Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ragnheiður Sverrisdóttir

Sýnum trú í verki

Þegar fréttir berast af því að fólk liggi látið á heimilum sínum um lengri tíma verða allir slegnir. Ýmsar fleiri tilfinningar bærast með manni eins og hryggð, samúð og samviskubit. Látum ekki lamast af þessum tilfinningum heldur nýtum þær til uppbyggingar þjónustu við þá sem eru einangraðir.

Samfélag okkar veitir margháttaða þjónustu og má þar fyrst nefna félags- og heilbrigðisþjónustuna. Þar vinnur áhugasamt fólk sem sinnir náunga sínum á nóttu sem degi. Það gera einnig margir aðrir t.d. þau sækja kirkju og starfa innan hennar að ógleymdum öðrum frjálsum félagasamtökum eins og Rauða krossinum og félögum eldri borgara.

Vandinn virðist ekki vera auðleystur því ekki er hægt að neyða fólk til samskipta. Til að rjúfa einangrun einstaklings þarf frumkvæði utan frá, þolinmæði, gott skipulag en umfram allt kærleika. Við þurfum öll að setja okkur sameiginlegt markmið sem er að enginn lifi svo einangrað að hans eða hennar sé ekki saknað svo vikum skipti.

Kirkjan þarf að íhuga hvort starf hennar á þessum vettvangi sé nógu útbreitt og markvisst. Eða er mikið starfað meðal einangraðar og einmana fólks í söfnuðum þjóðkirkjunnar? Hvernig er hægt að komast í tengsl við fólk sem er sjúkt eða félagsfælið? Hver sem svörin kunna að vera er ljóst að enginn söfnuður getur breytt þessu innan sinna vébanda nema að vera í samstarfi við aðra sem sinna þessu verkefni.

Sumir söfnuðir hafa byggt upp heimsóknarþjónustu sem stundum er einnig kölluð vinaþjónusta. Það er komin nokkur reynsla af slíku starfi en það er ástæða til að minna söfnuðina á mikilvægi þessa starfs. Í könnun sem undirrituð gerði í haust kom í ljós að aðeins örfáir söfnuðir sinna þessari þjónustu. Best er að henni staðið í Eyjafjarðaprófastsdæmi en á höfuðborgarsvæðinu eru aðeins 12 af 38 sóknum (32 prestaköllum) með slíka þjónustu. Tölurnar sýna að þetta verkefni hefur ekki notið forgangs.

Nú er lag að setja þetta verkefni efst í forgangröðina og sýna trú sína í verki á vettvangi þar sem þörfin öskrar á mann.

Til að rökstyðja þessa hvatningu þarf ekki annað en að benda á hið þekkta boðorð Jesú Krists: „Elska skaltu náungann eins og sjálfa þig“ (Lúk. 10.27) en sú hvatning er í beinu framhaldi af boðinu um að elska Guð. Einnig vil að ég benda á að við öll í kirkjunni höfum samþykkt að hefja sókn í kærkeiksþjónustu. Það var formlega samþykkt á Kirkjuþingi 2003 eftir vinnu á öllum sviðum innan kirkjunnar hafði farið fram. Samþykktin heitir “Stefna og starfsáherslur þjóðkirkjunnar 2004-2010.” Á árunum 2006-07 er áhersla á kærleiksþjónustu og þar er talið upp starf meðal einstæðinga, heimsóknarþjónusta og að þjálfa sjálfboðaliða til að sinna henni. Þá er nauðsynlegt að ráða starfsfólk til að skipuleggja slíkt starf og það eru margir djákna- og guðfræðikandidatar sem gjarna vilja sinna slíku starfi og beinlínis bíða eftir að vera kallaðir til starfa.

Að lokum skal bent á að til er fræðsluefni á kirkjan.is sem einnig fæst ókeypis á biskupsstofu. (Sjá: www.kirkjan.is/kirkjustarf/?safnadarstarf/heimsoknarthjonusta).

Þar er lögð áhersla á samstarf við aðra sem sinna fólki í heimahúsum og því lögð áhersla á að vinna í faglegum teymum.

Hér er tækifæri fyrir söfnuðina að mæta lífsnauðsynlegri þörf og efla starf sitt í kærleiksþjónustunni sem er einfaldlega að elska náungann í verki.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Sýnum trú í verki”

 1. Grétar Einarsson skrifar:

  Kær þökk fyrir þessa grein Ragnheiður

  Ég hef velt sýnileika kirkjunnar mikið fyrir mér undanfarin ár. Þykir mér skorta þar nokkuð á. Með sýnileikanum á ég við það starf sem ekki á sér stað innan veggja kirkjunnar. Að mínu mati er kirkjan ekki nógu starfandi utan sina veggja heldur miðast starfið oft við umhverfi kirknanna sjálfra.

  Biðjandi, boðandi, þjónandi kirkja er kirkja sem lætur fæsta hluti samfélagsins ósnerta með sýnileika sýnum. Og alls ekki þar sem þörfin er. Ég er ekki sannfærður um að svo sé alveg í pottinn búið.

  Kirkjan er annar vettvangur en hin opinbera félagsþjónusta og fólk sækir annað í hennar faðm en ríkisins.

  Hvernig getum við gert krkjuna sýnilegri?

  Kær kveðja

  Grétar Einarsson

 2. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

  Já, það er sorglegt að vita til þess, að lífið í Reykjavík sé að verða eins og líf í stórborgum erlendis, þar sem enginn hugsar um náungann í næstu íbúð. Mér finnst líka fólk hér á Íslandi oftar en ekki hugsa full mikið um sjálft sig og sína, ekki nóg um aðra, og þar á ég við ættingja og vini jafnvel. Oft eru þó vinirnir skömminni skárri en ættingjarnir. Ég vona samt, að ástandið verði aldrei, einsog ég var að lesa í einu blaði nýlega, að maður í New York hafi verið látinn á heimili sínu í heilt ár, án þess að nokkur undraðist um hann eða gætti að, hvort hann væri lífs eða liðinn. Ég mæli af eigin reynslu, þegar ég segi, að það er nauðsynlegt fyrir einstæðinga og aðra þá, sem einir eru, og fáir hugsa um, að koma sér upp kerfi, þannig að ef eitthvað kemur fyrir, þá verði spurt eftir þeim, af því að þeir eigi kannske pantaðan tíma hjá hárskeranum eða hárgreiðslukonunni, eða þurfi að mæta á ákveðnum tímum annaðhvort í leikfimi, sjúkraþjálfun eða annars staðar, og tala svo í síma við vinina og þá ættingja, sem sýna áhuga á að hafa samband við mann, og jafnvel hitta þá einstöku sinnum, þannig að þeir sakni manns, ef ekki heyrist frá manni í lengri tíma og fari að athuga málið. Það er að mörgu leyti mikið öryggi í slíku. Hins vegar er það svo stundum, að til eru í fjölskyldu manns fólk, sem alltaf ætlar að kalla á mann í mat eða kaffi, en lætur svo aldrei verða af því, og hefur allt til afsökunar og sífellt að afsaka sig, þegar maður talar við það. Það er mikið öryggi í því að eiga slíka að eða hitt þó heldur. Besta er, ef maður getur verið eins mikið á ferðinni og hægt er, meðan maður hefur heilsu til, og sækja mannamót og vera í góðu sambandi við umhverfi sitt, svo að manns sé saknað, ef eitthvað kemur fyrir mann. Maður verður eitthvað að gera sjálfur í því að láta umhverfið vita af tilvist manns. Það gerist ekki sjálfkrafa. Ég tala af eigin reynslu, enda málið skylt.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4331.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar