Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Elías Guðmundsson

Fyrirheitna landið

Glíma Spielberg við herleiðinguna, fyrirheitna landið, frelsarann, hatrið og ógnina er um margt mögnuð saga. Mikið hefur verið litið til hefndarinnar og hryðjuverka í umfjöllun um Munich. Skiljanlega, enda fjallar myndin um hryðjuverk og hefndaraðgerðir. Það er þó ekki síður áhugavert að skoða samspil bókstafstrúar og túlkandi guðfræði í umfjöllun myndarinnar um herleiðinguna og fyrirheitna landið. Séra Kristinn Jens nálgast þetta samspil í einni af prédikunum sínum:

Textarnir gátu ráðið yfir margvíslegri merkingu. Merking þeirra gat verið bókstafleg, en hún gat einnig verið siðferðileg eða andleg, eða jafnvel allegórísk.
Til að útskýra þetta aðeins betur er gott að taka dæmi af nafni borgarinnar Jerúsalem, en borgin Jerúsalem kemur einmitt fyrir í guðspjallstexta okkar hér í dag.
Nafnið Jerúsalem getur í samhengi Biblíunnar haft bókstaflega merkingu, og getur þannig vísað til borgar í landi fyrir botni Miðjarðarhafs.
Það getur einnig búið yfir allegórískri merkingu, og sem slíkt t.d.
staðið sem tákn fyrir kirkju kristinna manna í heiminum.
Í þriðja lagi getur nafn borgarinnar Jerúsalem svo haft siðferðilega skírskotun og þannig vísað til hinnar dygðum prýddu sálar sérhvers þess manns, sem í hjarta sínu þráir eilífan frið.
Í fjórða og síðasta lagi getur nafn borgarinnar haft andlega merkingu og þannig vísað til hinna himnesku heimkynna okkar mannanna, en það er einmitt sú merking – hin andlega merking - sem ég held að við verðum að leggja í nafn borgarinnar í texta dagsins.

Í Munich sjáum við átök túlkunarfræðinnar í samspili Avners og móður hans. Að lifa af Helförina, fá að upplifa spádóma GT rætast bókstaflega, hlaupa upp á Musterishæðina og ákalla Guð, upplifa bænheyrslu í fæðingu sonar, lausnara. Móðirin lifir bókstaf GT verða að raunveruleika, sonur hennar er e.t.v. lausnarinn, sem beðið var eftir. Avner veit hins vegar sem er að frelsunina er ekki að finna í Ísraelsríki Sameinuðu þjóðanna. Í tilraun sinni til að skilja og lifa trú móður sinnar og föður, áttar hann sig á að herleiðingin snýst ekki um landafræði. En um leið nær hann ekki að höndla fyrirheitna landið, leit hans virðist ekki skila neinu.

Við fáum hins vegar að sjá fyrirheitna landið, eftir að Avner sefur hjá konu sinni, án þess að virðast þátttakandi í ástarleiknum, vegna vanlíðunar sinnar. Við heyrum hana segjast elska hann. Þrátt fyrir að hann sé allur í sárum á sálinni ófær um raunveruleg og innileg samskipti, er hún samt þar. Samhljómurinn við náðarboðskap Biblíunnar er þannig sterkur í lok myndarinnar. Það er ekki vegna þess að við elskum Guð, að við erum hólpin, heldur vegna þess að Guð elskar okkur. Í þessum orðum felst fyrirheitna landið í mynd Spielbergs.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Fyrirheitna landið”

  1. Halldór E. skrifar:

    Þessi náðarboðskapur er að sjálfsögðu líka sýnilegur í atferli Guðs í Exodusfrásögn Biblíunnar. Þar sem frumkvæðið er svo augljóslega hans.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4516.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar