Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Leitin að tilgangi lífsins

Victor Frankl sagði að taugaveiklun Vesturlanda – væri tilgangsleysið, sem hvíldi á okkur eins og mara. Menn hafa aldrei haft eins mikið að lifa af, en sjaldan ef nokkurn tíma eins lítið að lifa fyrir. Og það gerir gæfumuninn. Niðurstaða hans var fengin í reynslueldi helfararinnar. Hann dvaldi í því sem hann nefndi rannsóknarstofu fangabúðanna, og hún leiddi í ljós sannleika um manninn, um eðli mannsins, tign og smán.

Til hvers er þetta líf? Hver er tilgangur lífsins?

Einn er tilgangur alls lífs, allra lífsforma, sem virðist liggja í augum uppi, og það er að lifa, lifa af og geta af sér líf. Það er hinn líffræðilegi tilgangur. Frá getnaði er lífið barátta gegn dauðanum, sem þó hefur sigur. Um síðir verður maður að lúta því. En maðurinn hefur aldrei staðnæmst við þetta augljósa. Hann leitar alltaf merkingar, tilgangs. Og sættir sig aldrei við að lífið sé aðeins það sem sýnist. Maðurinn er vera sem alltaf ákveður hver hún er, dýr eða dýrlingur. Og allt það á milli. Og það er hluti mennskunnar að gruna, þrá, óska, trúa, að lífið sé eilífs gildis.

Hvað er maðurinn? Strá sem hugsar, sagði Pascal. Guðs mynd, Guðs barn, segir Kristin trú. Líf af lífi jarðar sem Guð hefur blásið lífsanda í brjóst og lagt eilífðarvon í hjarta.

Þetta er manngildið. “Ég á mig ekki hér í veröldinni. Jesús, ég eign þín er af miskunn þinni.” Segir Hallgrímur. Við erum annars eign. Við eigum okkur ekki sjálf. Sá sem á sig sjálfur og er sjálfum sér nógur, er ekki nema hálfur maður.

Alvaran og ábyrgðin og lotningin sem bjó að baki hinum kristna mannskilningi, helgi lífsins, helgi manneskjunnar, hefur leysts upp í eitthvað sem við vitum ekki hvað. Manneskjan er “bara”, lífvera, dýr, nakinn api, kynhvöt, eða hvað eina sem þá og þá er undir kastljósi skilgreininganna. Í staðinn fyrir að manneskjan endurspegli Guðs mynd, hina heilögu þrenningu verður hún ef til vill lítið meir en “bara framleiðandi, neytandi og sjúklingur – eða viðfangsefni”. Og svo að lokum aðeins handfylli af ösku.

Ég nefndi heilaga þrenningu. Sú guðsmynd kristninnar, sem mörgum finnst heilabrot og hugarleikfimi, segir að Guð er kærleikur. Og kærleikur er aldrei einsemd, alltaf tengsl, samskipti, ég – þú gagnkvæmni, sem gefur og þiggur. Það er innsta eðli lífsins. Manneskjan er sköpuð í Guðs mynd, til að elska og vera elskuð.

Nietzsche hélt fram að efnisheimurinn, tilviljanakennd tilvist, endalaus tilvistarbarátta, engin algild gildi né lögmál. Allt er falt. Rétt og rangt er aðeins uppfinning sem hægt er að fara með að vild. Rétt er aðeins aflsmunur. Hinn sterkasti hefur rétt fyrir sér. Tígurinn er fegurstur, hið fullkomna samræmi, styrkur, lífskraftur. Þessi hugsun frjóvgaði nasismann, og mótaði mjög hina guðlausu tæknihyggju tuttugustu aldar.

Kristinn mannskilningur heldur því fram að manneskjan sé ætíð meir en það sem verður vegið og mælt. Lífsmörkin segja aðeins hluta af sögunni. Og sérhver einstaklingur er ráðgáta fyrir sjálfum sér. En trúin skynjar og játar að einn þekkir myndina alla, það er Guð. Maðurinn er aldrei bara, lífið er aldrei bara. Alltaf meira en. Veruleikinn er miklu meir en við megnum að lýsa, vega eða mæla. Það sem við vitum og skráum er engu minna undur og leyndardómur en það sem ekki verður séð né mælt. Allt er undursamlegt því auga sem opið er fyrir undrinu. Af undruninni, lotningunni sprettur trúin. Andsvarið sem segir við Guð: “Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni…”(Sálm.139.16)

Manneskjan er þannig hluti af merkingu og mynstri sem eilíft er, og mikill leyndardómur. Barn af jörðu sem og himni, tíma og eilífðar. Það eru ekki aðeins fýsisk lögmál, sem gilda, heldur líka siðferðisleg og andleg lögmál. Lífsins lög eru samsett af þessu öllu. Maðurinn er ekkert bara. Alltaf meira en allar skilgreiningar. Og Guð er.

Grundvallaratriði í kristinni trú er vissan um að veröldin sé sköpuð af almáttugum og góðum Guði, og að um síðir muni tilgangur hans ljúkast upp, ríki hans koma og vilji hans verða. Eilífðarvonin er ómissandi hluti hinnar kristnu heimsmyndar og lífsskilnings. Án hennar er sú heimsmynd og trú einfaldlega merkingarlaus. Guð er réttlátur, og réttlætið mun sigra um síðir. Guð er kærleikur, því mun góðvildin, miskunnsemin og fyrirgefningin hljóta umbun. Himinninn, eilífðin, er þar sem Guð hefur þerrað hvert tár af hvörmum og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur, neyð né kvöl er framar til, hið fyrra er farið. Trúin sér lífið í ljósi þess veruleika. Og þetta er leyndardómur. Þann leyndardóm getum viðnálgast í gleði, með opnar hendur og þakklátt, biðjandi hjarta. Treyst því að Guð sér og skilur og metur allt rétt.

“Hvernig getur maður trúað á Guð frammi fyrir þessu?” spurðu örvinlaðir foreldrar yfir vansköpuðu, dauðvona barni sínu á Vökudeildinni. Kvein þeirra frá innstu hjartarótum, nístandi. En hjúkrunarfræðingurinn svaraði, hlýlega, milt, en af undraverðri festu: “Nú er ekki annað hægt en að trúa á Guð.”

Á sjúkrahúsi var prestur í heimsókn. Þar sem hann sat og spjallaði við starfsfólkið spurði einn hjúkrunarfræðingurinn: Hvað getur maður sagt þegar fólk spyr um tilgang þjáninganna, hverju svarað því fólki sem veit að það fær aldrei bata né líf án þjáninga, því fólki sem veit ekki til að nokkur hirði um það - ekki einu sinni Guð? Hvað get ég sagt þessu fólki? Hvert er svarið? Presturinn svaraði stilltur og fastmæltur: Þú ert svarið og ég er svarið. Þar sem þú veist að þín er þörf, þar ertu svarið!

Mörgum líður betur en þeir hafa það vegna persónulegrar návistar, umhyggju, athygli, kærleika annars fólks. Í því öðlast lífið tilgang og innihald, þó að heilsan sé léleg og lífsmörkin veik. Í ljósi þessa hefur oft hvarflað að mér þegar umræðan er á hátæknisjúkrahúsi hvort við þurfum ekki fremur “há-mennsku” sjúkrahús, eða “hámannúðar” sjúkrahús. Með allri virðingu fyrir tækninni og blessun hennar, þá virðist svo oft sem mannlegi þátturinn lúti í lægra haldi fyrir tæknilausnum, tækni svörum.

“Þú varst ljósið í lífi okkar! Heimurinn var fegurri með þér,” sögðu foreldrarnir um fatlaða barnið sitt, sem lést eftir píslargöngu, þrauta líf, ótal svefnlausar nætur, og þunga, þrauta daga. Hver var tilgangur þess skammvinna, þrautalífs? “Þú varst ljósið í lífi okkar!” “Heimurinn var fegurri með þér” Það var engin hræsni hjá þeim. Þau meintu þetta. Og meina eflaust enn, þó árin hafi liðið. “Heimurinn var fegurri með þér” sagði móðirin. Þetta var engin klisja. Þetta er kærleikur, ást. Og þetta hefur maður svo oft séð og heyrt. Að sjá með augum kærleikans hið örðuga, mótdræga, jafnvel hið ægilega, og illa, það ummyndar. Sá sem er séður með augum kærleikans verður fegurri. Ekki svo að sjón kærleikans skapi fegurð, búi til tilgang og merkingu. Nei, en hún uppgötvar fegurðina sem þegar er að finna í lífinu og alheimi, já, og líka í því lífi sem virðist tilgangslaust og bara byrði. Vegna þess að heimurinn, lífið er tær, svellandi lind sem streymir fram af þeirri takmarkalausu uppsprettu kærleika, umhyggju, elsku, sem er Guð.

Hver er ég að dæma um tilgang annarrar manneskju? Hver getur yfir höfuð gert það? Hver getur dæmt hið sjúka, fatlaða líf sem tilgangslaust, meiningarlaust, réttlaust? Hver er tilgangur lífsins?

Ég veit það eitt, almennt í ljósi trúarinnar á Guð föður skaparann, Guðs son frelsarann, heilagan anda, lífgjafann að lífið hefur tilgang, að tilgangur lífsins er að elska Guð og náungann, og að vera elskaður, að leyfa Guði og náunganum að elska sig.

Leitin að tilgangi lífsins ber aldrei árangur. En tilgangurinn mun finna þann sem lifir.

Íhugun á Finsensdögum, 22. des. 2005

Um höfundinn2 viðbrögð við “Leitin að tilgangi lífsins”

 1. Íris Randversdóttir skrifar:

  Góði Karl - góði biskup.

  „Ég veit það eitt, almennt í ljósi trúarinnar á Guð föður skaparann, Guðs son frelsarann, heilagan anda, lífgjafann að lífið hefur tilgang, að tilgangur lífsins er að elska Guð og náungann, og að vera elskaður, að leyfa Guði og náunganum að elska sig.“

  Ég vil fá að þakka þér fyrir að þessi eingföldu og fallegu skýringu á tilgangi lífsins sem ég var að lesa rétt í þessu - stundum er einfaldasta útskýringin á hlutunum sú sem er mest huggandi og örvandi. Það er ekki oft sem mér finnst eins og ég lesi einhver orð í gegnum kristal og ljósbrotið varpi þeim skínandi skýrum í hólf heilans þar sem skilningurinn býr.

  Gleðileg jól og friðsæla jólahátíð með þakklæti fyrir þessi orð og mörg önnur orð þín sem hafa gefið mér og öðrum gleði og styrk. Íris Randversdóttir

 2. Jón Kristniboði skrifar:

  Þetta með tilgang lífsins:

  Var það ekki sálfræðingurinn “Maslov” sem setti fram kenningu í sínu nafni:

  Það voru grundvallar-þarfirnar:

  1.Að hafa í sig og á.
  2.Við þurfum húsaskjól/öryggi.
  3.Við þurfum vinnu / framfærslueyri.
  4.Við höfum þörf fyrir félagsskap.
  5.Auka pening /áhugamál.
  6.Þegar öllum þessum þörfum var fullnægt; þá kom þörfin fyrir að skapa.

  Síðan geta menn farið að velta fyrir sér lífi annarsstaðar í alheimi eða einhverjum framhaldslífum; eilífðarmálunum!
  -Eða að koma á friði í heiminum; það gæti kannski verið nærtækasti og mikilvægasti tilgangurinn.
  -Og síðan að rækta garðinn sinn.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 7733.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar