Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Verum til staðar fyrir barnið!

Það er þarft heilræði í annríki aðventu og jólaundirbúnings. Tímaleysið, ærustan og óðagotið sem því miður einkennir þennan árstíma, bitnar gjarna á þeim sem síst skyldi, börnunum. Við viljum þeim hið besta, og foreldrar flestir vilja síst spara við þau í gjöfum og góðgæti á jólum. En yfirsést gjarna sú gjöf sem börnunum – já, og foreldrunum sjálfum - er mikilvægust alls: nærvera, athygli, tími. Og muna megum við það að tími er ekki eitthvað sem maður á, heldur það sem maður tekur sér.

Í Brekkukotsannál er yndisleg lýsing á upplifun Álfgríms litla á nærveru afa síns. Hvar sem hann var, og við hvað svo sem hann var að sýsla, þá vissi hann alltaf af afa í nánd, “en hvort sem ég var nú að skemta mér í kálgarðinum, á hlaðinu eða í húsasundinu, var afi minn altaf einhversstaðar nær á þöglan alviskufullan hátt…. þessi þegjandi nærvera hans .. það var eins og að liggja við stjóra, sálin átti í honum það öryggi sem hún girntist.”(bls.10-11) Þetta er áhrifarík áminning um það sem sérhverju barni er svo mikilvægt, að vita af foreldri sínu í námunda. Að vita af því að mamma og pabbi, afi eða amma, taki eftir því og viti af því og gleðjist yfir því. Mitt í leik sínum staldrar barnið við og lítur upp til að gæta að því hvort foreldri sé í nánd. Svo heldur leikurinn áfram. Því nægir gjarna að vita.

En hin þögla og afskiptalausa návist dugar ekki alltaf. Barninu er líka mikilvægt að mamma og pabbi taki eftir því og gleðjist yfir því sem það gerir og getur. Þegar barn kemur og sýnir mömmu eða pabba teikninguna sína, eða vill að þau komi að sjá kubbaturninn sinn, þá eru þau umfram allt að leita að staðfestingu þess að það skipti máli og sé elskað. Og þá er skiptir miklu máli að taka undir, að hrósa og uppörva. Ekki má heldur gleyma að það er barnið sjálft, en ekki frammistaða þess, afrek eða sigrar sem skiptir máli. Barnið þarf að finna og reyna að foreldrarnir sjái það eins og það er en ekki það eitt sem það getur.

Verum til staðar fyrir barnið!

Um höfundinnEin viðbrögð við “Verum til staðar fyrir barnið!”

  1. Guðbjörg Erlingsdóttir skrifar:

    Ég er hjartanlega sammála höfundi þessarar greinar
    það er nærveran sem skiptir svo miklu máli, að fá hrós og uppörvun í daglegu lífi, í stað afskiptaleysi, að foreldrar séu ávallt til staðar
    fyrir börninn.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5225.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar