Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Mikið lesnar færslur undanfarið

Umsjónarmenn þáttarins

TenglarLeita

Yfirlit

Sjónvarpsþátturinn Lífið og tilveran er á dagskrá kl. 10.10 á sunnudögum á NFS auk þess sem hann er einnig endursýndur seinna í vikunni. Þátturinn er jafnframt sendur út á Talstöðinni á fm 90.9.

Hvað er Guð að sýsla?

Ég sá að prestur nokkur þakkar Guði fyrir að hafa náð að verða edrú; hætta að drekka áfengi. Í fallegum pistli greinir presturinn okkur frá því hvað það þýði fyrir hana að vera án áfengis, hvernig nýtt líf sé – hvaða áskoranir fylgi því að vera edrú. Hún kemst að því að þetta er allt harla gott. Já, og svo þakkar hún Guði.

Ég sá einnig að þessi pistill fer ekki vel ofan í alla. Virðist fara ofan í suma eins og brennivínið fór ofan í prestinn, illa. Fólk gerir því skóna að þarna afhjúpist eina ferðina enn sú djúpstæða vitleysa sem kristin trú sé, – eða því skyldi Guð hjálpa presti á Íslandi að hætta að drekka brennivín á meðan milljónir búa við hungur í heimi, á meðan milljónum er saklausum slátrað í hernaði? Því skyldi Guð gera svona skelfilega upp á milli manna?

Þegar svona röksemdafærslur eru lagðar fram kippast sumir við. En sem betur fer ekki allir. En það má velta því fyrir sér hvursu sterkir trúmenn það eru sem koma með svona athugasemdir. Já, ég segi það því sá sem sér Guð svo persónulegan að hann standi í reddingum fyrir einstaka menn, komi jafnvel heim til þeirra á Hyundai Tucson með einkanúmerinu JESÚ, hlýtur að hafa ofboðslega sterka Guðsmynd. Það er vel. Viðkomandi þarf bara að ná að nýta sér hana til góðs.

Það er nokkuð síðan ég uppgötvaði að Guð er ekki kall á skýi, með sjónauka til þess að fylgjast með stússi mannanna, og hörpur til útleigu handa englum að spila á í góðu veðri framan við gullna hliðið. Nei, hann er í okkur, með okkur og hjá okkur. Yfir og allt um kring. Líka englarnir og allir himneskir herskarar. Hann er líka hjá, með, í, yfir, prestinum sem hætti að drekka áfengi – því þakkar hún Guði því að hún veit að sá máttur sem náði að vinna á áfengissóttinni er góður, hann er góður og bjó innra með henni sjálfri. Eða kom til hennar á einhverjum tímapunkti. Guð er sístætt afl sem við kristnir keppumst eftir að kynnast betur; hann sendi son sinn Jesú Krist hingað til okkar með kunnum afleiðingum. Það eru þau kynni sem við höfum gleggst af Guði til þessa – og farnaðist okkur misjanflega á því stefnumóti.

Við getum styrkt samband okkar við Guð með margvíslegum hætti. Ein leiðin er sú að styrkja samband sitt við sjálfan sig. Ágæt leið til þess – sem sumum lánast – er að hætta að drekka brennivín. Önnur leið er sú að gefa af sér og miðla góðu. Ein önnur er sú að tala máli Guðs og fyrirverða sig ekki fyrir samfélag sitt við hann, vitna um son hans Jesú Krist, og reyna um leið að bæta sig, keppast eftir því að verða sæmilegur maður. En líklega er albesta leiðin til þess að stykja samband sitt við Guð að lesa daglega í Biblíunni, rannsaka orð hennar og boðskap.

Einu sinni var hugleitt hvort Guð byggi í garðslöngunni. Ég efast um að það sé rétt enda hafa garðslöngur tilhneigingu til þess að flækjast í eina bendu og á endanum fara þær að leka. Guð lekur ekki, svo mikið vitum við. Hann virkar nefnilega alveg ágætlega, það er frekar að hann greiði úr manni, það er hann sem setur undir lekann.

Jesús svaraði: „Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.“ (Jóhannesarguðspjall 4.13-14)

Guðmundur Brynjólfsson · 6. maí 2019

Gleðilega páska

Fjöldi fólks leggur leið sína til annarra landshluta eða landa í dymbilvikunni og um páskahelgina. Þar sem hugur minn er gjarnan við Ísafjarðardjúp minnist ég þess hvernig bærinn minn Ísafjörður breyttist á þessum dögum á uppvaxtarárum mínum. Skíðavikan var fastur liður og þar sem ekki var mikið um hótel eða gistihús í þá daga kom Gullfoss vestur og lagðist að bryggju með fjölda farþega sem bjuggu þar þessa daga. Að kvöldi föstudagsins langa var dagskrá í kirkjunni með tónlist og tali og alltaf var troðfull kirkjan. Dagarnir einkenndust af útiveru á Dalnum og félagskap við Guð og menn.

Nú flykkist fólk vestur á tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður sem hefur vakið athygli innanlands sem utan. Fólk nýtur enn samvistanna og tilbreytingar frá amstri hvers dagsins. Hægt er líta á þessa daga sem langa helgi og þar með fleiri frídaga en þegar um venjulega helgi er að ræða. En þetta er helgi, heilagir dagar. Þeir eru fráteknir, ekki bara til samveru með fjölskyldu og vinum heldur einnig til íhugunar um kristna trú og líferni, því upprisa Jesú sem við minnumst á páskum er grundvöllur trúarinnar og kirkjunnar sem er samfélag þeirra sem játa trú á Jesú Krist.

Dagarnir frá skírdegi til páska eru dagar umbreytandi atburða sem í senn eiga sér rætur í enn þá eldri sögu en hérvistardagar Jesú segja til um. Um leið eru þeir endurskyn af þeim andstæðum og átökum sem koma upp á lífsleiðinni.

Upprisuboðskapur páskanna fjallar um lífið og allt það góða, fagra og fullkomna sem því fylgir. Við vitum af skuggahliðum mannlífsins sem skemma allt það góða sem lífið gefur. Þess vegna talar boðskapur páskanna sterkar til þeirra sem gengið hafa í gegnum myrkur og böl. Ljósið sem páskunum fylgir er sterkara hjá þeim sem úr myrkrinu koma en þeim sem allt hefur leikið í lyndi hjá.

Páskaboðskapurinn er boðskapur vonar. Hann er í raun aðeins þrjú orð: „Kristur er upprisinn“. Í þessum orðum felst margt og upprisuna sjáum við allt í kringum okkur. Við sjáum hana þegar krókusarnir kíkja upp úr moldinni á vorin. Við sjáum hana þegar veikur einstaklingur nær heilsu. Við sjáum hana þegar alkóhólistinn eða fíkilinn nær að vera óvirkur. Samkvæmt orðabók þýðir orðið upprisa það að rísa upp frá dauðum. Dauðinn er ekki aðeins þegar hjartað hættir að slá og líkaminn sofnar svefninum langa. Dauðinn getur birst í ótal myndum þó lifað sé og upprisan er allt í kringum okkur samanber dæmin hér að ofan.
Megi boðskapur páskanna vitja þín, tala til þín, hafa áhrif á líf þitt og færa þér gleði og frið.

Gleðilega páska.

Agnes Sigurðardóttir · 17. apríl 2019

Í fyllingu tímans

„Allt hefur sinn tíma“ stendur á góðum stað. Það gildir um lífið allt,- og fátt virðist hafa meira gildi nú um daga en tíminn. En það er svo yndislegt með tímann að stund tekur við af annarri með nýjum tækifærum. Algengt er að reikna tíma sinn á láréttri línu, en ef nær er skoðað þá er lífið á hringrás með öllum sínum endurtekningum. Náttúran getur kennt okkur margt um það, þó nútíminn með krefjandi kröfum sínum mæri stundarhag. Birtist það skýrast í kapphlaupinu sem hamast við að vara við glötuðum tækifærum og verðum því að gefa í. Kaupa meira, gera meira, sigra meira.

Í kristnum sið er eins og önnur lögmál gildi. Þar er boðað eilíft líf, og kirkjan eins og tímalaus hreyfing sem lifir aldirnar af, og hver kynslóðin af annarri fetar í gömlu sporin til móts við nýja tíma. Stundum næðir um slíka hreyfingu í argaþrasi dagana og á sjaldnast greiða leið á pallborð vinsældatorga og enn síður í fyrirsagnir fjölmiðla, nema ef út á má setja. En heldur starfi sínu áfram af festu og einurð, þjónar fólki í margvíslegum aðstæðum og þráir að auðga fagurt mannlíf.

Mér varð þetta hugleikið á uppskeruhátíð kirkjuskólabarnanna úr prestaköllum Fjarðabyggðar í Eskifjarðarkirkju sunnudag sunnudag 31. mars s.l. Þar var fjölmenni, börnin, unglingar, pabbar og mömmur, afar og ömmur, langafar og langömmur, prestar og sjálfboðaliðarnir í kirkjustarfinu. Þetta var eins og tímalaus stund, þegar ég horfði yfir fólkið og sá þar pabba og mömmur sem höfðu verið þar löngu áður lítll börn og sungu sömu versin í bland við ný. Lífsfjörið í fyrirrúmi með virðingu við heilög gildi, saman í trú, von og kærleika.

Og þar stóð í stafni í heimakirkjunni sinni, sr. Davíð Baldursson, á sínum síðasta degi formlegs embættisferils, geislandi af eldmóði með gítarinn sinn, safnaði okkur saman um hugsjónina í kirkjunni að elska Guð og náungann. Þannig hefur hann þjónað samfellt í 42 ár á Eskifirði og Reyðarfirði,- og Austfjörðum í 25 ár í prófaststörfum sínum. Einstaklingar skipta máli, en enginn verður hetja af sjálfum sér, heldur með samstöðu margra, að laða og leiða til samstarfs um göfug markmið. Þar var sr. Davíð í forystu í samfélagi fólks sem velti þungum hlössum til farsældar fyrir mannlífið. Blómlegt kirkjustarfið ber m.a. vitni um það.

Þannig er kirkjan kjölfesta vegna fólksins sem leggur þar svo mikið að mörkum. Ekki aðeins prestar, heldur sóknarnefndarfólkið, kórfólkið og velvilji fjöldans í garð kirkjunnar, ekki síst þegar á reynir. Það finnum við best, þegar við horfum til kirkjunnar í okkar heimabyggð, og enn frekar þegar við eigum samastað í kirkjunni. Þá upplýkst svo innilega hve traust er að vera hönd í hönd hvert með öðru og í sporum genginna kynslóða í kirkjunni. Þá er eins og tíminn fái innihaldsríka merkingu, en þráum að vera alltaf í sporum trúar, vonar og kærleika sem stendur tímans tönn.
Þessi pistill birtist í Austurglugganum 5. apríl 2019

Gunnlaugur Stefánsson · 8. apríl 2019

Ný vefslóð fyrir pistla og postillur

Pistlar og postillur eru á kirkjan.is.

Valhnappur á forsíðu.

Skráning er hætt á tru.is og verður framvegis á þjónustuvef.

Prestar geta skráð pistla og postillur á þjónustuvef kirkjunnar.

Hermann Erlingsson · 5. mars 2019

Prédikun á konudaginn í Lágafellskirkju

Til þjónustu við lífið
Náð sé með ykkur og friður, frá Guði sem hefur skapað okkur og endurleyst, og gætir og leiðir allar stundir. Amen.

Á degi sem tileinkaður er Biblíunni höfum við heyrt texta lesna hér frá altarinu sem allir fjalla um orð Guðs sem „er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði“, er „smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar“ og „dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ Það er ljóst að hér er ekki um að ræða lýsingu á dauðum bókstaf sem varðveittur er í aldagömlum og rykföllnum bókum, heldur mátt eða kraft sem lætur ekkert stoppa sig, en vinnur verk sitt, nótt og dag, leynt og ljóst, þar til markinu er náð – þar til það hefur borið tilætlaðan árangur.
Biblían, trúarbók kristinna einstaklinga, og gyðinga að hluta til, er í rauninni heilt bókasafn sem inniheldur alls 66 rit, 39 í Gamla testamentinu og 27 í því Nýja. Það sem einkennir allar þessar bækur, sem ritaðar eru í margbreytilegu samfélagi á ólíkum tímum, er reynsla höfunda af samskiptum þeirra við Guð, „skapara himins og jarðar, alls hins sýnilega og ósýnilega“. Það má líta á Biblíuna sem safn frásagna eða vitnisburða um reynslu fólks af Guði, af guðlegri leiðsögn í lífinu og guðlegum innblæstri í hversdagslegum og ekki svo hversdagslegum aðstæðum. Þannig eru rit Biblíunnar ekki aðeins stórfengleg bókmenntaverk, heldur líka einlægur vitnisburður fólks sem leitaðist við að lifa sínu daglega lífi í samræmi við trúarsannfæringu sína.
Það má segja að rauður þráður í öllum þessum ritum sé staða mannsins, konunnar og karlsins, í hinu stórkostlega sköpunarverki Guðs. Höfundur 8. Davíðssálms orðar svo vel þessa tilfinningu sem við mörg könnumst við og hvelfist yfir okkur er við virðum fyrir okkur undur og stórmerki lífsins og finnum um leið svo áþreifanlega fyrir smæð okkar andspænis þeim stórbrotna veruleika sem blasir við okkur. Í 8. Davíðssálmi er þessi tilfinning orðuð á eftirfarandi hátt:
Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?

Þessi orð sálmaskáldsins lýsa vel grundvallarafstöðu Gyðing-kristinnar trúarhefðar þessefnis að lífið sjálft og allt sem því fylgir sé gjöf Guðs. Gjöf sem fylgir sú mikla ábyrgð að við stöndum vörð um lífið í margbreytileika þess, að við tökum okkur stöðu með því sem styður lífið, með hinu góða og gegn hinu illa sem leitast við að brjóta og bramla, eyðileggja og útrýma hinni góðu sköpun Guðs. Við þurfum ekki að leita lengi til að finna birtingarmyndir illskunnar í samfélagi og samtíma okkar. Þær birtast okkur jafnt í mannlegum samskiptum sem og í samskiptum manneskjunnar við náttúruna, og einkennast öðru fremur af eigingirni og sjálfhverfu, af græðgi og eiginhagsmunagæslu.

Í upphafi 21. aldar birtist illskan og eigingirnin, sjálfhverfan, græðgin og eiginhagsmunagæslan ekki síst í umgengni okkar við náttúruna og náttúruauðlindir okkar. Aðsteðjandi ógn vegna hlýnunar jarðar kallar á aðgerðir og breytta lífshætti til að sporna við gróðurhúsaáhrifunum sem hér á landi birtast helst í bráðnun jökla, súrnun sjávar og hækkun sjávarborðs, en einnig í breyttu veðurfari, sem aftur hefur langvarandi áhrif á gróðurfar og dýralíf. Annars staðar í heiminum er hlýnandi loftslag víða farið að hafa áhrif á daglegt líf fólks og möguleika kynslóða framtíðarinnar til að lifa af. Stórir hópar fólks eru nú þegar á flótta vegna þeirra breytinga sem hlýnandi loftslag hafa orsakað og allt bendir til þess að þeim fari fjölgandi á næstu árum.

Í tilefni konudagsins sem við höldum hátíðlegan í dag, er ástæða til að huga sérstaklega að áhrifum loftlagsbreytinga á líf kvenna, sér í lagi fátækra kvenna sem búsettar eru norður við heimsskautsbaug og á suðurhveli jarðar þar sem fátækt er útbreidd og íbúar eru af þeim sökum viðkvæmari fyrir þeim breytingum sem hlýnandi veður hefur á lífsskilyrði þeirra. Rannsóknir sýna að áhrif loftlagsbreytinga á líf kvenna í heiminum í dag eru önnur en á líf karla. Þannig búa fátækar konur við alvarlegar afleiðingar gróðurhúsaárhifa sem gera líf þeirra sífellt erfiðara, m.a. vegna skorts á vatni, minnkandi uppskeru, og þar af leiðandi aukins vinnuálags, þar sem þær sjá gjarnan einar um að framfleyta fjölskyldum sínum, á meðan eiginmenn þeirra þurfa í vaxandi mæli að sækja atvinnu fjarri heimahögum. Það er mikilvægt að auka meðvitund okkar á Vesturlöndum um þær skelfilegu aðstæður sem fátækar konur í fjarlægum löndum búa við, og það hvernig lífshættir okkar sem búa við velmegun og allsnægtir hafa áhrif á líf fólks í öðrum heimshlutum.

Í bréfi sem Frans páfi sendi frá sér nokkrum mánuðum fyrir fundinn sem haldinn var í París í lok árs 2015 og svokallað Parísarsamkomulag sem unnið var að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna var undirritað, leggur hann áherslu á það að jörðin sé okkar sameiginlega heimili sem við eigum öll að standa vörð um. Þannig sé það sameiginleg ábyrgð okkar að bregðast við yfirvofandi ógn sem jörðinni og íbúum hennar stafar af hlýnandi loftslagi og gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja framtíð komandi kynslóða. Páfi vill sjá kristna einstaklinga verða virka í baráttunni gegn ógnvænlegum afleiðingum hlýnandi loftlags, og slást þannig í hóp með stjórnmálamönnum og sérfræðingum sem vinna að sömu markmiðum. Í þessu samhengi talar páfi um nauðsyn þess að innan kristinnar kirkju eigi sér stað siðbót, eða afturhvarf; að kristin kirkja vakni til meðvitundar um ábyrgð sína gagnvart hinu sameiginlega heimili okkar allra, jörðinni, sköpunarverki Guðs, sem Guð hefur gefið okkur til varðveislu, til að yrkja og njóta góðs af ávöxtum hennar, en ekki að fara illa með og nýta fyrst og fremst í eigin þágu.

Ófáar sögur í Biblíunni segja fá einstaklingum sem heyrðu orð Guðs en áttu erfitt með að trúa því að Guð væri að ávarpa þau og í stað þess að nema staðar og hlusta, töldu þau sér trú um að þetta væri misskilningur, þar sem Guð gæti ekki átt erindi við þau. En hvað gerum við, ég og þú, sem í dag heyrum orð Guðs og áskorun um að taka alvarlega og sinna af bestu getu hlutverki okkar sem tilsjónarmenn með sköpunarverki Guðs? Í hinu stóra samhengi erum við agnarsmá og því ekkert skrítið þó að það kunni að hvarfla að okkur að við getum svo sem litlu breytt í stóra samhenginu, ekki síst þegar kemur að því að stemma stigu við þeirri miklu ógn sem vofir yfir jörðinni, sameiginlegu heimili okkar allra. Af hverju ætti Guð svo sem að eiga erindi við okkur, mig og þig, í þessum tilgangi, en ekki bara þau sem fara með völdin og taka ákvarðanir sem skipta sköpum þegar kemur að framtíð komandi kynslóða hér á jörðu? Svar gyðing-kristinnar trúarhefðar er skýrt: Guð, sem hefur skapað himinn og jörð, allt hið sýnilega og ósýnilega, hefur einnig skapað manninn, hefur skapað konuna og karlinn, mig og þig, í sinni mynd, til að vera samverkamenn sínir, til þess vinna að framgangi Guðsríkisins á meðal okkar. Guð hefur með öðrum orðum áhuga á því sem við, ég og þú, höfum fram að færa í stóra samhenginu, þar sem margt smátt gerir eitt stórt og við getum hvert og eitt lagt okkar að mörkum til þess að gera lífið á jörðinni lífvænlegra fyrir þau sem koma á eftir okkur, börnin okkar, barnabörn, barnabarnabörn og svo framvegis. Þetta er einmitt það afturhvarf sem Frans páfi kallar eftir, sú nýja hugsun sem nauðsynleg er til að bregðast við breyttum aðstæðum í heiminum.

Til að hjálpa okkur við að sinna þessari köllun okkar til þjónustu við lífið, til þjónustu við Guð og gjörvallt sköpunarverkið, þá er mikilvægt að við gleymum ekki í amstri hversdagsins að staldra við og dást að mikilfengleik sköpunarverksins, að lífinu sem birtist okkur í margbreytileika sínum allt í kringum okkur. Gefum okkur, líkt og sálmaskáldið forðum, tíma til að horfa upp í himininn, á tunglið og stjörnurnar, og finna fyrir smæð okkar í stóra samhenginu; gefum okkur tíma til að íhuga þann stórkostlega leyndardóm sem felst í því að Guð, sem er hinn skapandi máttur að baki gjörvallrar tilverunnar, skuli eiga erindi við okkur, mig og þig, og kalli okkur til að vera samverkamenn sínir; til að hlúa að lífinu; til að ganga til liðs við hið góða og vinna að framgangi þess í hvívetna.

Dýrð sé Guði, skapara okkar og endurlausnara, og heilögum anda sem dvelur á meðal okkar. Amen.

Arnfríður Guðmundsdóttir · 1. mars 2019

Ræða Ingva K. Skjaldarsonar á alþjóðlegri bænaviku

Ég heilsa ykkur í dag á þessum drottins degi í Jesú nafni.

Það er mér bæði ljúft og skylt að flytja ykkur boðskap dagsins því eins og segir í Guðspjalli dagsins þá er andi Drottins yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.

Mörgum kann að þykja ég taka full djúpt í árina að taka mér í munn orð Jesú, en ég er þess fullviss að við sem játum með munni okkar að Jesús sé Drottinn og trúum í hjarta okkar, höfum anda Guðs yfir okkur og séum smurð og send.

Það er nefnilega þannig að þessi köllun er ekki þannig að það séu bara fáir eða nokkrir sem hafa hana. Það er nefnilega svo að hvert og eitt okkar sem eigum frelsi Guðs, höfum þessa sömu köllun. Ég fæ oft að heyra sem hermaður og foringi í Hjálpræðishernum, að við séum að vinna svo gott starf, af því að við séum að aðstoða þá sem höllum fæti standa í samfélaginu okkar. En skoðun mín er sú að hver og einn Kristinn maður hefur þessa sömu köllun.

Á dögum guðspjallsins höfðu Gyðingar reist sér synagógur þar sem þeir fóru vikulega og fengu fræðslu og uppörvun. Og í guðspjallinu fáum við að heyra að Jesús hafi gert það að vana sínum að fara þangað. Hann sem var sonur Guðs, þekkti lögmálið og spámennina, hann fann að hann þurfti að eiga samfélag við aðra, uppörvast í orðinu og kenna þeim sem minna kunnu.

Textinn sem Jesús las þennan dag má finna í spádómsbók Jesaja og ber yfirskriftina„Fagnaðarboðskapur um frelsi”. Þessi texti segir okkur að Jesús hafi komið til að uppfylla þennan spádóm Jesaja og það var það sem hann gerði. En Jesús skildi okkur eftir sem lærisveina sína til að feta í hans fótspor og halda áfram með það áætlunarverk sem hann byrjaði hér á jörðu. Það þýðir að þessi orð Jesaja, síðar lesin af Jesú sem sagðu þau hafa ræst með honum- halda áfram í okkur sem lifum á þessari jörð í dag árið 2019.

Það er okkar hlutverk kæru vinir að fylgja þeirri köllun sem við höfum sem kristnir menn og konur að flytja þennan fagnaðarboðskap um frelsi til þeirra sem þurfa á því að halda.

En takið eftir því kæru vinir að í yfirskriftinni í Jesaja segir ekki bara boðskapur um frelsi- heldur fagnaðarboðskapur um frelsi! Fagnaðarboðskapur!! Jesaja hélt að þessi orð ættu við um frelsun Ísraels frá Babylon sem fagnaðarár þegar allar skuldir skyldu greiddar og réttlæt viðskipti ættu við eins og talað er um í þriðju mósebók. En allir þessir textar benda á sama hlutinn að við eigum að lifa þannig í samfélagi okkar að allir geti átt sömu tækifæri.

Í þriðju Mósebók 25. kafla stendur: Þegar landi þinn lendir í kröggum og kemst ekki af í samfélaginu skaltu veita honum hjálp eins og aðkomumanni eða gesti svo að hann haldi lífi ykkar á meðal. 36 Taktu hvorki vexti né okurleigu af honum. Þú skalt virða Guð þinn svo að bróðir þinn haldi lífi í samfélaginu. 37 Þú mátt hvorki draga vexti frá peningaláni til hans né leggja okurleigu á matvæli sem þú lánar honum.

Já.. þetta er nú bara alveg skýrt í orðinu, hvernig við eigum að koma fram við þá sem lenda í kröggum og komast ekki af í samfélaginu okkar. Þessi verð eiga svo samhljóm í ritningarlestrum dagsins í 5. Mósebók og Rómverjabréfinu. Fyrir mér er þetta nokkuð einfalt. Við eigum að skjóta skjólshúsi yfir þá sem ekkert hafa og því miður á það við enn þann dag í dag. Við höfum hér fólk sem á hvergi höfði sínu að halla- fólk sem vegna fíknar sinnar og/eða veikinda á erfitt með að halda húsnæði, sefur á götunni, sama hvernig viðrar. Fjölskyldur þurfa að leita til ættingja vegna þess að launin eða bæturnar eru svo lágar að þær duga ekki til þess að greiða fyrir húsnæðið sem í boði er og ef þú ert “heppinn” þá getur þú hírst í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði sem uppfyllir ekki staðla um brunavarnir og aðra öryggisþætti. Á slíkum stöðum búa margir í dag, líka börn! Og svo eru það þeir sem hingað koma í leit að öruggum stað, öruggu landi! Fólk sem hefur flúið ömurlegar aðstæður, stríð og ofsóknir. Það fólk er líka samferðafólk okkar hér á þessari jörð og við sem höfum heyrt„Fagnaðarboðskapinn um frelsi” eigum að taka það alvarlega og sýna gestrisni.

Lykilorð kæru vinir þegar kemur að því að sýna samferðafólki okkar hér á jörðu samkennd og hlýju, hjálp í raunum og allt það annað sem Jesús lagði á okkar herðar að fylgja þegar hann skyldi eftir fordæmi sitt okkur til handa er gestrisni! Við megum aldrei setja okkur á svo háan stall að við sláum okkur á brjóst og segjum eða hugsum,„þetta á ekki við um mig- mitt líf er ekki svona”.

Í Hjálpræðishernum er gestrisni einmitt eitt af lykilorðunum þegar kemur að því að mæta fólki. Við viljum mæta fólki með gestrisni en um leið hafa í huga að í dag erum svo heppin að vera gestgjafar- en á morgun getur það breyst og við þurft á gestrisni annarra að halda!

Við eigum að gleðjast frammi fyrir Drottni! Við eigum að þakka fyrir að við getum veitt aðkomumönnum vernd og að við sem höfum eitthvað aflögu, getum stutt við þá sem búa við þrengri kost en við sjálf. En við skulum ekki gleyma því hvaðan við komum. Að fyrir aðeins 2-3 kynslóðum var ekki sama velsæld og margir búa við í dag. Við eigum að vera réttlát og ekki sýna hlutdrægni!

Ég hef þá trú að Guð hafi með sköpun sinni ekki óskað þess að í heiminum væri slíkur ójöfnuður og við búum við í dag. Hér á landi sjáum við þennan ójöfnuð í því hvernig fjöldi fólks sem vinnur láglaunastörf eða þiggur bætur vegna veikinda eða fötlunar nær ekki endum saman og hverjum mánuði fylgir streitan og útsjónarsemin því að greiða fyrir lífsnauðsynjar, og þurfa oft og tíðum að velja hvað skal greiða og hvað ekki.

Hversu gott væri að lifa í heimi þar sem jöfnuður ríkir, þar sem enginn þyrfti að lifa á ölmusu eða hafa áhyggjur af morgundeginum.

En þá komum við að orðum Páls í bréfi hans til Rómverja sem var lesið svo vel hérna áðan- Því brýni ég ykkur systkin- fylgið ekki háttsemi þessa heims en umbreytist með hinu nýju hugarfari og lærið að skilja hver vilji Guðs er. Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber

Svo talar hann um að við séum öll limir á sama líkama og að við séum öll mikilvæg í ríki Guðs. Þá er ekki spurt um stétt né stöðu, því í augum Guðs erum við öll jafn mikilvæg. Við höfum öll hlutverk í sköpunarverki hans, hann gerir ráð fyrir okkur hverju og einu þegar kemur að áætlunarverki hans. Vissulega erum við mismunandi og höfum mismunandi gjafir og gáfur- en við erum öll mikilvæg. Og við sem þegar höfum fengið Fagngaðarboð um frelsi- ættum að hafa andstyggð á hinu vonda og halda fast við hið góða. Vera ástúðleg og sýna virðingu og vera brennandi í andanum.

Þar fáum við staðfestingu á því að andi Drottins sé yfir okkur og það er hann sem smyr okkur til þess að leggja stund á gestrisni!

Kæru vinir- við skulum nota þetta nýja ár til þess að skoða okkur sjálf sem kristna einstaklinga og reyna að hugsa samfélagið okkar á nýjan hátt. Reynum að skoða það á þann hátt að það sé reisn fyrir hvern og einn sem er meðlimur í þessu samfélagi, að hver og einn fái þátttökurétt eftir eigin getu og reynum að nota árið til að auka jöfnuð í stað þess að vera í því að rétta ölmusu til þeirra sem einnig eru kallaðir, smurðir til þjónustu í ríki Guðs.

Náð sé með okkur og friður frá Guði föður okkar og drottni Jesú Kristi! Amen

Ingvi K Skjaldarson · 24. janúar 2019

Prédikun flutt við vísitasíu í Seltjarnarneskirkju 2. sd. e. þrettánda, 20. janúar 2019

Prédikun flutt við vísitasíu í Seltjarnarneskirkju 2. sd. e. þrettánda, 20. janúar 2019. 1. Sam. 3:1-10; Róm. 1:16-17; Lúk. 19:1-10.

Við skulum biðja:

Miskunnsami Guð í kærleika þínum er kraftur til umbreytingar. Leyfðu okkur að komast að raun um, að þú getur látið gleði vaxa upp úr sorginni, frið og sátt verða milli þeirra sem deila, öruggt traust fæðast í vonleysinu og fyrirgefningu í sektinni. Gef okkur styrk trúarinnar að við teystum því að líf okkar beri ávöxt. Þess biðjum við í nafni Jesú Krists sem vitjar barna sinna. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Kæri söfnuður, ég þakka ykkur fyrir að taka á móti mér hér í Seltjarnarneskirkju en þetta er fyrsta prestakallið sem ég vísitera eða heimsæki í þessu prófastsdæmi eins og fram kom hjá sóknarprestinum hér í upphafi. Ég mun á næstu rúmum tveimur mánuðum heimsækja hverja sókn í prófastsdæminu og einnig kynna mér sérþjónustu kirkjunnar sem tilheyrir þessu prófastsdæmi. Ég þakka sóknarnefndinni fyrir störfin öll hér í sókn, organistanum og kirkjukórnum þakka ég þeirra trúu og dyggu þjónustu. Kirkjuverði, sóknarpresti og öðru starfsfólki þakka ég einnig því það er ekki sjálfgefið að halda úti öflugu kirkjustarfi og þjónustu þar sem saman vinnur fólk bæði í launuðum og ólaunuðum störfum. Fyrir hönd þjóðkirkjunnar sem ég leiði nú um stundir þakka ég ykkur öllum og bið Guð að launa ykkur þjónustuna.
Það eru myndrænar frásagnirnar úr Gamla testamentinu og úr Nýja testamentinu sem lesnar voru hér í dag. Sagan um drenginn Samúel sem var kallaður til þjónustu og sagan af Sakkeusi sem gjörbreytti lífi sínu þegar Jesús kallaði á hann. Í pistlinum segist postulinn ekki fyrirverða sig fyrir fagnaðarerindið.

Nafnorðið köllun er notað yfir það þegar fólk fær löngun til að sinna ákveðnu starfi eða ákveðinni þjónustu. Hjá prestum er talað um innri köllun og ytri köllun. Innri köllunin lýsir sér þannig að viðkomandi einstaklingur finnur hjá sér löngun og þörf á því að boða fagnaðarerindið. Ytri köllunin er þá þegar viðkomandi er kosinn til prestsþjónustu af fulltrúum safnaðar. Presturinn er þannig kallaður til þjónustu af því fólki sem þjónustunnar nýtur.

Okkur er ýmislegt gefið við fæðingu. Við höfum mismunandi hæfileika og áhugi okkar liggur ekki á sama sviði hjá öllum. Áhugi okkar og hæfileikar vísa okkur veginn til þess sem við viljum læra og eða starfa við í lífinu. Þannig er fólk kallað til ýmissa starfa og flest störf felast í því að þjóna náunganum á einn eða annan hátt.

Marteinn Lúther sem kirkja okkar er kennd við leit svo á að við værum öll kölluð til þjónustu við hvert annað. Mannfólkið væri kallað til að vera iðnaðarmenn, skrifstofufólk, gullsmiðir, lögfræðingar, læknar, prestar og fleiri starfsgreinar mætti nefna. Hann minnti á að öll störf eru nauðsynleg og merkileg. Hann áleit líka að við værum kölluð til ólíkra hlutverka. Ef við lítum í eigin barn þá sjáum við fljótt að við höfum mörg hlutverk í lífinu. Í fjölskydum okkar erum við börn foreldra okkar, eiginmenn, eiginkonur maka okkar, foreldrar barna okkar, höfum hlutverk í þeim félögum sem við tilheyrum og fleira mætti nefna. Í okkar samfélagi gengur vinnan fyrir flestu öðru. Ég hef heyrt þetta nefnt vinnuköllunina sem er þá álitin æðst allra köllunarhlutverka. Æðri en þær skyldur sem við höfum við fjölskyldu okkar og samfélag og jafnvel við okkur sjálf. Vinna færir okkur reyndar laun í peningum sem við fáum ekki annars staðar frá. Vinnulaun eru nauðsynleg og réttlát skipting launa milli þegnanna er vissulega mikilvægt atriði eins og bent hefur verið á í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú eru að fara í gang. En það hefur líka verið bent á að auður er ekki endilega veraldlegur. Hann er ekki síður fólgin í mannauði eins og oft er bent á varðandi kirkjuna okkar. Mannauður kirkjunnar er hennar mesti auður og dýrmætari en allur hinn veraldlegi auður sem oft er nefndur þegar Þjóðkirkjuna ber á góma í opinberri umræðu.

Sakkeus sem Jesús sá uppi í trénu þangað sem hann hafði klifrað til að sjá Jesú almennilega var tollheimtumaður, meira að segja yfirtollheimtumaður eins og segir í guðspjallstextanum. Þar er einnig tekið fram að hann sé auðugur, ríkur maður, þá væntanlega á veraldlega vísu. Það fer ekki alltaf saman að vera ríkur á veraldlega vísu og andlega vísu. Tollheimtumenn voru ekki sérlega vinsælir því þeir voru innheimtumenn ríkisins, unnu fyrir erlenda yfirvaldið sem réð ríkjum í landinu á þessum tíma. Sakkeus hins vegar var kannski ennþá óvinsælli og þar með vinafár því hann hafði innheimt of háan skatt af fólkinu, skilað ríkinu því sem það átti að fá og setti mismuninn í eigin vasa. Það heitir á nútímamáli að stela. Hann braut sem sagt 7. boðorðið „þú skalt ekki stela“.

En batnandi mönnum er best að lifa og Sakkeus notaði tækifærið þegar hann varð þess áskynja að Jesús væri kominn til Jeríkó þar sem hann bjó. Sakkeus langaði til að hitta Jesú.

Það virðist vera mikill áhugi á því að bæta daglegt líf. Gæta að heilsunni og efla lífsgæðin. Alls konar tilboð berast til okkar í því sambandi. Nútíminn kallar á að við séum batnandi menn. Að því leyti líkist nútímamaðurinn Sakkeusi. Þess er hvergi getið í guðspjallinu að hann hafi strengt þess heit að nú skyldi hann fara í ræktina, sund eða að ganga 40 mínútur á dag. Þess er hins vegar getið að Sakkeus hafi orðið glaður þegar Jesús kallaði á hann og hann hafi sagt við hann eftir heimsókn Jesú að hann ætlaði að gefa helming eigna sinna og ferfalt þeim sem hann hafði tekið meira af en hann mátti sem tollheimtumaður.

Hugarfar Sakkeusar breyttist við það að hitta Jesú. Það sama gerist hjá okkur nútímafólki þegar við ákveðum að breyta um lífsstíl. Hugarfarið er aflið sem knýr okkur áfram, eins konar vél sem við setjum í gang og gefur okkur kraft og stefnufestu. Nútímamaðurinn stundar oft á tíðum kristna íhugun en kallar það hugleiðslu. Nútímamaðurinn leitast við að lifa farsælu lífi þar sem hugur og hreyfing fer saman og kallar það jóga. Margt af því sem boðið er upp á í nútímanum og stundað er á sér rætur í kristinni trú og menningu en við lítum fram hjá því. Alda Karen segir „ég er nóg“ og fyllir hvern salinn á fætur öðrum af áheyrendum. Almenningur er að leita að lífsfyllingu og tilgangi og eru þó nokkur kölluð til að leiðbeina fólki á þeim vegi.

Kristin trú og kirkja hefur þetta allt fram að færa og gerir það á hverjum degi. Það er ekki selt inn á fyrirlestrana og fræðsluna í kirkjunum heldur er hið taktfasta kirkjustarf alltaf í gangi og brotið upp með alls konar uppákomum inn á milli. Hér í þessari kirkju virðist vel hugsað um að efla anda sóknarbarnanna ef marka má það sem hægt er að lesa á heimasíðu safnaðarins. Takk fyrir allt það góða starf sem hér fer fram og takk aftur fyrir að gefa af tíma ykkar og kröftum þið sem berið uppi starfið sem unnið er í anda þess sem kallar okkur með nafni og gleymir okkur aldrei.

Í texta sem sunginn var í æskulýðsstarfinu í mínu ungdæmi kemur glöggt fram hvernig lífi Sakkeus lifði fyrir og eftir. „Hann Sakkeus var oftast einn, þó auðugari væri´ei neinn. Menn sögðu´ hann vera vondan mann og vini átti enga hann“. Svo breyttist allt og söngurinn endar á þessum texta: „Hann Sakkeus bjó áfram einn, en aldrei glaðari varð neinn. Hans eini vin af öllum bar, nú einmana ei framar var.“
Þó Sakkeus væri ríkur á veraldlega vísu var hann fátækur að öðru leyti. Hann var einmana maður sem fólk hafði ekki áhuga á að umgangast vegna þess að hann hlunnfarði fólk og koma þannig illa fram við það.
Jesús kallar fólk til þjónustu enn í dag. Hann vekur löngun hjá fólki til ákveðinna verkefna og það er köllunin. Í lexíunni, fyrri ritningarlestrinum í dag heyrðum við þegar Drottinn kallaði sveininn Samúel til þjónustu við sig. Samúel varð spámaður Drottins, ekki bara af því að Drottinn kallaði hann, heldur líka vegna þess að Samúel hlýddi.

Eins er köllun bundin þeim versum í Rómverjabréfinu sem við heyrðum lesið úr áðan. Þegar Lúther var í klaustrinu reyndi hann á allan hátt að þóknast Guði. Hann áleit á þeim tíma að verkin skiptu öllu máli. Hann lagði hart að sér í lestri Ritningarinnar og reyndi að komast að því sem var réttast í túlkun hennar. Hann gerði öll þau verk sem honum voru falin, eins og best hann mátti en aldrei fannst honum hann gera nógu vel. En eitt sinn er hann las 17. versið í 1. kafla Rómverjabréfsins rann upp fyrir honum ljós: „Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: „Hinn réttláti mun lifa fyrir trú“. Hann var sleginn þeirri hugmynd að trúin skipti öllu máli. Afstaðan til Guðs skipti öllu máli, ekki verkin ein og sér. Og æ síðan hefur þetta atriði verið í hávegum haft í lúterskri guðfræði.

Eins og sagan um Sakkeus sýnir þá má ljóst vera að afstaðan til Guðs, trúin á Guð breytir einnig afstöðu okkar til samferðafólksins. Eftir að fundum þeirra Sakkeusar og Jesú bar saman átti Sakkeus von á nýju og betra lífi. Hjálpræði hafði hlotnast húsi hans eins og segir í textanum. Afstaðan til Guðs og trúarinnar er lykillinn að hjálpræðinu og þar með breyttu og betra lífi. Margir bjóða lykla í dag að dyrum hjálpræðisins. Sá lykill er í hendi hvers og eins og einnig í hendi hvers og eins að finna skrána sem lykillinn gengur að. Í kirkjunni er skrána að finna sem lykillinn gengur að. Sá lykill er ókeypis og sá lykill opnar dyr inn í nýtt líf þar sem Jesús nefnir nafn þess sem inn gengur og býður samfylgd sína hér og nú og að eilífu.

Guð gefi góða tíma á nýbyrjuðu ári og gefi okkur allt sem við þurfum til að sjá Jesú í daglegu lífi okkar, okkur til heilla og samferðafólki okkar til blessunar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Agnes Sigurðardóttir · 24. janúar 2019

Nýársprédikun Agnesar M. Sigurðardóttur biskups Íslands

Enn á ný höfum við litið nýtt ártal. Víða um land var kveikt á blysum í fjallshlíðum eða öðrum áberandi stöðum með ártalinu 2018 sem breyttist svo í 2019 þegar klukkan sló 12 á miðnætti í gærkveldi. Á mörgum stöðum hringja líka kirkjuklukkurnar á mærum tveggja ára og minna á að árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.

Það fylgir því viss tregi að kveðja ár en að sama skapi býr viss eftirvænting í huga og hjarta vegna hins nýja árs og þess sem það færir. Í huga margra er fyrirheit um betra og gjöfulla líf en hvað boðar nýjárs blessuð sól er enn hulið þó við vonum og biðjum að árið verði gott og gefandi.

Áramót eru ekki tímamót. Það eina sem breytist er að við þurfum að venja okkur á að skrifa nýtt ártal og auðvitað að þreyja þorrann og góuna sem var ekki alltaf auðvelt hér áður fyrr þegar húsakynni voru köld og tæknin lítil sem engin heldur þurfti að reiða sig á verksvitið og fyrirhyggjuna.

Lífstaktur sveitarinnar þar sem verkin tilheyrðu árstíðunum er ekki sá lífstaktur sem slær í daglegu lífi okkar flestra. Hraði lífsins er óstöðvandi þar til eitthvað utanaðkomandi hægir á honum eða stoppar hann.

Guðspjall þessa fyrsta dags ársins er aðeins 3 vers úr Jóhannesarguðspjalli. Jesús hafði gert sitt fyrsta kraftaverk, að breyta vatni í vín í brúðkaupsveislu einni. Hann hafði líka hrundið við borðum víxlaranna sem skiptu peningum þeirra sem komu í musterið svo þau gætu greitt fyrir fórnardýrið með réttri mynt. Fólk undraðist verk þessa manns og sumir fóru að trúa á hann. Það var ekki vel liðið af ráðamönnum þess tíma því þá eins og nú vildu menn ekki missa völd sín. Frá því segir guðspjallamaðurinn einnig í riti sínu með þessum orðum: „Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: „Hvað eigum við að gera? Þessi maður gerir mörg tákn. Ef við leyfum honum að halda svo áfram munu allir trúa á hann og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm okkar og þjóð.“

Biblían geymir visku kynslóðanna. Visku sem þær hafa safnað saman í það rit sem við köllum í dag Biblíuna. Biblían er safn af bókmenntaverkum, með hreint mögnuðu innihaldi, smásögum, ljóðum, heilræðum, mannkynssögu, sögu þjóðar, sögu einstaklinga. Þessar sögur hafa gagnast vel í lífsins ólgusjó og ættu enn að vera hluti af námsefni hvers barns eins og áður fyrr.

Margir eru í leshring eða bókaklúbbi. Hvernig væri að lesa einhverja bóka Biblíunnar í slíkum félagsskap. Umræðurnar yrðu örugglega fjörugar. Lestur á bókum Biblíunnar getur síðan opnað manni heim sem frelsar, líknar og veitir lausn, þegar við nálgumst ritin með augum trúarinnar og lifum í samræmi við þá trúarreynslu, sem lesturinn getur veitt.

Nú þegar við höfum áhyggjur af móðurmálinu íslensku, hvort hún verður hér áfram töluð um alla framtíð, megum við minnast þess að þýðing Biblíunnar og útgáfa hennar árið 1584 hafði þau áhrif að tungumálið varðveittist eins og raun ber vitni. Sá viðburður er ef til vill ástæða þess að enn erum við nefnd bókaþjóð og Alþingi hefur nýverið samþykkt frumvarp um stuðning við bókaútgáfu á íslensku til að svo megi áfram verða. Orðfæri Biblíunnar hefur haft mikil áhrif á íslenskt mál og hefur orðtökum á íslensku sem má rekja til Biblíumáls verið safnað saman í bók Jóns G. Friðjónssonar.

Manneðlið er samt við sig hvort heldur árið er 2 eða 2000. Í menntaskóla las ég bókina 1984 eftir George Orwell. Þar er framtíðarsýnin ógnvænleg þegar fylgst er með hverju fótmáli borgaranna. Ekki grunaði okkur unglingana fyrir vestan að slíkt tilheyrði raunveruleikanum eftir nokkra áratugi. Nú er búið að setja reglur um persónuvernd á sama tíma og allt á að vera upp á borði eins og það er orðað.

Margt má betur fara í heimi hér. Enn eru þjófar að verki sem taka ófrjálsri hendi það sem þeir telja verðmætt á heimilum manna. Fólk býr við fátækt hér á landi og húsnæðisekla er fyrir hendi. Menn fela staðreyndir til að tapa ekki fjármunum eins og fyrirtækið Johnson og Johnson sem framleiddi asbestmengað púður sem foreldrar ungbarna víða um heim hafa í áratugi notað á börnin sín. Enn eru þúsundir á flótta í heiminum og bíða úrskurðar um framtíð sína. Þar gilda reglur sem oft eru ekki byggðar á miskunnsemi. Ungt fólk er í heljargreipum fíknar og ástvinir þeirra vanmáttugir. Minnumst þess að hvert líf er mikils virði og hefur tilgang.
Fréttir af hryðjuverkum og skotárásum berast einnig. Mikið er talað um að byggja þurfi upp og styrkja innviðina og ekki veitir af að bæta samgöngur og fjarskipti til að byggð haldist í landinu öllu. Það er verk að vinna víða sem bæta mun líf fólks og efla samfélagskennd.

Þjóðkirkjan er hluti af stærri heild kristinna kirkna víðs vegar um heiminn. Eftir síðari heimsstyrjöldina áttuðu kristnir menn sig á þörfinni fyrir að standa saman. Árið 2017 hélt Lútherska heimssambandið upp á 70 ára afmæli sitt og minntist einnig 500 ára afmælis siðbótarinnar. Þau hátíðarhöld hófust formlega með sameiginlegri bænastund Frans páfa og fulltrúum lúthersku kirkjunnar. Sameinuð í bæn í fyrsta skipti í 500 ár. Í lútherska heimssambandinu eru 148 kirkjur í 99 löndum og er meðlimafjöldinn rúmlega 75 milljónir. Á síðasta ári var þess minnst að 70 ár voru frá stofnun Alkirkjuráðsins. Árið 2017 heimsótti græni patríarkinn, yfirmaður orþódoxu kirkjunnar landið í tengslum við ráðstefnu um réttlátan frið við jörðina. Nú hefur hann veitt einni af kirkjum sínum, rétttrúnaðarkirkjunni í Úkraínu sjáfstæði frá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Þetta er liður í sjálfstæðisbaráttu Úkraínu og af því tilefni sagði Petro Poroshenko forseti Úkraínu að sjálfstæði kirkjunnar væri sigur hins góða og ljós í myrkrinu.

Þjóðkikjan er til eins og aðrar kristnar kirkjur vegna þess erindis sem hún flytur. Fagnaðarerindi Jesú Krists byggir á kærleika til Guðs og manna og allrar sköpunarinnar. Lífið hér á jörð á í vök að verjast vegna lifnaðarhátta okkar mannfólksins. Vísindamenn hafa frætt okkur um afleiðingarnar og nú er komið að siðferðilegum þætti þessa máls. Við erum hvött til aðgerða, hvött til að hlúa að jörðinni sem þjáist og stynur undan lífsmáta okkar.

Siðferðileg mál koma oft upp í opinberri umræðu. Rætt hefur verið um það hvernig við tölum við hvert annað og um hvert annað. Alþingismenn glíma við siðferðileg álitamál þegar setja þarf lög eða breyta þarf lögum eins og til dæmis þegar fjallað er um líf og lífslok. Það er þörf á að allir vandi sig, hlusti á og virði ólík sjónarmið og að almenningur leggi sitt að mörkum og taki þátt í umræðunni.

Þjóðkirkjan er með þjónustunet um allt land og eru þjónar kirkjunnar til taks þegar á þarf að halda. Á ferðum mínum í sóknir landsins mæti ég hinni eiginlegu kirkju sem er fólkið í kirkjunni. Fólkið sem unnir sinni sóknarkirkju og er þakklátt fyrir þá þjónustu sem kirkjan veitir. Sú kirkja mætti oftar vera í kastljósi miðlanna. Sú kirkja biður og þakkar, fræðir og boðar, veitir sálgæslu og stuðning og gengur veginn fram með þeim sem þess óska. Sú kirkja boðar trú, von og kærleika. Þjóðkirkjan er ekki eitt af mörgum trúfélögum í landinu. Hún nýtur sérstöðu sem þjóðkirkja og því fylgja þjónustuskyldur sem trú- og lífsskoðunarfélög bera ekki.
Við hefjum gönguna inn í nýtt ár með von í brjósti. Von sem felur í sér umbreytandi og endurnýjandi kraft. Vonina sem býr í kristinni trú sem getur breytt sýn okkar á líðandi stund og framtíð samfélagsins. Barnið sem við fögnum nú á jólum er frelsarinn því hann frelsar frá því sem meiðir og deyðir til þess sem gleður og nærir. Hann lætur okkur líta á lífið með augum trúarinnar. Hvað þýðir það? Það mætti orða það þannig að sjóndöpur manneskja sér óskýrt, en ef hún lætur gleraugu upp sem miðuð eru við sjón hennar, þá sér hún skýrt og tekur jafnvel eftir því sem augun sáu ekki áður. Þannig lætur trúin okkur sjá allt í nýju ljósi, með nýjum augum og það gerist þegar við breytum hugarfari okkar og tökum tilliti til annarra og hugsum út frá því að við erum ekki ein í heiminum. Það verður allt nýtt ef hugsunin breytist.

Við skulum líta björtum augum til framtíðar því kristin trú boðar framfarir, jákvæðan hugsunarhátt og endalausa von sem byggist á fylgdinni við barnið sem fæddist í Betlehem. Þess vegna skulum við vona á hann, biðja um styrk til að takast á við hvers konar vanda og biðja um kraft til að fylgja góðum hugmyndum eftir. Kristið fólk veit að það er ekki eitt í lífsbaráttunni. Yfir því vakir almáttugur Guð sem er tilbúinn til að gefa fleiri tækifæri, tilbúinn til að fyrirgefa og tilbúinn til að hjálpa okkur að berjast trúarinnar góðu baráttu.
Prófessor Þórir Kr. Þórðarson heitinn skrifaði grein um lífsgildið og börnin og sagði m.a.: „Kristinn siður hefur haft mótandi áhrif á einstaklinga og þjóðir allt frá upphafi vega kristinnar sögu. Þegar kristinn siður ruddi sér braut til áhrifa meðal þróttmikilla, heiðinna þjóða norðurálfu, mýkti hann skap manna, lægði ofstopa, dró úr hefnigirni og gæddi allt líf þjóðanna siðfágun.
Vér Íslendingar getum séð átökin milli árásarhneigðar og ofstopa annars vegar og mildi kristins siðar og viðhorfa hins vegar í Sturlungu. Og raunar tvinnast þetta tvennt í sálarlífi allra manna – og barna – sem á annað borð eru „eðlilegir“ einstaklingar: krafturinn, árásarhneigð honum samfara, og þörfin fyrir ástúð og kærleika.“

Það urðu tímamót í lífi þjóðarinnar þegar Þorgeir Ljósvetningagoði kom undan feldinum og tilkynnti ákvörðun sína um að hér á landi skyldu ríkja ein lög og einn siður. Þessi siður, hinn kristni hefur mótað samfélagið alla tíð. Umræða nútímans um kirkju og kristni bendir til nokkurs áhuga á umræðuefninu. Sem betur fer ríkir trúfrelsi í landinu og hægt að skrá trú- og lífsskoðunarfélög hjá hinu opinbera. Viss skilyrði verður að uppfylla samkvæmt lögum til að það sé hægt. Þess vegna vekur það undrun að félag sem ekki virðist hafa uppfyllt skilyrðin hafi verið skráð og þar með öðlast réttindi sem lögin veita.

Það urðu líka tímamót í lífi þjóðarinnar þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Við minntumst aldarafmælis þess árið 2018 með ýmsum hætti og gerðum okkur betri grein fyrir því hvað það þýðir að vera fullvalda þjóð.

Ábyrgð fylgir öllum gjörðum og byrðar geta einnig verið þungar. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld“ segir Jesús. Það er gott að vita það að byrðum hins nýja árs sem vonandi verða ekki þungar megum við varpa frá okkur til hans sem kom í heiminn til að létta okkur lífið og leyfa okkur að treysta á sig í blíðu og stríðu. Í trausti þess göngum við inn í hið nýja ár með þakklæti í huga og von í brjóti.

Ég þakka samstarfsfólki mínu hér í Dómkirkjunni og annarsstaðar fyrir samfélagið á árinu sem var að kveðja og bið Guð að blessa ykkur og allt ykkar.

„Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár“ orti sr. Matthías forðum.

Við þökkum fyrir árið 2018 og biðjum þess að á nýju ári megum við ganga í ljósi Guðs svo við berum endurskin þess. Við biðjum Guð að blessa okkur nýtt ár og gefa að nafn hans verði yfirskrift lífs okkar.
Gleðilegt ár í Jesú nafni.

· 1. janúar 2019

Jólin koma líka í fangelsin

Það verður mikið um að vera hjá strákunum á Litla-Hrauni á aðfangadag um þessi jól eins og þau fyrri. Dagskráin er nokkuð þétt. Tónlistaröðlingurinn Bubbi Morthens kemur um hádegisbil og spilar og syngur fyrir þá. Ræðir um lífið og tilveruna. Þeir hlusta með athygli á hann og eru þakklátir fyrir komu hans. Bubbi hefur frá mörgu að segja og nær vel til þeirra. Talar tæpitungulaust eins og honum er einum lagið. Hann hefur heimsótt þá nær óslitið um aldarfjórðungsskeið. Stundum hafa kunnir rithöfundar komið með honum og lesið úr bókum sínum eða ávarpað þá. Síðar um daginn er guðsþjónusta í íþróttahúsinu. Fangaprestur sér um hana og mæting er alla jafna góð. Söngfélagar frá Selfossi leiða sönginn með miklum krafti – karlar sem tekið hafa þátt í guðsþjónustunni um áratugaskeið. Strákarnir eru bara býsna duglegir við að taka undir marga sálmana eins og Bjart er yfir Betlehem. Þá sér maður stundum drengjasvip færast yfir andlit þeirra. Það er drengurinn sem ekki er núna heima hjá sér á jólunum. En kannski er hann þar í anda sínum að einhverju marki. Hann veit það einn og ef til vill ómar í huga hans: „Stjarnan mín og stjarnan þín, stjarnan allra barna.“

Þegar þessum dagskrárliðum er lokið snúa menn sér að jólamatreiðslunni sem sumir hverjir eru búnir að undirbúa nokkuð áður eins og hverjir aðrir góðir búmenn. Margir fara eftir uppskriftum að hátíðarmat – aðrir blanda saman ólíkum siðum sem hver kemur með úr sínum ranni. Hangikjötið er vinsælt sem og hamborgarhryggurinn – og stundum eitthvað framandi þegar vel liggur á mönnum. Oft er það sósan sem vefst fyrir þeim en iðulega er einhver góður sósumeistari á staðnum og fer hann þegar vel lætur milli fangadeilda og aðstoðar með sósuna. Því hvað er jólamatur án góðrar sósu?

Menn setjast saman að snæðingi á flestum fangadeildum og njóta matarins. Þó nokkur samheldni kemur í ljós í hópnum og vinabragur svífur yfir vötnum. Það er nokkuð létt yfir mannskapnum þó svo hugur margra sé staddur annars staðar. Fangelsi er nefnilega staður sem enginn vilja vera á og síst á jólum.

Og menn eru ósparir á það að óska hver öðrum gleðilegra jóla!

Jólagjafir berast úr ýmsum áttum. Margir ættingjar senda gjafir og ýmis félagasamtök eins og Hvítasunnumenn og Hjálpræðisherinn gefa öllum föngum nytsamar gjafir. Gjafirnar eru ekki teknar upp í einrúmi heldur í viðurvist fangavarða. Nýjum föngum finnst það dálítið skrítið en þeir sem eru hagvanir láta það ekki trufla sig mikið. Fangaverðir inna þetta starf af hendi með varfærni og skilningi eins og allt annað ef út í það er farið.

Fangar skreyta klefa sína mismikið eins og gengur en þó eru takmörk á því. Fangelsi er í eðli sínu staður þar sem takmarkanir eru í fyrirrúmi. Ramminn utan um einstaklinginn er allur þrengri en fyrir utan. Ein jólasería er úti í glugga eða á vegg. Kannski lítið jólatré með blikkandi ljósum. Þeim er ekki heimilt að hafa logandi kerti. En jólamyndir og glitrandi skraut prýða korktöflu og veggi hjá sumum. Og jólalögin óma að sjálfsögðu á ýmsum tungumálum úr sjónvarpi og spilurum.

Margir fangar fá heimsóknir um jólin og þá eru fagnaðarfundir. Börn og makar, foreldrar og vinir koma. Þá fá mörg börn þeirra sem koma afhenta svokallaða englapakka en það eru gjafir til barna sem fangar eiga. Því verkefni hefur fangaprestur stýrt í tólf ár í samvinnu við Grensássöfnuð.

Jólatré er sett upp á sameiginlegu rými utan dyra á Litla-Hrauni þar sem það blasir við flestum. Og girðingar eru skreyttar með jólasveinum og snjókörlum sem hafa verið búnir til á trésmíðaverkstæði fangelsisins.

Sumir fangar telja jólin sem þeir eru í fangelsi. Einn sagði til að mynda eitt sinn að þetta væru sjöundu jólin hans í fangelsi. En á næstu jólum yrði hann frjáls maður og héldi þau annars staðar. En hann sagði þó að jólin hefðu alltaf komið til sín í fangelsinu og enda þótt þau hefðu stundum tekið á hann sálarlega þá gáfu þau alltaf eitthvað nýtt og meira af sér sem hann var þakklátur fyrir. En hann hlakkaði að sjálfsögðu miklu meira til jólanna úti í frelsinu. Sjö jól í fangelsi væru yfrið nóg. Öll næstu jól yrði hann frjáls maður – það var gjöf sem hann ætlaði að gefa sínu fólki. Og sjálfum sér líka.

Hreinn S. Hákonarson,
fangaprestur þjóðkirkjunnar

Hér má nálgast heimasíðu Hreins.

Hreinn S. Hákonarson · 18. desember 2018

Prédikun flutt við útvarpsmessu í Dómkirkjunni 1. sunnudag í aðventu 2. desember 2018, fullveldismessa

Prédikun flutt við útvarpsmessu í Dómkirkjunni 1. sunnudag í aðventu 2. desember 2018, fullveldismessa. 5. Mós.; Op. 3:20-22; Lúk. 4:16-21.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í gær, þann 1. desember minntumst við þess að Ísland varð formlega frjálst og fullvalda ríki fyrir einni öld. Í Dómkirkjunni hér í dag minnumst við þess einnig, í tali og tónum.
Dagurinn í dag markar einnig upphaf nýs kirkjuárs, aðventan er hafin og kveikt hefur verið á fyrsta kerti aðventukransins, spádómskertinu. Kertinu sem minnir okkur á spádómana um komu frelsarans í heiminn. Lítið ljós sem minnir á vonina sem því fylgir að eiga gott í vændum, betra líf, betri daga.

Allt sem er á sér aðdraganda. Í huganum hefst ferlið sem breytir því sem er. Ferlið sem leiddi til fullveldis Íslands stóð lengi yfir. Það kostaði þrautseigju og þolinmæði. Fullvissan um að það væri best fyrir land og þjóð að verða frjálst og fullvalda ríki dó aldrei. Draumurinn rættist og sambandslögin voru undirrituð í hlýjasta mánuði ársins 1918.

Við setningu Alþingis það ár var guðsþjónusta hér í Dómkirkjunni eins og enn tíðkast. Þá var Jón Helgason biskup og sagði hann þá m.a. í prédikun sinni: „Og þegar þér nú, bræður, kjörnir fulltrúar þjóðar vorrar, gangið að háleitu og ábyrgðarmikla köllunarverki yðar á þingi þjóðarinnar, þá er það að þessu sinni aðallega til þess að ráða þessu stórmáli til farsællegra lykta, að leggja samþykki yðar á þann hinn nýja sáttmála, sem á komandi tíma á að gilda sem sambandslög Íslendinga og Dana. Þér skuluð þá og vita, að beztu óskir þjóðarinnar – ég vona allrar – fylgja yður til þessa starfs.“

Það eru aðrir tímar nú. Fyrsta setningin í tilvitnuninni sýnir það. Þá voru aðeins „bræður“ á Alþingi. Svo er ekki nú. Biskupinn gengur út frá því að þingmenn líti á hlutverk sitt í þjónustu þjóðarinnar sem háleitt og ábyrgðarmikið köllunarverk. Ég geri ráð fyrir að svo sé enn.

Á þessum tíma höfðu konur fengið kosningarétt og embættisgengi. Það hefur þó tekið ansi langan tíma að fullt jafnrétti kynjanna sé virt. Í síðustu viku var alþjóðleg ráðstefna kvenna í leiðtogastöðum í Hörpunni í Reykjavík. Fram kom í viðtali við íslenskar forystukonur þar að samstaða og samtal væru lyklarnir að jafnari stöðu kynjanna. Í könnun sem kynnt var á ráðstefnunni kom líka fram að enn væru töluverðir fordómar gagnvart konum í stjórnunarstöðum í vestrænum ríkjum. Það er því verk að vinna og fyrirmyndir skipta miklu máli þegar til framtíðar er litið. Það sem augað sér hefur áhrif. Ég minnist í því sambandi lítils drengs í mínu prestakalli. Hann var með móður sinni á samverustund sem ég boðaði til en þá stóð í pontu karlkyns prestur í prófastsdæminu. Drengurinn var eitthvað órólegur og móðir hans sussaði á hann og bað hann hafa sig hægan meðan presturinn talaði. Drengurinn leit á móður sína undrandi og sagði: Hann er karl. Hinn fjögurra ára snáði vissi ekki að karlar gætu verið prestar því hans prestur var kona.

Árið 1918 var erfitt ár í sögu þjóðarinnar. Eldgos, frost, spænska veikin gerðu fólki erfitt fyrir og margir lifðu hörmungarnar ekki af. Allar þessar ástæður voru ekki á færi manna að fyrirbyggja. Fólk varð að takast á við ófögnuðinn. Þrátt fyrir þetta gátu menn fagnað frelsi og fullveldi. Nú er aldarafmælinu fagnað og við höfum rækilega verið minnt á að tala vel um hvert annað og við hvert annað. Það er á mannlegu valdi að bregðast við þeirri áminningu.

Á öllum tímum hefur verið litið til unga fólksins sem á framtíðina fyrir sér, því þau bera með sér inn í framtíðina það sem fyrir þeim er haft. Við viljum gefa börnunum gott veganesti til göngunnar á lífsins vegi, ekki bara á veraldlega vísu heldur og kannski ekki síður hvað siðferðið og andlega lífið varðar.

Ég ræddi við kennara með áratuga reynslu af kennslu barna í grunnskóla. Annar kennarinn velti fyrir sér hvort börnin hefðu getu til að takast á við lífið, börnin sem alin eru upp bak við skjáinn og hafa samskipti við hvert annað í gegnum skjáinn. Þessi börn munu stjórna landinu eftir nokkur ár sagði hann. Hinn kennarinn sagðist ekki hafa áhyggjur af þessu. Þau sjálf hefðu komist til manns þrátt fyrir áhyggjur foreldranna og fullorðna fólksins í barnæsku þeirra. Það er gott að vera á varðbergi og hafa möguleika á að kynna sér nýjungar í uppeldi barna, en það er ekki gott að hafa áhyggjur. Það er hins vegar hlutskipti margra sérstaklega á aðventunni þegar allt á að vera svo flott og gott og spennandi fyrir alla.

Í dag, á fyrsta sunnudegi í aðventu hefst árleg jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Safnað er fyrir verkefnum í sveitum Úganda og Eþíópíu. Hjálparstarfið veitir einnig efnalitlum fjölskyldum hér á landi stuðning fyrir jól. „Alls nutu 1304 fjölskyldur eða um 3500 einstaklingar um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól“ segir í frétt frá Hjálparstarfinu. Áhyggjur fólks sem fær aðstoð hjá Hjálparstarfinu eða öðrum samtökum, eru skiljanlegar. Það er hræðilegt til þess að vita að fólk hér á landi búi við fátækt. Það er smánarblettur á okkar samfélagi sem ætti ekki að vera til staðar árið 2018.

Fyrsta kertið á aðventukransinum minnir okkur á vonina. Það gerir guðspjallið einnig. Guðspjallið greinir frá því þegar Jesús kom í samkunduhúsið í heimabæ sínum Nasaret á hvíldardegi eins og hann var vanur. Hann stóð upp til að lesa og las úr spádómsbók Jesaja. „Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins“ segir þar meðal annars. Hvílíkur fagnaðarboðskapur sem þarna er fluttur. Bölið breytist í blessun, blindir sjá ljósið, þau sem í fjötrum eru verða leyst og boðskapurinn skal fluttur til að hann heyrist. Hver er það sem á að koma þessum gleðitíðindum til fólksins? Það er lesarinn sjálfur. „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig“ segir þar. Jesús hefur verið valinn til að flytja þessi miklu tíðindi sem hafa þau áhrif á þau sem heyra að nýtt líf blasir við.

Við mörg höfum verið kölluð til að flytja þennan góða boðskap. Það er vissulega mikið ábyrgðarhlutverk. Við höfum verið send til að fara út í söfnuðina til fólksins í kirkjunni svo áfram megi heyrast kærleiksboðskapur Jesú. Söfnuðurinn kallar, kirkjan sendir, prestar hlýða kallinu.

Fyrir 100 árum var umræða um það á Alþingi og í þeim miðlum sem þá voru sem og manna á milli hvort ríkið ætti að vernda og styðja þjóðkirkjuna eins og getið er um í stjórnarskránni. Sú umræða er því ekki ný af nálinni. Hlutverk kirkjunnar er bara eitt og það er að flytja fagnaðarboð frelsarans sem felur í sér kærleika, von, réttlæti, þakklæti og fleira sem allar kynslóðir mega heyra og hefur hingað til haft mikil áhrif á samfélag þeirra þjóða sem heyrt hafa boðskapinn.

Baráttan fyrir sjálfstæði lands og þjóðar hófst löngu áður en árið 1918 rann upp eins og við þekkjum af sögunni. Stefnur og straumar í Evrópu höfðu þar áhrif. Íslendingar fóru utan til náms en hugurinn var heima og dvaldi við það hvernig hægt væri að bæta hag almennings. Kirkjan hafði mikilvægu hlutverki að gegna sem farvegur upplýsinga til fólksins í landinu. Í kirkjunum fengu sóknarbörnin að frétta af gangi mála og gátu þannig myndað sér skoðun á því sem fram fór. Einnig gegndu prestarnir lykilhlutverki sem milliliðir leiðtoganna í Kaupmannahöfn og fólksins hér á landi. Þeir dreifðu tímaritum þeirra, fóru um með bænaskrár og sátu einnig á Alþingi sem fulltrúar fólksins. Þannig leiddu þeir þjóðlega vakningu.

Á síðasta ári minntumst við 500 ára afmælis siðbótar Marteins Lúthers. Við lestur Biblíunnar fékk hann hugmyndir að kenningum sínum sem höfðu samfélagsmótandi áhrif. Þær kenningar höfðu áhrif á námsmennina ungu í Kaupmannahöfn. Til dæmis tveggja ríkja kenning Lúthers sem gengur út á að Guð ríki yfir mannkyninu með tvennum hætti. Í ríki andans gefur Guð þær gjafir, er verða mönnum til tímanlegs og eilífs hjálpræðis. Í veraldarríkinu heldur Guð við þeirri ytri skipan, sem er nauðsynleg mannlegu samfélagi. Kenningin Lúthers um hinn almenna prestsdóm felur í sér áskorun um virka aðild að lífi og starfi kristins safnaðar og afdráttarlausa hvatningu til þátttöku í samfélagi manna. Þjónn Guðs á ekki að halda sig bara fyrir altarinu eða í eigin heimi heldur ber hverju og einu okkar að leggja náunga sínum og þar með samfélagsheildinni allt það lið er framast er unnt. Mannúðarstarf er unnið hvar vetna þar sem náungakærleikur ríkir, í stofnunum samfélagsins, fyrirtækjum og í félögum. Siðbót Lúthers hafði mikil áhrif á þau samfélög þar sem lúthersk kirkja náði fótfestu. Sú siðbót er lifandi og okkur eilíf áminning um að betur megi gera, einstaklingi og mannkyni til heilla.

Það er margt sem hefur orðið til þess valdandi að fullveldið var samþykkt og formlega hafið fyrir 100 árum. Frelsið og fullveldið, landið okkar og skipan mála á því er fjöregg sem við verðum að gæta. Árið 1918 var fólk upptekið af því að lifa af. Nú eru verkefni okkar önnur ef líf á að þrífast hér á jörð í framtíðinni. Náttúran er í hættu. Við höfum ekki gætt að því að ganga þannig um landið okkar að sómi sé að til framtíðar litið.
Í umhverfisstefnu kirkjunnar kemur fram að eitt stærsta samfélagslega vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag eru loftlagsbreytingar. Þær koma skýrast fram og eru hvað víðtækastar í náttúrufari. „Þetta vandamál er siðferðilegt málefni sem sem varðar alla“ segir í umhverfisstefnunni.

„Þjóðkirkjan boðar hófsaman lífsstíl og réttláta skiptungu jarðargæða. Sú boðun hefur vonandi þær afleiðingar í för með sér að fólk vakni til vitundar um náttúruvernd og mikilvægi þess að allir taki höndum saman til að sporna gegn loftlagsbreytingum af manna völdum.

„Kirkjan þarf að vera trú spámannlegri köllun sinni og benda á óréttlætið í heiminum. Hún þarf að benda á félagslegu neyðina sem og hina umhverfislegu sem hlýst af loftlagsbreytingum. Hún þarf að benda á ójöfnuðinn sem skapast vegna loftlagsbreytinga.“

Hver kynslóð tekur mið af sinni samtíð. Jólaundirbúningurinn var annar árið 1918. Þá var aðventan nefnd upp á íslensku jólafasta. Á jólum var allt það besta borið fram en fyrir jól var farið sparlega með. Nú er öldin önnur. Jólahlaðborð út um bæ og sveitir. Eðli mannsins hefur þó ekki breyst. Eins og forfeður okkar og mæður þráum við öryggi og skjól. Félagsskap, kærleika og hlýju.
Ég bið þess að íbúar þessa frjálsa og fullvalda lands njóti blessunar og farsældar á hinu nýbyrjaða kirkjuári og geti með gleði tekið á móti jólum í friði og kærleika.
Til hamingju með frelsið og fullveldið.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Agnes Sigurðardóttir · 18. desember 2018


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar