Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hörður Áskelsson

Tónlistarstefna þjóðkirkjunnar

Vestfirðingar hafa með skrifum í Bæjarins Besta á Ísafirði komið af stað umræðu um kirkjusöng og hlutverk kirkjukóra. Þegar þetta er skrifað hafa birst fjórar greinar og viðbúið að fleiri séu á leiðinni. Höfundar þeirra hafa sett fram ólík sjónarmið um sönginn í kirkjunni, hlutverk kirkjukóra og þátttöku almennra kirkjugesta í söng messunnar.

Magnús Ólafs Hansson skrifar sem almennur kirkjugestur, hann vill kirkjukórana burt úr kirkjunni, þeir komi í veg fyrir almennan safnaðarsöng og séu „að verða búnir að eyðileggja allt safnaðarstarf á Íslandi“. Halla Signý Kristjánsdóttir kemur kórunum til varnar, hún hefur reynslu af þátttöku í kirkjukór, þekkir hve þar er unnið fórnfúst starf til eflingar safnaðarstarfi. Egill Guðmundsson og sr. Stína Gísladóttir taka undir með Höllu, kirkjukórum til stuðnings. Um eitt eru málshefjendurnir Magnús og Halla sammála, þ.e. að efla beri þátttöku hins almenna kirkjugests í kirkjusöngnum.

Ég hef nýverið tekið að mér verkefnastjórnun á sviði söngmála íslensku þjóðkirkjunnar og ég tek fagnandi allri umræðu um málefni tónlistar í kirkjunni. Allt frá því Sigurbjörn Einarsson tók við embætti Biskups Íslands árið 1959, hefur það verið yfirlýst stefna þjóðkirkjunnar að efla skuli almennan safnaðarsöng. Á undanförnum árum hefur á vegum þjóðkirkjunnar farið fram mikil vinna við mótun tónlistarstefnu sem lauk á síðasta ári með samþykkt Kirkjuþings á Tónlistarstefnu þjóðkirkjunnar (sjá vefsíðu kirkjan.is). Þar er sett fram skýr stefna kirkjunnar í tónlistarmálum safnaðanna, stefna sem byggir m.a. á þeim hugmyndum sem Sigurbjörn Einarsson kynnti fyrir tæpri hálfri öld.

Í Tónlistarstefnunni segir að „Organistar og kirkjukórar stuðli [jafnframt] að því að efla safnaðarsöng“. Í samræmi við þetta hefur menntun organista í auknum mæli beinst að því að gera þá færa um að nýta þau hefðbundnu „tæki“ sem þeir hafa í kirkjum, orgel og kirkjukór, til að framfylgja þessari stefnu. Þeir læra að almennt skuli syngja sálma einraddað, að tóntegundir í sálmasöng skuli miðast við raddsvið venjulegs ósérþjálfaðs söngfólks og að kórinn og orgelið séu hvort tveggja hentug tæki til að styðja organistann í sínu hlutverki sem forsöngvari í söfnuði.

Stefnunni um einraddaðan sálmasöng er ekki beint gegn starfsemi kirkjukóra. Kirkjukórarnir eru tvímælalaust meðal mikilvægustu starfsviða safnaðanna. Þar sem kórastarf í kirkjum er blómlegast eru félagar kóranna það fólk sem eyðir flestum stundum allra sjálfboðaliða í þágu kirkjunnar. Hlutverk kóranna er að stuðla að eflingu safnaðarsöngs með því að leiða söfnuðinn í sálmasöng. Sem sérþjálfaður sönghópur hefur kórinn það hlutverk að flytja söfnuðinum kórverk sem undirstrika helgi og fegurð athafna. Til að halda uppi þróttmiklu kórstarfi þarf að velja kórum verkefni sem laða að og eru áskorun fyrir kórfélaga til að stunda starfið vel. Það veltur á mörgu hversu tekst til. Skilningur organista og prests á gildi þátttöku almennings í söngnum og samstarf þeirra við guðsþjónustuna eru algjör forsenda fyrir því að árangur náist. Skilningur sömu aðila á hlutverki kirkjukórsins í messunni er jafnframt forsenda fyrir því að kórinn geti skilað því á fullnægjandi hátt, sér og öðrum kirkjugestum til ánægju. Skilvirk leiðsögn leiðtoga í helgihaldi skiptir sköpum um það hvernig til tekst með virkni, þ.e. að allir þátttakendur viti til hvers er ætlast af þeim, hvenær eigi að sitja og standa, hvenær eigi að syngja og hvenær að hlusta.

Tónlistsarstefna þjóðkirkjunnar hefur verið prentuð í litlu sérhefti, sem kirkjan er að dreifa til starfsfólks síns nú um þessar mundir. Miklu varðar að leiðtogar í kirkjulegu starfi kynni sér stefnuna og kynni hana í söfnuðunum. Upplýsandi umræða um kirkjusönginn er mjög brýn. Ég þakka málshefjendum á Vestfjörðum fyrir að hafa komið henni af stað.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Tónlistarstefna þjóðkirkjunnar”

 1. Árni Svanur skrifar:

  Fjórir aðrir pistlar hafa birst um þetta efni á vef BB:
  Burt með kirkjukórana
  Kirkjukórar börn síns tíma
  Til varnar kirkjukórum
  Með virðingu fyrir kirkjukórum!

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3415.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar