Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Hannes Björnsson

Smjörið upp

Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu:Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt! Jóh. 12, 27-28a

Nú vorar loks i Osló. Síðasti snjórinn hvarf úr bakgarðinum okkar að morgni mánudagsins 14. apríl. Framan við húsið er meiri skuggi og þar situr enn hjarn. Tími þess mun koma. Þá líður það héðan og verður að engu.

Það er reyndar ekki alveg rétt. Hjarnið umbreytist og seitlar til jarðar sem grunnvatn eða stígur til himins sem vatnsgufur. Allt breytist en samt ekkert. Við stígum ekki í sama vatnið tvisvar sögðu vitru Grikkirnir forðum.

Þetta skiljum við þegar lífið fagnar vori á ný. Það er nýtt vor sem kemur hverju sinni, ekki gamalt og þreytt vor sem kemur aftur. Það er ný lífsgleði sem tekur sig upp eftir harðan og kaldan vetur. Það eru nýjir litir og ný angan sem æra okkur svolítið og milda jafnvel mestu fýluköstin. Smátt og smátt þiðnum við alveg innúr og fyrr en varir verðum við full af gleði.

Vorbyrjunin er eins konar ögurstund. Lífið vegur salt og fellur svo loksins í betra farið.

• • •

Stóran hluta af minni visku hef ég úr Det Bedste. Ég las það af áfergju sem barn og unglingur. Margt af því sem ég hef lært síðar er sami vísdómur sagður með öðrum orðum. Frá þessu eru þó undantekningar.

Det Bedste sagði eitt sinn frá fundi Henry Kissinger og Nikita Kruchefs ef ég man rétt hverjir þetta voru. Kissinger sló því fram að það væri meginregla að þegar við missum krónu þá rúllar hún sem lengst frá okkur og ef við missum brauðsneið þá lendir hún alltaf á smjörhliðinni. Kruchef hugsaði sig vandlega um og sagði svo „Ég hef aðeins einu sinni misst brauðsneið og hún lenti með smjörið upp“.

Við lifum sérstaka tíma. Við höfum kannski mörg þá tilfinningu að heimusrinn sé í frjálsu falli. Við óttumst að brauðið lendi með smjörið niður, ef svo má að orði komast. Það er eðlilegt að okkur líði þannig. Það eru miklir hlutir að gerast. En á endanum er það er alltaf undir okkur sjálfum komið hvað við gerum úr atburðunum. Ótti og örvænting skila þar engu. Við verðum að treysta því að smjörið snúi á endanum upp.

• • •

Jesús treystir því þegar stundin kemur. Víst er sál hans skelfd. En hvernig bregst hann við ógninni? Hann segir:„Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt.“

Við sem erum kristinnar trúar eigum nýja von. Ekkert getur skert þá von eða hindrað að hún verði raunveruleg. Víst er veröldin söm við sig. Angist og græðgi takast á, en það er utan okkar. Hið illa, lága og ljóta fær ekkert gert okkur. Því við eigum von í Jesú Kristi. Því megum við aldrei gleyma.

Öll eymd og hörmung er ákall. Því kalli hefur Guðs hjörð, kirkjan, svarað undanfarna mánuði. Kristnir og múslimar hafa staðið hlið við hlið á ögurstundu og munu gera það áfram. Sýnum örlæti og kærleika. Minnumst þess ætíð hve dýrmætur sérhver einstaklingur er. Lifum í von Krists og breiðum hana út - gerum nafn föðurins dýrlegt með góðum orðum og verkum.

Látum smjörið snúa upp.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2861.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar