetnaðar og á því ekki að skilgreina sem hjónaband. Þar eð reikna má með að samkynhneigð sé sumu fólki eðlileg eins og sumar nútímarannsóknir hafa leitt rök að, þá er sjálfsagt að samfélagið komi til móts við það fólk. Það ætti hins vegar að vera óþarfi að nefna slíka sambúð hjónaband heldur finna annað hugtak. „Staðfest samvist“ hefur verið notað hér á landi og er það þýðing á norrænu hugtaki sem á sænsku er „registrerat partnerskap.“ Ef þetta hugtak þykir ekki nógu gott verður að finna þessu sambandi nýtt heiti. Ef sambúð samkynhneigðra yrði með lögum á Íslandi skilgreind sem hjónaband mundu íslensk lög ganga út frá því að hjónaband sé kynhlutlaus stofnun. Sú breyting væri mjög róttæk og engin nágrannaþjóða okkar hefur stigið það skref eins þótt þær hafi – í misjöfnum mæli þó – stigið veigamikil skref í þá átt að jafna réttarstöðu hjóna og para af sama kyni.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Hjónaband – samvist – sambúð”

 1. Snorri skrifar:

  Halda menn að “kirkjubrúðkaup” samkynhneigðra haldi betur en staðfest samvist?
  Halda menn að lífsmáti samkynhneigðra verði þeim þægilegri og trúfastara samband eftir kirkjubrúðkaup?
  Ef kirkjan getur breytt kennslu Jesú Krists þar sem hann fræðir um upphaf hjónabandsins “hafið þér eigi lesið að Guð gerði þau karl og konu til þess að þau tvö…
  Ef “þau tvö” höfðu samfarir við þriðja aðila þá er það kallað hórdómur og brot á boðorðunum 10. Er hægt að breyta því einnig?
  Ef kennimenn renna sér svona fimlega framhjá kenningu Jesú Krists eru þeir þá kristnir kennimenn? Nei auðvitað ekki!
  Athugið það!
  kveðja Snorri í Betel

 2. Jón Valur Jensson skrifar:

  Ég þakka tækifærið til að leggja hér inn athugasemdir við grein míns góða kennara í guðfræðideild, dr. Einars. Margt er sláandi gott í greininni, þótt ég geri ágreining við annað. En þessi orð, útlegging Einars á I.Mós.1.27-28a, eru t.d. gimsteinn hlaðinn ríkri merkingu í sérhverju atriði sínu og lesist því hægt og af íhygli: “Út úr þessum vitnisburði hafa kristnir menn lesið í fyrsta lagi að sérhver einstaklingur sé skapaður í mynd Guðs, í öðru lagi að skipting mannlífsins í karllegt og kvenlegt sé hluti þess að vera skapaður í Guðs mynd og loks að samlíf karls og konu sé eðlilegt líf skapaðrar tilveru og ekki afleiðing syndafallsins.”

  Ég gæti hælt Einari fyrir margt fleira í grein hans, en vil ekki hafa þetta innlegg langt, og þá er það gagnrýni mín (og þó ekki öll!). Einar segir:

  “Á því [að mök fólks af sama kyni eru litin neikvæðum augum í Biblíunni] kunna að vera menningarsögulegar skýringar, m.a. þær að á því menningarsvæði þar sem Biblían mótaðist var kynlíf í ýmiss konar mynd snar þáttur í ýmsum trúarathöfnum og voru í þeim athöfnum oft notuð börn, bæði stúlkur og drengir. Spámenn Gamla testamentisins fordæmdu þess háttar guðsdýrkun og mótmæltu því að Guði verði þjónað með kynlífsathöfnum.”

  Svo að við notum orð læriföður míns: KUNNA þetta að vera skýringarnar á því, að bæði GT og NT líti mök fólks af sama kyni neikvæðum augum? Hugleiðum eftirfarandi röksemd: (1) Ef kynmök fóru fram í frjósemisdýrkun nágrannaþjóða Ísraels, bæði kvenna við karla og karla við karla (og það er víst staðreynd, sem og, að eitthvað voru börn notuð þar), er það þá alfarið sönnun fyrir því, að mök samkynja fólks séu fordæmd í Gamla testamentinu VEGNA ÞESSA EINS? En ef ÞAU MÖK eru fordæmanleg vegna þess að þau höfðu farið fram í musterum hinna óguðlegu, af hverju voru þá mök fólks af sitt hvoru kyni ekki fordæmd LÍKA, úr því að þau fóru sömuleiðis fram í hinum heiðnu musterum? Allt musterisvændi var fordæmanlegt, þ.m.t. milli karls og konu, en segir það ekki mikla sögu, að í daglega lífinu eru mök karls við konu sína EKKI fordæmanleg skv. Biblíunni, heldur áskilin blessun (I.Mós.1.28), á meðan mök karls við karl fá alhörðustu ávítur og eru hjá Páli sögð geta útilokað viðkomandi menn frá því að erfa Guðsríki (I.Kor.6.9)? – Svar mitt við spurningu Einars hér ofar er því það, að þetta GETA EKKI verið nægar né ásættanlegar skýringar á því, að mök fólks af sama kyni eru litin neikvæðum augum í Biblíunni.

  (2) III.Mós.18.22: “Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.” Hér er það orð notað um karl, sem leggst með karli, að þar er ljóst, að um FULLORÐNA karlmenn er að ræða (gríska orðið ‘arsen’ í Septuagintu-þýðingunni). Það eru samfarir karmanna, sem þarna eru fordæmdar. Þótt einhverjar nágrannaþjóðir Ísraelsmanna hafi verið með kynmök karla við stráklinga, er ekki talað um það þarna. Því er fráleitt að telja boð III.Mós.18.22 byggt á því, að þar hafi Ritningin verið að mæla gegn barnamisþyrmingum. 18.22 minnist ekkert á börn!

  (3) Ef menn halda því fram, að þessi kynmök karla séu aðeins fordæmd í III.Mós. (og raunar mun víðar!) af þeirri einu ástæðu, að slík mök fóru fram í einhverjum heiðnum frjósemisathöfnum, en að utan slíks trúarbragðasamhengis hafi slík mök verið í lagi og séu það enn, vilja þá sömu menn halda því fram, að það sé einungis af því að heiðingjarnir voru með kynmök við dýr, sifjaspell og barnafórnir, sem sami kafli 18. kafli III. Mósebókar fordæmi slíkt framferði? M.ö.o.: Lýsa siðareglur 18. kaflans slíkt framferði ekki illt í sjálfu sér, heldur aðeins vegna tengsla við blót og hjáguðadýrkun heiðingja? Er þá kannski í lagi frá kristnu sjónarmiði að hafa mök við systur sína (18.9) eða kúna úti í fjósi (18.23) eða að drepa barn (18.21), ef maður bara tengir það ekki hjáguðadýrkun?! Hvílíkt ímyndunarafl! En af hverju eru þá sumir að ímynda sér, að slíkt sakleysi verksins (þegar það á sér stað utan trúarsamhengisins) eigi samt við um samkynja mök karls við karl?!

  Í stuttu máli sagt: Þeir sem slíkt kenna, hafa fyrir því engin Biblíurök; þvert á móti mælir öll skynsemi og eðlileg Biblíutúlkun gegn slíkri afstöðu.

 3. Jón Rafn Jóhannsson ocds skrifar:

  Ég mótmæli því harðlega að rómversk kaþólska kirkjan hafi lýst því yfir á miðöldum, að hjónaband karls og konu væri sakramenti. Hér eru birt nokkrar tilvitnanir í ummæli hinna heilögu feðra frá fyrstu fimm öldum kristindómsins:

  (110): Þannig er tilhlýðilegt að karl og kona sem kvænast, gangi í hjónaband að ráði biskups, þannig að hjónabandið verði í Drottni, en ekki í losta. Megi því þetta allt vera Dottni til vegsemdar. Ignatíus frá Antiokkíu, Til Polycarpusar 5.

  (210): Ef slíkt hjónaband er Guði velþóknanlegt, hvers vegna ætti það þá ekki að verða hamingjuríkt . . . þar sem það nýtur verndar guðdómlegrar náðar? Tertullian, Ad Uxorem, II, viii.

  (385): Þar sem giftingarathöfnina ber að helga með blessun prestsins, hvernig er þá unnt að kalla það giftingarathöfn þar sem eining trúarinnar er ekki fyrir hendi? Ambrósíus, Til Vigilíusar 19. 7.

  (385): Við vitum að Guð er höfuðið og verndarinn og heimilar ekki að önnur hjónabandssæng sé saurguð og að sá sem gerir sig sekan um slíkan glæp er sekur fyrir Guði. Hann brýtur gegn boðum hans þannig að bönd náðarinnar rofna. Þar sem hann hefur syndgað gegn Guði glatar hann hlutdeild sinni í hinu himneska sakramenti. Ambrósíus, De Abraham, I. vii.

  (392): Og þetta er brúðkaup Drottins, þannig að þau verði að einu holdi, rétt eins og í hinu mikla sakramenti Krists og kirkjunnar. Í þessu brúðkaupi er kristið fólk borið þegar Andi Drottins kemur yfir það. Pacían, Predikun um skírnina.

  (418): Meðal allra þjóða og manna eru þau gæði, sem brúðkaupið tryggir, afkvæmin og hreinlífi tryggðarinnar. En hvað áhrærir lýð Guðs [hina kristnu] felst þetta auk þess í helgi sakramentisins og af þessum ástæðum er forboðið að kvænast aftur eftir skilnað meðan makinn er enn á lífi. Hl. Ágústínus kirkjufaðir, De bono conjugii, XXIV kafli.

  (420): Það er hafið yfir allan efa að kjarni þessa sakramentis, það er að segja þegar karl og kona verða eitt í brúðkaupinu, þá eru þessi bönd óleysanleg allt þeirra líf. Hl. Ágústínus, De nuptiis et concupiscentia, I, x.

  Ég vísa jafnframt til greinar minnar: „Af Tübingenmönnum og fleira“ sem finna má á:

  http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2006/02/13/p192

  Þar segir meðal annars: „Þannig var erkidjákninn Demetrios Mysos sendur til Wittenberg 1558 til að kanna nánar kenningar mótmælendanna og þýðing á Augsburgarjáningunni lá þegar fyrir á grísku. Síðan áttu sér stað vinsamleg bréfaskifti sem lauk endanlega í júní 1581 þar sem ágreiningur mótmælenda og Rétttrúnaðarkirkjunnar lá fyrir á borðinu. Hann snérist um eftirfarandi atriði:

  a. Hina heilögu arfleifð.
  b. Trúarjátninguna (filioque).
  c. Frjálsan vilja mannsins.
  d. Ráðsályktun Guðs.
  e. Réttlætinguna.
  f. Fjölda sakramentanna (undirstrikun mín).
  g. Framkvæmd skírnarinnar.
  h. Um umbreytinguna í Efkaristíunni.
  i. Um kennivald kirkjunnar.
  j. Um lotningu, hátíðir, ákall til hinna heilögu og íkonur [2] þeirra og helgra menja.
  k. Föstur og kirkjulega arfleifð og siði.“

  Það er því beinlínis rangfærsla að halda því fram að rómversk kaþólska kirkjan hafa tekið þá ákvörðun á miðöldum að lýsa því yfir að hjónaband karls og konu væri sakramenti. Þetta er óaðskiljanlegur hluti hinnar heilögu arfleifðar frá upphafi, sameiginleg arfleifð Vesturkirkjunnar og Austurkirkjunnar.

 4. Jón Valur Jensson skrifar:

  Aðra athugasemd vil ég gera við eftirfarandi orð hjá dr. Einari (ekki af því að við séum þar í ágreiningi, heldur greinir mig á við það viðhorf, sem fram kemur í lok þessarar málsgreinar): “Þeim ritningarstöðum sem fordæma að karlar leggist með körlum og konur með konum hefur lengst af verið beint gegn fólki er hneigðist að einstaklingum sama kyns og margir kristnir menn túlka þá ritningarstaði enn þann dag í dag þannig að þarna sé verið að fordæma fyrirbærið samkynhneigð sem slíkt.”

  Þessi afstaða viðkomandi kristinna manna er bæði efnisskekkja að mínu mati og í 2. lagi ekki nytsamleg til að afla boðun Biblíunnar í þessu máli skilnings – þvert á móti, því að flestum er svo farið, að þeir vilja ekki fordæma náungann vegna þess sem þeir álíta óviðráðanlegar hneigðir hans (a.m.k. ekki, ef hann hefur ekki átt neinn virkan þátt í því, að þær hneigðir hans urðu til [1]). – En efnisskekkja er þetta að því leyti, að Biblíutextarnir um þessi mál ræða ekki um hneigð, heldur athafnir: að karlmaður hafi samræði við karlmann (eða a.m.k. um beinan ásetning um slíkt: sjá I.Mós.19.4–9). Það eru þær ATHAFNIR, sem mönnum leyfast ekki, en um LANGANIR manna í þessa átt ræðir Ritningin ekki. Segja má, að orðið ‘samkynhneigð’ torveldi jafnvel skilning á þessari afstöðu Biblíunnar, því að langflestir eru fjarri því að vilja lýsa langanir og hneigðir annarra sem siðferðislega ámælisverðar (vorkunnsemi væri mönnum þá a.m.k. ofar í huga en fordæming).

  Stuttu síðar segir Einar: “Til viðbótar [því, að vilja túlka ritningarstaði sem háða ákveðnu menningarlegu, tímabundu samhengi] vitna þeir [ýmsir á frjálslyndiskantinum (hvort tveggja innskot JVJ)] í niðurstöður ákveðinna nútímarannsókna á sálar- og félagslífi fólks sem hafa gefið í skyn að samkynhneigð geti verið sumu fólki eðlileg.” Þetta sjónarmið segir Einar valda því, að þeir vilji “koma til móts við samkynhneigt fólk og samþykkja að það lifi saman í sambúð, enda sé því samkynhneigð eðlileg.” – En satt bezt að segja er sáralítið vitnað í reynd í rannsóknir um þetta, og hvers vegna eigum við þá að taka þær trúanlegar, ef þær eru ekki tiltækar né sanna þessa fullyrðingu? Og má þá ekki eins segja um þann stelsjúka eða barnagirndarmanninn eða alkóhólistann, að þeim sé “[orðin] hneigðin eðlileg”? En förum við þess vegna að gera alls konar ráðstafanir (með milljónaeyðslu í nefndarstörf, frumvarpsvinnu sem breytir 19 lagabálkum o.s.frv.) til að liðka til fyrir hvers kyns þörfum og nýtilfundnum réttindum þessara aðila og afnema meinta “mismunun” gagnvart þeim?

  Aftur má spyrja: Ef þessi samkynhneigð, sem þeim á að heita eðlileg, var samt ekki meðfædd, heldur tilkomin einhvern tímann löngu eftir fæðinguna (og ekki nema í ca.1–rúml.2% tilfella allra manna), hver er þá kominn til með að segja, að það sé betri kostur að ala á þessari hneigð en að liðsinna fólki við að losna við hana og nálgast betur sína upprunalegu náttúru? (Hér má líka hafa í huga miklu meiri heilsufarsáhættu sem hneigðinni fylgir heldur en hinni almennu kynhneigð, sem og ýmsir erfiðleikar sem þessi hópur og aðstandendur hans upplifa.)

  Var kannski frakkt að spyrja svona? Hvers vegna standa þá eftirfarandi orð í Hinu Nýja testamenti Drottins vors Jesú Krists, útg. 1903, s. 224: “… bæði breytti kvennfólk þeirra náttúrlegri hegðun í ónáttúru [2]. Og líka hættu karlmennirnir náttúrlegum samförum við konur og brunnu af lostagirnd hver til annars, svo karlmenn frömdu skömm með karlmönnum, og tóku svo út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar” (Róm.1.26–27)? – Yngri þýðingarnar tala ekki lengur um ‘náttúru’ og ‘ónáttúru’ þarna (þótt orðin ‘natural’/'unnatural’ sjáist t.d. notuð í enskum þýðingum), en merkingin er sú sama (1981): “Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum …”

  Geta guðfræðingar, prestar og kristnir menn í alvöru umflúið þennn texta? Svar mitt er NEI (sjá líka neðar).

  NEÐANMÁLSGREINAR
  [1] Þennan fyrirvara í sviganum tek ég fram, af því að margir myndu t.d. fordæma barnagirnd sem kynhneigð, með það í huga, (1) að hún sé engum manni meðfædd, heldur (2) trúlega til orðin sem ávanabinding (e.: habituation) á grundvelli langrar raðar frjáls vals og mannsins eigin skilyrðingar til þess að enda svo með þessa “óviðráðanlegu” lastahneigð í sálinni. Heimspekingar fornaldar eins og Aristoteles þekktu til þessarar ávanabindingar almennt talað, hún er stór þáttur í þeirra lasta- og dygða-fræðum innan siðfræðinnar, og skólaspekingarnir eins og t.d. Thómas af Aquino nota þetta sama módel (habitus er ávani, illur habitus hleður upp lesti [vitium], góður hleður upp hneigð til dygðar [virtus], sem auðveldar dygðugt líferni; en til ‘guðlegra’ dygða – og góðra verka, sem hafi eitthvert gildi sem slík frammi fyrir ásjónu Guðs – þurfi reyndar meira til, þ.e. innblástur Heilags Anda). – En nú vaknar líka sú spurning, hvort samkynhneigð geti ekki í sumum tilvikum einmitt verið til orðin með slíkri ávanabindingu. Ekki getur það þó einhæft né alfarið verið upprunaskýring hennar, en eitt er víst, að rannsóknir benda ekki til, að hún sé arfgeng eða genetísk (eins og ég mun brátt gera grein fyrir á www.kirkju.net ). Kynímyndarröskun (gender identity disorder) virðist skýring á upptökum samkynhneigðar í mörgum tilvikum, og þar að auki virðast samkynhneigðir hafa 6–7 sinnum tíðari reynslu af kynferðislegri misneytingu við þá, meðan þeir voru yngri, af hálfu aðila sama kyns heldur en gagnkynhneigðir skv. rannsóknum. Vitað er, að slík reynsla getur haft skilyrðandi áhrif, enda hafa einstaklingar, sem urðu fyrir þessu, borið því vitni, að þá hafi hafizt þessi þróun í kynhneigð þeirra. Talið um ‘meðfædda samkynhneigð’ hefur hvergi verið sannað (ekki frekar en ‘meðfædd barnagirnd’). Ýmsum málsvörum samkynhneigðra virðist þó þykja gagnlegt að styðjast við fullyrðinguna um þetta meðfædda eðli til að skjóta stoðum undir réttarkröfur sínar (sumir halda því jafnvel fram, að Guð hafi sjálfur skapað þá svona). En aðrir úr þeirra hópi hafa hafnað fullyrðingunni um að þetta sé meðfætt og óviðráðanlegt og segja með stolti, m.a.s. með hliðsjón af eigin reynslu, að þetta sé þeirra eigið val, allt annað lítilækki þá sem ófrjálsa einstaklinga, jafnvel hálf-fatlaða í augum annarra.

  [2] Orð gríska frumtextans yfir það, sem þarna er kallað ‘ónáttúra’, er ‘para fýsin’, þ.e. ‘gegn náttúrunni/eðlinu’, og er það alkunnugt hugtak hjá Platón og Aristotelesi. Platón notar það einmitt í Lögunum (I, nr. 636) í ummælum um “samfarir karlmanna við karlmenn eða kvenna við konur,” rétt áður en hann minnist á slíkt framferði Krítverja, sem réttlættu það með tilvísan til goðsögu þeirra af Ganýmedes og Seifi, en Platón segir (í þýðingu Jowetts, The Dialogues of Plato, Ox. 1892, V, s. 14): “The Cretans are always accused of having invented the story of Ganymede and Zeus because they wanted to justify themselves in the enjoyment of unnatural pleasures by the practice of the god whom they believe to have been their lawgiver.” – ‘Lög’ Platóns voru seinna verk hans en ‘Samdrykkjan’, sem samkynhneigðir kjósa oftast að vitna í, en sleppa jafnan að horfast í augu við, að hinn miklu þroskaðri Platón segir kynmök fólks af sama kyni “para fýsin” (andstæð eðli [okkar], “contrary to nature,” eins og það heitir í þýðingu Jowetts). – En Ganýmedes er ennþá í uppáhaldi í hommasamfélaginu, sbr. að þrjár af tólf myndum í hinni alkunnu bók Johns Boswell: Christianity, Social Tolerance and Homosexuality (ég á hér 1980-útgáfuna), eru af honum – svo þrálát geta áhrif goðsagnasmíða orðið!

  Aukaþanki: Ef þetta er “contrary to nature,” gagnstætt eðli okkar, hvernig getur það þá verið ‘eðlilegt’? Jú, þeir gömlu þekktu það, að habítusar, jafnvel óæskilegir, gátu orðið mönnum ‘second nature’. Kvíðinn er orðinn þeim sjúklega kvíðafulla að “öðru eðli”, stelsýkin þeim stelsjúka, drykkjuhneigðin þeim drykkjusjúka, ágirndin þeim ágjarna, góðvildin þeim góðgjarna, hugrekkið þeim vopnfima, letin þeim værukæra o.s.frv. En gerir það þetta “annað eðli” þeirra í sjálfu sér gott í öllum tilvikum, bara þessa vegna? Nei. Hvernig er þá hægt að fullyrða það frekar í því tilfelli, þegar samkynhneigð verður sumum mönnum “annað eðli” vegna ávanabindingar þeirra, annaðhvort frjálsrar (með mörgum frjálsum val-tilfellum, í bland við félagsleg áhrif) eða ófrjálsrar (vegna óheppilegra uppeldisskilyrða eða annarrar skilyrðingar, jafnvel með kynferðislegri misneytingu annarra)? Hyggjum að því, áður en við meðtökum hugsunarlaust staðhæfingar þeirra yfirlýsingaglöðu manna (ég á ekki við dr. Einar!), sem halda því fram við okkur, að “niðurstöður rannsókna sýni að samkynhneigð sé sumu fólki eðlileg.” Sú fullyrðing er fjarri því að vera sönnuð og sízt í þeirri merkingu, að ‘eðlileg’ þýði þar ‘góð’, þ.e. farsæl og góð í sjálfri sér. Það hafa engin rök komið fram fyrir því, að okkur beri að bugta okkur og beygja fyrir slíkri staðhæfingu sem óskeikulli, né að við neyðumst því til að óvirða og skófla út fræðslu Páls postula í því málefni, sem hér um ræðir (þ.e. Róm. 1.26–28 og 32, I.Kor.6.9–11, I.Tím.1.8–11).

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 8282.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar