Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Úlfar Guðmundsson

Vígsla samkynhneigðra

Að undanförnu hefur umræða um staðfesta samvist samkynhneigðra og þjónustu Þjóðkirkjunnar við samkynhneigt fólk farið úr böndunum. Þjóðkirkjan hefur unnið í þessu máli á annan áratug í það minnsta og herra Karl Sigurbjörnsson biskup hefur gengið fram fyrir skjöldu til þess að finna lausn sem sátt gæti orðið um og sómi að. Ég hef ekki orðið var við að hann hafi neina fordóma gagnvart samkynhneigðum.

Eins og ég greindi frá í Árbók kirkjunnar fyrir árið 1999 (bls. 90) þá tók ég ákvörðun um að hafa athöfn í sóknarkirkju minni vegna þess að þann sama dag hlutu skjólstæðingar mínir staðfesta samvist hjá sýslumanni. Ég veit ekki betur en allir kirkjugestir hafi verið mjög ánægðir og engir eftirmálar hafa orðið vegna þessa og allir tekið þessu eðlilega og vel og athöfnin alls ekki höfð í flimtingum að neinu leyti. Ég vil því af marggefnu tilefni mótmæla því harðlega og opinberlega að þessi athöfn eða aðrar sambærilegar hafi verið 2. flokks eða að einhverju leyti óæðri en hjónavígsla gagnkynhneigra. Skjólstæðingar mínir eiga það ekki skilið enda engin rök fyrir því. Í huga okkar allra var um algjörlega sambærilegar athafnir að ræða að öðru leyti en varðaði kynhneigð fólksins. Það er hins vegar rétt að þeir helgisiðir sem notaðir voru tóku ekki nákvæmt mið af hjónavígslu. Biskup landsins hafði a.m.k. ári fyrr held ég lagt drög að helgisiðum sem nota mætti í þessu skyni og sátt yrði um. Ég gerði þetta í samvinnu við hann og með hans vitund. Það tókst mjög vel að mínu viti, sem sýnir sig m.a. í því að um athöfnina hefur ríkt sátt nú í bráðum sjö ár.

Það er nú þannig að eigi kirkjuathöfn að ná tilgangi sínum þá þarf að ríkja um hana sæmileg sátt. Hún þarf að fara fram í friði og það er óheppilegt að hafa hana í flimtingum því oft er auðvelt að gera grín að því sem heilagt er. Það er m.a. þess vegna ekki heppilegt að kirkjuathöfn sé vopn í baráttu einhvers tiltekins hóps gegn öðrum.

Við erum því að mínu viti með fullgilda athöfn sem er góð. Ég hefði lagt það til að hún yrði notuð. Ég óska eftir því að samkynhneigt fólk skoði þann möguleika af alvöru. Það er hins vegar mögulegt að líkja frekar eftir hjónavígslu gagnkynhneigðra en ég held að það sé bara ekki æskilegt eins og mál standa nú.

Það hefði verið ástæða fyrir blöð og greinarhöfunda að gleðjast yfir því að þetta mál hafi fengið svo góða lausn.

Ef við ætlum að líkja frekar eftir hjónavíglsu gagnkynhneigðra lendum við í vandræðum vegna þess að þetta er það nýtt að við eigum ekki hugtök í málinu við hæfi. Það tekur tíma að hugtök vinni sér sess í hugum fólks. Morgunblaðið hefur t.d. gert sig sekt um ótrúlega ónákvæmni í meðferð hugtaka. Hugtökin: Hjón, hjónavígsla og hjónaband eru ekki nothæf í þessari athöfn. Ég mun halda áfram að nota þau hugtök eins og þau eru skilgreind í orðabók Menningarsjóðs. Ég mun t.d. ekki hætta að nota hugtökin karl og kona og ég trúi því nú ekki að Morgunblaðið hafi hugsað sér að hætta hefðbundinni notkun þeirra. En við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm í notkun hugtaka.

Það hefur nú verið aðalsmerki samkynhneigðra að fólkið hefur viljað koma til dyranna eins og það er klætt. Klæðnaðurinn hefur að vísu verið fjölskrúðugur og oft óhefðbundinn en það skiptir ekki máli í þessu sambandi heldur hitt að kalla hlutina umbúðalaust sínum réttu nöfnum. Þangað erum við nú komin í þessari umræðu og er það ekki lítill árangur. En við getum ekki náð sáttum um annað en nota áfram réttu orðin eða þá að sleppa þeim sem ég held að sé betra.

Ég hef hugsað dálítið um hvernig þetta yrði ef lengra yrði gengið. Ég hallast þá að því að við yrðum þá að nota þau orð sem samkynhneigt fólk notar um sig. Þeir tala um homma og lesbíur. Eru þeir með því að mismuna fólki eða telja það 2. flokks? Nei! Við hefðum þá til dæmis þrjú hugtök jafngild að öðru leyti en því er varðaði kynhneigð fólks: Lesbíuband, hommaband og hjónaband. Karlaband og kvennaband finnast mér of víðtæk hugtök. Það er hins vegar spurning hvort taka mætti upp orðið samvist fyrir ævilangt trúnaðarsamband samkynhneigðra og skilgreina það þannig og þrengja hugtakið til þess. Einnig mætti velta fyrir sér hugtakinu kærleiksband. Orðið sambúð er eiginlega frátekið fyrir óvígða sambúð. Trúlega er best að nota þessi þrjú hugtök sem ég nefndi fyrst. Alla vega hafa þau vanist í huga mínum eftir því sem lengur líður.

Ég mun áfram nota óbreytt hjónavígsluritúal eins og það er nú í helgisiðabókinni. Það er óhugsandi að nota sömu orðin í vígslu samkynhneigðra. Ég mun ekki gera það, svo það liggi klárt fyrir. Ég mun ekki ljúga fyrir altarinu og hafa samkynhneigt fólk að fíflum. Það gengur ekki. Það yrði að breyta orðunum brúðgumi og brúður og síðan yrði að breyta orðunum: “Með því að þið hafið heitið hvort öðru að lifa saman í helögu hjónabandi og játað þetta opinberlega í í áheyrn þessara votta og gefið hvort öðru hönd ykkar því til staðfestu, lýsi ég því yfir að þið eruð rétt hjón bæði fyrir Guði og mönnum. Í nafni Guðs + föður sonar og heilags anda. Amen” Þarna yrði að breyta fornöfnunum og síðan kæmi þá t.d. hommaband/kærleiksband í staðinn fyrir hjónaband og lýsi ég því yfir að þið eruð í hommabandi/kærleiksbandi bæði fyrir Guði og mönnum. Lengra er ekki hægt að ganga en ég hefði talið að best væri að sleppa þessu. Nú era ð störfum nefnd á vegum kirkjunnar sem vinnur að því að finna farsæla lausn á þessum vanda.

Ég tel að ég hafi stigið skref til móts við samkynhneigða og þeir hafa þegið hjá mér bæn og blessun yfir sína staðfestu samvist. Í huga fólks er enginn munur á þessu og hjónabandi gagnkynhneigðra. Nú verð ég að lokum að spyrja hvaða skref hafa þau sem hæst láta í hópi samkynhneigðra stigið til móts við Þjóðkirkjuna?

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4861.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar