Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Toshiki Toma

Ljós aðventu og ljósberi

Fyrir um tíu árum var ég atvinnulaus. Ég var að hlaupa úr einu í annað til þess að ég kæmist í prestsþjónustu. Dag nokkurn var ég beðinn um að heimsækja sjómann frá Indónesíu á spítala. Hann slasaðist alvarlega á skipi sínu og varð að dvelja hérlendis til að fá meðferð. Hann talaði aðeins japönsku sæmilega fyrir utan móðurmál sitt, og hann var múslimi.

Við hittumst nokkrum sinnum og stig af stigi tók ég eftir því að hann var ekki bara „sjómaður frá Indónesíu“, heldur maður sem bar sitt eigið nafn, átti sína ævisögu, draum og skyldur. Þegar hann loksins lagði af stað til síns heimalands, bað ég Guð innilega fyrir honum og fjölskyldu hans.

Fyrst hélt ég að þessi maður væri einhver vesalingur og ætlaði að hugga hann. Það má segja að hann hafi setið í myrkri hér á landi. Ég reyndi að bera ljós til hans. Það er eitt, en hér er annað. Ég var sjálfur huggaður með því að fá að hitta þennan mann. Spjallið við hann rifjaði mikið upp fyrir mér. Það er að hver maður er dýrmætur og einstakur. Hve þakkarvert er að eiga fjölskyldu sem bíður alltaf eftir manni og hve ómetanleg gleði er að fá að þjóna náunga okkar. Ég hafði gleymt þessu og glatað á meðan ég var upptekinn af eigin vandkvæðum mínum, sem var atvinnuleysið.

Hver sat þá í myrkri þegar allt kom til alls? Jú, maðurinn frá Indónesíu. Og ég líka. Ég sat í myrkri, en ég vissi það ekki. Þegar ég gleymdi gleðinni að elska og þjóna náunga mínum var ég kominn í það myrkur. Myrkur er ekki aðeins staða þar sem okkur skortir að vera elskuð, heldur líka sú staða þar sem við getum ekki elskað nóg þar sem við lítum ekki með kærleika og virðingu til annarra sem jafningja okkar. Við gleymun þessu svo oft og föllum ómeðvitað í myrkur. Ég hélt að ég gæfi manninum frá Indónesíu ljós, en ljósið kom yfir hann, og yfir mig frá Jesú.

Við erum ekki sjálf ljósið. Samt er okkur heimilt að benda náunga okkar á ljós Jesú, sem lýsir okkur sjálfum líka samtímis. Hverjir sitja í myrkri? Megi ljós Jesú berast til þeirra núna á aðventu.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Ljós aðventu og ljósberi”

  1. Ragnheiður J Sverrisdóttir skrifar:

    Þessi saga hreyfir við manni, sterk skilaboð. Yndileg saga sem á erindi til okkar allra þó ekki sé aðventa eða jól núna.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4068.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar