Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Aðventa og jól eru kristniboð

Það eru margir kristniboðar í jólaguðspjallinu. Englarnir sem vitjuðu hirðanna á jólanótt, það voru öflugir kristniboðar: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn….“ Þessa kristniboðsprédikun þekkjum við öll mæta vel, þekkjum og elskum. Hún var líka áhrifarík. Hirðarnir brugðust þegar í stað við, þeir spruttu á fætur og sögðu hver við annan: „Förum beint til Betlehem að sjá!“ Hvað annað? Merkilegt að Guð skuli ekki oftar nota engla í kristniboði! En það gerir hann sjaldan, því miður. Englarnir hverfa úr sögunni og hefur svo sem ekki mikið spurst til þeirra síðan. Guð hefur kosið að hafa það þannig, hann vill fremur nota önnur og hversdagslegri verkfæri og farvegi fyrir fagnaðarerindi sitt.

• • •

Hirðarnir urðu líka kristniboðar. Þeir sögðu frá því sem þeir höfðu séð og heyrt, fyrst Maríu og Jósef, og svo þegar þeir höfðu veitt barninu í jötunni lotningu sneru þeir aftur og „vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir allt sem þeir höfðu heyrt og séð“ - og þetta er kristniboð: Að vegsama Guð og lofa hann og kunngjöra máttarverk hans. Boðun Krists, boðun fagnaðarerindisins er alltaf þetta. „Vér getum ekki annað en talað það sem vér höfum séð og heyrt,“ sögðu þeir Pétur og Jóhannes, og þeir eru fleiri sem finna þá þörf. Fyrir vitnisburð þeirra verður fagnaðarerindið ekki bara upprifjun liðinnar sögu og miðlun fornrar speki, heldur veruleika í okkar heimi, lífi, samtíð, þar sem Kristur Drottinn er enn að veki. Við eigum því fólki mikið að þakka sem vitnar um þann undursamlega veruleika. Guði sé lof fyrir það allt.

María, hún er líka kristniboði. Hún er fyrirmynd trúaðra, sem lúta undri og leyndardómi fagnaðarerindisins með lotningu, geyma það í hjarta sínu og hugleiða það. Og við vitum líka að hún kenndi drengnum sínum að biðja, að elska Guð og biðja, hlýða orði hans og vilja, elska helgidóm hans. Við erum flest kristin vegna þess að slíkir kristniboðar sem hún, góðar mæður, hafa lagt okkur bænamálið á varir og kennt okkur að þekkja Guð og elska hann. Mikið eigum við þeim að þakka, Guð blessi þær.

Mér finnst ég líka sjá hann Jósef sem kristniboða í jólaguðspjallinu. Samt fer litlum sögum af honum. En trúfesti hans talar sínu máli og er okkur fyrirmynd. Kristniboð er ekki bara fólgið í orðum, oft tala verkin skýrar en ótal orð af andagift. Og hvað væri kirkja og kristniboð án trúfesti þeirra sem ganga að verkum sínum og sinna skyldum sínum af virðingu og kærleika til Guðs og manna? Guði sé lof fyrir þau öll.

• • •

Aðventa og jól eru kristniboð. Ljós og hljómar og áleitin hughrif aðventu og jóla benda á barnið í jötunni, eins og englarnir gerðu forðum. En það er eins nú og þá, englarnir duga ekki einir og sér. Guð vill nota önnur verkfæri, hann vill nota orð manna og verk til að vitna um sig.

Hver eru viðbrögð okkar við boðskap englanna, boðskap aðventu og jólanna? Við skulum lúta barninu í jötunni, og við skulum vitna um náð hans og líf, við skulum geyma orð hans í hjarta, og við skulum sjá til þess að það berist öðrum til eyrna: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn….“

Gleðileg jól!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4499.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar