Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Vefsíðan sem skriftaumhverfi

Hvaða snertiflöt er að finna milli vefsins og vefsíðunnar annarsvegar og skriftastólsins hins vegar? Í kirkjulegri hefð lýtur skriftastóllinn ákveðnum lögmálum sem meðal annars eru eftirfarandi.

 • Sá sem skriftar kemur undir nafnleysi og á samtal við nafnlausan prest. Þetta er annars vegar til að leggja áherslu á trúnað og hins vegar til að setja skriftirnar í samhengi allrar kirkjunnar - þær eiga sér ekki eingöngu stað á milli þeirra einstaklinga sem um ræðir.
 • Skriftir ganga út á frásögur (játningar) frá persónulegri reynslu sem settar eru í samhengi trúarinnar.
 • Skriftirnar leiða til einhvers konar lausnar á þeim málum sem borin eru á borð.
 • Lausnin felst í því að sá sem skriftar gerir málin upp við sig persónulega og greinir frá því uppgjöri í áheyrn prestsins.
 • Uppgjörið setur málið í samhengi við kristinn hjálpræðisskilning þar sem það gengur út á að skriftarþegi játar syndir sínar og sér sjálfan sig sem manneskju sem hefur orðið viðskila við Guð vegna þess sem er efniviður játningarinnar.
 • Á grundvelli þessarar sýnar getur presturinn nafnlausi veitt viðkomandi aflausn – sem er reyndar háð einhvers konar yfirbót. Yfirbótin er í formi bænagjörðar eða tiltekinna verka.

Þetta eru hinar hefðbundnu skriftir. Umgjörð þeirra getur vissulega verið önnur og í lúterskri hefð tíðkast ekki aflokuð samtöl undir nafnleysi heldur frekar samtal á milli sálusorgara og sóknarbarns. En inntakið er það sama – sá sem leitar til prests til að tala um eigin gjörðir sem vekja honum tilfinningu fyrir viðskilnaði við gæsku Guðs, þiggur aflausn og gengur af skriftafundinum með syndir sínar fyrirgefnar.

Frá sálfræðilegu sjónarhorni er inntak skriftanna athyglivert fyrir þær sakir að manneskjan líður þjáningar vegna tilhugsunarinnar um að hafa syndgað og brotið gegn því sem rétt er og gott. Skriftirnar eru tæki til að létta þessum þjáningum af viðkomandi með því að gefa honum tækifæri til að TALA um það sem hefur átt sér stað og JÁTA syndir sínar. Presturinn gegnir hins vegar lykilhlutverki í skriftunum sem slíkur vegna þess að hann hefur UMBOÐ til að fyrirgefa syndir þeirra sem játa þær og iðrast.

Þegar minnst er á netið í þessu samhengi er augljóst að vefsíður geta virkað sem skriftastóll með ýmsum hætti. Þó er ekki nóg að þær veiti færi á að skrifa sig frá hugsunum og upplifunum – eins og bloggsíðurnar gera – á hinum endanum verður að vera einhver sem veitir skrifunum viðtöku og bregst við þeim. Sá þarf jafnframt að hafa einhvern status eða búa yfir einhverju umboði til að kveða úr um málið – ef fylgja á eftir lögmáli skriftastólsins.

Getur vefsíðan þá verið skriftastóll þar sem hinn trúaði sækir sálarró og aflausn synda sinna? Nafnleysið er eitt af því sem netið veitir auðveldlega. Vefsíðan er einnig vel í stakk búin til að vera vettvangur fyrir frásögur og játningar. Hún er hins vegar ekki dýnamísk í sama skilningi og skriftastóllinn því enginn situr hinu megin við þilið og svarar þegar þú segir frá og spyrð. Ef bíða þarf eftir viðbrögðum við netjátningunum má spyrja hvort samhengi játningar, iðrunar og aflausnar sé með eins skýrum hætti í umhverfi netsíðunnar eins og þegar talað er við prestinn undir rós í skriftastólnum.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Vefsíðan sem skriftaumhverfi”

 1. Árni Svanur skrifar:

  Takk fyrir þetta Kristín Þórunn. Hér held ég að athyglisvert gæti verið að horfa til dönsku netkirkjunnar Cyberkirken. Þar er boðið upp á samtal við prest, en eftir því sem mér skilst þá er þetta samtal í rauntíma (fyrir tilstill vefforrits).

  Þannig er reynt að nýta það besta, þ.e. kostina sem felast í nafnleysinu og þeirri staðreynd að fólk á oft auðvelt með að tjá sig á netinu en veita jafnframt aðgang að presti sem þýðir að ekki þarf að bíða eftir viðbrögðum heldur fást þau samstundis eins og í hefðbundnum skriftastól.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3909.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar