Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Jóna Lísa Þorsteinsdóttir

Við krossinn

Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir. 1 Pét.2.24

Að kvöldi dags geri ég mér ferð í kirkjuna mína til að virða fyrir mér gömlu altaristöfluna sem sýnir krossfestingu Jesú. Sækja í hana hughrif og orð. Stundum er manni svo orða vant. Ég sé Jesú hanga kvalinn á krossinum. Veit hvað á undan er gengið.

Get alls ekki gert mér í hugarlund hve þjáningarfullur dauðdagi hans hefur verið.

Við krossinn standa móðir hans og lærisveinninn sem hann elskaði, beygð af harmi. Þriðja mannveran, sem virðist vera að hníga niður, styður sig við krosstréð. Himininn er dökkur, en slær á hann annarlegri birtu. „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið okkur?“ Þau vita ekki enn, eru full af sorg og myrkri örvæntingu.

En ég sem sit þarna veit að eitthvað gerðist á krossinum sem opnar okkur leiðina til Guðs. Veit að Guð kom í heim þjáningar og dauða til að frelsa og skapa nýtt líf og að hann er með okkur þar. Gekk inn í mannlegar aðstæður, deilir sorgum okkar og sárum. Gefur okkur raunverulega von í raunverulegum heimi. Veit að hann yfirgefur okkur aldrei.

Samt hrópa ég stundum inni í mér: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Finnst lífið sárt og fátt um svör. Ég horfi á sorgina sem altarismyndin endurspeglar. Sorgina vegna þjáninga hans, sem þau elska, sorgina vegna dauða hans, sorgina yfir grimmd heimsins.

Og ég man þegar ég óttaðist að myrkrið í lífinu mínu ætlaði ekki að víkja og Guð virtist fjarlægur og þögull. Þá leitaði ég til manneskju sem ég vissi að þekkti þjáninguna. Spurði: „Má ég koma og tala við þig? Ég þarfnast einhvers sem hefur fundið mikið til.“ Ég gekk þaðan ögn léttari í spori. Í kærleiksríku og öruggu umhverfi hafði farið fram sálgæsla hinna særðu.

Kristur hefur alltaf sínar leiðir til að sýna sig í lífi okkar.

Við komum að krossinum hans með mennskuna okkar brothættu og breysku. Og þótt stundum virðist dimmt og kalt þá lýsir alltaf ljósið frá krossinum hans. Ljósið eilífa. Við sjáum það kannski ekki meðan tárin blinda, en skiljum seinna að sporin þungu frá krossinum eru fyrstu sporin á móti nýju ljósi og lífi. Og nýrri gleði.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3477.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar