Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Mikið lesnar færslur undanfarið

Umsjónarmenn þáttarins

TenglarLeita

Yfirlit

Sjónvarpsþátturinn Lífið og tilveran er á dagskrá kl. 10.10 á sunnudögum á NFS auk þess sem hann er einnig endursýndur seinna í vikunni. Þátturinn er jafnframt sendur út á Talstöðinni á fm 90.9.

Erum við samskotafælin eða glaðir gjafarar?

Spurningin um samskot í kirkjum landsins við guðsþjónustur, eins og tíðkast víða um heim, hefur lengi verið ákveðið feimnismál hér á landi. Margt kemur eflaust til. Ekki er hefð fyrir því og svo er borið við að ekki eigi að tala um peninga í kirkju, alla vega ekki biðja um þá, fólk greiði jú sóknargjöld og fleira er tínt til í afsökunartón. Ábendingar talsmanna Hjálparstarfs kirkjunnar og Kristniboðssambandsins, auk tilhlaupa Kristniboðs- og hjálparstarfsnefndar kirkjunnar sýna að á brattann er að sækja. Að baki virðist liggja ótti, að ekki megi rugga bátnum, er að þessu máli kemur og trúlega eitthvað fleira.

Gjafmild þjóð

Íslendingar eru gjafmild þjóð enda nýtur hún velsældar þó svo víða sé pottur brotinn og ekki sé búið að útrýma fátækt og eymd. En gjafmildin birtist ekki einungis í stórsöfnunum með aðstoð fjölmiðla heldur gefa tugir þúsunda Íslendinga reglulega, flestir mánaðarlega, til góðgerðasamtaka sem starfa ýmist hérlendis eða erlendis og sum gera hvort tveggja. Meðal samtaka er njóta þess eru Kristniboðssambandið og Hjálparstarf kirkjunnar. Ekki síst í ljósi þessarar gjafmildi vaknar spurningin: Hvað eru menn hræddir við? Fer orðspor kirkjunnar á hliðina við samskot? Er það ekki frekar trúverðugt að hún og þá söfnuðurinn sjálfur lætur sig aðra varða með þessum hætti?

Í nokkrum kirkjum höfuðborgarinnar, t.d. Hallgrímskirkju og Grensáskirkju, hafa verið tekin samskot allan ársins hring, í hverri einustu guðsþjónustu í langan tíma. Samskot hafa verið tekin í Tómasarmessum í Breiðholtskirkju í tvo áratugi. Einhverjir tilburðir til lengri og styttri tíma hafa verið gerðir annars staðar. En það er engin ástæða til að láta þar við sitja, enda reynslan úr fyrrnefndum kirkjum mjög góð. Margir þakka fyrir þetta tækifæri. Bæði Kristniboðssambandið og Hjálparstarfið njóta þessa ríkulega. En hvernig er unnt að gera þetta svo vel fari?

Lagt á djúpið

Fyrsta skrefið er að kynna hugmyndina. Það má gera í tveim eða þrem guðsþjónustum. Auðvelt er að byrja á að safna fyrir ákveðnu verkefni, s.s. að styrkja kirkjubyggingu í Eþíópíu eða Keníu, nám guðfræðinema, rekstur biblíu- eða guðfræðiskóla, verkefni sem tengist beinu boðunar- og safnaðarstarfi eða þróunarsamvinnuverkefni. Þetta þarf þó ekki en getur auðveldað það að fara af stað. Því næst er að byrja og kynna samskotin þannig að þetta sé tækifæri, engin skylda og sjálfsagt að láta söfnunarkörfuna ganga framhjá. Þeir sem eru ekki með peninga, en vilja styrkja málefnið, gætu fengið upplýsingar um bankareikning viðkomandi. Eðlilegast er að taka samskotin í guðsþjónustunni sjálfri, frekar en þegar gengið er út.

Ráðsmenn góðra gjafa

Samskot eru jafnframt tilefni til að minna á, að okkur er trúað fyrir gjöfum lífsins, ekki einungis okkar vegna, heldur líka svo við getum blessað aðra. Sá sem gefur minnir sig jafnframt á að peningar eiga ekki að stjórna okkur. Það er ekki okkar eiginlegi fjársjóður. Með gjöfum okkar játum við trú okkar á að Guð er sá sem sér fyrir okkur enda hefur hann skapað okkur og gefið getu og hæfileika til að starfa. Þannig eru gjafir okkar til starfsins í Guðs ríki einnig þakkargjörð til Guðs.

Hér hefur verið minnst á Kristniboðssambandið og Hjálparstarf kirkjunnar, tvenn samtök sem eru nátengd kirkjunni. Þá má bæta við Hinu íslenska biblíufélagi og Gídeonfélaginu. Sums staðar er hvatt til samskota til annarra sérstakra verkefna eða samtaka eða í líknarsjóð safnaðarins. Gott er að vera með reglu og viðmið til hvers er safnað á hverjum tíma. Ef ekkert er skipulagt gerist heldur ekkert. Jafnvel á sérstökum fráteknum dögum, eins og biblíudeginum og kristniboðsdeginum er ótrúleg tregða til að standa að samskotum svo vel fari. Þessu má breyta. Það er engin skömm að taka samskot. Ef Drottinn hefur blessað mig, hví skyldi ég þá ekki blessa aðra?

Í nágrannalöndunum er þó nokkur hluti af tekjum kristniboðssamtaka kominn frá söfnuðum landsins. Söfnuðir á Íslandi þurfa að vakna og láta sig varða að fagnaðarerindið berist út um heim og að neyð náungans, heima og heiman, sé mætt með kærleika og virðingu í þakklæti til Guðs og gleði yfir að fá að gefa.

Er ekki kominn tími til að taka samskot?

Ragnar Gunnarsson · 18. október 2018

Lystigarðar þjóðar

Kirkjugarðar þjóðarinnar eru merkar stofnanir.  Staðir vítt um land, í þéttbýli, í strjálum byggðum.   Grafreitir hafa fylgt okkur alla tíð.  Staðir sem geyma ríka sögu.

Við kveðjum, syrgjum. Stöndum yfir moldum, merkt óvissu dauðans,  í ugg og ótta, líka í von og þökk.  Leggjum okkar nánustu til hinstu hvílu  í helga jörð.  Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða.

„Nú ertu leidd mín ljúfa, lystigarð Drottins í…“ yrkir Hallgrímur Pétursson, bæði í harmi og von um unga dóttur sem hann missti.

Það er góð regla að umgangast hina dauðu af sömu virðingu og þá sem lifandi eru.  Þess vegna eru strangar reglur, skrifaðar, bundnar í lög og líka óskrifaðar um það er varðar kirkjugarða, umgengni og hirðu.

Sóknarnefndir eru að jafnaði kirkjugarðsstjórnir, utan höfuðborgarsvæðisins.  Sóknir hafa sjálfstæðan tekjustofn, sóknargjöld, sem eiga að standa undir rekstri sókna og viðhaldi helgidóma.  Kirkjugarðarnir hafa sinn tekjustofn, kirkjugarðsgjöld og þau greiða allir, óháð trúfélagsaðild.

Ekki aðeins hafa sóknargjöld verið skert síðustu árin, heldur einnig kirkjugarðsgjöld, þannig að framlög til kirkjugarða á landsvísu hafa verið skorin niður um 3,4 milljarða frá árinu 2005, þegar samið var við ríkisvaldið um rekstur þeirra.   Þrátt fyrir linnulausa áminningu hafa stjórnvöld daufheyrst við því að gera þarna bót á.

Það er ekki undur að víða kreppir skóinn í rekstri kirkjugarða.  Í Vesturlandsprófastsdæmi eru 44 kirkjugarðar, auk nokkurra aflagðra og svo heimagrafreita.  Þessir garðar bera flestir mikla sögu, vitna um líf og örlög þjóðar í meir en þúsund ár.

Í nýlegri vísitasíu um prófastsdæmið skoðaði ég ásamt fyrrum vígslubiskupi Skálholtsumdæmis alla þessa grafreiti.  Almennt má segja, að vel er um þessa garða hirt, þrátt fyrir fjárskort.  Sóknarnefndarfólkið leggur mikið á sig í sjálfboðinni vinnu til að grafreitirnir séu til sóma. Það er þakkarefni.  En víða er endurbóta þörf.  Lagfæra þarf girðingar og hleðslur, fjarlægja ónýta steinkassa um grafir sem eru til óprýði; lagfæra merk minningarmörk sem eru farin að láta á sjá.  Grafartaka og sláttur og sumarhirða kosta sitt. Sumt af þessu er gert í sjálfboðavinnu eða fyrir málamyndaþóknun.

Kirkjugarðar eru helgir reitir í margvíslegum skilningi.  Þar hvíla kynslóðirnar sem byggðu Ísland. Þar er partur af sögu okkar.  Garðarnir eru þannig menningarverðmæti og ættu að bera sómavitund okkar fagurt vitni.  Í kirkjugarðana leitar fólk til að minnast sinna nánustu, helga minningar sínar, segja bænir sínar, hugleiða og horfast í augu við sjálft sig.

Kirkjugarður á að vera fagur griðastaður, ekki aðeins hvíla hinna látnu, heldur einnig skjól hinum lifandi í hrakviðrum heimsins.  Þar á að vera gott að koma og vera. Þaðan á ávallt að vera unnt að ganga með birtu í sinni.

Hugarfarsbreytingar er þörf. Það er skylda stjórnvalda að leggja af tómlætið sem einkennt hefur framkomu þeirra gagnvart kirkjugörðunum um árabil, auglýsa manndóm í verki; ganga að því verki að skapa viðunandi rekstrargrunn og birta þannig menningarsýn sem er okkur öllum til sóma.  Kirkjugarðar eiga að vera lystigarðar þjóðar.

Höfundur er prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi.

Þorbjörn Hlynur Árnason · 15. október 2018

Hýsum hælislausa

Predikun. Mark. 8.1-9

Í guðspjalli dagsins fer Markús með okkur inn í kunnuglega sögu.  Mettun þúsundanna.

Þetta er svipuð saga og við sjáum í öðrum guðspjöllum.  Svangt og umkomulaust fólk verður satt.  Hér af brauði einu, annars staðar bætist fiskur við.

Þeir fóru af stað með honum, þeir sem hann vitjaði við vatnið.  Fiskimennirnir sem hann sagði að leggja frá sér netin og halda út í óvissuna. Lærisveinar, síðar nefndir postular.

Nú eiga þeir menn  veiða menn.  Það er ærið verk.  Að ná tangarhaldi á fólki.

Til þess þarf sannfæringarkraft.  Persónutöfra.  Að laða að sér fólk er ekki öllum gefið.  En meðölin eru ýmisleg.

Mörg eru hin grimmu og guðlausu hjörtu sem skeyta engu um umhverfi sitt eða annað fólk.

Valdsmenn af mörgum toga,  hafa skreytt sig með falsfjöðrum, slegið blindu í augu fólks, teymt lýðinn auðsveipa yfir í heljarlönd

- gefið út ávísanir gylltar og logandi af fögrum fyrirheitum, innistæðulausa tékka sem falla  -  eftir standa fórnarlömbin  í eymd og umkomuleysi.

Jesús er ekki úlfurinn i sauðargæru, sá er afvega leiðir lýðinn líkt og valdsmenn gyðinganna héldu fram, þótt sjálfsagt hafi þeir vitað hið sanna innst inni.

Ég kenni í brjósti um mannfjöldann -  segir Jesús við lærisveinana.

Ekkert til matar, langt að sækja skjól og næringu.  Þau munu örmagnast.

Hvað er til ráða, spyr hann menn sína.  Góð ráð dýr.

Brauðin sjö eru dregin fram og í höndum Jesú, fyrir þakkargjörð hans og blessun verða þau nóg.

Og gott betur.  Hann lætur menn sína taka saman leifarnar, svo að ekkert spillist.

Þar býr hentug áminning til okkar sem allt eigum og höfum.

Við erum meistarar í að fleygja og sóa.  Matarsóun er ótrúlegt hneyksli. Til skammar fyrir ríka heiminn og háðung okkur Íslendingum.

Hugsunarlaust förgum við  verðmætum sem hafa kostað orku, tíma og jarðargæði.

Við fleygjum líka plasti, dósum, hverju sem er, erum dæmalausir umhverfissóðar; látum oft eins og þessi jörð og afurðir hennar séu einnota, og það komi engum við hvernig við látum

Hann læknar sundurkramin hjörtu segir í Davíðssálminum sem er lexía dagsins.  Til þess er hann kominn.

Jesús hneykslar sitt heimafólk í Nasaret er hann les úr ritningunni -  hann gunngjörir náðarár drottins, gefur bandingjum lausn.

Það er aldeilis að hann gerir sig breiðan.   Og hann er hrakinn með grjótkasti úr heimabyggð sinni.  Engin er spámaður í sínu föðurlandi.

En hann er kominn til að gera bandingja frjálsa.

Hann talar um hina minnstu bræður.  Við okkur segir hann:  Allt gott sem þið gerið  þeim, það gerið þið mér.

Fjallræðan í Mattheusarguðspjalli geymir mikla opinberun.  Hún svarar því, í það minnsta að hluta: Hver er Jesús.  Hvað þurfa þeir að vera sem eru hans.  Og hvert er hlutskipti þeirra.

Sælir eru fátækir… Sælir eru hógværir.

Þetta er vissulega texti sem hefur verið notaður til að segja að himnasælan, eða sælustraffið, eins og Þórbergur orðaði það,  muni gera meira en að bæta þjáningu í táradalnum, og að ekki skuli gera miklar kröfur um réttlæti eða mannsæmandi laun.

Þannig má snúa öllu má  á hvolf. Kirkja og valdhafar hafa iðulega verið í innilegu og vanheilögu sambandi um óréttvísi.

Kirkjan þá brúkuð eins og  tæki til að gangsetja og viðhalda heljartaki valdhafa á fátæku fólki sem á sér enga málsvara.

En kirkjan hefur líka borið gæfu til þess að eiga innan sinna raða spámenn og siðbótarfólk sem hefur lesið ritninguna óbrjáluðum augum

– og víða höfum við sterk og áhrifarík dæmi um jákvæð áhrif kirkju og kristindóms á samfélagsmál.

Í Gamla testamentinu eru dómsspámennirnir fyrirferðamiklir.

Þeir eru ósparir á stóru orðin er þeir hvetja þjóð sína til að iðka réttlæti -  sýna mannúð og umhyggju þeim sem ekkert eiga - hýsa bágstadda og hælislausa.

Og Jesús fer víða og talar margt um hinn minnsta bróður.

Þekkt er dæmisagan af miskunnsama Samverjanum, sennilega fáar örsögur sem hafa haft jafn rík áhrif.

Hver er lærdómurinn af henni?   Við erum kölluð til að hjálpa fólki í nauðum.  Það er okkar skylda, ekki fengur eða afrek, heldur það að vera drottins.

Við vitum ekki hver verður á vegi okkar  - og við veljum okkur ekki náungann.

Ítrekað sjáum við það í orðum og gjörðum Jesú frá Nazaret.

Lærdómurinn er sá, að  þjóðerni, kynþáttur, trú eða lífsskoðun.  Allt er það  léttvægt  er við komum að fólki í nauðum.

Hælisleitendur, flóttafólk,  fólk á flóttamannsveginum.  Þar fer náungi okkar.

Nú eru uppi áður óþekktar aðstæður í Evrópu.

Vesturlönd  stenda frammi fyrir mikilli áskorun.   Harmlegu hlutskipti flóttamanna sem knýja á dyr okkar.  Hvað viljum við vera í þessum veltingi öllum ?

Síðari hluta síðustu aldar nutu Íslendingar velvilja og stuðnings annarra þjóða og urðu ríkir og velmegandi.

Tími er kominn  til að við  látum af þeim ósið og leggjum frá okkur þá ómenningu sem plagað hefur samfélag okkar allt of lengi -  að líta á útlönd og útlendinga, einvörðungu sem eitthvað sem hægt er að græða á.

Þannig getum við verið  upprétt í samfélagi þjóða

Íslenskt fólk flúði vísan dauða á nítjándu öld og fékk land  og skjól í Norður Ameríku.  Það er þakkarefni.

Lítum í auðmýkt, í á kjör og hlutskipti bræðra og systra.  Þau eru okkar, þau er þjást, heimilislaus, á flótta – auðútsett fórnarlömb glæpa og mannvonsku.

Þau eru við.  Burtséð frá þjóðerni, trú eða sannfæringu.  Öll erum við sköpuð í Guðs mynd.

Þau biðja um skjól og daglegt brauð.

Það er ekki einfalt;  það mun kosta að taka á móti flóttafólki og það mun taka á.

En það er líka spennandi viðfangsefni og víst er að þeir sem hingað koma úr framandi menningarheimum  auðga samfélag okkar.

Við erum rík þjóð Íslendingar; efni okkar eru mikil

Það er fulljóst að búr okkar  eru stór og rík af mat og gæðum.  Kornhlöður okkar eru fullar.

Í Fjallræðunni er  áminning um að hamingjan felst ekki í því einu að safna korni í hlöður.  Hamingjan býr líka í mátulegu tómlæti um efnisleg gæði.

Við erum minnt á liljur vallarins og fugla himins.  Hamingjumaður getur líka sá verið sem lítur yfir farinn veg og þakkar að hann skaðaði engan, rak engan um dimman dal, heldur gerði öðrum gott.

Við veljum okkur ekki þjóðerni, hörundslit, kynhneigð.  Við um sumt veljum okkur ekki trú eða menningu.

Við erum fædd  inní menningar- og félagsheim sem er mótaður af kristinni trú. – hvað svo sem menn segja og lepja upp hver eftir öðrum um skaðsemi af kirkju og kristni, og þykjast meiri eftir.

Í  Davíðssálmi segir:  Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.  Og hvað merkir nú þetta. Vit, hvers konar vit.

Er það vitið sem nútíminn hampar svo mjög. Vit til að komast áfram í lífinu,  græða, jafnvel níðast á öðrum til að tryggja eigin hag.

Er það vitið sem smíðar vígtólin, hernaðarvit ?

Er það vitið sem hefur hrundið af stað bylgju flóttamanna frá Afríku og Mið-Austurlöndum ?

Er það vitið sem viðheldur ójöfnuði – ótrúlegu ríkidæmi forréttindafólks og örbyrgð hinna snauðu.

Viturt hjarta Davíðssálmsins er kannski heimskulegt og vitlaust að dómi heimsvitsins.

Davíðssálmurinn talar um viturt hjarta, sem veit og skilur að við eigum ákveðinn tíma á jörðu -  daga ár og ævi sem kemur og fer.

Þetta þurfum við að vita og læra svo að hjarta okkar verði viturt og ríkt;  hjarta sem gefur, líknar, hjálpar.  Umfram allt, þakklátt hjarta.

Marteinn Lúter segir í einu rita sinna, að náð Guðs, fyrir trú á Jesú Krist, geri manninn glaðan, djarfan og fagnandi fyrir Guði, mönnum  og hverri skepnu.  Það er góð áminning á hverjum degi sem Guð gefur.

Þúsundir verða saddir, fá sitt daglega brauð. Og hvað segir okkur þessi saga um mettun þúsundanna ?   Hvað er hún.

Fyrst og fremst er hún vitnisburður þeirra sem með Jesú voru.  Þeir trúðu; þannig er mettunarsagan sönn.

Þannig verður hún sönn í okkur, fyrir trú.  Þannig fær hún að bera ávöxt í hjörtum okkar, fyllir okkur lotningu og auðmýkt, líkt og með þeim er hann sáu og reyndu.

Fjögur þúsund þakklát hjörtu sungu lausnara sínum lof.  Lífgjöf þáðu þeir.

Mannanna börn hungrar eftir daglegu brauði sínu,  eftir réttlæti.

Jesús er réttlætisins sól.

Það er próf, það reynir á að vera Drottins, vinna ljóssins verk meðan dagur okkar varir.  Gera sem við getum að laga heimsins mein.

Biðjum um vit og dómgreind til að fara vel með það sem er á okkar valdi, svo að dagar okkar verði góðir og breiði birtu yfir lif annarra. Göngum saman djörf og sterk.

Jesús er sá er birtir Guð á jörðu.   Hann sem var orðið í upphafi; var til alla vegu frá grundvöllun heimsins – hann sem er frá eilífð til eilífðar.

Hann leysir ok bandingjanna. Hann er lognið sem svæfir storminn. Ljós í myrkrum. Líkn allra lýða.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Höfundur er prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi

Þorbjörn Hlynur Árnason · 15. október 2018

Virðing lífs og verndun - Tímabil sköpunarverksins- Fundur höfuðbiskupa af Norðurlöndum

Tímabil sköpunarverksins- Fundur höfuðbiskupa af Norðurlöndum - pallborðsumræður þeirra á Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle Assembly, 2018, í Hörpu -Ályktun ráðstefnu Alkirkjuráðsins hér á landi, 2017, um réttlátan frið við jörðu

Vér treystum því, sem hönd Guðs hefur skráð:
Í hverju fræi, er var í kærleik sáð,
býr fyrirheit um himnaríki á jörðu.
Hver heilög bæn á vísa Drottins náð.
Og hví skal þá ei ógn og hatri hafna,
ef hjálp og miskunn blasir öllum við
í trú, sem ein má þúsund þjóðum safna
til þjónustu við sannleik, ást og frið?
Tómas Guðmundsson

Þetta fagra sálmvers góðskáldsins Tómasar Guðmundssonar, gefur vel til kynna hve miklu varði að greina í trú veruleika Guðs í sköpunarverki hans og skynja samhengi jarðarlífs og komanda Guðs ríkis, hafna illsku, ógn og hatri og safna þjóðum heims í þjónustu við sannleika hans, ást og frið. Tíðindi af ógnvænlegum breytingum á loftslagi og veðrakerfum jarðar, sem ekki verður lengur mótmælt að stafi af hömlulausri brennslu og notkun jarðefnaeldsneytis, ættu að hvetja til samstöðu manna og þjóða um nauðsynleg viðbrögð. Þar hefur kristin kirkja miklu köllunarhlutverki að gegna og þá auðvitað líka íslenska Þjóðkirkjan. Hún sinnir því með því að vinna að framgangi kristinna gilda og viðmiða bæði innanlands en jafnframt líka í víðara samhengi, og einkum í gefandi samstarfi við kirkjur á norðurslóðum og Alkirkjuráðið.

Á síðastliðnu ári efndi þjóðkirkja Íslands í fyrsta sinni til svonefnds„Tímabils sköpunarverksins‘‘, Season of Creation, í kirkjunni að fyrirmynd kristinna kirkna og kirkjudeilda víða um heim. Þetta tímabil, sem hluti kirkjuársins, á uppruna sinn að rekja til rétttrúnaðarkirkjunnar og nær frá byrjun septembermánaðar fram til fyrstu daga októbermánaðar. Þá er, í boðskap kirknanna, Guði sérstaklega þakkað fyrir gjafir jarðar og uppskeru og gætt að hag og framgangi lífs og lífríkis.

Þjóðkirkjan hefur nú efnt í annað sinni til slíks tímabils sköpunarverksins og horfir til þess að gera það að föstum lið í boðun sinni og starfi. Sem táknmynd þess tók Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, upp haustuppskeru í grenndargörðunum Seljagarðs í Seljahverfi við fjölskyldustund þann 6. september sl. og undirritaði síðan áskorun um bann við notkun svartolíu í Norðurhöfum. Biskup hefur hvatt presta og söfnuði til að halda uppskerumessur og gefa góðan gaum að umhverfismálum, standa að viðburðum og verkum til umhverfisverndar, huga m.a. að endurheimt votlendis og skógrækt á kirkjujörðum. Kirkju- og safnaðarstarf um land allt hefur enda borið margvísleg merki„tímabilsins‘‘ og falið í sér gagnrýna ígrundun um umhverfismálin brýnu og hvatningu til siðbættra lífshátta. Umhverfisnefnd Þjóðkirkjunnar kynnti í byrjun„tímabilsins‘‘ vefinn; Græna kirkjan, og einnig bækling, sem hún gefur út undir heitinu„Græni söfnuðurinn okkar‘‘ og jafnframt sérstaka„Handbók um umhverfismál‘‘. Þar fá söfnuðir landsins verkfæri og bent er á leiðir til að vinna að umhverfisvernd í samræmi við nýja og framsækna umhverfisstefnu kirkjunnar sem samþykkt var á kirkjuþingi 2017.

Tímabil sköpunarverksins verður nú lengt líkt og í fyrra langt fram í októbermánuð. Því mun ljúka með því, að höfuðbiskupar evangelísku lútersku kirkna Norðurlanda koma saman í boði Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Ísland, til biskupafundar í húsakynnum Dómkirkjunnar í Reykjavík laugardagsmorguninn 20. okt. nk. − Antje Jackelén, erkibiskup Svíþjóðar, Tapio Luoma, erkibiskup Finna, Helga Haugland Byfuglien, höfuðbiskup Noregs og Jógvan Fríðriksson, Færeyjabiskup. – Peter Skov Jakobsen, höfuðbiskup dönsku Þjóðkirkjunnar á því miður ekki heimangengt. – Biskuparnir munu ráða ráðum sínum um viðbrögð við umhverfisháskanum og hvernig kristnar kirkjur og trúarsamfélög geti haft vekjandi áhrif til umhverfisverndar og hvatt til breytinga á framleiðslu- og lífsháttum til lífsbjargar.
Biskuparnir munu jafnframt sitja í pallborði á 6. Hringborði Norðurlóða, Arctic Circle Assembly, í ráðstefnu- og tónlistarmiðstöðinni, Hörpu, sunnudaginn 21. okt. nk. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og innanríkisráðherra mun stýra pallborðsumræðunum. Guðfræðistofnun, Guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands og Stofnun Sigurbjörns Einarssonar efna einnig til málstofu á Hringborðinu, síðdegis laugardaginn 20. okt. Þar verður fjallað um vonina á tímum afgerandi loftslagsbreytinga á Norðurslóðum.

Auk þess sem biskuparnir munu, sunnudaginn 21. okt., sitja í pallborði við Hringborð Norðurslóða, sækja þeir opinn fyrirlestur dr. Andrésar Arnalds í Hallgrímskirkju sem hefst kl. 09:30. Þeir munu síðan prédika í guðsþjónustum, sem hefjast kl. 11, í fjórum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu, Hallgrímskirkju, Kópavogskirkju, Vídalínskirkju í Garðabæ og Hafnarfjarðarkirkju. Guðsþjónustan í Hallgrímskirkju verður samkirkjuleg og mun biskup Íslands taka þátt í henni.

Dagskrá„tímabils sköpunarverksins‘‘ felur með þessum atriðum í sér rökrétt framhald á þeim merku umhverfisverndarviðburðum sem Þjóðkirkjan beitti sér fyrir á sama tíma árs í fyrra. Þá stóð hún ásamt Alkirkjuráðinu, World Council of Churches, að ráðstefnu um um„Réttlátan frið við jörðu‘‘ sem haldin var í Digraneskirkju og á Þingvöllum. Ráðstefna Alkirkjuráðsins tengdist sem aðfararatburður Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle Assembly ´17, sem haldið var í Hörpu og einnig víðar. Ráðstefnan var merkis kirkjusögulegur viðburður hér á landi. Af þessu tilefni kom höfuðsmaður rétttrúnaðarkirkjunnar, Bartólómeos I. patríarki og erkibiskup í Konstantínópel, Græni patríarkinn svonefndi, vegna eindreginnar afstöðu sinnar til umhverfisverndar, í opinbera heimsókn til landsins í boði Þjóðkirkjunnar, ríkisstjórnar og Hringborðsins ásamt fimm öðrum háttsettum forystumönnum kirkju sinnar. Patríarkinn flutti innihaldsríka lykilræðu, á Hringborðinu í þéttsetnu Silfurbergi Hörpu. Alkirkjuráðið stóð að tveimur málstofum á Hringborðinu, sem fóru fram í Safnahúsinu á Hverfisgötu. Fyrri málstofan fjallaði um trúarviðhorf frumbyggja sem gjöf til að umbreyta heimi. Síðara málþingið hafði að yfirskrift sinni:„Loftslagsréttlæti og þá siðferðilegu nauðsyn að bregðast við vandanum. Trúarleiðtogar í samræðu við vísinda- og ráðamenn.‘‘

Ráðstefna Alkirkjuráðsins hér á landi í fyrra um„Réttlátan frið við jörðu‘‘ náði glæstu hámarki sínu á Þingvöllum. Í helgistund á Lögbergi var ályktun ráðstefnunnar samþykkt eftir að ráðstefnufulltrúar höfðu skipst á að lesa upp kafla hennar. Frá Lögbergi var haldið í Þingvallakirkju til að undirrita ályktunina, Agnes, biskup, og Anders Wejryd, Evrópuforseti Alkirkjuráðsins og fyrrverandi erkibiskup Svía, fyrst og síðar aðrir þátttakendur. Ályktunin er innihaldsrík og gefur vel til kynna þau stefnumið sem mörkuð voru og horft var til á ráðstefnu Alkirkjuráðsins. Dagskráratriði og viðburðir – sem Þjóðkirkjan vinnur að og skipuleggur á„tímabili sköpunarverksins‘‘ á þessu minningarári um fullveldi íslenskrar þjóðar, 2018 – taka mið af ályktuninni. Farsæld þjóða og heims felst enda í því að huga og vinna að réttlæti og friði manna á meðal og við lífssköpun alla. Köllun kristinnar kirkju er sú að gera það í kjarki og kærleika skapandi og endurleysandi trúar í Frelsarans nafni.

Stefnt að réttlátum friði við jörðu: Ályktun ráðstefnu Alkirkjuráðsins um Frið við jörðu − haldin í Digraneskirkju Kópavogi og á Þingvöllum 11. – 13. október 2017

Jörðin og allt sem á henni er tilheyrir Guði (Slm 24.1). Þessi játning auðkennir abrahamísku trúarbrögðin sem og menningarhefðir frumbyggja víða um heim. Heilagur Frans frá Assisí tjáir þetta í lofgjörð sinni til Guðs með þakkarorðum sem hann beinir til „systur okkar, móður jarðar“; en nú „stynur hún“ (Róm 8.22) undan ofbeldinu sem hún er beitt, eins og við erum minnt á í umburðarbréfi Frans páfa, Laudato Si. Engu að síður, líkt og vísað er til í yfirlýsingu Alkirkjuráðsins um vegferð til réttláts friðar (Statement on the Way of Just Peace), væntum við kristnir menn, samkvæmt fyrirheiti Guðs, nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr (2Pét 3.13), fullvissir þess að hinn þríeini Guð fullkomni og uppfylli gervalla sköpunina við lok tímanna og líti á réttlæti og frið sem bæði von fyrir framtíðina og gjöf á líðandi stundu.

Eins og hans heilagleiki, samkirkjulegi patríarkinn Bartólómeus I. hefur ritað, á vistvandinn sér andlegar rætur. Arðrán og eyðilegging sköpunarinnar eru afmyndun og brenglun á eigindum kristninnar og engan veginn óhjákvæmileg afleiðing hinnar biblíulegu skipunar um að „fjölga og fylla“ (1Mós 1.22). Með því að saurga og eyðileggja umhverfið sem hverri kynslóð er treyst fyrir sem helgum arfi, er syndgað gegn Guði og náttúrunni. Sjálfbær þróun fær ekki þrifist án andlegra verðmæta og lífvænlegs umhverfis.

Þessi ráðstefna – sem Alkirkjuráðið stendur að, í boði íslensku Þjóðkirkjunnar, og haldin er í aðdraganda og tengslum við Hringborð Norðurslóða 2017 – hefur kannað viðbragðsáætlanir trúarsamfélaga til þess að vekja vitund um og stuðla að sjálfbærri framtíð. Líkt og Agnes M. Sigurðardóttir, biskup íslensku Þjóðkirkjunnar, hvatti til í opnunarávarpi sínu á ráðstefnunni, var „róttækt endurmat á gildi og kröfum kristinnar ráðsmennsku“ leiðarstefið í umræðum sem þar fóru fram.

Sem trúarleiðtogar og trúað fólk deilum við áhyggjum og sjónarmiðum með þeim stefnumótendum og hagsmunaaðilum sem koma saman til Hringborðs Norðurslóða (13.-15. október) og áformaðrar Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP 23) í Bonn í Þýskalandi (6.-17. nóvember), sem og með samfélagi kirkna um heim allan, þar sem kallað er í Krists nafni eftir nauðsynlegri stefnumörkun, aðgerðum og viðhorfsbreytingum til að vernda og varðveita umhverfi jarðarinnar, dýrmæta og lifandi sköpun Guðs, viðkvæm og fögur heimkynni mannkyns og alls lífs á jörðu
Framlag trúarsamfélaga: Umskipti til sjálfbærrar framtíðar.
Kirkjur og trúarsamfélög hafa engu síður en aðrir samfélagshópar valdið tjóni á lífríkinu. En mannkynssagan sýnir einnig hversu öflug trúarbrögð geta reynst við að glæða lífsviðhorf sem leiða til gjörtækra breytinga á samfélögum, stjórnmálum og menningu. Trúfélög geta verið máttugir aflvakar farsælla breytinga. Samkirkjuhreyfingin og trúarleiðtogar hafa gegnt lykilhlutverki við að halda fram kröfum um sjálfbæra þróun og „loftslagsréttlæti“ bæði á alþjóðavettvangi og í einstökum löndum. Horft er nú til þess að hagnýta umbreytandi kraft trúarinnar til þess að stuðla að þeim félagslegu, efnahagslegu, menningarlegu og atferlisbundnu umskiptum sem sem þörf er á til að bregðast við ógnum loftslagsbreytinga og gera sjálfbærni að raunsönnum veruleika.
Við hvetjum kirkjur til að nýta sér sitt eigið tungutak, ekta biblíumál og kirkjuhefðir til að auka umhverfisvitund, hvetja til aðgerða og auka sjálfbærni í kirkju og samfélagi. Við hvetjum kirkjur til virkrar þátttöku við að koma á og efla sjálfbæra lífshætti á öllum sviðum, á þjóðfélags vísu og eins í hverjum söfnuði. Og við fögnum því að kirkjur og og kirkjulegar stofnanir ákveði að beina fjárfestingum sínum frá óvistvænum og ósjálfbærum iðnaði.

Sé horft til þess hvað samtök okkar kristinna manna eru víðtæk innan þjóðlanda og á heimsvísu felast fjölmörg tækifæri í nettengslum okkar og samskiptum við samskiptaaðila innan annarra trúarbragða. Við ættum að nýta allar tiltækar leiðir, þar á meðal samskiptagetu okkar bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, til að virkja þessa kosti.
Við þurfum einnig að hagnýta og fylgja þeim farvegum og skuldbindingum sem samið hefur verið um á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og glæða vilja stjórnmálamanna til að virða og standa við þær skuldbindingar er gerðar hafa verið. Þar má nefna, Aðgerðaáætlunina 2030 (Agenda 2030), og Markmið um sjálfbæra þróun, og einnig Parísarsáttmálann um loftslagsbreytingar. Með því móti fá rödd og sjónarmið trúar og siðferðis haft sín áhrif á framþróunina. Enn meiru varðar að trúin sýni sig í því að andmæla rótgrónu siðleysi þeirra lífshátta og hagkerfa sem byggjast á yfirtöku og eigingjarnri misþyrmingu á náttúru og fólki, og skeytingarleysi gagnvart því ranglæti sem af hlýst og umhverfisspjöllum.

Við minnum jafnframt á þau órjúfanlegu tengsl sem liggja milli friðar við jörðu og friðar á jörðu og höfnum brjálæði síaukinnar eyðslu til hergagnaframleiðslu og viðvarandi tiltrú á kjarnavopnum. Við fögnum sáttmálanum um bann við kjarnavopnum og teljum hann vera mikilvægt framlag til að vernda umhverfi, mannlegt líf og samfélög.
Lærdómsrík lífsviðhorf frumbyggja Frumbyggjar þurfa að taki þátt í öllu samráðsferlinu vegna loftslagsbreytinganna. Frumbyggjar valda ekki vandanum en kunna fremur ráð við honum, sem framverðir móður jarðar og gervallrar sköpunar í allra þágu. Frumbyggjar búa að reynslu, visku og frásögnum sem geta gagnast vel til viðbragða við loftslagsbreytingum. Við höfnum þöglu samþykki við því að líf sumra manna tapist, heimili, lönd og lífshættir og þ.a.l. glatist veruhættir og sjálfsmyndir jafnframt því sem einhverjir aðrir hagnist á loftslagsbreytingunum. Ekki er hægt að fallast á að fólk flytjist nauðugt frá (norður)pólsvæðum og eyjaheimkynnum og týni sjálfsmynd sinni.

Loftslagsbreytingar valda tjóni og eyðileggingu sem ekki verða reiknuð í hagtölum (Non-economic loss and damage, NELD) en hafa mikil áhrif á líf frumbyggja og valda þeim áhyggjum. Í allri umræðu um ákvarðanir í loftslagsmálum ber að taka tillit til slíkra áhrifa á líf frumbyggja.

Við hvetjum til þess að viska frumbyggja sé virt enda búi þeir að fornri og djúpstæðri þekkingargeymd á umhverfi sínu sem er heimkynni forfeðra þeirra. Slík lífsviðhorf og viska miða að þeirri farsæld allrar lífssköpunar, sem bæði jörð og alheimur hafa ætlað komandi kynslóðum.

Við viljum ásamt öðrum hagsmunaaðilum útbreiða samþykki og virðingu fyrir og innleiðingu sáttmála og samkomulags og annarra uppbyggilegra þátta sem eindregið stuðli að því, að konur, ungmenni, frumbyggjar og allir þjóðflokkar geti átt sér framtíð. Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja (UN Declaration on the Rights of Indigenous Persons) og Ályktun Heimsþings um málefni frumbyggja frá árinu 2015 (2015 World Conference on Indigenous Peoples Outcome Document) eru mikilvæg umgjörð og leiðarvísir til aðgerða vegna áhrifa loftslagsbreytinga og hagsmuna frumbyggja.
Þörf er á haldbærum áætlunum um samstarfsaðgerðir. Við viljum leggja til auðlindir okkar, þar með talið hugsjónir og drauma, vonir, kærleika, trú og frásagnir, sem hafa gildi fyrir málstaðinn. Hryggðin sem grípur okkur [vegna ástandsins] er líka auðlind, en þó ekki það eina sem við getum látið í té á þessari háskatíð.
Viðbrögð við ógn hnattrænnar hlýnunar sem steðjar að íbúum eyja á Kyrrahafi og Atlantshafi.

Eyjasamfélög – hvort sem eru á heimskautasvæðum, í Kyrrahafi eða eins og fram hefur komið nýverið og hryggilega í Karíbahafinu – líða hvað mest fyrir áhrif þegar framkominna loftslagsbreytinga og eru hvað viðkvæmust fyrir auknum breytingum. Áætluð hækkun á hitastigi á heimskautasvæðum er tvöfalt hærri en hnattrænt meðaltal. Og ísinn sem bráðnar á Norðurheimskautinu hefur beinar afleiðingar fyrir smá og láglend eyríki eins og Kíríbatí í Kyrrahafi, en hækkandi sjávarborð vegur þegar að framtíð og tilvist þess. Uppflosnun fólks og hverfandi strandlengjur, landrýrnun og fækkun vatnsbóla eru þar þegar veruleg og vaxandi ógn.

Við köllum eftir brýnum hnattrænum viðbrögðum við þeim háska sem steðjar að smáum eyríkjum á þessum svæðum af hækkandi sjávarborði. Við hvetjum eyþjóðir í hættu til að taka saman höndum og styðja hver aðra, siðferðilega, menningarlega, fjárhagslega og með því að miðla hver annarri reynslu sinni [og þekkingu] til að bregðast við háska framtíðar.
Við förum fram á að alþjóðastofnanir og ríkisstjórnir miðli eyríkjum í háska öllum tiltækum upplýsingum og tækniþekkingu til að liðsinna íbúum þeirra við að bregðast við loftslagsbreytingunum, draga úr núverandi áhættu og aðlagast þeim válegu aðstæðum sem orðnar eru – þ.á.m. með opinberum fræðslu- og færnisaukandi verkefnum.
Jafnframt hvetjum við kirkjusamfélög til að beita sínu eigin málfari og helgisiðum til að blessa vötnin – ár, stöðuvötn og höf – sem andlegt tákn um hve áríðandi sé að vernda hið náttúrulega umhverfi og lífið allt sem því er háð.

Ákall
Í samantekt að loknum umræðum okkar og umfjöllun, umþenkingum og bænastundum, er við horfum til væntanlegra funda ráðamanna og hagsmunaaðila á Hringborði Norðurslóða, 2017, og ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Cop 23) sem og annars staðar, köllum við eftir:
• Áríðandi, samstilltum og skjótum aðgerðum ríkisstjórna, einkafyrirtækja, samfélaga og einstaklinga til að draga úr loftslagsbreytingum, minnka losun gróðurhúsalofttegunda og ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Og viðurkenna með því hve svigrúmið er takmarkað og minnkandi til að geta náð því að hitastig jarðar hækki ekki umfram 2°.
• Vitundarvakningu einstaklinga og samfélaga um ábyrgð sína og hlutdeild – þ.m. töldum Sameinuðu þjóðunum og ríkisstjórnum – í því að bregðast við þeim áskorunum sem felast í loftslagsbreytingunum.
• Virkri þátttöku trúfélaga og trúarleiðtoga í þessu verkefni, á alþjóðavettvangi, innanlands og á hverjum stað, sem lykil áhrifavalda og uppsprettulindir félagslegs auðs og máttar til að valda umskiptum frá ósjálfbærum viðhorfum og hátterni til heildrænnar sýnar er horfi til sjálfbærrar framtíðar.
• Að frumbyggjar taki þátt í öllu samráðsferlinu um loftslagsbreytingar í samræmi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja og Ályktun Heimsþings um frumbyggjasamfélög frá árin 2015.

Í Opinberunarbók Jóhannesar (22.2) er þeirri sýn brugðið á loft um að mannlegt líf blómgist og dafni, sem Ráðstefnan aðhyllist: „Beggja vegna móðunnar var lífsins tré sem ber tólf sinnum ávöxt. Í hverjum mánuði ber það ávöxt sinn. Blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“
Endurnýjum og helgum tengsl okkar við náttúruna til líknar þjóðum og heimi.
Samþykkt á Lögbergi, Þingvöllum 13. október 2017

Þýð. Haraldur Hreinsson og Gunnþór Þ. Ingason

Grein sem mun birtast örlítið breytt í tímaritinu Bjarma, 2. tbl. 2018

Gunnþór Þ. Ingason · 15. október 2018

Prédikun dr. David Hamid, biskups í Dómkirkjunni í Reykjavík

Prédikun dr. David Hamid, biskups í Evrópubiskupsdæmi Ensku biskupakirkjunnar, sunnudaginn 16. september 2018 í Dómkirkjunni í Reykjavík.
Messa í tengslum við héraðsfund Ensku biskupakirkjunnar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum haldinn dagana 13.-16. september 2018 í Dómkirkjunni í Reykjavík og í safnaðarheimili Dómkirkjunnar.

Ritningarlestrar: Jesaja 50: 4-9a og Jakob 3: 1-12
Guðspjall: Markús 8: 27-38

Um þessar mundir sýnir Breska sjónvarpið (BBC) feikilega vinsælan þátt sem ber heitið „Hver heldurðu að þú sért?“ (Who do you think you are?). Þessi þáttur dregur milljónir áhorfenda að skjánum í viku hverri. Í þáttunum er það fræga fólkið í Bretlandi sem leitar uppruna síns, eins og popparinn Boy George, rithöfundurinn JK Rowling eða leikarinn Patrick Stewart. Þátturinn gengur út á það að þátttakendur láta rekja ættir sínar aftur í aldir. Ýmislegt óvænt kemur í ljós eins og löngu gleymd leyndarmál. Þátturinn hefur notið það mikilla vinsælda að sjónvarpsstöðvar í Kanada, Bandaríkjunum, Póllandi, Portúgal og Ástralíu hafa fengið að nota hugmyndina í sínum löndum. Á Íslandi yrðu þessir þættir síður en svo spennandi, vegna þess að hér er svo auðvelt að rekja ættir sínar. Sérhver Íslendingur getur farið inn á Íslendingabók til þess að fá þessar upplýsingar. Svo er sagt að allir Íslendingar séu hvort sem er afkomendur Jóns biskups Arasonar sem var uppi á 16. öld, og konu hans Helgu Sigurðardóttur.

Spurningin„Hver heldurðu að þú sért?“ er ekki ósvipuð spurningunni í guðspjalli dagsins. Jesús spyr lærisveina sína:„Hvern segja menn mig vera? Þeir svöruðu honum: Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir einn af spámönnunum.“ Jesús endurtekur spurninguna og spyr lærisveinana:„En þið, hvern segið þið mig vera?“ Pétur réttir fyrstur upp hönd eins og áhugasamt barn í skólastofu, sem þykist vita svarið og segir fullur sjálfstrausts:„Þú ert Kristur.“

En síðan snýst atburðarásin í óvænta átt. Jesús kennir að Kristur (Messías) eigi margt að líða. Öldungarnir, æðstu prestarnir og fræðimennirnir munu útskúfa honum. Menn munu lífláta hann og hann muni upp rísa eftir þrjá daga. Þetta var aðeins of mikið fyrir Pétur. Það gæti ekki verið satt að Messías, Kristur sjálfur, myndi þjást og deyja. Þetta var eitthvað sem fólk átti ekki von á. Í huga Péturs var Messías sá sem kæmist hjá þjáningunni. Þannig að líðandi Messías var eitthvað sem gekk ekki upp í huga Péturs. Þess vegna tók hann Jesú á eintal og fór að átelja hann.

Vinir, þegar við lesum um einhvern í guðspjöllunum sem ögrar Jesú með orðum sínum, vitum við að sá hinn sami er kominn í ógöngur. Auðvitað snýr Jesús sér við og ávítar Pétur með skelfilegum orðum og segir:„Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Þetta er hörð ræða. Pétur var prinsinn í postulahópnum. Drottinn og frelsarinn kallar hann Satan. Þvílíkt áfall.

Þessi harða ræða Jesú er varðveitt í guðspjallinu vegna þess hversu mikilvæg hún er. Við erum rétt eins Pétur alltaf að streða við það að skilja hver þessi Messías er. Við getum misskilið hann og komist að rangri niðurstöðu. Gildran sem Pétur féll í og kirkjan getur fallið í er eftirfarandi: Við, lærisveinar Drottins Jesú, gætum gert þau mistök, að halda það að eftirfylgdin við Jesú væri auðveld og full dýrðar. En kæru bræður og systur, þannig er hún ekki. Að vera lærisveinn Jesú felur í sér að fylgja honum á leið hans til Jerúsalem, þar sem hann fórnaði lífi sínu. Á þeirri leið tók hann upp krossinn sem hann leið á, menn höfnuðu honum og deyddu hann. Þegar við tökum afstöðu með Kristi og verðum lærisveinar hans getum við ekki forðast krossinn. Jesús sagði, að þjáningin yrði fylgikona lærisveina sinna. Hann fullyrti að ýmsir erfiðleikar, afneitun og niðurlæging myndu mæta lærisveinum sínum.

Nú leitar sjálfsagt á huga ykkar spurningin:„Hvers konar boðskapur er þetta?“ Hvernig getum við búist við því að fólk laðist að svona boðskap yfirleitt? Fólk álítur að trúin eigi að vernda okkur fyrir þjáningunni og færa okkur hamingju og heppni. Upp í hugann koma knattspyrnumenn sem signa sig áður en þeir fara út á völlinn.

Þessi orð Jesú um þjáningu, kross og að týna lífi eru ekki heppileg slagorð til þess að laða fólk að kirkjunni og stuðla að frekari vexti hennar. Segjum sem svo að mögulega nýtt safnaðarfólk leggi spurningu fyrir prestinn og segi:„Segðu okkur frá kirkjunni. Við erum að velta þeim möguleika fyrir okkur að ganga í söfnuðinn.“ Það sem liggur að baki þessari spurningu er áhugi fólksins á safnaðarstarfinu: Fræðslu, tónlist, sunnudagaskóla og æskulýðsfélagi. Hugsiði ykkur ef presturinn myndi svara á þá leið að kirkjustarfið væri frábært. Hann segði að ef þau myndu ganga í söfnuðinn myndu þau týna lífi sínu. En að vera lærisveinn Jesú og verða virkur í starfi kirkjunnar er ekkert líkt því að fara í ræktina, þar sem maður skoðar þau tæki sem eru í boði. Það sem felst í því að fylgja Jesú er að láta eigin hagsmuni lönd og leið og gefast honum algjörlega. Að prédika leið Krists tryggir ekki fulla kirkju á sunnudagsmorgni.

Sannleikurinn er sá, að við fylgjum krossfestum Kristi. Hann sýnir okkur hið sanna eðli Guðs. Og það sanna eðli Guðs birtist í því að hann svipti sig öllu og tók á sig þjóns mynd. Hann varð þannig brothættur og mannlegur eins og við. Guð sýnir okkur hið sanna eðli sitt með því að ganga veg krossins, þjást og deyja fyrir okkur öll. Sá Messías sem við fylgjum var særður, rúnum ristur og er krossfestur frelsari. Þetta er ekki sá boðskapur sem nútíminn lætur heillast af.
Þetta stóra tákn, krossinn, hefur týnt hluta af kröftugri merkingu sinni. Ég var í Flórens í júní á þessu ári, þar sem ég vísiteraði einn af söfnuðum okkar. Ég gekk yfir Vecchiobrúna (Ponte Vecchio) sem er frá miðöldum. Allt frá árinu 1560 hafa gull- og silfursmiðir haft verslanir sínar á brúnni. Búðargluggarnir glitra með öllum sínum fögru gull- og silfurkrossum, sumir settir demöntum, rúbínum og safírsteinum. Krossar eru tískuvara, ímynd þess sem er„fínt og flott.“
Auðvitað bera biskupar gyllta biskupskrossa, en ekki sem eitthvert tískuskart. Við berum þá næst ölbunni sem telst til hvítra skírnarklæða. Slíkt minnir okkur á að í kjölfar skírnarinnar fylgjum við honum sem var negldur á kross, þjáðist og dó.

Heimurinn þarfnast þessa erfiða og„gagnmenningarlega“ boðskapar nú sem aldrei fyrr. Veraldleg menning flæðir yfir líf kristins fólks og tilbeiðslu. Þegar fólk kemur í messu hefur það oft á tíðum þær fyrirfram væntingar að það muni öðlast góða reynslu, með trúarlegri skemmtun í bland og líði vel þegar heim er komið. Auðvitað verðum við að bjóða upp á helgihald sem stuðlar að þátttöku fólks og laðar það að, en kirkjan getur ekki byggt á einhverri góðri reynslu og gert hana að kjarnanum í boðskap sínum. Munum að helgihald okkar hefst ávallt og lýkur með krossmarkinu. Það er hinn stórkostlegi, frelsandi kross Krists, sem er gjöfin stóra sem kirkjan boðar heiminum. Guð okkar, Jesús Kristur, Sonur Guðs, er Messías sem leið okkar vegna. Hann býðst til að lækna sárin og veita huggun. Dietrich Bonhoeffer, hinn kunni prestur, guðfræðingur og píslarvottur, sem lét lífið í landi nasismans, skrifaði eitt sinn:„Sá Guð sem líður getur einn veitt okkur hjálp.“

Kirkjan er óra langt frá því að vera eins og Kringlan þar sem við förum inn til þess að velja vörur sem okkur vanhagar um eða líkar við. Kirkjan er aftur á móti útvörður boðunar. Þaðan höldum við af stað út í lífið til að þjóna í nafni hins krossfesta Krists sem er til staðar í bræðrum okkar og systrum. Króatískur guðfræðingur, Miroslav Volf, hefur skrifað bók sem heitir„Ókeypis.“ Hann segir:„Á sama hátt og Guð var á leyndardómsfullan hátt í hinum krossfesta, er hann einnig hjá þeim sem líður. Hann heyrir hvern andardrátt, þerrar hvert tár og finnur til með þeim sem koma titrandi með tóma hönd.“

Frans páfi hefur lýst kirkjunni sem sjúkraskýli á vígvelli, líkt og því sem sjá má í bandarísku sjónvarpsþáttunum MASH frá 8. áratugnum. Sem kirkjufólk erum við líkami hans sem þjáðist, var dæmdur og krossfestur. Og sá Kristur hefur úthellt náð sinni yfir okkur, gefið okkur gjafir, sérstaka hæfileika, og hugsunina um að taka utan um þá sem hafa kramið hjarta. Frans páfi hefur einnig minnt okkur á þá staðreynd, að í sjúkraskýlinu á vígvellinum spyr maður ekki þá sem sem eru lífshættulega slasaðir um gildi kólesterols eða sykurs í blóði þeirra. Annað skiptir meira máli. Á sama hátt getum við sagt að kirkjan eigi ekki í boðun sinni að vera velta sér upp úr einhverjum smáatriðum. Mætti þar nefna mistök fólks, mismunandi bakgrunn, kynhneigð og jafnvel efa og spurningar. Við þurfum að ganga beint til verks og lækna djúpu sárin í lífi fólks og móður jarðar. Djúpu sárin ógna því lífi sem Guð hefur skapað.

Kristur er sá sem dó á krossi til lausnargjalds fyrir okkur öll. Enginn er skilinn útundan. Við vitum þetta vegna þess að Biblían segir okkur að Guð heyri grát þeirra sem höllum fæti standa í heiminum, hinna fátæku, munaðarlausu, ekkna, utangarðsmanna og innflytjenda. Við lesum um það í Biblíunni hvernig Guð kom inn í mannleg kjör sem varnarlaust barn. Hann fæddist meðal heimilislausra. Hann lifði sem flóttamaður í Egyptalandi. Hann hafði samskipti við dreggjar samfélagsins, portkonur og syndara. Hann var jafnvel tekinn af lífi eins og ótíndur glæpamaður og var lagður í gröf annars manns. Köllun okkar kristinna manna er að hefja krossa heimsins á loft, taka okkur stöðu við hlið þeirra sem þarfnast hjálpar, hinna fátæku, kúguðu, særðu, ofsóttu og þeirra sem heimurinn hefur dæmt til dauða. Þetta er köllun Guðs, leið Guðs. Kirkjan á tilverurétt sinn vegna þessarar köllunar og ber því að vinna með Guði að framgangi hennar.
Í Bandaríkjunum er býsna algengt meðal safnaða að setja upp ljósum prýdd skilti fyrir utan kirkjur sínar til þess að auglýsa messur og bjóða fólk velkomið. Það var ljósaskilti fyrir utan eina kirkjuna sem á stóð:„Láttu ekki áhyggjurnar drepa þig, leyfðu kirkjunni að hjálpa þér.“ Vinir! Það er heilmikill sannleikur í þessari óvenjulegu og fyndnu setningu. Munum eftir því að við verðum meðlimir kirkjunnar vegna skírnarinnar. En skírnin er ákveðin drekking. Hún er dauði þegar við erum færð í kaf og vatnið umlykur okkur.

Munum eftir því að við lifum handan krossins, á öðrum stað en Pétur, sem sagt er frá guðspjalli dagsins. Jesús sagði við Pétur að honum yrði hafnað, hann myndi þjást og deyja…en á þriðja degi myndi hann upp rísa. Við vitum að Messías er sá sem er máttvana, niðurlægður og krossfestur. En við vitum jafnframt að hann er hinn upprisni. Vegur krossins liggur í gegnum hlið dauðans og þaðan til upprisunnar. Sama má segja um leiðina frá drukknun skírnarinnar til altarisgöngunnar og þaðan til veislunnar miklu á himnum.

Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir hann á neinn hátt eða vera í einhverjum vafa að fylgja honum. Við hefjum á loft kross okkar með honum sem hékk á krossi. Við sláumst í för með honum og verðum hluttakendur í dýrð Föðurins ásamt öllum heilögum og englum himnanna. Sá sem kallar okkur til þess að taka upp kross okkar gengur með okkur að krossinum. Þeirri trúargöngu lýkur ekki með krossfestingu heldur upprisu. Leið Jesú endar ekki í dauða. Hún liggur inn í ríki sigursins, þar sem hinn upprisni Kristur ríkir yfir allri sköpun.

Vinir, þetta er hinn dýrðlegi sannleikur guðspjallsins.

David Hamid · 4. október 2018

Rekstrarform prestsembætta

Í starfsreglum þjóðkirkjunnar er kveðið á um greiðslur til presta og prófasta vegna rekstrarkostnaðar embætta þeirra. Reglurnar eru nr. 819/1999 með síðari breytingum. Um er að ræða kostnað sem skiptist í aksturs, skrifstofu, póst, síma og fatakostnað. Fjárhæðir taka mið af fjölda íbúa í hverju prestakalli auk sérstakrar álagsgreiðslu til prófasta og til presta erlendis. Akstursgreiðslur skiptast niður eftir því hvernig prestakall er samansett landfræðilega. Biskupsstofa skal útvega prestum hempu og kraga auk þess sem greiddur er kostnaður vegna búferlaflutninga þegar svo ber undir. Loks er greiddur ferðakostnaður vegna prestastefnu og vegna starfa í fastanefndum kirkjunnar.

Ár hvert skal ríkið greiða ákveðna fjárhæð til kirkjunnar til reksturs prestsembætta sem verðbætist árlega sbr. 3. gr. í samningi ríkis og kirkju frá 4. september 1998, um rekstrarkostnað o.fl. vegna prestsembætta og prófasta. Kirkjuþing skal setja reglur um nánari útfærslu og ráðstöfun fjárins.

Við blasir og er óumdeilt að því fylgir kostnaður að reka prestsembætti og er þjóðkirkjunni í sjálfsvald sett að ákveða form og ráðstöfun. Það virðist þó alveg hafa gleymst við málsmeðferð Kirkjuþings að taka afstöðu með formlegum hætti til þess í hvaða formi eða með hvaða hætti prestsembætti skuli vera rekin.

Núverandi fyrirkomulag er að hvert og eitt prestsembætti er rekið á einstaklingskennitölu hvers prests. Ekki er kveðið á um hvernig prestembætti skuli vera rekin á neinum stað í lögum, reglugerð eða starfsreglum kirkjunnar. Embættiskostnaður er því greiddur með launum presta til þeirra mánaðarlega, sundurliðaður á launaseðlum þeirra og launamiðum í lok árs.

Þetta fyrirkomulag kann að hafa einhverja kosti en vankantarnir eru umtalsverðir. Í því felst að opinber embætti eru rekin á kennitölu einstaklinga en ekki lögaðila eins og eðlilegt væri. Blandast þannig saman bókhald einstaklings við rekstur opinbers embættis. Þetta fyrirkomulag er óheppilegt. Að auki kemur þetta rekstrarfyrirkomulag í veg fyrir að þeir fjármunir sem prestum eru greiddir til reksturs sinna embætta séu nýttir með sem hagkvæmustum hætti eins og skylt er við meðferð opinbers fjár. Það rekstrarform sem embættin eru klædd í býr að auki til þversögn milli reglna og framkvæmdar þar sem með þessu er prestum gert ómögulegt að gæta ýtrustu hagkvæmni við rekstur embættisins eins og 3. mgr. 3. gr starfsreglna um presta nr. 1110/2011 kveður á um. Til þess að fjármunirnir geti nýst sem best þyrftu prestsembætti að geta nýtt sér svonefnda rammasamninga Ríkiskaupa en það er einvörðungu hægt með rekstri lögaðila. Einstaklingskennitölur falla augljóslega ekki undir þann flokk.

Hér gætir ósamræmis við annan rekstur innan þjóðkirkjunnar þar sem t.d. Kirkjumálasjóður ásamt öðrum sjóðum, Biskupsstofa, prófastsdæmi og héraðsssjóðir auk allra sókna kirkjunnar eru reknar hver og ein sem sjálfstæðir lögaðilar með eigin kennitölu. Þessir aðilar hafa því tækifæri til þess að ráðstafa þeim fjármunum sem þeim er úthlutað með sem hagkvæmustum hætti sem mögulegur er.

Af því sem að framan greinir er ljóst að endurskoðunar og samræmingar er þörf á umgjörð og umfangi prestsembætta ásamt greiningu á þörfum á hverjum og einum stað svo fjármunum sé ráðstafað með sem hagkvæmustum hætti á hverjum tíma.

Höfundur er kjaramálafulltrúi Prestafélags Íslands.

Páll Ágúst Ólafsson · 5. september 2018

Reynsla djákna

Stundum held ég að djáknar séu goðsögn ein.

Flest þeirra sem eru starfandi djáknar leggja mikla alúð í þau verkefni sem þeim eru falin og sinna þeim í kærleik og af trúmennsku. En það er hljótt um þetta góða starf. Það á við á Íslandi sem og í Þýskalandi. Þannig gagngrýndi Thomas Zippert djákna í Þýskalandi í grein fyrir nokkrum árum. Að hans mati er ein af ástæðum þess að djáknastarfið fær ekki þann framgang sem það á skilið sú að djáknum hafi ekki tekist að birta fræðilegar greinar um inntak þeirrar kærleiks- eða líknarþjónustu (díakoníu) sem þeir sinna.

Það sem mér þykir merkilegt við þennan samanburð eða öllu heldur gagnrýni Zippert er að hún er sett fram af skólastjóra menntastofnunar sem sérhæfir sig í menntun djákna í landi þar sem störf þeirra innan kirkju og utan eiga sér 150 ára sögu. Því þykir mér skiljanlegt að ég upplifi það sama hér heima á Fróni þar sem saga starfandi djákna innan þjóðkirkjunnar er mjög ung.

Þegar starfsumhverfi djákna er skoðað nánar kemur í ljós að aðeins í undantekningartilfellum geta þeir sótt um launuð námsleyfi eða tekið sér tíma frá starfi sínu til þess að sinna símenntun og fræðistörfum. Með öðrum orðum: Djáknar þurfa að stela tíma frá eigin fjölskyldu eða nýta eigin hvíldartíma til þess að geta sinnt því sem ég myndi kjósa að kalla „rannsóknarskyldu djákna“.

Faglegt starf verður ekki til í tómarúmi. Með aukinni sérhæfingu vex þörfin fyrir faglegri ígrundun á hverju því skrefi sem djákninn tekur. Þróa þarf gæðastaðla, aðlaga starfið að aðstæðum og þörfum skjólstæðinga í samræmi við markmið díakoníunnar og þeirrar stofnunar eða safnaðar sem starfið fer fram í. Æskilegt væri að hver sókn setti sér díakonísk markmið og kæmi þannig orðum að því hvernig söfnuðurinn vill taka á kærleiks- og líknarþjónustumálum á eigin starfsvettvangi.

Á síðasta ári birtist áhugaverð grein í Tímariti Hjúkrunarfræðinga sem ber titilinn „Vellíðan skjólstæðinga og starfsfólks á hjúkrunarheimili með trúarlegri aðstoð“. Höfundar greinarinnar eru tveir, þau Jón Jóhannsson djákni og Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri á Sóltúni. Greinin er gott dæmi um það hvernig djáknar geta komið faglegum sjónarmiðum um starf díakoníunnar á framfæri. Greinin er aðgengileg á netinu undir vefslóðinni: http://hdl.handle.net/2336/620390.

Ég leyfi mér að gera hluta af lokaorðum þessarar greinar að eigin lokaorðum: „Verkefni allra starfsmanna er að skapa umhyggjusamt, gefandi og uppbyggilegt andrúmsloft og við notum mátt tjáningarinnar til þess. Ef við hugsum okkur tjáningu sem tónlist má segja að við séum hvert og eitt strengur í hljóðfæri eða rödd í kór.“

Pétur Björgvin Þorsteinsson · 28. ágúst 2018

Leikgleði

Þýsk stúlka sem aðstoðaði nýverið í sumarbúðum hér heima á Íslandi veitti því eftirtekt að krakkarnir höfðu meiri tíma fyrir frjálsan leik heldur en í þeim sumarbúðum sem hún þekkir til í Þýskalandi. „Og þau fóru bara í allar áttir að leika“ sagði hún hálf hissa við mig.

Þó þetta sé ekki algildur munur á sumarbúðastarfi í löndunum tveimur, þá vöktu orð hennar mig til umhugsunar um hversu dýrmæt leikgleðin er. Sérílagi sú leikgleði sem felur í sér spunann sem verður til í frjálsum leik. Og ég veiti því eftirtekt að sum okkar sem teljum okkur fullorðin höfum fjarlægst þessa leikgleði, týnt henni eða þorum ekki að viðurkenna það gagnvart sjálfum okkur eða öðrum að okkur langi (enn) til að leika okkur.

Ég veitti því líka eftirtekt að hún tók sérstaklega fram að krakkarnir fóru í allar áttir. Úr stórum hópi barna urðu margir litlir hópar og sum kusu að leika sér ein. Fyrir þeim sem starfa á leikskólum eða í öðru samhengi með (yngri) börnum eru þetta örugglega engin ný sannindi. Samt er vert og rétt að nema staðar um stund og velta þessu fyrir sér. Hvernig er þetta í kirkjustarfinu, spyr ég mig.
Þegar ég byrjaði að mæta í sunnudagaskóla fyrir tæpri hálfri öld var oft boðið upp á leiki og ekki man ég betur en að við hefðum öll glaðst yfir því að vera með í einum og sama leiknum. Það sama var upp á teningnum þegar ég var sjálfur farinn að aðstoða í sunnudagaskólanum í Glerárskóla. Stundum voru 300 manns mætt og á góðum degi lítið mál að bjóða upp á leik sem ungir og aldnir voru til í að taka þátt í. Í starfi mínu með æskulýðsfélögum, fermingarbarnahópum og í öðru samhengi hefi ég notað mikið af leikjum og þótt gaman af. En rétt eins og matarvenjur breytast með nýjum kynslóðum, þá breytist áhuginn og leikgleðin hliðrast yfir á ný svið.

Samhliða fjölbreytni áhugamála og margbreytileika í samfélaginu almennt tekur leikgleðin á sig nýjar myndir. Þótt þörfin fyrir hinn frjálsa leik og leiki almennt sé sem fyrr til staðar (og jafnvel nauðsynlegri nú en oft áður) þá fæ ég ekki betur séð en hér hafi orðið breyting á, sem við sem störfum í barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar þurfum að bregðast við. Þannig þarf ég, sem er forfallinn aðdáandi að stólaleikjum þar sem allur hópurinn situr í hring og allir taka þátt, að læra að það hentar sífellt færri hópum. Vissulega er hægt með hressileika og myndugri hópstjórn að hrífa stóran hóp fermingarbarna með í slíkan leik. En af er sem áður var: Alla jafna eru þau ekki mörg úr hópnum sem betla um að fá að fara í sama leik aftur.

Ef til vill má orða það svo að árið 2018 séu börn og unglingar vel í stakk búin til að kunna að velja og hafna og séu sér meðvituð um að einstaklingurinn þarf ekki að velja eins og hópurinn velur, að hin unga manneskja má hafa eigin skoðun, eigið val. Ef svo er, þá ber að fagna því og vonandi er það tilfellið í öllu því samhengi sem börn og unglingar hrærast í. Mér virðist sem slíkur andi svífi að minnsta kosti yfir vötnunum þegar kemur að því að bjóða barna- og ungmennahópum að taka þátt í dagskrá þar sem leikir eru í fyrirrúmi. Og hvað þýðir það fyrir leikjadagskrána?

Að mínu mati bíður okkar sem störfum í barna- og unglingastarfi kirkjunnar það verkefni að leita nýrra leiða til þess að leikgleði okkar sem og þátttakendanna allra fái notið sín. Og hver veit nema að þá gleði sé að finna í fjölbreytileikanum? Til dæmis að við bjóðum upp á fjögur leikhorn samtímis fyrir TTT-hópinn í stað þess að fara í einn „stóran“ leik. Skoðum málið. Eflum leikgleðina. Deilum reynslusögum! Tækifærin eru fjölmörg! Og gleymum því ekki að frjáls leikur getur verið dýrmætari fyrir barnið eða unglinginn heldur en allir leikir sem okkur dettur í hug að „bjóða uppá“.

Pétur Björgvin Þorsteinsson · 23. ágúst 2018

Gorgeuos Grandma Day

Sérstakur ömmudagur er haldinn hátíðlegur víða í Bretlandi í dag, 23. júlí eins og ár hvert. Svipað er uppi á teningnum þann 14. október er sérstakur ömmudagur haldinn hátíðlegur í Bæjarahéraði í Þýskalandi og í nóvember afa og ömmudagur. Við hliðina á degi aldraðra sem þjóðkirkjan stendur svo sómasamlega fyrir, væri flott að kirkjan hefði framgöngu um ömmu og afadaga á Íslandi.

Nýverið voru ömmur mér ofarlega í huga og þá varð eftirfarandi pistill til sem birtist í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „Hefur þú faðmað ofurhetju?“

Sjaldan heyrum við fólk greina frá því opinberlega að ofurhetjur gegni mikilvægu hlutverki í lífi þeirra. Sumir halda því fram að ofurhetjur séu ósýnilegar. Til eru þeir sem segja að ofurhetjur séu aðeins til í þjóðsögum og ævintýrum. Ofurhetjur verða til í menningu hvers tíma en búa yfir skilningi sem virðist yfir öll landamæri hafinn. Á Íslandi eru þessar verur gæddar hæfileikum sem annars þekkjast bara í álfa- og hulduheimum. Þegar þessar ofurhetjur láta til skarar skríða virðast jötnar, tröll og helstu skrímsli skreppa saman og máttur þeirra dvína. Þekktustu verkfæri umræddra ofurhetja eru seigla og þrái. Seiglan smyr innviði þeirra og gerir þeim kleift að beita þráanum í þágu þeirra sem þær elska. Kærleikurinn sem þær bera í móðurbrjósti sér er óendanlegur. Til er sú kenning að þegar þeim fæðist barnabörn margfaldist kærleiksgen ofurhetjanna. Ég kalla þessar ofurhetjur ömmur. Lýsingin hér að ofan getur í mesta lagi talist inngangur að lýsingum á eiginleikum þeirra.

Ég var heppinn. Ég átti tvær ömmur. Báðar voru þær kjarnakonur og ofurhetjur í mínum augum. Langt er síðan þær héldu til nýrra heimkynna yfir móðuna miklu. En minningin lifir og hefur þann eiginleika að draga fram myndir litaðar af draumnum um mig barnið og ömmuna mína. Ég er heppinn. Jákvæð hugrenningatengsl við ömmurnar í lífi mínu skapa í huga mér einstakar sögur um mikilvægi þessara kvenna í lífi mínu og minna nánustu. Amman verður táknmynd fyrir von, trú og kærleik, já, hún verður allt að því guðdómleg. Ömmurnar verða ofurhetjur númer eitt í lífi mínu og bera titilinn: Verndarar bernskuminninganna.

Allt of sjaldan heyri ég fólk greina frá því opinberlega að ömmur gegni mikilvægu hlutverki í lífi þeirra. Sumir halda því fram að ömmur séu ósýnilegar þar til þær birtast í minningargreinum. Til eru þeir sem segja að alvöruömmur séu bara til í ákveðnum fjölskyldum. Það er sannfæring mín að ömmur verði til í fjölskyldusamhengi hvers tíma og að hver og einn eigi sína ömmu. Ef vel er að gáð eru þær úti um allt. Hlutverk okkar sem erum ekki ömmur er að segja þessum frábæru einstaklingum frá mikilvægi þeirra í lífi okkar allra.

Ömmur eru litlar og stórar, feitar og mjóar, fiskverkakonur og forsetar, þögular og símalandi, búa í sama húsi og barnabörnin eða jafnvel í öðru landi. Það er ekki hægt að skilgreina hvað amma er. Hver amma hefur fullt frelsi til að ákveða hvernig amma hún er. En það breytir því ekki að allar ömmur eru ofurhetjur, hver á sinn hátt.

Og nú spyr ég: Hefur þú faðmað ofurhetju í dag?

Pétur Björgvin Þorsteinsson · 23. júlí 2018

Unglingamenning

Ritstjóri Austurlands bað mig að skrifa pistil um unglingadrykkju og útihátíðir. Mér var þá hugsað til þess, þegar ég var unglingur, þá voru frægar útihátíðir haldnar víða um land um verslunarmannhelgi m.a. í Húsafelli, Atlavík og Vestmannaeyjum, mikið drukkið og sagðar skrautlegar „hetjusögur“ af því. Einhvern veginn var þetta álitið hluti af því að þroskast frá unglingi í að vera fullorðinn. Enn eimir af þessu viðhorfi í tíðarandanum, en margt hefur breyst.

Kannanir sýna að nú er að eflast unglingamenning sem hafnar áfengisneyslu og ræktar lífstíl af sannkölluðu æskufjöri með heilbrigðum lífsháttum. Þetta birtist svo víða hjá unga fólkinu okkar sem lætur til sín taka á mörgum sviðum og hreinlega brillerar t.d. í íþróttum, í fjölbreyttri nýsköpun, á lista-og menningarsviðum og nýta tæknibyltingar til framfara og langt umfram þá sem eldri eru. Í þessu umhverfi er ekkert pláss fyrir áfengi eða aðra örvandi vímugjafa.

Á sama tíma flæðir dópið yfir neyslu og skemmtanalíf þjóðarinnar og fullyrt að auðveldara sé að nálgast það en áfengið. Það er hrein ógn við forvitna unglinga sem langar að reyna eitthvað nýtt. Svo koma fréttirnar af unglingunum sem þjást af andlegri og félagslegri vanlíðan og sækja í neyslu lyfja og örvandi efna til að sefa kvíðann og festast í neti fíkninnar,- og lagt bókstaflega í gröfina fjölda ungmenna. Líklega er þetta alvarlegasta unglingavandamál sem þjóðin hefur átt við að etja eftir að hún varð bjargálna.

Ungur fíkill, sem hefur verið edrú í rúmt ár, skrifaði: „Við erum kvíðin kynslóð, kvíðalyfin höfða til okkar og á sama tíma erum við ekki meðvituð um það hversu ávanabindandi þau eru. Það þarf að fræða fólk um það. Það eru svo margir að prófa þau og augljóslega verða þá fleiri háðir þeim. Foreldrar vita ekkert um þetta. Eldri kynslóðir koma af fjöllum. Það er svo nýtilkomið að neysla á þessum lyfjum sé orðin útbreidd og hreint út sagt í tísku“.

Umræðan hefur fyrst og fremst fjallað um hvað er til bjargar eftir að neyslan er hafin og hvernig heilbrigðiskerfið gæti brugðist við í meðferðarúrræðum. Þar verður að stórefla alla þjónustu með markvissum viðbrögðum. En þessi fjandi er erfiður viðureignar. Hér þarf að koma til öflugt fræðslu-og forvarnarnarstarf og menning sem safnar þreki til að segja hreinlega Nei. Ekki dóp fyrir mig. Um þessa menningu þurfa allir að sameinast og þar gegna fjölmiðlar og skólarnir stóru hlutverki,- en ekki síst í ranni unglinganna sjálfra sem rækta tískuna og gildismatið fyrir lífið sitt.
Svo er það umhugsunarefni hvað veldur vanlíðan og kvíða hjá unga fólkinu í veröld alsnægta þar sem tækifærin til að njóta lífsins virðast blasa við og aldrei verið fleiri. Þá beinast augu að netheimum sem margt ungt fólk virðist gagntekið af. Gæti svo verið að tómhyggjan sem afneitar Guði skipti hér máli?

Við heimtum að búa í sársaukalausu samfélagi þar sem allt á að vera þægilegt og auðfengið. Ef einhver finnur til, þá er krafan að fixa það strax. Allt á að vera slétt og fínt á yfirborðinu,- og helst fullkomið. Þetta er krefjandi umhverfi af því að lífið er ekki svona í laginu. Það skiptast á skin og skúrir í lífi hvers einasta einstaklings. Sársauki er óhjákvæmilegur í mannlegri líðan og getur oft tekið tíma að vinna bug á honum í ljósi aðstæðna.

Þá er lítið pláss fyrir þolgæði og æðruleysi í síngjörnum og hörðum heimi. Sársauki veldur ekki aðeins einstaklingnum vanda, heldur truflar líka friðinn með samferðafólki. Krafist er af kerfinu að deyfa sársauka strax og þá verða pillurnar gjarnan nærtækar, líka til að hjálpa einstaklingi að vera hreinlega til friðs og falla að gildandi normum. Það tekur á að vera öðruvísi. Þetta finna unglingarnir og freistast til að leita í vímu til að flýja vanlíðan og kvíða.

Útihátíðir á sumrin geta því verið unglingum eins og frelsandi skjól af því að þar gæti gilt „allt leyfilegt“. Þá reynir á foreldra, þeirra leiðsögn og jarðveginn þar sem unglingarnir eiga rætur sínar. Er þá innistæða fyrir foreldri til að segja nei við barnið sitt, „þú ferð ekki á útihátíðina“, en gerum skemmtilegt saman um helgina?

Þessi pistill birtist fyrst í Austurlandi.

Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur í Heydölum

Gunnlaugur Stefánsson · 29. júní 2018


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar