Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Stund milli stríða

Hlusta á þennan pistil

Litli strákurinn minn hoppaði og skoppaði á eldhúsgólfinu í röndóttu sokkabuxunum sínum. Það augnablikið var hann ljón sem urraði ógnvænlega, sveiflaði virðulegri ímyndaðri rófu og var í veiðihug. Litla ljónið skreið og stökk allt í kringum mig, þar sem ég var að ganga frá í eldhúsinu eftir kvöldmatinn.

Ég lét mér fátt um finnast enda vön að stráksi skipti um hlutverk á nokkurra mínútna fresti. Einbeitt kom ég glösum og diskum óbrotnum í uppþvottavélina þrátt fyrir ágang litla eldhúsljónsins.

Þvílíkt hugmyndaflug í þessum blessuðu börnum, hugsaði ég í gegnum barnsleg ljónsöskrin og vissi ekki hvort ég á að halda fyrir eyrun og bíða þangað til drengurinn veldi sér annað og hljóðlátara dýr til að leika eða stoppa óhljóðin.

Allt í einu varð þögn í eldhúsinu. Ég leit við til að athuga hvað guttinn væri að gera af sér, því eins og allir foreldrar vita er fátt hættulegra en þögn – hún er ekkert annað en viðvörun um yfirvofandi katastrófu!

Litla, grimma ljónið hafði skyndilega fundið æti og var að borða kakóduft, upp úr kakódunkinum, með báðum höndum.

Mér féllust hendur! Ég lagði frá mér pottinn sem ég var að byrja að þvo, tók drenginn og þvoði honum um hendur og andlit. Dustaði kakóduftið af bolnum hanns og setti hann á stól með nokkrum velvöldum orðum um það að svona geri maður ekki. Strákurinn setti á sig stóra skeifu og benti á kakódunkinn. Honum var það hulin ráðgáta af hverju hann mátti ekki gæða sér á þessu góðgæti og af hverju mamma væri reið. Það var þá sem hugmyndin kviknaði. Það eru nefnilega ekki bara börn sem hafa hugmyndaflug. Fullorðnir hafa það líka- ef þeir gefa sér tíma til þess. Ég var ekki búin að ganga frá í eldhúsinu. Það mátti bíða! Reynslan hefur kennt mér að uppvaskið verður ekki öskureitt þótt það bíði.

Ég náði í álpappír í skúffu. Tók af honum vænan bleðil. Því næst náði ég í dalla og dósir og raðaði þeim á eldhúskoll. Svo lagði ég álpappírinn yfir. Litli súkkulaði ljónastrákurinn minn horfði forvitinn á mömmu. –Mamma fikta! sagði hann og benti á dallana á stólnum.
Þá sótti ég nokkur sprittkerti og raðaði þeim hingað á þangað á silfurgljáandi hólana og hæðirnar.

-Hvað er þetta? spurði stráksi stóreygur.

-Þetta er Betlehem, sagði ég þótt ég vissi vel að tveggja ára barn væri engu nær. Svo kveikti ég á kertunum og slökkti ljósið í eldhúsinu. Hann horfði með aðdáun á kertaljósin speglast í álpappírnum. Við fundum bæði að þetta var heilög stund. Lítil stund sem við áttum saman. Við sögðum ekki neitt en horfðum bara á ljósin. Eftir litla stund leit stráksi á mig og sagði engilblíðri röddu sem ekki minnti á nokkurn hátt á ljón: - syngja mamma!

Um höfundinnEin viðbrögð við “Stund milli stríða”

  1. Valgerður Valgarðsdóttir skrifar:

    Takk fyrir fallega litla frásögn - hugleiðingu, VV

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3753.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar