Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Irma Sjöfn Óskarsdóttir

Hrópum og hlustum

„Við brýnum okkar raust svo berist hún um heiminn…“ var sungið hér fyrir mörgum árum. Það er svo stórkostlegt að hafa heyrt í gegnum árin hvernig kórinn hefur breyst. Innan kirkjunnar hefur kórinn breyst úr karlakór í kór, á Alþingi hefur húrrahrópið við setningu þingsins fengið annan og betri blæ … Það hefur mikið áunnist…..

Við brýnum okkar raust og við skulum líka hlusta stelpur … Það er svo gjöfult að hlusta eftir og heyra af systrum út um allan heim eins og heyrðist í okkur fyrir 30 árum á Lækjartorgi. Þrjátíu ár eru langur tími og við höfum talað svo mikið og oft fyrir daufum eyrum en í dag er margt breytt…

Jafnrétti

Jafnrétti þykir sjálfsagt hér í okkar nánasta umhverfi og karlar taka sér það í munn á hátíðar- og alvörustundum og vonandi líka í hjarta. Samt er takmarkinu ekki enn náð því það sem ávinnst í okkar lífi er ekki endilega að ávinnast í annarra lífi. Gleymum því ekki því að það sýður og kraumar óréttlætið í garð kvenna og sumt af því er menningarbundið og niðurnjörvað í hefðir og siði og þagnargildi. Klafinn sem systur okkar víða um heim og jafnvel okkur mikið nær bera er svo þungur og aðeins við, þú og ég, getum lyft honum með þeim. Ofbeldi í formi mannsals umskurnar og innan veggja heimilisins þar sem við eigum að eiga okkar griðarstað.

Skylda og ábyrgð

Það er skylda okkar sem kristin kirkja að veita þeim raddlausu rödd eins og Kristur gerði. Jesús, frelsarinn, horfði í kring um sig og kom auga á hina kúguðu og undirokuðu í mannlífsflórunni. Hann sá konuna sem sagt er frá í Lúkasarguðspjalli sem gekk kreppt og sá ekki himinn Guðs sem í huga okkar flestra táknar fegurð og frelsi, eða andlit samferðafólksins heldur aðeins gráa götuna. Jesús rétti úr krepptum líkamanum, gaf henni frelsi til að njóta og vera á svo táknrænan hátt. Munum það helst í dag að frelsið er svo samofið kristinni trú Frelsið til að vera og njóta, frelsi til að hvíla í og blómstra en ekki frelsi til að hrifsa til sín og öðlast forréttindi . Frelsi sem nærist á ábyrgðinni, frelsi sem nærist á jöfnuði karla og kvenna, ríkra og fátækra, frelsi sem nærist af trú okkar.

Gleðin í samtakamættinum

Okkur líður svo vel í samstöðunni, finnum hvernig samtakamátturinn eflir okkur og gerir okkur sterkar til að lifa betra og gjöfulla lífi í sátt við Guð, okkur sjálfar og umhverfið. Við brýnum raustina og látum hana berast um heiminn og við skulum líka brýna heyrnina svo við náum að hlusta á heiminn. Hömpum jafnrétti og kvengildi sem á sér fyrirmynd í sköpuninni og hlustum eftir hljóðlátum röddum lífsins sem hvísla eftir hjálp og stuðningi, röddum kvennanna sem enn hafa ekki náð að ganga uppréttar og fengið að horfa í frelsið. Hlustum á dætur okkur og syni sem leita eftir leiðsögn og að læra um muninn á réttu og röngu, hvað það er sem gefur frelsi og hvað heftir okkur í að eiga gott og gjöfult líf. Hlustum á reynslu þeirra en gefum þeim hlut í okkar reynslu.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4208.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar