Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Jón Bjarman

Á siðbótardegi

Á þessum degi, 31. október 1517 gerðist sá atburður í Wittenberg í Þýskalandi, að munkur, sem var háskólakennari þar í borg, negldi all voldugt skjal með 95 greinum, eða tesum, eins og þær voru kallaðar, á kirkjudyr hallarkirkjunnar þar í borg. Í tesunum kom hann meðal annars fram með gagnrýni á kirkju sína, Rómarkirkjuna, fyrir áherslur hennar á aflausn synda, sem hægt væri að kaupa fyrir peninga, en þannig var kirkjan að afla páfagarði fjár til að standa straum af byggingu hinnar miklu Péturskirkju í Róm.

Aðferð munksins var alvanaleg, svipuð þeirri sem er svo algeng í dag í fjölmiðlaheiminum þegar fólk vill kom af stað umræðum um eitthvert málefni.

Munkurinn og málshefjandinn í þessu tilviki var Marteinn Lúther, og má segja að með þessari athöfn hafi siðbótarhreyfingin hafist. Rómverska kirkjan var sterkasta og áhrifamesta aflið í Evrópu á þessum tíma. Óhætt er að fullyrða, að kirkjan hafði sterk áhrif á líf og hugsun fólks, hún réði hegðun þess, hafði hjörtu þess í gíslingu og gat þannig beitt valdi sínu inn á hvert heimili. Fólk var illa upplýst og lítt skólagengið, það skynjaði helgisiðina og messuna en skildi ekki hvað fór fram við altarið, því þar fór allt fram á útlendri tungu, en það beygði sig undir vald páfa og klerkastéttarinnar, sem beitti skriftastólnum óspart til að ná og viðhalda því valdi. Skriftafeður lögðu á sóknarbörn sín allskonar yfirbótar vinnu, og höfðu bannfæringu stöðugt í bakhöndinni, einkum til að ná valdi yfir og sveigja til hlýðni volduga fursta og þjóðarleiðtoga.

Um þessar mundir stóð páfinn, Leó X, í stórræðum, hann var að byggja kirkju, eins og áður var sagt, sem skyldi vera stærri og fegurri öllum öðrum guðshúsum í heiminum, en hann skorti fé til að koma áætlun sinni í framkvæmd. Þá kom kirkjuforystunni rómversku það snjallræði í hug, að verða sér útum reiðufé með því að selja fólki aflausn hverskonar synda og afbrota. Sendimenn páfa fóru vítt um lendur með þetta tilboð, fólk flykktist að þeim og hafði viðskipti við þá.

Í grenndina við Wittenberg var munkur á ferð, Johan Tetzel að nafni, var hann með umboð frá páfa til að selja aflát hverskonar synda og afbrota sem menn drýgðu. Þessir sölumenn páfa útbjuggu verðlista yfir syndir og afbrot, sem hægt var að fá aflausn á, og opnuðu jafnvel verslun í borgum og bæjum, þar sem hægt var að kaupa slíka skjalfesta aflausn, hrósuðu þeir sér af því að hafa leyst fleiri frá syndum og hreinsunareldi en sjálfur Pétur postuli. Segja má, að hér hafi verið um dulin syndaskatt að ræða.

Lúther hafði verið í Róm nokkrum árum áður og sá þar og reyndi margt sem skar í augu. Íburður og skraut, gull og silfur og dýrir steinar. Allt þetta var svo frábrugðið fábrotnum klaustursklefa hans.

Hann átti í hörðu sálarstríði með samvisku sína og syndavitund og reyndi ákaft að öðlast frið við Guð og fá fyrirgefningu hans með góðum verkum og hlýðni við aga klausturlífsins. Stundum varð hann beinlínis veikur og oft friðlaus, að honum sóttu efasemdir með þá hugsun stærsta „Ef þetta er nú allt saman ósatt.“

Yfirmaður hans í munkareglunni Johan Staupitz, kom honum til hjálpar með því að minna hann á orðin í þriðju grein postullegu almennu trúarjátningarinnar:

Ég trúi á …fyrirgefningu syndanna.

Með framtakinu 31. október 1517 var Lúther ekki að segja skilið við kirkjuna, honum þótti vænt um hana og mat hana mikils, svo mikils að hann fann til köllunar að leiðrétta hana þar sem hún hafði lent á villugötum. Með skjalinu sem hann festi upp hafði hann opnað umræðu um þetta efni og vissulega áttu þær sér stað. Tveir áðurnefndir fulltrúar páfa, Johan Tetsel og dr. Eck, lærður kennari frá Ingolstadt, rituðu harðorðar greinar gegn greinunum 95. Þeir voru fúsir til að ræða málið nánar við munkinn.

Rómverska kirkjan beitti einnig agavaldi sínu og aga gegn honum með því að Leó páfi lét hefja rannsókn á lífi og kenningum Lúthers. Líf Lúthers var í hættu þótt kenningar hans breiddust út meðal lærðra manna í Evrópu. Þeir Tetsel og dr. Eck tóku þátt í margra daga umræðu við Martein Lúther í borginni Leipsig.

Lauk samræðum þeirra þannig, að Eck æpti á Martein Lúther og sagði hann vera villutrúarhund, sem bæri að sækja til sakar, dæma og brenna.

Má sjá á viðbrögðum fulltrúa rómverska valdsins, að þeir beita sömu aðferðum og oft tíðkast enn meðal stjórnmálamanna, þegar þeir grípa til upphrópana, innantómra slagorða og órökstuddra ásakana.

En saga Lúthers rís hæst á þinginu í Worms fyrri hluta ársins 1521. Karl V, nýkjörinn keisari Þýsk-Rómverska ríkisins og konungur Spánar boðaði til þessa þings, til að komast til botns í máli Lúthers og hét honum fullum griðum í borginni meðan þingið stæði yfir. Má segja að þar hafi farið fram málflutningur gegn Lúther, þar sem fulltrúi páfa, með bannfæringarbréf í höndum krafðist þess að Lúther afneitaði skrifum sínum öllum, en yrði að öðrum kosti fundinn sekur og dæmdur fyrir trúvillu.

Sjálfur kom Lúther fyrir þingið 17. apríl.

Næsta dag flutti hann vörn sína sem svar við því boði að hann afneitaði villu sinni. Niðurlag ræðu hans var þannig:

„Þar sem yðar keisaralega hátign heimtar refjalaust svar, þá skal ég gefa það án undanbragða. Það er þetta:

Ef ekki er unnt að sannfæra mig með vitnisburði heilagrar ritningar og ljósum rökum, (því ég treysti hvorki páfa né kirkjuþingum einum, þar sem þeim hefur sannanlega skjátlast og þau sagt það sem rekst hvað á annað, þá er ég bundinn af orðum ritningarinnar og samviska mín skyldar mig til að hlýða Guðs orði. Þess vegna get ég ekki og vil ekki taka nokkuð aftur, því það er hvorki ráðlegt né rétt að breyta á móti samvisku sinni. Guð hjálpi mér.“ Hann var þá spurður, hvort hann héldi því fram að kirkjuþingum gæti skjátlast. Þá hrópaði hann upp: „Hér stend ég, ég get ekki annað!“

Þetta hróp bergmálaði um alla álfu.

Í dag bergmálar það í hjörtum okkar. Það kallar okkur til afstöðu til kjarna kenningar hans, að maður frelsist einungis fyrir náð Guðs sem við reynum í lífi og dauða Jesú, en um hann segir Pétur postuli í fyrra bréfi sínu það sem við þekkjum svo vel:

„Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í hans munni. Hann illmælti eigi aftur er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur gaf það í hans vald er réttvíslega dæmir. Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir, þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans, sem er hirðir sálna yðar.“

Amen.

Hugleiðing flutt í Hallgrímskirkju á siðbótardegi 31. október 2002. Sr. Jón Bjarman (hannajon@centrum.is). Lestrar: Sl 46:2-12; Rm 3:21-28; Jh 8:31n.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4038.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar