Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jón Helgi Þórarinsson

Prestsþjónusta - fyrir alla landsmenn

Þéttriðið þjónustunet …

Prestar íslensku þjóðkirkjunnar mynda þéttriðið þjónustunet um allt land, og hefur svo verið um aldir. Þeir eru enda fáir hér á landi sem hafa ekki kynnst þjónustu presta með einum eða öðrum hætti allt frá vöggu til grafar, á hátíðum sem sorgarstundum. Flestir kynnast þeirri þjónustu í sinni sóknarkirkju, en margvísleg sérþjónusta presta hefur eflst verulega undanfarin ár, og gegna prestar nú sérstakri þjónustu á sjúkrahúsum og í fangelsum, sem og á meðal fatlaðra, heyrnarlausra, nýbúa o.fl.

Auk þess að annast boðun og fræðslu og stýra og bera ábyrgð á margþættu starfi safnaðanna er sálgæsla fyrirferðarmikill þáttur í þjónustu presta; þ.e. að annast viðtöl við fólk í margs konar vanda og leiða fólk í gegnum áföll og erfiðleika. Prestar þjóðkirkjunnar eru á stöðugri bakvakt allan sólarhringinn allt árið um kring. Á nóttu sem degi, um helgar sem hátíðir, er hægt að kalla út prest til að sinna fólki í neyð. Ef viðkomandi sóknarprestur er í fríi þá annast nágrannaprestur slíka þjónustu.

… líka fyrir fólk utan þjóðkirkjunnar

Mikilvægt er að benda á að til presta þjóðkirkjunnar leitar einnig fólk sem ekki er í viðkomandi söfnuði, heldur í öðrum trúfélögum eða utan trúfélaga. Þarna mæta prestar þjóðkirkjunnar þörfum þeirra Íslendinga sem eru af erlendu bergi brotnir og tilheyra þess vegna öðrum trúfélögum en íslensku þjóðkirkjunni. Þetta fólk á jafn greiðan aðgang að sálgæslu og þjónustu þjóðkirkjupresta sem allir aðrir og sækir eftir þeirri þjónustu.

Prestsembættum hefur ekki fjölgað í heila öld

Um 140 opinber prestsembætti eru nú í landinu (e.t.v. alls um 150 þjónandi prestar) sem er svipaður fjöldi og var fyrir 100 árum. Munurinn er hins vegar sá að um aldamótin 1900 voru íbúar landsins um 80.000 (um 570 íbúar að meðaltali pr. prest) en um aldamótin 2000 voru þeir orðnir rúmlega 280.000 (um 2000 að meðaltali á prest). Síðustu áratugi hefur íbúafjöldi stærri þéttbýlisstaða vaxið geysilega og þá sérstaklega höfuðborgarsvæðisins þar sem nú búa um 70% landsmanna í þremur stærstu prófastsdæmum landsins (Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og vestra og Kjalarnessprófastsdæmi).

Prestsembættum þar hefur hins vegar ekki fjölgað í neinu samræmi við hina miklu fjölgun íbúa, og er ekki óalgengt að einn prestur þjóni þar 4-7 þúsund manns. Allir eru sammála um að brýn þörf er á fleiri prestsembættum í stærstu prestaköllunum, ekki aðeins til að jafna vinnuálag embættanna, heldur miklu heldur til að íbúarnir, jafnt börn sem fullorðnir, eigi kost á þjónustu prests eða sjái hann við önnur tækifæri en við sérstakar athafnir eða á hátíðum.

Ljóst er að sameina þarf prestaköll þar sem að íbúar eru fáir og samgöngur þokkalegar, en sem betur fer hafa þær batnað mjög víða á síðustu árum. Hér er eðlilega um viðkvæmt mál að ræða, enda hefur fátt gerst undanfarin ár þrátt fyrir all nokkra umræðu. En Þjóðkirkjan hefur aðeins yfir að ráða takmörkuðum fjölda embætta að ráða og því verða menn að þora að taka á málum. Gæta þarf hins vegar að báðum þessum þáttum - að tryggja prestsþjónustu úti um hinar dreifðu byggðir sem og að auka hana í stærstu prestaköllunum.

Efla þarf samstarf presta og jafna vinnuálag

Stjórn Prestafélags Íslands hefur umboð aðalfundar 2002 til að vinna að því að gera tillögur um hvernig jafna megi starfsálag presta á landinu, sem merkir í reynd að gera tillögur um sameiningu og tilflutning prestsembætta.

Í þeirri vinnu er mikilvægt að hafa í huga að Prestafélagið telur brýnt að auka samstarf presta til að styrkja þjónustuna og tryggja prestum regluleg frí og afleysingar. Síðarnefnda atriðið er ekki síst mikilvægt úti um hinar dreifðu byggðir, og því eru veruleg takmörk fyrir því hvað hægt er að sameina mörg prestsembætti úti um land.

Af samtölum við prófasta og presta jafnt í þéttbýli og dreifbýli tel ég að prestar skilji vel þann vanda sem við er að etja og vilji leggja sitt af mörkum til að reyna að finna lausn sem þokkaleg sátt gæti verið um. Jafnhliða þessari vinnu verður einnig að skoða hvort að þjóðkirkjan geti ekki fengið fleiri prestsembætti, ekki síst á þeim forsendum að mikilvægt sé að viðhalda góðri prestsþjónustu úti um land, þaðan sem svo margvísleg þjónusta önnur er nú að hverfa.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2977.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar