Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Irma Sjöfn Óskarsdóttir

Aðgát í nærveru sálar að gefnu tilefni

Ofsögum sagt

Mikið hefur gengið á og margt sagt sem betur hefði verið kyrrt látið síðustu daga í fjölmiðlum. Þetta minnir á að við búum í veröld sem er svo tengd og miðluð að stundum gæta blaðamenn ekki að nærveru sálar í æsingi við að miðla upplýsingum sem enginn kærir sig um en sumir telja sig útvalda að veita. Það er oft erfitt að greina á milli frétta og raunveruleika, sannleika og aðdróttana Síðan er frelsinu stöðugt flaggað en frelsi og ábyrgð eru hugtök sem tengjast hvert öðru, ábyrgð gerir ráð fyrir frelsi og frelsi verður aðeins raunverulegt þar sem ábyrgð er.

Að lokum er hætt að skynja mennskuna, sjá manneskjuna, þá hverfur aðgátin líka og sannleikurinn sem átti að gera alla frjálsa gerir okkur bara hrædd af því að þeir sem þar fara höndum um hann eru að ráfa um á villigötum og hlífa engum. Rétt eins og að gengið sé burt frá mennskunni inn í heim þar sem svipirnir einir ganga um, horfast í augu tala og heyra en svo einkennilega sem það er þá hlustar enginn, sér enginn og svo hverfur líka réttlætiskenndin, samkenndin og sársaukaskynið er verðfellt. Einkanlega sársauki þeirra sem verða skotspónn fjölmiðla.

Fréttir af fólki

Við búum í veröld þar sem fólk er ekki alltaf metið sem manneskjur heldur viðfangsefni, umtalsefni, aðhlátursefni, fréttaefni og þar með viðfangsefni fjölmiðla. Þegar þú ert orðinn slíkt viðfangsefni þá sér enginn tár þín né önnur viðbrögð. Skyndileg verður einhver við æsta leit að fréttum að horfa framan í stálgráan veruleikann og sjá að orðin sem kastað var á blað í áfergju, frelsi, sannleika og réttlætiskennd höfðu áhrif sem aldrei verða aftur tekin. Hvers er ábyrgðin þá? Fórnarkostnaður sannleika sumra fjölmiðla er orðinn svo hár að hroki, sannleiksást og yfirburðaviska blaðamannsins verður háðugleg og siðferðiskenndin sem svo oft er flaggað sýnist ömurleg.

Að setja sig í spor annarra

Kristin siðfræði sem mótar huga okkar flestra, dregur okkur að uppsprettu náungakærleikans og hinnar gullnu reglu,

“Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra..” Matt. 7:12

Okkur er uppálagt að setja okkur í spor annarra því það er ein af frumforsendum kærleikans. Jafnvel þurfum við einhvern daginn að njóta þess að aðrir þekki og virði grundvallareglur kristins siðgæðis og treysta á að aðrir þekki náungakærleika og umburðarlyndi, gullnu regluna. Því svo einkennilega sem það hljómar í fílabeinsturni blaðamannsins sem er alltaf að segja “sannleikann”, að þegar þannig er komið þá þýðir lítið að segja sannleikann, ekki einu sinni frétt af sannleikanum heldur kynnist þú angistinni og óttanum því þú situr hinu megin við borðið og ert orðinn að frétt einhvers annars.

Um höfundinn20 viðbrögð við “Aðgát í nærveru sálar að gefnu tilefni”

 1. Óskar Hafsteinn Óskarsson skrifar:

  Flottur pistill, þörf orð í umræðuna.
  Þinn bróðir.

 2. Guðbjörg Jóhannesdóttir skrifar:

  Hafðu þakkir fyrir Irma.

 3. Ragnheiður Jónsdóttir skrifar:

  Góð og þörf orð sem vísa veginn.
  Þökk sé þér Irma
  Þín systir

 4. Brynjólfur Ólason skrifar:

  Þörf ádrepa og dagsönn. Bestu þakkir.
  Þinn frændi

 5. Árni Svanur skrifar:

  Takk fyrir góðan pistil og holla áminningu.

 6. Jóhanna Sigmarsdóttir skrifar:

  Kærar þakkir Góður og þarfur pistill.

  kveðja

 7. Sigrún skrifar:

  Takk fyrir þetta systir góð. Það þarf gott hjarta og góða heilastarfsemi til að gera þetta svona vel.

 8. Þór Hauksson skrifar:

  Takk fyrir Irma. Djúp hugsun!

 9. Jakob Hjálmarsson skrifar:

  Þakka þér fyrir þessar fínu hugsanir. Ábyrgðin í þessu samhengi felst í að sjá gerðir sínar í stóru samhengi. Þú hefur kannski frelsi til að gera einhvern hlut séð í takmörkuðu samhengi en svo rekstu á aðstandendur sem eiga skilið að vera firrt sorginni sem af tilefninu leiðir. Svo eru rannsóknarhagsmunir sem brenglast. Og nú seinast er athyglin leidd að fórnarlömbunum sem enginn greiði er gerður, þvert á móti. Ergo: Skammsýni, uppnám, frægðar- og gróðafíkn.

 10. Grétar Einarsson skrifar:

  Frábærlega skrifað Irma og svo sannarlega þarft innlegg. Þessi leit að sannleikanum sem okkur er svo tíðrætt um í nútímanum tekur svo oft á sig skrítnar myndir. Hver er þessi sannleikur? Hverjum er hann ætlaður og hvernig sýnir hann sig? Hverra er að meta hann? Þetta kallar á skemmtilegar pælingar!

 11. Þorvaldur Víðisson skrifar:

  Takk fyrir pistilinn sr. Irma! Ég held að kirkjan geti lagt þungt lóð á vogarskálarnar í siðferðismálum samfélagsins. Kirkjan hefur erindi inn í þessar umræður, þar sem manngæska, kærleikur og manngildi geta verið hennar hornsteinar. Markaðsöfl og frumskógarlögmál er að mínu mati að verða of áberandi einkenni samfélagsins.

 12. Jón Jóhannsson skrifar:

  Kærar þakkir Irma, fyrir einstaklega góðan og þarfan pistil. Það er ánægjulegt að sjá viðbrögðin og ég tek undir hvert orð þar. Kirkjan getur svo sannarlega lagt þungt lóð á vogarskálirnar í umræðunni um siðferðismál, manngæsku, kærleika og manngildi í samfélaginu. Ég er sannfærður um að margir treysta á kirkjuna þeirri umræðu.

 13. Úrsúla Árnadóttir skrifar:

  Takk fyrir hugleiðingar þínar Irma mín. Eins og talað út úr mínu hjarta.
  Kveðja, þín frænka.

 14. Hrund Þórarinsdóttir skrifar:

  Takk fyrir góðan og mjög þarfan pistil

 15. Björn Erlingsson skrifar:

  Sæl og blessuð. Hugrenningar þínar um samhengi frelsis og ábyrgðar þóttu mér upplýsandi í samhengi viðburða síðustu daga. Hömluleysi og takmarkalaus sérhyggja setja stundum stórt samasemmerki milli agaleysis/ábyrgðarleysis og frelsis.

  Eins og þú bendir á þá virkar aðeins ef maður er einungis einn með í heiminum og eins og þegar réttlætingin kemur úr þeirri áttinni, þröngsýn að auki verður hún ömurleg eins og þú bendir á. Er ekki hreinlega verið að sanna gullnu regluna fyrir okkur.

  Sú staðreynd að ábyrgð/agi gefi frelsi er gagnvikrt í þeim skilningi að frelsi gefi ábyrgð/aga ef við eigum að halda því ætlar að renna seint upp fyrir fólki í dag, en þú bendir glögglega á þetta í pistlinum.

  Það er líka merkilegt að verða vitni að því að goðsögnin um að ritstjórnir séu frjálsar og óháðar gengur sér til húðar. Áhrif eigenda/lesenda koma svo berlega í ljós og nú dettur engum í hug að gagnrýna þetta, það eru allir svo sammála. Þetta gekk hreinlega of langt!

  Ritskoðunin hefur átt sér stað, en ekki fyrr en ábyrðarlaus/hömlulaus notkun á frelsi gekk að sjálfri sér dauðri. Hér eru sem betur fer góð öfl að verki, enda þroski og framþróun í gangi, - verðum við að vona.

 16. Bolli Pétur Bollason skrifar:

  Hæ! Ég er alveg miður mín yfir þessum pistli. Ég er alveg miður mín að allir íslendingar skuli ekki lesa þetta, flettingar aðeins 288 þegar ég les þetta. Þú kannt sannarlega að skrifa en þetta hól er kannski ekki það sem þú ert að biðja um, heldur að fólk í þessu landi átti sig á því að það er til eitthvað sem heitir siðferði. Kv. Bolli

 17. Kristjana Björnsdóttir skrifar:

  Fékk slóðina senda frá sr. Jóhönnu Sigmarsdóttur sóknarpresti okkar Borgfirðinga eystir.
  Þetta er það besta sem ég hef sé og heyrt í þessari umræðu,gott fyrir sálina að lesa svo mildilega ritaða gagnrýni, það vekur mig frekar til umhugsunar en þau gífuryrði sem of mikið hefur borið á.Kærar þakkir Irma
  Kristjana

 18. Gunnþór Þ.Ingason skrifar:

  Þarfur og vel saminn pistill sem dregur af glöggum skilningi og nærfærni fram ýmsa fleti og blægbrigði viðkvæms máls

 19. Árni Svanur skrifar:

  Góð ummæli Bolli. Besta leiðin til að bæta aðsóknina er auðvitað sú að sem flestir bendi fólki á gott efni eins og þetta, t.a.m. prestarnir í söfnuðunum! Ef við leggjumst á eitt með það að benda fólki á gott efni þá kemur þetta smátt og smátt.

  Ps. Flettingarnar eru núna komnar á fimmta hundrað.

 20. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

  Orð í tíma töluð. Það var kominn tími til að vekja athygli á frekju og yfirgangssemi sumra fréttamanna og þeirra afleiðinga, sem sumar svokölluðu fréttir hafa og geta haft, ekki sízt, þegar höggvið er svo nærri fólki, að verið að ráðast á einkalíf þess. Það er alveg með ólíkindum upp á hverju sumir fréttamenn geta tekið í því skyni að “segja fréttir”, ekki sízt í svokallaðri gúrkutíð hjá þeim, þó að þær fréttir jaðri oftar en ekki við að vera í ætt við Gróu á Leiti. Það skiptir ekki máli, finnst þeim, ef sagan er góð. Að fólk hafi tilfinningar, skiptir heldur ekki máli. Allt í lagi að láta allt flakka, hvernig sem það kemur við fólk og fjölskyldur. Ekkert er hugsað út í afleiðingarnar af þessu. Ábyrgðin er engin. Og hver hefur skemmtun af þessu? Fréttamennirnir einir kannske. Varla aðrir. Það þarf að reyna að uppræta svona blaðamennsku með einhverjum hætti, ef hægt er. Nóg er nú til af mannskemmandi efni, þótt þetta bætist nú ekki við. Þakka þér fyrir að vekja athygli á þessu.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6438.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar