Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bjarni Randver Sigurvinsson

Málflutningur Siðmenntar

Undanfarið hafa birst nokkrar gagnrýnar greinar í Morgunblaðinu um kristinfræði í skólum landsins þar sem meðal höfunda eru stjórnarmenn Siðmenntar. Þar talar stjórnarmaðurinn Jóhann Björnsson um „ofsatrúaða kennara“ og „umburðarlaust trúboð“ í gagnrýni sinni á það sem hann telur vera óeðlileg tengsl þjóðkirkjunnar við skólana og spyr hvort ýtt sé undir fordóma gagnvart þeim sem ekki trúi á Guð og tilheyri ekki kirkjunni og vilji taka þátt í vígsluathöfn Siðmenntar sem nefnd er borgaraleg ferming. Jafnframt talar hann um nemendur sem neyðist til að sniðganga námið og séu utanveltu meðan aðrir séu í „dagskrá hjá trúfélagi“ og gagnrýnir sérstaklega að guðfræðingar komi í skólana. Guðmundur Guðmundsson gengur síðan enn lengra þegar hann talar m.a. um „gamlar draugasögur“ og „samsull ranghugmynda og aldagamallar mannvonsku“.

Tryggja þarf að enginn fari á mis við skyldunám þó svo að ágreiningur um faglega tilhögun þess komi upp, en slíkt getur gerst með allar greinar. Jafnframt er mikilvægt að skólar kynni trúarhefðir með vettvangsferðum til að vinna bug á fordómum og komi til móts við þarfir nemenda, m.a. með því að hliðra til fyrir fermingarfræðslu. Slíkt ætti ekki að „bitna“ á öðrum sé gætt að virðingu fyrir fjölbreytni mannlífs. Ennfremur er alls ekki sjálfgefið að þeir sem hafi guðfræðimenntun í trúarbragðafræðum aðhyllist ein trúarbrögð fremur en önnur. Umfram allt er afstaða þó faglegri kennslu óviðkomandi.

Skiljanlegt er að gerðar séu athugasemdir við orðfæri greinarhöfunda eins og Hulda Guðmundsdóttir gerir í svargrein sinni. Samt sakar Sigurður Hólm Gunnarsson, varaformaður Siðmenntar, Huldu sjálfa um gífuryrði og segir hana gera félaginu upp þá stefnu að vera á móti trúarbragðafræðslu í skólum. Það hafi ávallt stutt hana en gagnrýni hins vegar það trúboð og þá trúariðkun sem stundum eigi sér þar stað. Um misskilning er hins vegar að ræða því að Hulda fjallar fyrst og fremst um tíðar kvartanir talsmanna Siðmenntar um meint ítök kristinnar trúar í skólum og sjónarmið þeirra foreldra sem vilja að börn þeirra fái enga kristindómsfræðslu.

Annar stjórnarmaður, Svanur Sigurbjörnsson, gerir svo nánari grein fyrir gagnrýni félagsins á tilhögun námsins og tekur þar einkum fyrir Aðalnámskrá grunnskóla frá 1999. Málefnaleg umræða um efnistök námskrárinnar og æskilega tilhögun námsins er að sjálfsögðu af hinu góða og má taka undir ýmislegt í gagnrýni Svans, svo sem að áherslan á önnur trúarbrögð mætti vera meiri og að þar vanti umfjöllun um ýmsar guðleysisstefnur sem hæglega er hægt að skilgreina sem trúarlegar. Hins vegar virðist hann vilja slíkar viðbætur á kostnað þeirrar kristinfræði sem fyrir er. Hann talar um að stór hluti þess náms sé með öllu tilgangslaus, segir t.d. að „ofuráhersla“ sé lögð á að þekkja kristna trú óháð því hvort þau atriði sem tekin séu þar fyrir hafi „eitthvað siðferðisgildi eða ekki“ eins og að það eigi að vera eini mælikvarðinn á hvað beri að kenna um trúarbrögð.

Það verður að teljast áhyggjuefni að Svanur skuli andmæla því að lokatakmark námsins samkvæmt námskránni skuli vera að nemandinn „öðlist þekkingu á kristinni trú … og skilji áhrif fagnaðarerindisins á einstaklinga og samfélög“, en hann er ósáttur við að aðaltrúaratriðin, þrenningin og fagnaðarerindið, séu nefnd þar á nafn og segist „hálfhræddur“ þegar minnst er á kristna sköpunartrú. Að sjálfsögðu á allt nám í trúarbragðafræðum að snúast um það að nemandinn öðlist þekkingu á grundvallartrúaratriðunum og skilji hvaða áhrif þau hafa á ekki aðeins þá sem trúa heldur samfélögin í heild, slíkt er fræðsla en ekki trúboð. Í sama anda eru andmæli Svans við því að nemendur „öðlist skilning á ástæðunum fyrir kristniboðs- og hjálparstarfi kristinnar kirkju og þekki til einstaklinga sem unnið hafa að því“. Trúboð er eins og í svo mörgum öðrum trúarbrögðum eitt meginatriði kristindómsins og því nauðsynlegt að kunna skil á forsendum þess til að öðlast skilning á trúnni og þeim mönnum sem þar hafa vægi. Svanur andmælir því jafnvel að nemendum sé gefið tækifæri til eigin listsköpunar í trúarefnum. Slíkt ætti þó að vera sjálfsagður hlutur enda er trúin ekki bara samofin menningararfleifðinni heldur líka sjálfsmynd manna að margra mati.

Loks er það ekki síður áhyggjuefni að Svanur skuli andmæla því að nemendum sé kennt að temja sér „virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt“ því að slík afstaða er einmitt trygging fyrir því að öll umræða og gagnrýni verði málefnaleg og fordómalaus. Andmæli hans eru þó í fullu samræmi við það baráttumál Siðmenntar, sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu félagsins í „trúfrelsismálum“, að afnema beri 125. gr. almennra hegningarlaga þess efnis að ekki megi opinberlega draga dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags. Þar sem það er hins vegar „gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu“ samkvæmt lögum um skráð trúfélög, ætti Siðmennt, sem hæglega er hægt að skilgreina sem trúfélag innan trúarbragðafræðanna, að fá synjun um slíka skráningu hér á landi svo lengi sem þessu sjónarmiði er haldið til streitu.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5670.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar