Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sjöfn Þór

Guð og sumarið

Bíddu, hva!! Sumar, hér, núna? Nei getur það verið? Síðast þegar ég gáði var brjálað rok og rigning og eiginlega haust… og svo bara sól…og heitt, já heitt. Sem minnir mig á það. Málið er nefnilega það að ég hef bara einu sinni lent í því að vera heitt. Það var fyrir næstum tveimur árum síðan, í Búdapest og það þótti svo merkilegt að ég var látin segja það skýrt og greinilega inn á svona Digital vídeó skot. En það er svo sem önnur saga og þrátt fyrir góða veðrið síðustu tvo daga hefur mér alls ekki verið heitt.

Beðið eftir hjólreiðaköppun í Tour de FranceSumar á Íslandi hefur eiginlega alltaf farið pínu í taugarnar á mér. Ég ætla samt ekkert að viðurkenna það að ég sé svona manneskja sem læt veðrið fara í taugarnar á mér, yfirleitt er mér sama hvernig veðrið er. Eiginlega er bara best þegar veðrið er vont, því þá get ég bara verið inni án þess að vera með einhvern móral yfir því. En þegar sólin skín, þá er einhvern veginn eins og maður eigi að vera úti…en ég er innipúki og mér finnst alls ekkert gaman að fara í fjallgöngur og hjólreiðatúra og eitthvað meira svoleiðis sem kalla mætti íþróttir. Eina íþróttin sem mér finnst eitthvað varið í er Boule, þið vitið, nokkrar járn kúlur sem maður kastar. Þetta er líka önnur saga, sennilega kann ég allt of margar skrýtnar sögur af mér.

Ég er eiginlega að reyna að byrja á því sem ég ætlaði að segja ykkur. Mér finnst nefnilega að ég hafi misst pínu lítið af sumrinu. Kannski er það blessun, ég hef samt mínar efasemdir um það. Málið er að í lok maí var ég í burtu, svo ég missti pínulítið af byrjun sumarsins. Svo fór ég aftur í burtu í júlí og þá var víst gott veður hér. Ég eiginlega skil þetta ekki, því alltaf þegar ég fer, þá er gott verðu hér. Ég er farin að halda að fólk sé bara að plata mig með því að segja að veðrið hér hafi verið svo gott akkúrat á meðan ég var ekki heima.

Hvernig getur það verið að veðrið viti hvar ég er og passi sig á því að koma bara þegar ég er ekki heima. Það bara getur ekki staðist. Nema þetta hafi eitthvað að gera með Guð. Hvernig þá? Nú sumir halda því fram að Guð stjórni veðrinu. Ég get eiginlega ekki alveg séð það fyrir mér, en ég veit svo sem ekki allt. En ef ég spái betur í þetta þá var mér sagt, þegar ég var lítil og var að kvarta yfir rigningunni, að Guð væri að vökva jörðina. Guð garðyrkjumaðurinn!!! Svo kannski er það bara málið.

• • •

Ég hef stundum verið að spá í sumarið. Svona um það bil í febrúar þá fæ ég þessa skemmtilegu tilfinningu að nú fari að koma vor og svo sumar, ég fyllist orku og gleði og jákvæðni og stekk á fætur á morgnana og er alltaf jafn hissa á því að stíga ofaní snjóskafl þegar ég kem út. Eftirvæntingin eftir vorinu vex með hverjum deginum og um páskana er ég farin að spá í það hvenær vorið ætli eiginlega að koma. Ég er steinhissa á því þegar ég kem í vinnuna að bandið í fánastönginni er frosið fast. En svo set ég aldrei sumardekkin undir fyrr en eftir dúk og disk.

Það er sem sagt ekkert samræmi í lífinu mínu…en hvað um það, svo allt í einu er komið sumar, eins og á einni nóttu. Tveir sólardagar og svo haust. Það er líka svo fyndið að daginn sem ég fer með leikjanámskeiðið í Húsdýragarðinn þá rignir, helgina sem allir ætla í útilegu þá rignir og dagana sem finnsku vinirnir dvelja á Íslandi þá rignir. En þegar ég á langan vinnudag, inni allan daginn að glápa á tölvuskjá, þá er 22 stiga hiti og sól og Biskupsstofa lokuð vegna veðurs!! Kannski ætti að skylda allar stofnanir til að loka þá daga sem Biskupsstofa lokar, mér fannst þetta snilldar hugmynd hjá þeim.

• • •

Já, svo kom júní og mér fannst bara kalt, leikjanámskeið, fullt af skemmtilegum krökkum og tíminn flaug og svo flaug ég. Alla leið til Belgíu, fyrst fylgdist ég með fermingarnámskeiði í Þýskalandi og svo fór ég í frí til Frakklands. Ég man eftir því að hafa sofnað eftir 12 tíma akstur og vaknað svo 15 dögum seinna við það að tími var kominn til að halda aftur norður. Ég var sem sagt búin að sofa á ströndinni í 15 daga og tók ekkert eftir því.

Mér var sagt að á hverju kvöldi hafi hljómað frönsk popptónlist frá karókíbar og sólin hafi skinið alla daga, en ég bara svaf. Las reyndar smá inn á milli en get ekki með nokkru móti munað hvað ég var að lesa. Ég var stein hissa á því þegar ég var bara komin aftur heim, farin að vinna og hafa áhyggjur af nýjum leikskóla, nýrri íbúð og nýju starfsári. Svo rigndi og rigndi og rigndi og rigndi. Og ég var bara orðin sátt við að sumarið væri búið og þá gerist einmitt það sem ég þurfti sem mest á að halda. Sól og hlýtt, sumar á Íslandi.

Nokkrir dagar í viðbót áður en haustlægðirnar koma og hrella mig. Nokkrir dagar til að njóta umhverfisins og lífsins. Nokkrir dagar enn til að fá frekknur, nokkrir dagar enn til að skarta stuttbuxum með áletruninni ENGLAND á rassinum. Nokkrir dagar enn til að hnerra og nudda augun og hnerra meira. Guði sé lof fyrir það. En þetta er kannski einmitt það sem gerir það að verkum að ég elska landið mitt og Guð. Það er svo gaman þegar lífið getur komið manni á óvart. Veðrið er bara hluti af þessu öllu saman og gerir tilveruna svo frábæra.

Og allt þetta gerir það að verkum að ég man eftir Guði. Því þegar öllu er á botninn hvolft á ég Guði allt að þakka. Fyrir langan vetur, fyrir kalt sumar, fyrir rigningu svo ég geti verið inni, fyrir tækifæri til að sofa í sólinni, fyrir vinnuna mína, fyrir hundinn hennar mömmu (sem ég eiginlega er ekkert hrifin af svona almennt) fyrir dóttur mína og fyrir lífið. En ætli niðurstaðan mín sé ekki þessi: Íslenskt sumar er eins og Tour De France, maður situr og bíður í marga klukkutíma eftir að keppendurnir komi og svo svo eru þeir bara 5 sekúndur að hjóla framhjá.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3191.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar