Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jón Aðalsteinn Baldvinsson

Ár mikilla minninga

Við stöndum á tímamótum.

Gamla árið er að kveðja. Eftir standa minningar einar. Flestar bjartar vonandi, aðrar daprar og sumar sárar. Guð blessi þær allar.

Framundan er nýja árið.

Enginn veit hvað það ber í skauti sér, svo er Guði fyrir að þakka. En því fylgja óskir og vonir og gjarnan heitstrengingar sem væntanlega eru til þess fallnar að vekja dáð og dug í glímunni við hið ókomna. Enda hvetur Kristur menn til þess að vera árvakra og reiðubúna til þess að takast á við hvað eina sem að höndum ber. “Verið gyrtir um lendar,” segir hann, “og látið ljós yðar loga.” (Lúk. 12.35)

Árið 2006 verður ár mikilla minninga.

Þá verður þess minnst að 900 ár eru frá stofnun biskupsstóls á Hólum og 950 ár frá því Skálholt varð biskupssetur.

Saga biskupsstólanna fornu er bæði mikil og merk. Þar má glögglega greina púlsinn í íslenskri þjóðarsögu. En þó margt af henni hafi verið skráð og mikið um hana fjallað í tímanna rás, þá hefur hún aldrei verið gefin út í heild sinni. Úr því verður nú bætt á myndarlegan hátt í tilefni afmælanna. Að því verki standa margir ágætir fræðimenn. Útgáfan er styrkt af Kristnihátíðarsjóði og Þjóðkirkjunni og standa vonir til að bókin komi fyrir almenningssjónir á útmánuðum.

Að sjálfsögðu verður afmælanna minnst með margvíslegum öðrum hætti. Ber þá hæst Skálholtshátíð sem haldin verður 16. júlí og Hólahátíð dagana 11.-13. ágúst.

Ég get að sjálfsögðu ekki talað fyrir hönd Skálhyltinga, en eflaust hafa þeir margt fleira á prjónunum í þessu sambandi.

Við Hólamenn hyggjumst bjóða upp á myndarlega dagskrá sem spanna mun allt afmælisárið. Er þar um að ræða samvinnuverkefni vígslubiskupsembættisins og Hólaskóla, en framkvæmdina annast Guðbrandsstofnun á Hólum. Að verkefninu kemur einnig Menntaskólinn á Akureyri.

Fjölmargir fyrirlestrar verða fluttir um hin aðskiljanlegustu efni. Ráðstefnur verða haldnar, þar sem fjallað verður um íslenska skólann, dýrlinga, fornleifafræði og náttúrusiðfræði. Helgihald verður mikið og fjölbreytilegt, listviðburðir og sýningahald sömuleiðis. Sérstök áhersla verður á það lögð að ná til skólafólks umdæmisins á öllum aldri með fræðslu um sögu stiftis og staðar.
Verður m.a. boðið upp á markvissar skoðunarferðir heim til Hóla.

Áhersluþátturinn í öllu afmælishaldinu verður sá að miðla þekkingu um liðna tíð, tengja hana samtímanum og opna með því augu fólks fyrir hlutdeild þess í hinni dýrmætu arfleifð aldanna. Von okkar sem að afmælishaldinu stöndum er sú að það megi verða aflvaki nýrrar sóknar á sviði trúarlífs, þekkingarleitar og menningarstarfsemi í stiftinu. Þannig getur það orðið mönnum hvatning til dáða, að þeir gyrði lendar sínar og láti ljós sitt loga.

Guð gefi okkur öllum gleði og farsæld á nýju ári.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3819.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar