Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Hinn ómissandi möndlugrautur

Ég gleymi því seint þegar við hjónin héldum okkar fyrstu jól saman. Þessi jól mörkuðu þáttaskil hjá okkur og börnunum okkar. Þarna var hin nýja, samsetta fjölskylda saman komin!„Hin týpíska íslenska nútímafjölskylda”. Ég viðurkenni að í mér bjuggu blendnar tilfinningar. Ég hafði reyndar aldei gert þá kröfu til jólanna að þeim fylgdi einhver sérstök„jólagleði” en„jólafriður” var eitthvað sem ég hafði lagt mikla áherslu á. Börnin mín voru vön þessu og gerðu ráð fyrir því að þessi jól bæru með sér eftirvæntingu, sem pökkuð var inn í helgi og virðuleika. Allt átti að vera„eins og venjulega”.

Börnin mín sættu sig með semingi við það að borða ekki jólamatinn heima hjá afa og ömmu eins og þau voru vön en allt annað átti að vera eins! Kröfur barnanna virtust vera kvíðafull tilraun til að halda dauðahaldi í gamla siði þar sem litlu var hægt að fórna.

Svo kom aðfangadagur. Börnin snigluðust í kringum okkur í eldhúsinu.

-Verður ekki örugglega möndlugrautur? Spurði elsta barnið. –Jú sagði ég og hugsaði til konfektkassans sem ég geymdi upp í skáp og átti að vera möndlugjöf.

Möndlugrauturinn hafði verið siður hjá minni fjölskyldu frá því ég mundi eftir mér og börnin mín höfðu svo vanist á hann líka. Svona átti þetta að vera.

Börn mannsins míns komu. Þau áttu að vera hjá okkur á aðfangadagskvöld. Það var heilmikil eftirvænting í krökkunum að halda jól saman. Yngri börnin voru svo spennt að við leyfðum þeim að opna einn pakka fyrir matinn en svo settumst við að snæðingi. Allir virtust nokkuð sáttir. Þegar aðalréttinum var lokið vildu litlu stjúpbörnin mín vinda sér í það að opna pakkana- rétt eins og þau höfðu alltaf gert. Þau voru alltof södd til þess að hugsa um einhvern rjómahrísgrjónagraut með ómerkilegri möndlu. Þau stukku frá borðinu og hentu sér í pakkahrúguna með miklum fagnaðarlátum og spenningi. Mín börn sátu hinsvegar með fýlusvip við matarborðið, héldu á silfurskeiðunum, tilbúin í möndluleit.

Maðurinn minn hafði aldrei kynnst þessum sið og vatt sér ótrauður í pakkana með börnunum sínum. Ég stóð með grautarskálina í höndunum og leið eins og á milli tveggja elda! Hvað átti ég nú að gera? Helmingur jólafagnaðarins vildi opna pakkana strax en hinn helmingurinn borða grautinn.
Börnin mín fóru að gráta og hrópuðu að jólin væru ónýt. Maðurinn minn stóð upp úr pakkahrúgunni með sín börn hangandi í jakkalafrinu grátandi yfir því að þurfa að borða þennan„ógeðslega rjómagraut”.

Við hjónin sáum hvort annað veifa hvítu flaggi uppgjafarinnar en börnin okkar voru eins og tvær herskáar stríðsfylkingar sem báðar ætluðu sér sigur!

Á endanum fór það svo að börnin mín hámuðu í sig grautinn þar til öðru þeirra tókst að fá möndlugjöfina en börn mannsins míns máttu velja sér pakka til að opna og skoða á meðan.
Það verður að viðurkennast að þessum jólum fylgdi hvorki jólafriður né jólagleði, heldur jólaangist! Allt blessaðist þetta þó og allur ágreiningur um jólasiði gufaði upp þegar líða tók á kvöldið.

Morguninn eftir ákváðum við að búa til nýjan jólasið. Jólasið sem ekkert okkar hefði áður haft. Allir áttu að koma fram á jóladagsmorgun á náttsloppunum og drekka heitt súkkulaði með rjóma og borða smákökur og tertu sem ég spanderaði á mannskapinn. Þetta var ljúf stund sem við höfum öll haldið í æ síðan.

Smátt og smátt pússuðust jólasiðir þessarar flóknu fjölskyldu saman. Við tökum eitt lítið hér og annað lítið þar og finnum síðan okkar eigið sem aldrei hefur verið gert áður.

Þegar ég lít til baka hugsa ég stundum til þess hvort það hefði mátt koma í veg fyrir þessa árekstra fyrstu jólin okkar. Ég er ekki viss um að nein leið hefði verið fær. Þessi jól voru bara svona og við lærðum öll að jólin þurfa ekki að vera fullkomin og sum jól mega meira að segja vera hálf misheppnuð – jólin eru jú bara jól.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Hinn ómissandi möndlugrautur”

  1. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

    Einlæg og heiðarleg saga. Það eru örugglega margir sem standa í sömu sporum í ár. Takk fyrir að deila þessu með okkur.

  2. Árni Svanur skrifar:

    Ég tek undir þetta sem Adda Steina segir, mér finnst þetta líka ágæt áminning um mikilvægi þess að setja sig í spor annarra. Ég er einn af aðdáendum möndlugrautarins sjálfur og gæti ekki hugsað mér jólin án hans - er að sama skapi afar þakklátur fyrir það að fjölskyldan deili grautargleðinni með mér!

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4308.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar