Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Mikið lesnar færslur undanfarið

Umsjónarmenn þáttarins

TenglarLeita

Yfirlit

Sjónvarpsþátturinn Lífið og tilveran er á dagskrá kl. 10.10 á sunnudögum á NFS auk þess sem hann er einnig endursýndur seinna í vikunni. Þátturinn er jafnframt sendur út á Talstöðinni á fm 90.9.

Nýársprédikun Agnesar M. Sigurðardóttur biskups Íslands

Enn á ný höfum við litið nýtt ártal. Víða um land var kveikt á blysum í fjallshlíðum eða öðrum áberandi stöðum með ártalinu 2018 sem breyttist svo í 2019 þegar klukkan sló 12 á miðnætti í gærkveldi. Á mörgum stöðum hringja líka kirkjuklukkurnar á mærum tveggja ára og minna á að árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.

Það fylgir því viss tregi að kveðja ár en að sama skapi býr viss eftirvænting í huga og hjarta vegna hins nýja árs og þess sem það færir. Í huga margra er fyrirheit um betra og gjöfulla líf en hvað boðar nýjárs blessuð sól er enn hulið þó við vonum og biðjum að árið verði gott og gefandi.

Áramót eru ekki tímamót. Það eina sem breytist er að við þurfum að venja okkur á að skrifa nýtt ártal og auðvitað að þreyja þorrann og góuna sem var ekki alltaf auðvelt hér áður fyrr þegar húsakynni voru köld og tæknin lítil sem engin heldur þurfti að reiða sig á verksvitið og fyrirhyggjuna.

Lífstaktur sveitarinnar þar sem verkin tilheyrðu árstíðunum er ekki sá lífstaktur sem slær í daglegu lífi okkar flestra. Hraði lífsins er óstöðvandi þar til eitthvað utanaðkomandi hægir á honum eða stoppar hann.

Guðspjall þessa fyrsta dags ársins er aðeins 3 vers úr Jóhannesarguðspjalli. Jesús hafði gert sitt fyrsta kraftaverk, að breyta vatni í vín í brúðkaupsveislu einni. Hann hafði líka hrundið við borðum víxlaranna sem skiptu peningum þeirra sem komu í musterið svo þau gætu greitt fyrir fórnardýrið með réttri mynt. Fólk undraðist verk þessa manns og sumir fóru að trúa á hann. Það var ekki vel liðið af ráðamönnum þess tíma því þá eins og nú vildu menn ekki missa völd sín. Frá því segir guðspjallamaðurinn einnig í riti sínu með þessum orðum: „Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: „Hvað eigum við að gera? Þessi maður gerir mörg tákn. Ef við leyfum honum að halda svo áfram munu allir trúa á hann og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm okkar og þjóð.“

Biblían geymir visku kynslóðanna. Visku sem þær hafa safnað saman í það rit sem við köllum í dag Biblíuna. Biblían er safn af bókmenntaverkum, með hreint mögnuðu innihaldi, smásögum, ljóðum, heilræðum, mannkynssögu, sögu þjóðar, sögu einstaklinga. Þessar sögur hafa gagnast vel í lífsins ólgusjó og ættu enn að vera hluti af námsefni hvers barns eins og áður fyrr.

Margir eru í leshring eða bókaklúbbi. Hvernig væri að lesa einhverja bóka Biblíunnar í slíkum félagsskap. Umræðurnar yrðu örugglega fjörugar. Lestur á bókum Biblíunnar getur síðan opnað manni heim sem frelsar, líknar og veitir lausn, þegar við nálgumst ritin með augum trúarinnar og lifum í samræmi við þá trúarreynslu, sem lesturinn getur veitt.

Nú þegar við höfum áhyggjur af móðurmálinu íslensku, hvort hún verður hér áfram töluð um alla framtíð, megum við minnast þess að þýðing Biblíunnar og útgáfa hennar árið 1584 hafði þau áhrif að tungumálið varðveittist eins og raun ber vitni. Sá viðburður er ef til vill ástæða þess að enn erum við nefnd bókaþjóð og Alþingi hefur nýverið samþykkt frumvarp um stuðning við bókaútgáfu á íslensku til að svo megi áfram verða. Orðfæri Biblíunnar hefur haft mikil áhrif á íslenskt mál og hefur orðtökum á íslensku sem má rekja til Biblíumáls verið safnað saman í bók Jóns G. Friðjónssonar.

Manneðlið er samt við sig hvort heldur árið er 2 eða 2000. Í menntaskóla las ég bókina 1984 eftir George Orwell. Þar er framtíðarsýnin ógnvænleg þegar fylgst er með hverju fótmáli borgaranna. Ekki grunaði okkur unglingana fyrir vestan að slíkt tilheyrði raunveruleikanum eftir nokkra áratugi. Nú er búið að setja reglur um persónuvernd á sama tíma og allt á að vera upp á borði eins og það er orðað.

Margt má betur fara í heimi hér. Enn eru þjófar að verki sem taka ófrjálsri hendi það sem þeir telja verðmætt á heimilum manna. Fólk býr við fátækt hér á landi og húsnæðisekla er fyrir hendi. Menn fela staðreyndir til að tapa ekki fjármunum eins og fyrirtækið Johnson og Johnson sem framleiddi asbestmengað púður sem foreldrar ungbarna víða um heim hafa í áratugi notað á börnin sín. Enn eru þúsundir á flótta í heiminum og bíða úrskurðar um framtíð sína. Þar gilda reglur sem oft eru ekki byggðar á miskunnsemi. Ungt fólk er í heljargreipum fíknar og ástvinir þeirra vanmáttugir. Minnumst þess að hvert líf er mikils virði og hefur tilgang.
Fréttir af hryðjuverkum og skotárásum berast einnig. Mikið er talað um að byggja þurfi upp og styrkja innviðina og ekki veitir af að bæta samgöngur og fjarskipti til að byggð haldist í landinu öllu. Það er verk að vinna víða sem bæta mun líf fólks og efla samfélagskennd.

Þjóðkirkjan er hluti af stærri heild kristinna kirkna víðs vegar um heiminn. Eftir síðari heimsstyrjöldina áttuðu kristnir menn sig á þörfinni fyrir að standa saman. Árið 2017 hélt Lútherska heimssambandið upp á 70 ára afmæli sitt og minntist einnig 500 ára afmælis siðbótarinnar. Þau hátíðarhöld hófust formlega með sameiginlegri bænastund Frans páfa og fulltrúum lúthersku kirkjunnar. Sameinuð í bæn í fyrsta skipti í 500 ár. Í lútherska heimssambandinu eru 148 kirkjur í 99 löndum og er meðlimafjöldinn rúmlega 75 milljónir. Á síðasta ári var þess minnst að 70 ár voru frá stofnun Alkirkjuráðsins. Árið 2017 heimsótti græni patríarkinn, yfirmaður orþódoxu kirkjunnar landið í tengslum við ráðstefnu um réttlátan frið við jörðina. Nú hefur hann veitt einni af kirkjum sínum, rétttrúnaðarkirkjunni í Úkraínu sjáfstæði frá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Þetta er liður í sjálfstæðisbaráttu Úkraínu og af því tilefni sagði Petro Poroshenko forseti Úkraínu að sjálfstæði kirkjunnar væri sigur hins góða og ljós í myrkrinu.

Þjóðkikjan er til eins og aðrar kristnar kirkjur vegna þess erindis sem hún flytur. Fagnaðarerindi Jesú Krists byggir á kærleika til Guðs og manna og allrar sköpunarinnar. Lífið hér á jörð á í vök að verjast vegna lifnaðarhátta okkar mannfólksins. Vísindamenn hafa frætt okkur um afleiðingarnar og nú er komið að siðferðilegum þætti þessa máls. Við erum hvött til aðgerða, hvött til að hlúa að jörðinni sem þjáist og stynur undan lífsmáta okkar.

Siðferðileg mál koma oft upp í opinberri umræðu. Rætt hefur verið um það hvernig við tölum við hvert annað og um hvert annað. Alþingismenn glíma við siðferðileg álitamál þegar setja þarf lög eða breyta þarf lögum eins og til dæmis þegar fjallað er um líf og lífslok. Það er þörf á að allir vandi sig, hlusti á og virði ólík sjónarmið og að almenningur leggi sitt að mörkum og taki þátt í umræðunni.

Þjóðkirkjan er með þjónustunet um allt land og eru þjónar kirkjunnar til taks þegar á þarf að halda. Á ferðum mínum í sóknir landsins mæti ég hinni eiginlegu kirkju sem er fólkið í kirkjunni. Fólkið sem unnir sinni sóknarkirkju og er þakklátt fyrir þá þjónustu sem kirkjan veitir. Sú kirkja mætti oftar vera í kastljósi miðlanna. Sú kirkja biður og þakkar, fræðir og boðar, veitir sálgæslu og stuðning og gengur veginn fram með þeim sem þess óska. Sú kirkja boðar trú, von og kærleika. Þjóðkirkjan er ekki eitt af mörgum trúfélögum í landinu. Hún nýtur sérstöðu sem þjóðkirkja og því fylgja þjónustuskyldur sem trú- og lífsskoðunarfélög bera ekki.
Við hefjum gönguna inn í nýtt ár með von í brjósti. Von sem felur í sér umbreytandi og endurnýjandi kraft. Vonina sem býr í kristinni trú sem getur breytt sýn okkar á líðandi stund og framtíð samfélagsins. Barnið sem við fögnum nú á jólum er frelsarinn því hann frelsar frá því sem meiðir og deyðir til þess sem gleður og nærir. Hann lætur okkur líta á lífið með augum trúarinnar. Hvað þýðir það? Það mætti orða það þannig að sjóndöpur manneskja sér óskýrt, en ef hún lætur gleraugu upp sem miðuð eru við sjón hennar, þá sér hún skýrt og tekur jafnvel eftir því sem augun sáu ekki áður. Þannig lætur trúin okkur sjá allt í nýju ljósi, með nýjum augum og það gerist þegar við breytum hugarfari okkar og tökum tilliti til annarra og hugsum út frá því að við erum ekki ein í heiminum. Það verður allt nýtt ef hugsunin breytist.

Við skulum líta björtum augum til framtíðar því kristin trú boðar framfarir, jákvæðan hugsunarhátt og endalausa von sem byggist á fylgdinni við barnið sem fæddist í Betlehem. Þess vegna skulum við vona á hann, biðja um styrk til að takast á við hvers konar vanda og biðja um kraft til að fylgja góðum hugmyndum eftir. Kristið fólk veit að það er ekki eitt í lífsbaráttunni. Yfir því vakir almáttugur Guð sem er tilbúinn til að gefa fleiri tækifæri, tilbúinn til að fyrirgefa og tilbúinn til að hjálpa okkur að berjast trúarinnar góðu baráttu.
Prófessor Þórir Kr. Þórðarson heitinn skrifaði grein um lífsgildið og börnin og sagði m.a.: „Kristinn siður hefur haft mótandi áhrif á einstaklinga og þjóðir allt frá upphafi vega kristinnar sögu. Þegar kristinn siður ruddi sér braut til áhrifa meðal þróttmikilla, heiðinna þjóða norðurálfu, mýkti hann skap manna, lægði ofstopa, dró úr hefnigirni og gæddi allt líf þjóðanna siðfágun.
Vér Íslendingar getum séð átökin milli árásarhneigðar og ofstopa annars vegar og mildi kristins siðar og viðhorfa hins vegar í Sturlungu. Og raunar tvinnast þetta tvennt í sálarlífi allra manna – og barna – sem á annað borð eru „eðlilegir“ einstaklingar: krafturinn, árásarhneigð honum samfara, og þörfin fyrir ástúð og kærleika.“

Það urðu tímamót í lífi þjóðarinnar þegar Þorgeir Ljósvetningagoði kom undan feldinum og tilkynnti ákvörðun sína um að hér á landi skyldu ríkja ein lög og einn siður. Þessi siður, hinn kristni hefur mótað samfélagið alla tíð. Umræða nútímans um kirkju og kristni bendir til nokkurs áhuga á umræðuefninu. Sem betur fer ríkir trúfrelsi í landinu og hægt að skrá trú- og lífsskoðunarfélög hjá hinu opinbera. Viss skilyrði verður að uppfylla samkvæmt lögum til að það sé hægt. Þess vegna vekur það undrun að félag sem ekki virðist hafa uppfyllt skilyrðin hafi verið skráð og þar með öðlast réttindi sem lögin veita.

Það urðu líka tímamót í lífi þjóðarinnar þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Við minntumst aldarafmælis þess árið 2018 með ýmsum hætti og gerðum okkur betri grein fyrir því hvað það þýðir að vera fullvalda þjóð.

Ábyrgð fylgir öllum gjörðum og byrðar geta einnig verið þungar. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld“ segir Jesús. Það er gott að vita það að byrðum hins nýja árs sem vonandi verða ekki þungar megum við varpa frá okkur til hans sem kom í heiminn til að létta okkur lífið og leyfa okkur að treysta á sig í blíðu og stríðu. Í trausti þess göngum við inn í hið nýja ár með þakklæti í huga og von í brjóti.

Ég þakka samstarfsfólki mínu hér í Dómkirkjunni og annarsstaðar fyrir samfélagið á árinu sem var að kveðja og bið Guð að blessa ykkur og allt ykkar.

„Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár“ orti sr. Matthías forðum.

Við þökkum fyrir árið 2018 og biðjum þess að á nýju ári megum við ganga í ljósi Guðs svo við berum endurskin þess. Við biðjum Guð að blessa okkur nýtt ár og gefa að nafn hans verði yfirskrift lífs okkar.
Gleðilegt ár í Jesú nafni.

· 1. janúar 2019

Jólin koma líka í fangelsin

Það verður mikið um að vera hjá strákunum á Litla-Hrauni á aðfangadag um þessi jól eins og þau fyrri. Dagskráin er nokkuð þétt. Tónlistaröðlingurinn Bubbi Morthens kemur um hádegisbil og spilar og syngur fyrir þá. Ræðir um lífið og tilveruna. Þeir hlusta með athygli á hann og eru þakklátir fyrir komu hans. Bubbi hefur frá mörgu að segja og nær vel til þeirra. Talar tæpitungulaust eins og honum er einum lagið. Hann hefur heimsótt þá nær óslitið um aldarfjórðungsskeið. Stundum hafa kunnir rithöfundar komið með honum og lesið úr bókum sínum eða ávarpað þá. Síðar um daginn er guðsþjónusta í íþróttahúsinu. Fangaprestur sér um hana og mæting er alla jafna góð. Söngfélagar frá Selfossi leiða sönginn með miklum krafti – karlar sem tekið hafa þátt í guðsþjónustunni um áratugaskeið. Strákarnir eru bara býsna duglegir við að taka undir marga sálmana eins og Bjart er yfir Betlehem. Þá sér maður stundum drengjasvip færast yfir andlit þeirra. Það er drengurinn sem ekki er núna heima hjá sér á jólunum. En kannski er hann þar í anda sínum að einhverju marki. Hann veit það einn og ef til vill ómar í huga hans: „Stjarnan mín og stjarnan þín, stjarnan allra barna.“

Þegar þessum dagskrárliðum er lokið snúa menn sér að jólamatreiðslunni sem sumir hverjir eru búnir að undirbúa nokkuð áður eins og hverjir aðrir góðir búmenn. Margir fara eftir uppskriftum að hátíðarmat – aðrir blanda saman ólíkum siðum sem hver kemur með úr sínum ranni. Hangikjötið er vinsælt sem og hamborgarhryggurinn – og stundum eitthvað framandi þegar vel liggur á mönnum. Oft er það sósan sem vefst fyrir þeim en iðulega er einhver góður sósumeistari á staðnum og fer hann þegar vel lætur milli fangadeilda og aðstoðar með sósuna. Því hvað er jólamatur án góðrar sósu?

Menn setjast saman að snæðingi á flestum fangadeildum og njóta matarins. Þó nokkur samheldni kemur í ljós í hópnum og vinabragur svífur yfir vötnum. Það er nokkuð létt yfir mannskapnum þó svo hugur margra sé staddur annars staðar. Fangelsi er nefnilega staður sem enginn vilja vera á og síst á jólum.

Og menn eru ósparir á það að óska hver öðrum gleðilegra jóla!

Jólagjafir berast úr ýmsum áttum. Margir ættingjar senda gjafir og ýmis félagasamtök eins og Hvítasunnumenn og Hjálpræðisherinn gefa öllum föngum nytsamar gjafir. Gjafirnar eru ekki teknar upp í einrúmi heldur í viðurvist fangavarða. Nýjum föngum finnst það dálítið skrítið en þeir sem eru hagvanir láta það ekki trufla sig mikið. Fangaverðir inna þetta starf af hendi með varfærni og skilningi eins og allt annað ef út í það er farið.

Fangar skreyta klefa sína mismikið eins og gengur en þó eru takmörk á því. Fangelsi er í eðli sínu staður þar sem takmarkanir eru í fyrirrúmi. Ramminn utan um einstaklinginn er allur þrengri en fyrir utan. Ein jólasería er úti í glugga eða á vegg. Kannski lítið jólatré með blikkandi ljósum. Þeim er ekki heimilt að hafa logandi kerti. En jólamyndir og glitrandi skraut prýða korktöflu og veggi hjá sumum. Og jólalögin óma að sjálfsögðu á ýmsum tungumálum úr sjónvarpi og spilurum.

Margir fangar fá heimsóknir um jólin og þá eru fagnaðarfundir. Börn og makar, foreldrar og vinir koma. Þá fá mörg börn þeirra sem koma afhenta svokallaða englapakka en það eru gjafir til barna sem fangar eiga. Því verkefni hefur fangaprestur stýrt í tólf ár í samvinnu við Grensássöfnuð.

Jólatré er sett upp á sameiginlegu rými utan dyra á Litla-Hrauni þar sem það blasir við flestum. Og girðingar eru skreyttar með jólasveinum og snjókörlum sem hafa verið búnir til á trésmíðaverkstæði fangelsisins.

Sumir fangar telja jólin sem þeir eru í fangelsi. Einn sagði til að mynda eitt sinn að þetta væru sjöundu jólin hans í fangelsi. En á næstu jólum yrði hann frjáls maður og héldi þau annars staðar. En hann sagði þó að jólin hefðu alltaf komið til sín í fangelsinu og enda þótt þau hefðu stundum tekið á hann sálarlega þá gáfu þau alltaf eitthvað nýtt og meira af sér sem hann var þakklátur fyrir. En hann hlakkaði að sjálfsögðu miklu meira til jólanna úti í frelsinu. Sjö jól í fangelsi væru yfrið nóg. Öll næstu jól yrði hann frjáls maður – það var gjöf sem hann ætlaði að gefa sínu fólki. Og sjálfum sér líka.

Hreinn S. Hákonarson,
fangaprestur þjóðkirkjunnar

Hér má nálgast heimasíðu Hreins.

Hreinn S. Hákonarson · 18. desember 2018

Prédikun flutt við útvarpsmessu í Dómkirkjunni 1. sunnudag í aðventu 2. desember 2018, fullveldismessa

Prédikun flutt við útvarpsmessu í Dómkirkjunni 1. sunnudag í aðventu 2. desember 2018, fullveldismessa. 5. Mós.; Op. 3:20-22; Lúk. 4:16-21.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í gær, þann 1. desember minntumst við þess að Ísland varð formlega frjálst og fullvalda ríki fyrir einni öld. Í Dómkirkjunni hér í dag minnumst við þess einnig, í tali og tónum.
Dagurinn í dag markar einnig upphaf nýs kirkjuárs, aðventan er hafin og kveikt hefur verið á fyrsta kerti aðventukransins, spádómskertinu. Kertinu sem minnir okkur á spádómana um komu frelsarans í heiminn. Lítið ljós sem minnir á vonina sem því fylgir að eiga gott í vændum, betra líf, betri daga.

Allt sem er á sér aðdraganda. Í huganum hefst ferlið sem breytir því sem er. Ferlið sem leiddi til fullveldis Íslands stóð lengi yfir. Það kostaði þrautseigju og þolinmæði. Fullvissan um að það væri best fyrir land og þjóð að verða frjálst og fullvalda ríki dó aldrei. Draumurinn rættist og sambandslögin voru undirrituð í hlýjasta mánuði ársins 1918.

Við setningu Alþingis það ár var guðsþjónusta hér í Dómkirkjunni eins og enn tíðkast. Þá var Jón Helgason biskup og sagði hann þá m.a. í prédikun sinni: „Og þegar þér nú, bræður, kjörnir fulltrúar þjóðar vorrar, gangið að háleitu og ábyrgðarmikla köllunarverki yðar á þingi þjóðarinnar, þá er það að þessu sinni aðallega til þess að ráða þessu stórmáli til farsællegra lykta, að leggja samþykki yðar á þann hinn nýja sáttmála, sem á komandi tíma á að gilda sem sambandslög Íslendinga og Dana. Þér skuluð þá og vita, að beztu óskir þjóðarinnar – ég vona allrar – fylgja yður til þessa starfs.“

Það eru aðrir tímar nú. Fyrsta setningin í tilvitnuninni sýnir það. Þá voru aðeins „bræður“ á Alþingi. Svo er ekki nú. Biskupinn gengur út frá því að þingmenn líti á hlutverk sitt í þjónustu þjóðarinnar sem háleitt og ábyrgðarmikið köllunarverk. Ég geri ráð fyrir að svo sé enn.

Á þessum tíma höfðu konur fengið kosningarétt og embættisgengi. Það hefur þó tekið ansi langan tíma að fullt jafnrétti kynjanna sé virt. Í síðustu viku var alþjóðleg ráðstefna kvenna í leiðtogastöðum í Hörpunni í Reykjavík. Fram kom í viðtali við íslenskar forystukonur þar að samstaða og samtal væru lyklarnir að jafnari stöðu kynjanna. Í könnun sem kynnt var á ráðstefnunni kom líka fram að enn væru töluverðir fordómar gagnvart konum í stjórnunarstöðum í vestrænum ríkjum. Það er því verk að vinna og fyrirmyndir skipta miklu máli þegar til framtíðar er litið. Það sem augað sér hefur áhrif. Ég minnist í því sambandi lítils drengs í mínu prestakalli. Hann var með móður sinni á samverustund sem ég boðaði til en þá stóð í pontu karlkyns prestur í prófastsdæminu. Drengurinn var eitthvað órólegur og móðir hans sussaði á hann og bað hann hafa sig hægan meðan presturinn talaði. Drengurinn leit á móður sína undrandi og sagði: Hann er karl. Hinn fjögurra ára snáði vissi ekki að karlar gætu verið prestar því hans prestur var kona.

Árið 1918 var erfitt ár í sögu þjóðarinnar. Eldgos, frost, spænska veikin gerðu fólki erfitt fyrir og margir lifðu hörmungarnar ekki af. Allar þessar ástæður voru ekki á færi manna að fyrirbyggja. Fólk varð að takast á við ófögnuðinn. Þrátt fyrir þetta gátu menn fagnað frelsi og fullveldi. Nú er aldarafmælinu fagnað og við höfum rækilega verið minnt á að tala vel um hvert annað og við hvert annað. Það er á mannlegu valdi að bregðast við þeirri áminningu.

Á öllum tímum hefur verið litið til unga fólksins sem á framtíðina fyrir sér, því þau bera með sér inn í framtíðina það sem fyrir þeim er haft. Við viljum gefa börnunum gott veganesti til göngunnar á lífsins vegi, ekki bara á veraldlega vísu heldur og kannski ekki síður hvað siðferðið og andlega lífið varðar.

Ég ræddi við kennara með áratuga reynslu af kennslu barna í grunnskóla. Annar kennarinn velti fyrir sér hvort börnin hefðu getu til að takast á við lífið, börnin sem alin eru upp bak við skjáinn og hafa samskipti við hvert annað í gegnum skjáinn. Þessi börn munu stjórna landinu eftir nokkur ár sagði hann. Hinn kennarinn sagðist ekki hafa áhyggjur af þessu. Þau sjálf hefðu komist til manns þrátt fyrir áhyggjur foreldranna og fullorðna fólksins í barnæsku þeirra. Það er gott að vera á varðbergi og hafa möguleika á að kynna sér nýjungar í uppeldi barna, en það er ekki gott að hafa áhyggjur. Það er hins vegar hlutskipti margra sérstaklega á aðventunni þegar allt á að vera svo flott og gott og spennandi fyrir alla.

Í dag, á fyrsta sunnudegi í aðventu hefst árleg jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Safnað er fyrir verkefnum í sveitum Úganda og Eþíópíu. Hjálparstarfið veitir einnig efnalitlum fjölskyldum hér á landi stuðning fyrir jól. „Alls nutu 1304 fjölskyldur eða um 3500 einstaklingar um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól“ segir í frétt frá Hjálparstarfinu. Áhyggjur fólks sem fær aðstoð hjá Hjálparstarfinu eða öðrum samtökum, eru skiljanlegar. Það er hræðilegt til þess að vita að fólk hér á landi búi við fátækt. Það er smánarblettur á okkar samfélagi sem ætti ekki að vera til staðar árið 2018.

Fyrsta kertið á aðventukransinum minnir okkur á vonina. Það gerir guðspjallið einnig. Guðspjallið greinir frá því þegar Jesús kom í samkunduhúsið í heimabæ sínum Nasaret á hvíldardegi eins og hann var vanur. Hann stóð upp til að lesa og las úr spádómsbók Jesaja. „Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins“ segir þar meðal annars. Hvílíkur fagnaðarboðskapur sem þarna er fluttur. Bölið breytist í blessun, blindir sjá ljósið, þau sem í fjötrum eru verða leyst og boðskapurinn skal fluttur til að hann heyrist. Hver er það sem á að koma þessum gleðitíðindum til fólksins? Það er lesarinn sjálfur. „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig“ segir þar. Jesús hefur verið valinn til að flytja þessi miklu tíðindi sem hafa þau áhrif á þau sem heyra að nýtt líf blasir við.

Við mörg höfum verið kölluð til að flytja þennan góða boðskap. Það er vissulega mikið ábyrgðarhlutverk. Við höfum verið send til að fara út í söfnuðina til fólksins í kirkjunni svo áfram megi heyrast kærleiksboðskapur Jesú. Söfnuðurinn kallar, kirkjan sendir, prestar hlýða kallinu.

Fyrir 100 árum var umræða um það á Alþingi og í þeim miðlum sem þá voru sem og manna á milli hvort ríkið ætti að vernda og styðja þjóðkirkjuna eins og getið er um í stjórnarskránni. Sú umræða er því ekki ný af nálinni. Hlutverk kirkjunnar er bara eitt og það er að flytja fagnaðarboð frelsarans sem felur í sér kærleika, von, réttlæti, þakklæti og fleira sem allar kynslóðir mega heyra og hefur hingað til haft mikil áhrif á samfélag þeirra þjóða sem heyrt hafa boðskapinn.

Baráttan fyrir sjálfstæði lands og þjóðar hófst löngu áður en árið 1918 rann upp eins og við þekkjum af sögunni. Stefnur og straumar í Evrópu höfðu þar áhrif. Íslendingar fóru utan til náms en hugurinn var heima og dvaldi við það hvernig hægt væri að bæta hag almennings. Kirkjan hafði mikilvægu hlutverki að gegna sem farvegur upplýsinga til fólksins í landinu. Í kirkjunum fengu sóknarbörnin að frétta af gangi mála og gátu þannig myndað sér skoðun á því sem fram fór. Einnig gegndu prestarnir lykilhlutverki sem milliliðir leiðtoganna í Kaupmannahöfn og fólksins hér á landi. Þeir dreifðu tímaritum þeirra, fóru um með bænaskrár og sátu einnig á Alþingi sem fulltrúar fólksins. Þannig leiddu þeir þjóðlega vakningu.

Á síðasta ári minntumst við 500 ára afmælis siðbótar Marteins Lúthers. Við lestur Biblíunnar fékk hann hugmyndir að kenningum sínum sem höfðu samfélagsmótandi áhrif. Þær kenningar höfðu áhrif á námsmennina ungu í Kaupmannahöfn. Til dæmis tveggja ríkja kenning Lúthers sem gengur út á að Guð ríki yfir mannkyninu með tvennum hætti. Í ríki andans gefur Guð þær gjafir, er verða mönnum til tímanlegs og eilífs hjálpræðis. Í veraldarríkinu heldur Guð við þeirri ytri skipan, sem er nauðsynleg mannlegu samfélagi. Kenningin Lúthers um hinn almenna prestsdóm felur í sér áskorun um virka aðild að lífi og starfi kristins safnaðar og afdráttarlausa hvatningu til þátttöku í samfélagi manna. Þjónn Guðs á ekki að halda sig bara fyrir altarinu eða í eigin heimi heldur ber hverju og einu okkar að leggja náunga sínum og þar með samfélagsheildinni allt það lið er framast er unnt. Mannúðarstarf er unnið hvar vetna þar sem náungakærleikur ríkir, í stofnunum samfélagsins, fyrirtækjum og í félögum. Siðbót Lúthers hafði mikil áhrif á þau samfélög þar sem lúthersk kirkja náði fótfestu. Sú siðbót er lifandi og okkur eilíf áminning um að betur megi gera, einstaklingi og mannkyni til heilla.

Það er margt sem hefur orðið til þess valdandi að fullveldið var samþykkt og formlega hafið fyrir 100 árum. Frelsið og fullveldið, landið okkar og skipan mála á því er fjöregg sem við verðum að gæta. Árið 1918 var fólk upptekið af því að lifa af. Nú eru verkefni okkar önnur ef líf á að þrífast hér á jörð í framtíðinni. Náttúran er í hættu. Við höfum ekki gætt að því að ganga þannig um landið okkar að sómi sé að til framtíðar litið.
Í umhverfisstefnu kirkjunnar kemur fram að eitt stærsta samfélagslega vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag eru loftlagsbreytingar. Þær koma skýrast fram og eru hvað víðtækastar í náttúrufari. „Þetta vandamál er siðferðilegt málefni sem sem varðar alla“ segir í umhverfisstefnunni.

„Þjóðkirkjan boðar hófsaman lífsstíl og réttláta skiptungu jarðargæða. Sú boðun hefur vonandi þær afleiðingar í för með sér að fólk vakni til vitundar um náttúruvernd og mikilvægi þess að allir taki höndum saman til að sporna gegn loftlagsbreytingum af manna völdum.

„Kirkjan þarf að vera trú spámannlegri köllun sinni og benda á óréttlætið í heiminum. Hún þarf að benda á félagslegu neyðina sem og hina umhverfislegu sem hlýst af loftlagsbreytingum. Hún þarf að benda á ójöfnuðinn sem skapast vegna loftlagsbreytinga.“

Hver kynslóð tekur mið af sinni samtíð. Jólaundirbúningurinn var annar árið 1918. Þá var aðventan nefnd upp á íslensku jólafasta. Á jólum var allt það besta borið fram en fyrir jól var farið sparlega með. Nú er öldin önnur. Jólahlaðborð út um bæ og sveitir. Eðli mannsins hefur þó ekki breyst. Eins og forfeður okkar og mæður þráum við öryggi og skjól. Félagsskap, kærleika og hlýju.
Ég bið þess að íbúar þessa frjálsa og fullvalda lands njóti blessunar og farsældar á hinu nýbyrjaða kirkjuári og geti með gleði tekið á móti jólum í friði og kærleika.
Til hamingju með frelsið og fullveldið.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Agnes Sigurðardóttir · 18. desember 2018

13. desember – Lúsíudagurinn

Messudagur heilagrar Lúsíu 13. desember er haldinn hátíðlegur á Norð- urlöndum – sérstaklega í Svíþjóð.
Sagan segir að heilög Lúsía hafi fæðst árið 283. Foreldrar hennar voru aðalsfólk á Sikiley. Faðirinn dó á meðan hún var í bernsku svo að móð- irin Eutychia sá um uppeldið. Eins og margir fyrstu píslarvottarnir hafði hún helgað sig Guði, og von hennar var sú að geta gefið eigur sínar fátækum. Móðir hennar beitti sér gegn því fyrst í stað, en eftir að hún hafði hlotið undraverða lækningu, sem hún þakkaði Guði, gaf hún leyfi sitt fyrir því. Þetta örlæti vakti mikla gremju hjá æskumanni einum heiðnum sem gegn vilja Lúsíu hafði verið valinn brúðgumi hennar. Hann kom boðum til landstjóra Sikileyjar, Paschasíusar að nafni, um að
Lúsía væri kristin. Þetta á að hafa gerst árið 303 á tíma ofsóknarinnar miklu gegn kristnum mönnum sem Díókletíanus keisari stóð fyrir. Lúsía var dæmd til vistar í vændishúsi. Helgisagan segir að Guð hafi gefið henni svo mikla staðfestu að þegar átti að flytja hana í vændishúsið hafi verðina þrotið afl til að færa hana úr stað. Þá var Lúsía vafin hrísknippum og borinn að eldur. En aftur kom Guð henni til hjálpar. Að lokum var hún líflátin með sverði, sem rekið var ofan í háls hennar. Áður en hún dó sagði hún fyrir um málagjöld Paschasíusar, skjót endalok bæði ofsóknarinnar miklu og veldis Díókletíanusar á keisarastóli. Þannig er helgisagan um Lúsíu.

Þessa sögu er ekki hægt að meðtaka gagnrýnislaust. Atriði hennar geta verið fengin að láni úr annarri sögu af píslarvætti meyjar. Enn fremur er spádómurinn sem sagt er frá í lok sögunnar ekki nákvæmur. Menn hafa dregið í efa að heiðinn landstjóri Sikileyjar hafi heitið Paschasíus, þar sem nafnið bendi frekar til kristins uppruna. Þó að hægt sé að gagnrýna söguna er ekki ástæða til að afneita sannleiksgildi hennar að fullu. Hafa verður í huga að snemma ber á heiðrun kirkjunnar á heilagri Lúsíu. Hún er ein af fáum konum í dýrlingatölu sem nefndar eru í efstubæninni fyrstu „að rómverskum hætti“. (Rómv. kaþ. messubók bls. 85)

Svíar halda Lúsíudaginn hátíðlegan, þó að form hátíðahaldanna virðist lítt tengt persónu Lúsíu. Samkvæmt alþýðutrú var nóttin milli 12. og 13. desember lengsta nótt ársins. Hvernig Lúsíuhátíðin barst frá Ítalíu veit enginn, en menn eru sammála um að hugmyndin um Lúsíu sem persónugervingu ljóssins hafi runnið saman við þjóðsögu frá Värmland í Vestur-Svíþjóð. Sú greinir frá því að eitt sinn þegar sultur svarf að hafi ung kona birst óvænt, siglt í kringum vatnið á stóru skipi fullu af mat sem hún dreifði meðal sveltandi fólksins. Fyrst í stað var Lúsíudagurinn aðeins haldinn hátíðlegur í Värmland og nærliggjandi héruðum. Upprunalega var þetta hátíð karlmanna en heimildir greina frá ungum hvítklæddum stúlkum með kertakórónu á höfði sem þjónuðu húsbændum til borðs. Síðan þá hefur siðurinn breiðst út og fengið þær myndir sem algengastar eru. Lúsíumorgunn er haldinn hátíðlegur á mörgum sænskum heimilum, sambýlum, skrifstofum, skólum eða klúbbum. Allir kjósa Lúsíu sem gengur um í hvítum kyrtli, með kertakórónu á höfði, bakka í höndum og réttir fólki veitingar. Kaffi, saffransnúða og piparkökur. Henni fylgja hvítklæddir meðhjálparar, stúlkur með glimmer í hárinu og drengir með uppmjóa keiluhatta skreytta stjörnum. Hefðbundin Lúsíulög eru sungin. Talsvert ber á auglýsingum Lúsíuhátíða í seinni tíð. En sem betur fer er þessi atburður þó enn ósvikin fjölskylduhátíð.

Sjálfur hef ég notið þessa dags með sænskum og dönskum vinum allt frá barnæsku. Ég kynntist honum þegar ég flutti til Danmerkur með foreldrum mínum. Pabbi starfaði þar á lýðháskóla sem hélt í Lúsíuhefðina. Og á fullorðinsárum hef ég búið í ein 8 ár í Svíþjóð þar sem börnin mín tóku þátt í hátíðinni í leikskólum og skóla. Þannig hefur Lúsíudagurinn orðið okkar dagur sem mér þykir ákaflega vænt um. Einskonar skandinavísk Þorláksmessa.

Þórhallur Heimisson · 13. desember 2018

Kirkjulykt

Á öðrum sunnudegi í aðventu hringir kirkjan inn messuhald dagsins í Árbænum einu af úthverfum Reykjavíkur. Allur vindur var úr veðrinu frá deginum áður. Fallegur og kyrrlátur morgunn, hitastigið mínus - 2°-3° gráður. Hvellur hljómur kirkjuklukknanna; sem eiga sinn uppruna suður á Spáni, en samt þykkur, ýtir við myrkrinu sem lúrir fyrir utan upplýsta kirkjuna og dökklæddar manneskjur stíga inn úr kuldanum og glaðvær börn með rauðar eplakinnar í ögn lítríkari göllum fylla kirkjuna af eftirvæntingu fólks á öllum aldri. Fjölskylduguðsþjónusta dagsins með rebba og mýslu, aðventuljósum og jólalögum eftirvæntingar beið þess eins að síðasti tónn klukknanna héldi för sinni áfram eitthvað út í veröldina, áfangastaður ókunnugur, kannski unnir sér aldrei hvíldar eða leitar síns heima til Santander á Spáni til skapara síns.

Ung stúlka á að giska 14 ára kemur inn úr myrkri morgunsins og heilsar glaðlega. Henni verður að orði þar sem hún stendur í anddyri kirkjunnar.
„Mikið er góð kirkjulykt hér inni.“

Kirkjulykt…„hvernig er kirkjulykt? spyr annar messuþjónn dagsins vingjarnlega, þar sem hann stóð við anddyrið albúin að taka á móti kirkjugestum með hlýlegri kveðju.

„Það er hlýtt og friðsælt.“ segir unga stúlkan og að þeim orðum sögðum fór hún inn í kirkjuna og sameinaðist öllum hinum sem þar voru fyrir með sínar hugsanir og væntingar.

Hlýtt og friðsælt. Hverri nema kirkjunni er mögulegt að kalla fram þannig lykt? Það er ekki hægt að bera hana á sig. Aðeins fundið fyrir henni. Ilmvötn þessa heims hafa verið til í nokkur þúsund ár sem hægt er að bera á sig - já og fundið fyrir.

„En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað.“ — 2. KORINTUBRÉF 2:14.

Málshátturinn-bragð er að þá barnið finnur-á sannarlega við hér.

Hlýtt og friðsælt.

Ekki tóm flaska ekki tóm kirkja heldur fyllt af kirkjulykt einhverju óræðu í hverjum krók og kima, sem er ekki að finna á öðrum stað en í kirkjunni.

Megi aðventan vera þér og þínum hlý og friðsæl.

Þór Hauksson · 11. desember 2018

Til varnar Grýlu

Listamenn hafa í gegnum aldirnar dregið upp ýmsar myndir af djöflinum, fólki til varnaðar. Þessi gamli fjandi, „mannkynsmorðinginn“ eins og hann er kallaður í sálmi Lúthers, getur verið fyrirferðarmikill í textum og myndmáli og fjölbreytnin er nokkur þegar slík verk eru skoðuð.

Varasöm fegurð

Sá vondi er ekki alltaf með horn og hala, rauða ásjónu, tjúguskegg og illkvittið glott á vörum. Nei, margir höfðu nú vit á því hér í gamla daga að birta hann í öðru ljósi. Freistarinn og óvinurinn sjálfur er þá sýndur sem glæsimenni, eins og filmstjörnur nútímans eða vaxtarræktatröll. (1) Þar með auglýsir hann ekki sitt innra eðli. Okkur stafar jú minni hætta af þeim sem bera innrætið utan á sér.

Á hinn bóginn þegar við förum á hraðferð yfir gæðablóðin í Biblíunni og í hinum kristna sið er frekar að þau hafi átt erfitt uppdráttar hvað útlitið varðar. Ófríðar persónur í kristnisögunni eru oftar en ekki fagnaðarboðar og fulltrúar hins góða. Jóhannes skírari var rosalegur ásýndum og líkastur trölli í úlfaldakufli og etandi engisprettur (Mark. 6. kafli). Páll postuli gefur til kynna að hann búi við einhver andlitslýti, eins og hann segir sjálfur: „mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp.“ (2Kor. 12. kafil) Í helgiriti frá miðri annarri öld er honum lýst svo að hann hafi verið „lágvaxinn, sköllóttur, hjólbeinóttur, þrekvaxinn, með samvaxnar augabrúnir og fremur neflangur.“ (2) Hvort sem þetta er sönn lýsing á þessum áhrifaríka manni eða ekki, þá fellur hún nokkuð vel að þessu minni um neikvætt samband á milli útlits og köllunar.

Og þótt við höfum litlar heimildir um útlit Jesú sjálfs þá fer ekki á milli mála samkvæmt guðspjöllunum að hann lagði oft krók á leið sína til að mæta þeim sem almennt þóttu lítt geðslegir til samneytis. Hann átti fundi með holdsveiku fólki sem höfðust við fyrir utan mannlega byggð. Þau voru einmitt gerð útlæg vegna þessa sjúkdóms sem aflagaði líkama þeirra og vakti hrylling hjá flestu öðru fólki (sjá t.d. Lúk. 17.11-19).

Hún er sig svo ófríð

Nú þegar þessi dimma jóladagskrá er senn á enda runnin, með myrkraverkum, draugagangi og heilögum Nikulási kemur það í minn hlut að bera blak af henni Grýlu – sem er bæði ein elsta fígúran í íslenskri þjóðtrú og einnig sú ljótasta. Auðvitað verður varnarræðan ekki eingöngu byggð á útliti hennar, heldur fremur af ávöxtunum og rótgrónum efasemdum mínum um sannleiksgildi þeirrar speki, að sjaldan ljúgi almannarómur. Það vekur óðara tortryggni mína, þegar fólk almennt fær eitthvað eða einhvern á heilann. Múgurinn getur verið skaðræðisskepna og hefur þar að auki stundum rangt fyrir sér.

Sagan sýnir líka að það er hægur vandi að leika á okkur mannfólkið einmitt með því að höfða til fegurðar og flottheita. Mörg hryggileg dæmi eru um slíkt í sögu og samtíma. Þeir kunnu þetta til dæmis, nazistarnir er þeir efndu til stórfenglegra sýninga með fánum og logandi kyndlum. Þessar listir stunda áróðursmestarar og skrumsölumenn af slíku kappi að við kaupum gegn betri vitund alls kyns pjátur og flotterí, sem er svo að ganga að jörðinni dauðri. Huggulegheitin geta með öðrum orðum verið stórhættuleg.

Það er auðvitað ekki þakklátt verk að andmæla viðteknum skoðunum og ég þykist hafa svolita reynslu af því. „Enginn á von á spænska rannsóknarréttinum,“ sögðu þeir í Monty Python og líklega eiga enn færri von á að nokkur komi honum til varnar, en það geri ég þegar á hann er hallað. Jú, ég hef líka haldið því fram að G-mjólk sé jafngóð venjulegri mjólk þegar útbúið er latte og ég ögra beturvitringum í bjórdrykkju með því að kæla samviskusamlega dökkan bjór og fæ bágt fyrir. Þetta eru svona fáein dæmi, tekin af handahófi. Oft býr fólk til Grýlu úr einhverju og þá er best að vera á varðbergi.

Því liggur beinast við að ræða Grýlu-grýluna sjálfa, þennan ógnvald barna á öllum öldum. Fáir hafa verið jafn úthrópaðir, fordæmdir, bannsettir og réttdræpir á Íslandi og þessi ófegurðardrottning íslenskrar alþýðutrúar. Í 17. aldar Grýlukvæði síra Stefáns Ólafssonar í Vallanesi, segir:

Eg þekki Grýlu
og eg hef hana séð,
hún er sig svo ófríð
og illileg með.
Hún er sig svo ófríð
að höfuðin ber hún þrjú,
þó er ekkert minna
en á miðaldra kú. (3)

Það er ekki bara að hún sé hræðileg ásýndum, í henni býr ein sú ógn sem oft fylgir óvættum – það er að segja hún rýfur mörk mennsku og ómennsku – hún er að hluta til mannvera og að hluta til er hún dýr. Þarna er hún bæði þríhöfða skrýmsli og hvert höfuð eins og á kú. Hér er vísað til þess þegar skilrúm manns og náttúru rofnar og fólk fyllist ugg og ótta við það sem tilheyrir hvoru tveggju eða hvorugu. Ýmis önnur fælni er af sömu rót runnin. Óttinn við samkynhneigða til að mynda eða við fólk af öðrum uppruna, sem ögra hugmyndum um hið viðurkennda ástand. Skilgreiningar geta verið varasamar og skilrúmin að sama skapi. Eins og þau holdsveiku í landinu helga, þá býr hún afskekkt í hrjóstrugum helli og vekur skelfingu hvar sem hún stígur niður hófum sínum.

Engum hefur barnæska landsins óskað dauða, jafn oft og af jafnmiklum sannfæringarkrafti og henni Grýlu: „Nú er hún gamla Grýla dauð“ syngja börnin á hverju ári með efa blandinni óskhyggju um að óvætturinn hafi verið kveðinn niður. Hún, sem nærðist á óþekkum börnum, dó sultardauða þegar börnin kepptust við að vera góð og stillt. Já, hvað segja þessar formælingar um okkur – sem erum hreinræktaðar mannverur og höfum fullan aðgang að samfélagi fólks?

Uppruni Grýlu

Uppruni Grýlu er ævaforn. Hennar mun getið í heimildum í Sverris sögu konungs – frá 13. öld og fyrsta bók þess rits ber einmitt heiti hennar. Orðið kemur þó fyrir í mörgum öðrum fornritum og má þar nefna Sturlungasögu. Þjóðfræðingurinn Terry Gunnell rýnir í bakgrunn þeirra frásagna. Þar ber ekki á öðru en að Grýla hafi þá þegar verið alþekkt og er engin tilraun gerð til að skýra eðli hennar eða tilurð. Gunnell telur að Grýluheitið kunni að hafa bent til þess að landlægur ótti hafi ríkt við ófrið og róstur á svæðinu. Nafnið hafi því vísað til einhvers sem hræddi fólk.(4) Aðrir, eins og Þorleifur Hauksson, ætla á hinn bóginn að orðið hafi vísað í styrk konungs – Grýlan sé því orð yfir það sem er öflugt.(5)

Gunnell staldrar þó einkum við þann sið sem hann telur hafa verið við lýði hér á Íslandi sem víðar, að klæða sig í gervi og sem kennd voru við Grýlu og annarra vætta. Þetta hafi fólk gert á tímamótum til dæmis í kringum vetrarsólstöður. Í því sambandi nefnir hann orðið „skinngrýla“. Í nágrannalöndum hafi varðveist heimildir um að fólk hafi dansað trylltan dans í einhverju gervi og síðar hafi orðið til sagnir um að slíkt framferði hafi endað með einhverjum hörmungum. (6) Dansinn í Hruna er auðvitað nærtækt dæmi.

Færeyski rithöfundurinn William Heinesen segir í smásögu frá Grýlunni í Svíney, frá ægilegri kvenveru með langan hala og það skrölti í henni eins og járnskrani. Hún var með kústskaft, klæddist dýraham og hafði með sér poka fyrir verðmæti eyjaskeggja. Hann hafði heimildir fyrir þessu og þetta var því hin færeyska Grýla. Henni fylgdi mikið fjör.(7) Svo er það auðvitað skrýmslafræðingurinn Þorvarður Friðriksson sem telur að Grýlan hafi ýmist verið keltnesk vetrargyðja eins og Kerlingin sem mörg fjöll draga heiti sitt af. Hann bendir líka á að Grýluminnið kunni að hafa runnið saman við þjóðflokk á Írlandi sem terroriseraði aðra þjóðflokka og krafist þess að þau létu börn sín að hendi.(8)

Þarna sjáum við hvernig gamla Grýla birtist með ýmsum hætti á ólíkum stað og tíma. Óhjákvæmilega færumst við yfir á feminískar brautir og veitum því athygli hvernig sjálfstæð gyðjan breytist smám saman í norn og illvætti. Hún, sem drottnar yfir leppalúða og er matrónan í fjölskyldu með jólaveinum og jólaketti er fyrirsjáanlega skotspónn menningar sem tortryggir sterkar og sjálfstæðar konur. Einnig er alþýðuskemmtun gerð vafasöm og háskalega, til að hafa betri stjórn á almúganum væntanlega.

En jafnvel í sinni verstu mynd, með alla sína lesti og kvikindisskap, nýtist Grýla þó til að kenna börnum að vera hlýðin og spök yfir hátíðarnar. Já, hinir fullorðnu hafa ítrekað gerst samsekir mannætunni og hafa nýtt sér til hins ýtrasta eðli hennar eins og það var orðið. Verri var hún nú ekki, blessunin, en svo að mennskir stukku á vagninn og gerðu sér mat úr matarsmekk hennar.

Flökkufólk og betlarar

Ég er þó ekki einn um það framtak að verja Grýlu. Nýverið sendi bókmenntafræðingurinn Kristján B. Jónasson frá sér pistil á samfélagsmiðlum þar sem hann rýndi í áður ívitnaðan kveðskap síra Stefáns í Vallanesi. Hann greindi textann með hliðsjón af því hversu mjög óðalsbændur óttuðust förumenn og flakkara sem fóru á milli bæja í leit að mat. Þar væru komnar matarvenjur Grýlu – ekki það að hún snæði fólk heldur óttuðust menn að hún éti þá út á gaddinn. Og þótt Grýla hafi gefist upp á rólunum og verði dauð, þá fylgir í kjölfar hennar óþjóðalýður sem heldur uppteknum hætti:

fimm hundruð flagðbörnin
flakka þar í hjá,
ekkert lægra en álnanna sjö,
upp þó að hún á,
mikið er að metta
meinhyskið pretta,
hún sýður hvern dag
hrossakjöt til rétta.

Þarna fara því fram að mati Kristjáns, stéttaátök þar sem varað er við fátækum förumönnum 17. aldar sem engu eiri á ferðum sínum um sveitir landsins. Við því þurfi að stemma stigu og gæta þess að hleypa þeim ekki inn á bæi eða gefa þeim ölmusu að éta.(9)

Yndi undir ófögru skinni

Já, það þarf ekki mikla þekkingu á mannlegu eðli til að taka því með fyrirvara þegar sterk utangarðskona er vænd um hið versta innræti og háttarlag. Annað í fari hennar elur á ótta gagnvart flóttafólki og fátækum auk þess sem hún með sjálfstæði sínu og yfirburðum, ögrar ótætis feðraveldinu.

Má ekki skoða formælingarsöngva um Grýlu sem eina grein af þeim meiði sem klausturdónar viðhöfðu hér um daginn? Þeir víluðu það ekki fyrir sér að uppnefna öflugar konur og gera þær tortryggilegar á allan hátt, bæði útlit og háttu. Nei, illskan kemur sjaldnast til dyranna eins og hún er klædd. Það vissu listamenn sem drógu upp mynd af myndarlegum djöfli. Hið vonda þrífst í heiminum vegna þess að það er ekki augljóst og sýnilegt í ljótleika sínum. Þegar við leitum það uppi, ættum fremur að skoða það sem laðar að og tælir. Illskuna finnum við síður í hinu ófrýnilega, því sem ýlfrar og hvæsir. Þvert á móti, þá má vera að þar leynist yndi undir ófögru skinni.

(1) sjá t.d. verk ítalska endurreisnarmálarans Tintorettos (1518-1594) af freistingu Krists: https://www.wga.hu/html_m/t/tintoret/3b/2upper/2/32tempt.html
(2) https://www.pbs.org/wgbh/pages/frontline/shows/religion/maps/primary/thecla.html
(3) https://www.ismus.is/i/poem/uid-a499a1ac-fef6-4c67-ab21-7f8b65d76d07
(4) Gunnell, Terry, „Grýla, Grýlur, „Grøleks“ and skeklers : medieval disguise traditions in the north Atlantic“, Arv (2001), bls. 33-54.
(5) Þorleifur Hauksson, „Beyond Grýla“ Frederic Amory in memoriam: Old Norse-Icelandic studies, Lindow og Clarke ritstýrðu, North Pinehurst Press( Berkeley og LA 2015), bls. 250-268.
(6) Sjá amgr. (4).
(7) https://snar.fo/fostulavint/grylan-william-heinesen/
(8) http://www.ruv.is/frett/keltneska-vetrargydjan-er-gryla
(9) https://www.facebook.com/kristjan.b.jonasson/posts/10215680697483217

Skúli Sigurður Ólafsson · 7. desember 2018

Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 3. grein

Í þessari grein sem er framhald af fyrri greinum undir sama hatti er er sjónum beint að skipulagi þjóðkirkjunnar á Íslandi og settar fram hugrenningar um nauðsynlegar breytingar.

Hvers konar skipulag?

Ef það liggur ljóst fyrir hvert við eigum að stefna og hvað að gera þá vaknar næst spurningin; hvers konar skipulag? Ef kristnin er fyrst og fremst þjónusta við náungann í trú og verki hvaða fyrirkomulag þeirrar þjónustu skilar mestum árangri?

Sr. Þorvaldur Karl Helgason f.v. biskupsritari hefur oft orðað verkefnið á þessa leið; ef við værum að byrja frá grunni með kirkjustarf hvernig mundum við þá skipuleggja starfið?
Skoðum aðeins módel af Þjóðkirkjunni en það er byggt á hugmynd um stöðu Ensku biskupakirkjunnar „Church of England (C.E.) sem er á margan hátt í svipaðri stöðu og okkar kirkja. Í góðri greiningu á þeirri rótgrónu stofnun sem birtist í Guardian fyrir nokkrum misserum var því haldið fram að það væru þrír pólar eða brennipunktar í starfi hennar:

Í fyrsta lagi væri hún stofnun hefðanna og siðarins og hefðarkirkjan væri mjög áberandi á landsbyggðinni í Englandi og nyti þar enn sterkar stöðu meðan í borgum væri hún veik.

Í annan stað væri að finna í C.E. kirkju hinnar félagslegu ábyrgðar og róttæku samfélagssýnar. Þessa kirkju væri að finna í stærri borgum frekar en í sveitum, hún hefði félagsleg réttlætismál á stefnuskrá sinni, að vinna með og fyrir þau sem órétti væru beitt, þau sem væru á jaðrinum, okkar minnstu bræður og systur.

Þriðji póllinn innan C.E. væri svo kirkjan sem legði upp úr trúar- og andlegu lífi, jafnvel mystík og kyrrðarstarfi. Þegar hún hneigðist að því að boða persónulega trú (evangelical) væri hún oft íhaldssöm þjóðfélagslega enda oft sprottin upp úr heittrúarhreyfingum sem hafa tilhneigingu til að vera pólitískt íhaldssamar. Á hinn bóginn væri líka til ákveðin þjóðfélagsleg róttækni í þessum armi kannski ekki síst þegar menn hneigðust til hinnar mystísku hefðar.

Ef hinn venjulegi athafnaprestur er tákngervingur hefðarkirkjunnar, þá er spámaðurinn eða hinn róttæki samfélagsrýnir tákngervingur hinnar félagslegu kirkju (t.d. Martin Luther King) en dulhyggjumaðurinn tákn fyrir hina „andlegu“ kirkju (heilagur Frans frá Assisi yfir í Billy Graham).
Það má setja þetta upp á mynd sbr. hér að neðan:

Þjóðkirkjan hefur að mínu mati verið mjög nærri efsta pólnum sem við kennum við siði og hefðir. Sú kirkja er mjög áberandi í kirkjulífi hinna dreifðu byggða á Íslandi og er upptekin við að verja siðinn fyrir breytingum. Þetta er „embættismannakirkjan“ þar sem presturinn situr jafnvel og bíður eftir að fólk leiti til hans til að fá þjónustu sem tengist þá helst ævihátíðum (rites of passage). Þetta er líka kirkjan sem vill vera í einni sæng með ríkjandi öflum – ríki og kirkja. Þetta er líka kirkjan sem yngra fólk í borgarsamfélögum er í nöp við og finnst oft afturhaldssöm.

Hin róttæka kirkja hinnar samfélagslegu ábyrgðar hefur ekki verið áberandi á Íslandi. Það er helst að við sjáum henni bregða fyrir í starfi Hjálparstarfs kirkjunnar s.s. í mjög góðu starfi með fátækum. Þá vakti það athygli þegar flóttamönnum voru veitt kirkjugrið í Laugarneskirkju (sem fór mjög í taugarnar á sumum í „hefðakirkjunni“) og einstaka prestar eru stundum róttækir í málflutningi sínum, einkum um mál þeirra sem verst standa.

Hin „andlega“ kirkja, sú sem leggur upp úr persónulegri trú, eða íhugun og kyrrð á sér nokkra málsvara á Íslandi. Þar má nefna að margir prestar og starfsmenn kirkjunnar koma úr heittrúarsamhengi, t.d. KFUM á Íslandi. Það hefur oft þau áhrif að lögð er áhersla á trú og trúarupplifun. Þessi hreyfing hefur oft þótt nokkuð íhaldssöm en það tengist þó meira áhrifum frá fríkirkjum þar sem lagt er upp úr bókstafstrú (ekki síst ef tengsl hafa verið við amerískan íhaldssaman kristindóm eins og Franklin Graham er tákngervingur fyrir).

Hin andlega kirkja á sér þó allt annað birtingaform sem kemur fram í kyrrðarstarfi, pílagrímagöngum og í kyrrðarbæninni (Centering Prayer). Þar er áherslan á íhugun, hugleiðslu og bæn (via contemplativa). Þó svo að þessi hreyfing horfi inn á við þá eru í henni fræ samfélagslegrar vikni (via activa) t.d. að vinna í þágu fátækra og kúgaðra samferðamanna á veginum. Kannski tengist þessi áhersla einkum kyrrðarstarfi og pílagrímagöngum sem tengdar hafa verið við Skálholt hér á landi.
Og hvað svo?

Og hvað svo með þessa greiningu? Eins og ég nefndi hér að framan hefur þjóðkirkjan verið of föst í hefðagírnum að mínu mati. Að verja siðinn hefur þótt mikilvægara en að iðka trúna eða hina samfélagslegu ábyrgð. Kirkjan hefur brugðist við eftir á og tekið undir samfélagsleg málefni, stundum tilneydd, stundum þegar aðrir voru búnir að ryðja veginn.

Yngri kynslóðir eru ekki mjög uppteknar af hefðum. Með samfélagsmiðlum er orðin til ný menning sem fæst lítið við hefðir. Fólk almennt, sérstaklega það yngra hefur lítinn áhuga á „embættismannakirkju“ sem kostuð er af ríkinu og lítið virðist fara fyrir hinum róttæku grunngildi kristninnar í svona fyrirkomulagi. Hin kristna lífsskoðun á erfitt uppdráttar þar sem flest snýst um vald og peninga. Hlutverk hins kristna samfélags sem við köllum kirkju stendur e.t.v.nær hinni „róttæku“ kirkju (n.b. ekki í pólitískum skilningi heldur í lífskoðun) sem er aðgerðarsinnuð (via activa) og hinni „andlegu“ kirkju (via contemplativa) enda virðast þær standa nær hinum kristnu grunngildum sem reifuð voru hér að ofan. Þungamiðja starfs og skipulags þarf því að mínu viti að færast frá hefðakirkjunni og til hinnar andlega sinnuðu aðgerðarkirkju.

Því er mjög brýnt að byrja að ræða um skipulag þjóðkirkju sem er á hraðri leið að hætta að vera þjóð-kirkja. Grundvallaratriði er að taka frumkvæði að umræðum við ríkið um endanlegan aðskilnað ríks og kirkju. Víst er það ekki auðvelt mál að fram fari endanlegt uppgjör eigna en engu að síður bráð nauðsynlegt. Kristni er róttækt afl sem getur ekki verið drepið í dróma fjárhagslegra hagsmuna ríkisvalds, eins og kúguð eiginkona sem fær skammtað fé til framfæris af eiginmanni sínum. Um leið auðveldar aðskilnaður lausn á erfiðum starfsmannamálum og getur greitt leiðina að einfaldari stjórnun og starfsháttum sem eru orðnir svo flóknir að kerfið virkar sem skyldi. En umfram annað auðveldar það okkur sem kirkju að vera kirkja.

Það samfélag um kristnina sem ég sé fyrir mér tekur Jesú á orðinu í sælu- og kærleiksboðinu. Það er samfélag sem gengur inn á við í trú og andlegri rækt og síðan út að við í virkri þjónustu við náungann. Og kannski er betra að nota orðið trúarsamfélag (faith community) heldur en kirkja vegna þess óbragðs sem sumt fólk er búið að fá af því orði.

Sennilega fækkar enn í kirkjunni með slíkar áherslur, hún verður fátækari og á erfiðara að halda úti ýmsu sem hún hefur gert (t.a.m. yfir 200 kirkjubyggingum sem eru á minjaskrá, tónlistar- og menningararfi) – en hún verður samfélag sem leitast við að vera trúverðugt í eftirfylgd við meistarann. Til langs tíma held ég að það styrki starfsemina að vera trú sínum grunni og geri hana trúverðuga gagnvart því fólki sem trú og andlegt líf höfðar til.

Í Bandaríkjunum hefur orðið til róttæk hreyfing (sem er líka trúarlega þenkjandi) sem heitir „Reclaiming Jesus“ – að „endurheimta Jesú“. Hún kemur fram sem andsvar gegn íhaldssömum kirkjum sem eru orðnar þernur hins rangláta Trump. Í stefnu þessara samtaka segir m.a.:

Við trúum því að sérhver manneskja sé sköpuð í ímynd Guðs. Þess vegna höfnum við hvítri þjóðernishyggju og rasisma…
Við trúum því að við séum séum einn líkami. Þess vegna höfnum við kvenhatri og ofbeldi gegn konum…
Við trúum því að það sem við gerum einum okkar minnstu bræðra og systra séum við að gera Kristi. Þess vegna höfnum við málflutningi sem yfirgefur þau veiku og ræðst gegn innflytjendum og flóttamönnum…
Við trúum því að vegur Krists sé þjónandi forysta – ekki valdabrölt sem bitnar á lýðræði og réttarríkinu…
Hvernig sem við förum að þá er tvennt ljóst; við þurfum að horfast í augu við veruleikann – og gera eitthvað í málinu. Og það fyrsta sem við þurfum að gera er að tala saman á hreinskilin og einlægan hátt um það hvernig við getum lagað starf okkar þannig að það þjóni fólki með fagnaðarerindi Jesú Krists.

Að vera trúr sjálfum sér

Fyrir hartnær 20 árum kom hingað til lands lúterskur prestur frá Bandaríkjunum Mary Fortune að nafni. Það var í kjölfarið á málum er tengdust Ólafi Skúlasyni biskupi. Hún hafði sérhæft sig í að hjálpa kirkjum og trúarsamfélögum þar sem upp höfðu komið mál um kynferðislegt ofbeldi. Þegar hún var spurð hvernig kirkjum/trúarsamfélögum, kristnum sem ekki kristnum hefði reitt af eftir að upp komu mál sem skóku trúverðugleika þeirra svaraði hún:
Þeim kirkjum/trúarsamfélögum reiddi illa af sem leituðust við að slá skjaldborg um gerandann og hagsmuni stofnunarinnar um leið og þær afneituðu gagnrýni. En þeim kirkjum/trúarsamfélögum sem gengjust við yfirsjónum og rangindum og leituðust svo við að bæta úr – trúar sínum grunngildum, - þeim farnaðist yfirleitt vel og næðu að vaxa á ný.

Hvorum megin ætlum við að vera?

Halldór Reynisson · 5. desember 2018

Ávarp í Fella- og Hólakirkju á aðventu: Hver vorum við þá og hver erum við nú?

Við minnumst þess að eitt hundrað ár eru liðin frá því Íslendingar endurheimtu fullveldi sitt eða öllu heldur Danir viðurkenndu fullveldi Íslands.

Þess vegna höldum við hátíð, og er það vel, og einnig hitt að láta afmælishátíðina verða tilefni til íhugunar, horfa inná við og spyrja út í okkur sjálf.

Hver erum við?

Hver erum við árið 2018?

Og þá hver vorum við árið 1918, fyrir eitt hundrað árum?

Kannski er ekki hægt að ætlast til svars því spurt er um alhæfingar. Og við alhæfingum ber alltaf að gjalda varhug. Við erum mörg og ólík og eins og við oft erum minnt á, þá hrærast innra með sérhverju okkar ýmsir þankar, góðir og slæmir, sumir til eftirbreytni aðrir síður, sumir aðdáunarverðir, aðrir alls ekki. Og þótt varla höfum við öll innra með okkur allt það litróf sem er að finna í mannlegri hugsun og hegðan þá er þarna engu að síður strengur, hinn sammannlegi strengur sem gerir það að verkum að hægt er að tala til okkar allra í húsi sem þessu og hræra strengi mennskunnar til góðs. Þetta hafa siðfræðingar, heimspekingar og listamenn einnig gert í tímans rás til að hreyfa við okkur og þoka okkur áleiðis til þroska og samkenndar. Vegna hins sammannlega þráðar fundum við öll til með Sölku Völku og það mikið ættum við að hafa lært að galdrabrennur heyri til liðinni tíð.

En þetta er varnagli og fyrirvari áður en ég sný mér að alhæfingunum. Og fyrirvararnir eru fleiri.

Ég hef stundum áður vitnað í samtal við unga frænku konu minnar sem við hittum vestur í Bandaríkjunum í aðdraganda bankahrunsins. Ég spurði hana hvað hana langaði til að taka sér fyrir hendur í lífinu. Hún hugsaði sig um og sagði svo á þessa leið: Ég hef fylgst með unglingum sem eru að fóta sig í lífinu. Þeir þurfa að kunna að lesa og skynja og skilja stærðir og samhengi stærðanna, að tvisvar sinnum tveir eru fjórir. Ef þeir öðlast ekki þessa kunnáttu koma þeir til með að standa höllum fæti í lífsbaráttunni. Mér lætur vel að kenna og þá sérstaklega reikning. Þarna held ég að ég kæmi að góðu gagni og þess vegna er svar mitt að ég vilji gerast barna- og unglingakennari í stærðfræði.

Ég hlustaði hugfanginn en varð jafnframt orðlaus. Ég varð orðvana vegna þess að lengi hafði ég ekki heyrt unga manneskju tala á þennan veg, hvar hún gæti komið að gagni fyrir samfélag sitt!

Í mörg ár hafði ungt fólk spurt, þegar framtíðaratvinnan var annars vegar, hvaða nám veitti aðgang að þeirri atvinnugrein sem gæfi best af sér, með öðrum orðum, “hvar verður MÉR best borgið, á hvaða hillu í lífinu er mest að hafa?”

Þetta er það sem kalla má tíðaranda og þarna hafði ég hitt unga stúlku sem hafði gert mér tíðarandann sýnilegan með því að ganga gegn honum. Hún var undantekningin sem sannaði regluna.

Jóhannes úr Kötlum var skáld hins unga Íslands. Fullur eldmóðs og drauma kallaði hann landa sína til verka, skáldin til að blása fólki kapp í kinn og alþýðu Íslands að taka til hendinni í uppbyggingu réttláts þjóðfélags:

Hvort sem ég æskuóð
yrki af sannri hvöt,
eða ég yrki vel
ógróinn moldarflöt,
fossar í funheitt blóð
fagnaðarkenndin sterk.
Göfgasta gleði í sál
gefur mér - unnið verk.

Það er umhugsunarvert hve ríkan þátt skáld 19. aldarinnar og á öndverðri öldinni sem leið, tengdu saman í eitt baráttu fyrir frjálsri fullvalda þjóð annars vegar og félagslegu réttlæti hins vegar:
Hvað er frelsi þitt byggð?
spyr Jónas Hallgrímsson og svarar sjálfum sér að bragði,
Það er drengslund og dyggð,
það er dáðin í siðferði þjóða;
það er menning þín sjálfs,
unz þú fúslega og frjáls
setur fjör þitt í veð hinu góða.

Og þannig hafði það verið. Skáldin og baráttufólkið hafði kappkostað að efla samkennd með þjóðinni og í kjölfarið samvinnu, þar sem menn efldu hver með öðrum kjark og bjarsýni. Á endanum varð það og þannig að hið ógerlega varð gerlegt og hið óyfirstíganlega varð yfirstigið.

Allt þetta er að sjálfsögðu sígilt og á við enn þann dag í dag. Með sameiginlegu átaki má koma bátnum úr vör og skútunni á skrið. En forsendan er að sjálfsögðu sú að þjóðin sé á sama báti, tilheyri sama samfélagi, búi við svipuð kjör; að skiptin séu réttlát.

Að mínum dómi er það til marks um siðferði þjóðanna hvernig tekjuskiptingu er háttáð, hvernig þær skipta með sér sameiginlegum verðmætum. Sú þjóð sem ekki býr við jöfnuð byggir ekki á traustum siðferðilegum grunni.
Ekki nóg með það, ranglátt þjóðfélag er veikt þjóðfélag, þjóðfélag sem engin afrek vinnur. Og veitum því athygli hvernig baráttufólk fyrri tíðar - þær kynslóðir sem lyftu þjóðinni úr sárri örbirgð og gerðu okkur að sjálfstæðri þjóð - verður tíðrætt um mikilvægi þess að leggja rækt við landið og okkur sem manneskjur. Hlustum enn:

Hvað er fresli þitt byggð?
Það er drengslund og dyggð,
það er dáðin í siðferði þjóða;
það er menning þín sjálfs,
unz þú fúslega og frjáls
setur fjör þitt í veð hinu góða.

Og…
fossar í funheitt blóð
fagnaðarkenndin sterk.
Göfgasta gleði í sál
gefur mér - unnið verk.

Hér eru gerendur á ferð sem hamra á því aftur og ítrekað að þeir hafi skyldur við sjálfa sig og þann skilning á sögulegri framvindu að ekkert gerist af sjálfu sér.

Þessi hugsun má aldrei glatast. Hinar værukæru kynslóðir sem á eftir komu ornuðu sér við orðtæki sem fyrir einhvern misskilning hafa ratað inn í spakmælasafn þjóðarinnar – og sennilega margra þjóða: “Maður kemur í manns stað”og síðan brandarinn mikli um að kirkjugarðarnir séu fullir af ómissandi fólki. Að þessu hlæja margir og láta þá fylgja að slíkt sé náttúrlega firra enda komi maður í manns stað eins og allir viti.

Í mínum huga, og um þetta hef ég stundum áður fjallað, þá er þessu ekki þannig farið. Kirkjugarðarnir eru nefnilega fullir af ómissandi fólki. Það skiljum við þegar við minnumst hins besta frá liðnum tíma.

Í mínum huga leikur enginn vafi á að gæðastuðull kynslóðanna er mismunandi og að hann taki breytingum frá einum tíma til annars. Einu sinni komu nær allir heimspekingar, sem eitthvað kvað að á Vesturlöndum, frá Grikklandi. Löngum voru Akurnesingar betri í knattspyrnu en aðrir landsmenn. Skáklistin hefur risið og hnigið í bylgum á Íslandi. Bókmenntirnar líka. Og menningin? Ég er ekki í vafa um að tíðarandinn hefur verið mis-rismikill og þar með menningin einnig.

Hvað veldur? Hvers vegna sköruðu Grikkir fram úr í heimspeki frá sjöttu öld fyrir Krist og þar til Rómverjar tóku að undiroka þjóðina fjórum öldum síðar? Frelsið eða frelsisvitundin?

Ég held það hafi verið jarðvegurinn. Þetta var nefnilega rétt hjá þeim Jóhannesi úr Kötlum og Jónasi Hallgrímssyni að menning er ræktunarstarf. Það sem við leggjum rækt við ber ávöxt. Til góðs og einnig til ills. Það er hægt að leggja rækt við lágkúru ekkert síður en við það sem vandað er og gott. „Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.“, segir í guðspjalli.

Dæmi um öfluga menningarvitund var Snæfjallaströndin á öndverðri öldinni sem leið. Þá var þar læknir, með búsetu í Ármúla, Sigvaldi Kaldalóns. Það er til marks um menningarbrag og stórhug sveitunga hans þegar þeir gáfu honum flygil til að geta iðkað list sína. Efnin voru lítil en andinn reis hátt. Í sveitinni bjó einnig Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir, Halla á Laugabóli. Hún orti mörg ljóð sem Sigvaldi gerði sönglög við, Ég lít í anda liðna tíð og Svanurinn minn syngur eru dæmi þar um, sem seint munu gleymast. Og Ave María, Sigvalda gefur Ave Maríum fremstu tónskálda Evrópu ekkert eftir, ef hún þá ekki er best!
Með öðrum orðum, Snæfjallaströndin var menningarsetur í fremstu röð á heimsvísu; hafði á að skipa framúrskarandi hæfileikafólki og jafnframt - og það er lykilatriði - samfélagi sem hafði skilninginn og veitti stuðninginn. Á Snæfjallaströnd kunnu menn að rækta garðinn sinn!

Og nú fer ég að nálgast hin eiginlegu skilaboð sem mig langar til að koma á framfæri hér í kvöld og þau snúa að okkur sjálfum, okkar ábyrgð. Okkar ræktunarstarfi.

Mín kynslóð hefur að sumu leyti verið værukær kynslóð. Hún trúði því að allt stefndi til betri vegar, þrátt fyrir áföll, stríð og hungur þá trúðum við á framfarir; að framfaramælistika mannskynnsögunnar vísaði alltaf fram á við.

Þar til nú að fram á sjónarsviðið koma nýjar kynslóðir sem búa ekki yfir þessari vissu. Mín kynslóð óttaðist kjarnorkusprengjuna en nú er okkur sagt að allar götur frá iðnbyltingunni fyrir rúmum tvö hundruð árum hafi í reynd verið tifandi slík sprengja mitt á meðal okkar, koltvísýringssprengjan.

Bandaríski umhverfissinninn og guðfræðingurinn, Jim Antal, segir í bók sinni Climate Church, Climate world, að í tíu þúsund ár hafi maðurinn notað jörðina sem ruslahaug. Það hafi gengið áfallalaust fyrstu níu þúsund og átta hundruð árin en síðan hafi farið á verri veg svo ekki sé dýpra tekið í árinni.

Fyrir nýjar kynslóðir er framtíðin nú orðin ótrygg, mengun, stríð, hungur, fólk rekið á flótta frá heimahögum milljónum saman og víðast hvar illa tekið.

Framtíðin ber ekki lengur í skauti sér skilyrðislausar framfarir. Af framtíðinni stafar nú meira að segja ógn. Þess vegna eiga nú fylgi að fagna stjórnmálaöfl sem lofa því að afnema og útrýma þessari ógn og þar með öllu sem ógnar. Trump lofaði Bandaríkjamönnum í síðustu viku góðu veðri til framtíðar og öruggum skógum. Skógareldar muni heyra liðinni tíð. Og nú er honum spáð endurvali.

En hver er þá okkar skylda, hvar er okkar garður, hvar er hinn ógróni moldarflötur? Stundum höfum við komið auga á hann, tekið til hendinni og skilað uppskeru.

Ég ætla að taka dæmi. Undir síðustu aldamót varð það gegnumgangandi á meðal ungmenna á höfðuborgarvæðinu, allt frá barnungum krökkum og fram undir tvítugt, að safnast saman um kvöld og nætur á helgum í miðborg Reykjaíkur og fylgdi þessu mikill drykkjuskapur enda kom á daginn samkvæmt mælingum að hvers kyns óregla færðist í vöxt hjá ungu fólki. Þó var ástandið ekki verra hér en gerðist í samanburðarlöndum okkar. En slæmt var það.

Þetta þótti foreldrum mörgum miður en réðu ekki við neitt lengi vel eða þart til framtakssamt fólk tók frumkvæði og blés til gagnsóknar undir hvatningunni, Tölum saman. Og einmitt það var gert. Efnt var til vitundarvakningar og með þrautseigju tókst að kalla að borði foreldrasamtök, æskulýðssamtök, bæjarfélög, kirkjuna, skólana, lögregluna og fleiri og fleiri og fleiri. Á meðal þess sem hvatt var að foreldrar kappkostuðu að gera var einfaldlega að vera samvistum við börn sín um helgar. Og viti menn. Þetta tókst! Samkvæmt mælingum sem þykja áreiðanlegar fjölgaði þeim sem voru samvistum við 16 ára börn sín um helgar úr 36 af hundraði í 63% á þeim tíma sem átakið stóð yfir.

Og kemur þá rúsínan í pylsuendanum. Í nákvæmlega sama hlutfalli við rísandi samveruás kynslóðanna dró úr drykkju og reykingum í markhópunum, aldursflokknum fram undir tvítugt, drykkjan fór úr 36 prósent í 6 og reykimgar úr 32 í 8%. Einnig kannabisneyslan gekk lítillega niður, í öllum tilvikum var árangurinn hér á landi langt umfram það sem gerðist alls staðar í samanburðarríkjum okkar. Að sönnu kemur í ljós núna að minnihlutahópur er illa haldinn af óreglu og jafnvel ver staddur en fyrir fáeinum árum. Á því þarf að sjálfsögðu að taka. En þrátt fyrir það má hitt ekki gleymast að með fyrirbyggjandi starfi tókst að bjarga miklum meirihluta unglinga og barna, altént fresta vanda þeirra ef ekki forða þeim frá honum.

Mér var nýlega boðið á fund erlendis þar sem ég var með framlag sem laut að þessu átaki. Á þessari ráðstefnu var greint frá því sem var á döfinni í áfengis- og vímuefnaálum vítt og breitt um lönd. Á daginn kom að víða var verið að rýmka löggjöf út frá meintum þörfum minnihlutahópa og vel að merkja vegna þrýstings frá vímefna-marksöflunum. Í þeim ríkjum Bandaríkjanna og Kanada þar sem kannabisefni hafa nú verið gefin frjáls berast fréttir af kannabis-súkkulaði í búðarhillum. Nema hvað? Við hverju býst fólk?

Þetta eru skilaboð mín, að draga lærdóma af starfi foreldranna í Tölum saman hópnum. Þeim tókst ætlunarverk sitt, að rækta sinn ógróna moldarflöt. Þeir eru margir slíkir fletirnir sem horfa þarf til. Og á fullveldisári er vert að leiða hugann að því að fullveldi og sjálfstæði þjóðar er ógnað með ýmsum hætti.

En Sigríðarnar frá Brattholti eru einnig ennþá til sem betur fer. Suður í Hafnarfirði býr kona að nafni Jóna Imsland. Hún hefur sett fram undirskriftalista undir heitinu, Seljum ekki Ísland! Á meðan auðkýfingar kaupa upp landið okkar og færa eignarhaldið á því út fyrir landsteinana rís upp og reynist stærri en ríkisstjónin öll samanlögð, kona sem hvetur til samstöðu um þjóðarhag. Á meðan sefur Alþingi.

Ég ætla að kjósa Jónu Imsland sem mann ársins um áramótin og er ég sannfærður um að hennar verður minnst á afmælishátíðum fullvalda Íslands í framtíðinni. Látum það verða svo! Hún safnar nú liði. Verðum við ákalli hennar, Seljum ekki Ísland!

Og enn um ógnirnar. Okkur er sagt að nú sé um að gera að tengjast evrópskum orkumarkaði og komast þannig í kompaní við þau sem líta á orku sem hverja aðra vöru sem selja megi dýrt eða ódýrt aftir atvikum og aðstæðum. Í Evrópu er prísinn á þessari vöru dýrari en hér gerist. Það þýðir að íslenskur kaupandi yrði að greiða meira á sameiginlegu markaðstorgi raforkunnar en seljandinn gæti hins vegar fengið meira fyrir sinn snúð. Þar með yrði kominn enn einn hvatinn inn í orkuframleiðslukerfið, því meira sem virkjað er þeim mun betra. Svo er að heyra að Landsvirkjun og Landsnet telji þennan kost álitlegan. Gullfossi og Dynjanda mun hins vegar lítið um hann gefið.

Á þetta tal heima í kirkju í upphafi aðventunnar? Að sjálfsögðu, á sama hátt og höfuðbiskupar Norðurlandanna stigu á stokk á Arctic circle ráðstefnunni á dögunum að ræða meðal annars mengun og mannrréttindi.

Staðreyndin er sú að við þurfum að vakna af doðanum engu síður en þörf var á fyrir rúmri öld. Hefðbundin stjórnmál eru komin í hrikalegar ógöngur. Auðvald ógnar lýðræðinu. Um það má hafa langt mál og þarf að hafa langt mál. Það þarf að gera utan þings og innan þings en þar eru stjórnmálin því miður á undanhaldi. Það telst nánast til tíðinda þegar yfirleitt er rætt þar um stjórnmál!

Fyrir fáeinum dögum var sýnd fréttamynd í sjónvarpi um hvernig virðulegir bankar - að því er við héldum - hafa stolið með samanteknum ráðum hundruðum milljarða úr ríkissjóðum og hér á landi höfum við fylgst með óprúttnum hagsmunaaðilum leggja til atlögu gegn samfélaginu.

Ef við viljum ekki missa trú á framtíðina - og það megum við ekki gera - þá þurfum við á margan hátt að byrja upp á nýtt.

Ekkert síður en fyrir einni öld er mikið verk að vinna. Ef eitthvað er þá er meiri arfi að reita en áður var og síðan þarf að taka til við að plægja og yrkja jörðina á nýjan leik. Ávöxturinn af þeirri jarðræktarvinnu verður ekki á borðum þessi jól. En að því mun koma.

Nú kveikjum við á kertum og fögnum aðventunni. Kórarnir syngja okkur senn inn í jólin, það er yndislegt. Þökk sé hljómlistarfólkinu í kvöld. Hjá mér byrja jólin iðulega í þessari kirkju, Hóla- og Fellakirkju þegar Breiðfirðingakórinn hefur upp raust sína á aðventu og syngur okkur inn í hátíðarnar.

Þegar allt kemur til alls er svo margt gott í tilverunni. Jólin eru tilefni til að hjálpast að við að koma auga á það.

Gleðileg jól.

Ávarpið fyrst birt hér.

Ögmundur Jónasson · 2. desember 2018

Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 2. grein

Í þessari grein sem er framhald af greiningu á stöðu kristin-dómsins í hinum vestræna heimi er sjónum beint að stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi.
Segja má að sama þróun sjáist hér á landi og í Evrópu en þó má halda því fram að hraðar hafi fjarað undan þjóðkirkjunni hér af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi má nefna ýmis hneykslismál er snúa að vígðum þjónum kirkjunnar. Hæst ber þar vitaskuld mál Ólafs Skúlasonar. Í annan stað má vera að viðbrögð kirkjunnar við kröfunni um jafna stöðu samkynhneigðs fólks hafi grafið undan trausti á henni.

Hverjar sem skýringarnar eru á erfiðari stöðu þjóðkirkjunnar þá tala tölurnar sínu máli. Á vef Hagstofunnar er að finna þróun meðlima í þjóðkirkjunni meira ein 20 ár aftur í tímann. Þar kemur fram að 1998 tilheyra 89,91 prósent Þjóðkirkjunni eða 244.893 einstaklingar. Árið 2018 er hlutfallið komið niður í 67,22 prósent eða 234.215 einstaklingar. Þá kom fram í nýlegum þjóðarpúlsi Gallup að traust á Þjóðkirkjunni stendur nú í 33 prósentum en var 61 prósent árið 1999. Ef heldur fram sem horfir styttist í að helmingur þjóðarinnar tilheyri kirkjunni og þá vakna efasemdir með sjálft nafnið „þjóðkirkja“.

Íslenska vandamálið - peningar

Peningar skipta hér einnig máli en þeir virðast vera meira vandamál kirkjunnar en víða annars staðar – ekki vegna þess að of lítið hafi verið af þeim – heldur kannski of mikið!
Dagana sem nýliðið Kirkjuþing stóð var því t.a.m. slegið upp hversu marga milljarða þjóðkirkjan er búin að fá út úr kirkjujarðasamkomulaginu í kjölfarið á fyrirspurn frá þingmanni Pírata. Þjóðkirkjan hefur haldið því fram frá því eftir hrun að hún hafi ekki fengið það sem henni bar eftir þessu samkomulagi – með réttu eða röngu. Hver sem rök málsins eru þá eru upphæðirnar í peningum venjulega blásnar upp til skaða fyrir orðstír kirkjunnar.
Þá var til þess tekið að prestar og biskupar Þjóðkirkjunnar fengu síðustu hækkun Kjararáðs sem ýfði upp óánægju verkalýðsfélaga. Auk heldur sem hlunnindi presta á sumum kirkjujörðum (laxveiðitekjur sérstaklega) hafa þótt undarleg. Sem betur fer sér fyrir endann á þeim forréttindum sem engin eðlileg rök lágu fyrir.

Til skamms tíma hefur æðsta samkunda þjóðkirkjunnar Kirkjuþing verið undirlagt af umfjöllun um fjárhagslega hagsmuni meðan mál sem lúta að starfsemi og stöðu kirkjunnar hafa þar oft mætt afgangi. Fyrrverandi kirkjuþingsmaður úr röðum leikmanna orðaði þetta svo: „Á Kirkjuþingi eru prestar að tala um peninga“ (þó vekur nýkosið kirkjuþing þar sem ungt fólk og konur eru áberandi von um breytta tíma).
Fleira mætti tína til þegar versnandi staða Þjóðkirkjunnar síðustu 20 ár er skoðuð.

Frá fjölmiðlum hafa blásið neikvæðir vindar. Sem gamall blaðamaður hef ég stundum skynjað neikvæðan „kúltúr“ meðal fjölmiðlamanna gagnvart kirkjunni miðað við t.d. fyrir 20 árum. Ég minnist þess þegar mál Guðrúnar Ebbu kom upp og málinu var haldið gangandi vikum saman m.a. af RÚV með svo miklum látum að tveimur kunningjum mínum þar innanhús blöskraði og höfðu orð á því við mig.

Þá hefur starfsmannavandi Þjóðkirkjunnar oft ratað í fjölmiðla en kannski ekki síst vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að leysa þau mál innan stofnunarinnar. Stundum er það vegna þunglamalegs skipulags, stundum vegna lögverndunar starfsfólks, sérílagi presta. Fyrir vikið hafa þessi mál orðið sjálfsagður fjölmiðlamatur sem hægt hefur verið að smjatta á í langan tíma.

Talandi um skipulag; þrátt fyrir aukna yfirbyggingu í kirkjustjórninni hefur vandræðagangurinn farið þar vaxandi. Gott dæmi eru vígslubiskupskosningarnar í Skálholti á s.l. ári. Það virðist vera flóknara að velja vígslubiskup heldur en þjóðhöfðingja svo að dæmi sé tekið. Hér hefur reglugerðarvæðingin farið úr hömlu þannig að kirkjuleg stjórnsýsla hefur orðið að athlægi.
Oft heyrast þær raddir innan kirkjunnar að ráða þurfi fjölmiðlafulltrúa og fræðinga til að bæta úr lélegri ímynd þjóðkirkjunnar. En sem gamall blaðamaður og fjölmiðlafræðingur veit ég það að „fegrunaraðgerð“ skilar litlu ef það er ekki heilbrigð húð undir. Það eina sem lagar ímyndina eru gæði – góð þjónusta í hvívetna.

Því miður verður ekki horft fram hjá að stundum er starfsfólk þjóðkirkjunnar að veita ófullnægjandi þjónustu á tímum þegar góð þjónusta er eina ráðið til að endurvekja glatað traust. Þá á ég sérstaklega við þær lífskreppur, t.d. erfið dauðsföll þegar fólk þarf virkilega á stuðning prests að halda. Oft er sú þjónusta sem veitt er mjög góð – en stundum gerist það, því miður að hún er slæm. Hún þarft alltaf að vera góð! Í vinnu minni með syrgjendum síðustu áratugi hef ég heyrt of margar sögur af vondri þjónustu.
Hér má svo bæta við að þjóðkirkjunni hefur mætt virk andstaða úr ýmsum áttum en kannski er það ekki síst vegna þess að hún hefur ekki tekið til í eigin ranni. Þótt víða sé vel unnið þá er of mikið að. Eða eigum við ekki að byrja á bjálkanum í eigin auga?

Hvert viljum við stefna?

Af hverju erum við að þessu? Af hverju starfrækjum við kirkjustarf? Til hvers kirkja?

Í mínum huga snýst kirkjustarf um að þjóna fólki með fagnaðarerindi kristinnar trúar. Flóknara er það ekki. Ég heyrði eitt sinn haft eftir Sigurjóni Björnssyni sálfræðingi að trúin þyrfti að vera liðsmaður í baráttunni við raunveruleikann. Það er kannski svona trú fyrst og fremst sem við þurfum að vera að rækta með okkur sjálfum og öðrum.

Og þó þurfum við ekki að vera að finna upp fín orð til að útlista tilgang starfs okkar. Er þetta ekki allt að finna í orðum Jesú sjálfs?

Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki. Mt.5.3-10

Mér hefur löngum fundist sem stefnu Jesú væri að finna í sæluboðunum. Þau segja okkur að hverju við þurfum að stefna. Það er nokkuð merkilegt að hreyfing vestur í Bandaríkjunum sem kallast „Reclaiming Jesus“ er þarna býsna nærri þegar hún vill, berjast gegn því að trúin sé notuð (af íhaldssömum kristnum mönnum) til að réttlæta kynþáttafordóma, kvenhatur, andúð á flóttafólki og misskiptingu auðs. Þessi hreyfing vill hverfa til þeirrar róttæku kirkjusýnar sem fólst í baráttu manna eins og Martin Luther King fyrir mannréttindum og að styðja þau sem standa verst.

En við erum að tala um stefnu og framtíðarsýn. Þegar stefnumótun fyrir þjóðkirkjuna 2004-2010 var unnin á sínum tíma var sett fram þessi framtíðarsýn:
• Þjóðkirkjan er lifandi og kröftug hreyfing fólks sem á samleið í trúnni á Guð sem Jesús Kristur birtir og boðar.
• Þjóðkirkjan er sýnilegt, litríkt og vaxandi samfélag sem vekur og nærir kristna trúariðkun og andlegt líf.
• Þjóðkirkjan mætir sérhverri manneskju þar sem hún er stödd á lífsleiðinni, veitir liðsinni og skjól.
• Þjóðkirkjan er vettvangur samtals í þjóðfélaginu um þýðingarmikil málefni í ljósi kristinnar trúar og siðferðis.
• Þjóðkirkjan virkjar fólk í starfi sínu og eflir það til þjónustu við Guð og náungann.

Sannarlega falleg sýn og hægt að taka undir hana í hvívetna en þó kannski frekar óljós og almenn. Sjálfsagðir hlutir. Kannski þurfum við að taka Jesú Krist á orðinu í sæluboðunum og stefna að slíkum heimi.

Og hvað eigum við að gera?

Hver er svo aðgerðaráætlunin? Hvernig ætlum við að raungera sýn Jesú frá Nasaret í sæluboðunum? Hvað sagði hann sjálfur að þetta allt snérist um?
Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Mt. 7.12

Orðað aðeins öðru vísi:
Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.’ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.
Annað er þessu líkt: ‘Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.’ Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir. (Mt 22.37-40)
Kristnin er ekki flókin trú eða lífssýn þótt hún kunni að reynast erfið í framkvæmd. Við vitum oftast hvað við eigum að gera – þótt við gerum að ekki alltaf. Kannski þurfum við fyrst og fremst í sýn okkar á framtíðina og hvernig við hrindum henni í framkvæmd að rifja upp okkar eigin grunngildi og halda okkur við grunnþætti í boðskap Jesú Krists. Það hefur þó gjarnan reynst erfitt eins og saga kirkjunnar greinir frá. Þar hefur svo oft farið meira fyrir sérhagsmunum og spillingu, - oft hinna vígðu þjóna. Vegna þess að síngirnin virðist liggja nærri mannlegri náttúru varð snemma til þetta latneska ráð: Ekklesia semper reformanda – kirkjan þarf alltaf að vera að siðbæta sjálfa sig!

(framhald í grein 3. Framtíðarsýn óskast – skipulag þjónustunnar)

Halldór Reynisson · 27. nóvember 2018

Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 1. grein

Halldór Reynisson:

Það dylst víst fáum að Þjóðkirkjan er í kreppu og hefur tapað miklu af fyrri stöðu meðal landsmanna. Á sama tíma hefur lítið farið fyrir umræðu um stöðuna né stefnu og framtíðarsýn innan vébanda kirkjunnar. Í þessari grein og tveimur öðrum sem byggja á innleggi á málfundi í Háteigskirkju um málið 1. nóvember s.l. eru settar fram hugleiðingar um stöðu kirkjunnar, ástæður hennar en einnig hugmyndir að framtíðarsýn og verkefnum í anda þeirrar sýnar.

Grundvallarspurningar

Eitt sinn lenti ég í þeirri lífsreynslu að vera í gönguhópi sem villtist uppi á hálendi Íslands um miðja nótt. Við þurftum að átta okkur á tvennu: Hvar vorum við stödd? Hvar var áfangastaðurinn? Þetta eru líka grundvallarspurningar í allri stefnumótun og eru yfirleitt lagðar til grundvallar þegar fyrirtæki, hreyfingar eða stofnanir reyna að átta sig á stöðu sinni. Hvar erum við stödd – hvert eigum við að stefna? Um leið er kúrsinn tekinn með s.k. SVÓT-greiningu; hverjir eru styrkleikar og veikleikar starfseminnar; og hvaða tækifæri – eða ógnanir felast í ytra umhverfi starfsins.

Ytra umhverfi

Skoðum fyrst ytra umhverfi kirkjunnar, þ.e.a.s. samfélagsaðstæður á Íslandi og á Vesturlöndum og það sögulega samhengi sem kirkjan hefur starfað í.
Það má velta því fyrir sér hvort sögulegur tími kristin-dóms (þ.e. þessum sérstaka samruna ríkis og kristni sem rekja má allt aftur til Konstantínusar mikla Rómarkeisara á 4. öld) sé ekki liðinn undir lok. Þegar Konstantínus háði úrslita orrustu sína við andstæðing sinn við Milviusarbrúna í Róm segir sagan að hann hafi séð kross á himni og þessi orð: „undir þessu merki skalt þú sigra“. Þar með hófst sú saga að krossinn sem hafði verið tákn um dauða og niðurlægingu varð að valdatákni í gunnfánum margra Evrópulanda, m.a. í þjóðfána Íslands. Táknfræði krossins hafði sumpart verið snúið á haus.

Frá og með upplýsingunni hófu menn að vinda ofan af þessu nána valdasambandi ríkisvalds og kristin-dóms þar sem valdið réð oftast ferðinni á kostnað hinna kristnu gilda. Eftir stendur þó mikil menning, siðir og venjur sem litað hafa allt líf vestrænna manna allt til okkar daga. Þó svo að grunngildi kristninnar (hér notað um hina kristnu frásögn og þau gildi sem af henni eru dregin) hafi oftast verið mönnum kunn hafa þau oft hafa þó ekki verið mjög áberandi í lífi kristin-dómsins eða hins kristna siðar (religio). Siðbót Lúthers var í öndverðu að snúa aftur að hinum klassísku gildum kristninnar hvað sem síðar varð þegar nýtt valdakerfi varð til undir yfirskini mótmælendatrúarinnar.

En nú er öldin önnur. Svo virðist sem undanfarnar kynslóðir, og þá ekki síst ungt fólk dagsins í dag kjósi í auknum mæli að standa utan þessarar hefðar og siðar sem við nefnum kristnin-dóm. Um leið ríkir víða lítið traust á kirkjunni sem og öðrum rótgrónum stofnunum og þær oft sakaðar um að hafa misbeitt valdi sínu og brugðist þeim sem þær áttu að þjóna. Nýjum hreyfingum, s.s. anarkisma og allrahanda aktívisma hefur vaxið fiskur um hrygg; slíkar hreyfingar ungs fólks hafa það oft að markmiði að vinna gegn mismunum, spillingu, ofbeldi og umhverfisvanda þar sem stofnanir samfélagsins, þ.á.m. kirkjan hafa brugðist að þeirra mati. Um leið hefur lífsskoðunum vaxið ásmegin sem stundum hafa orðið til sem andóf gegnum kristin-dómnum.
„Imagine“ - lag John Lennon er kannski tákn um þessa umpólun (á enskum er oft talað um „paradigm shift“) þar sem hann reynir að ímynda sér heiminn án trúarbragða sem að hans mati drepur fólk í dróma. Ungdómsmenningin (youth culture) hafði fram að þeim tíma verið frekar vinsamleg í garð Jesú frá Nasaret en verður svo stöðugt andsnúnari trúarbrögðum og kirkju í Evrópu, jafnvel Ameríku. Nú tala menn jafnvel um óþol gagnvart kristin-dómnum.
Þá skipa trúarbrögð ekki lengur sama sess í lífi fólks og á fyrri öldum vegna þess sem kallað hefur verið afhelgun (secularization) síðustu tvö – þrjú hundruð árin. Þá virðist menning hinna ungu nánast alls staðar í heiminum vera ótengdari hefðum og siðum fyrri kynslóða. Samfélagsmiðlar hafa líklega mjög ýtt undir þessa þróun að ungt fólk miðar lífsstíl sinn við ungt fólk annars staðar en ekki hefðir og siði feðra og mæðra. Ég minnist þess þegar ég var á Indlandi fyrir um 10 árum og Indverji einn kvartaði yfir þessari tilhneigingu unga fólksins þar.

Þá gætir nú um stundir lítils traust á helstu stofnunum samfélagsins og virðist það útbreytt í hinum vestræna heimi. Víða hafa komið upp spillingarmál og valdníðsla innan þessara stofnana, ekki síst kynferðislegs eðlis. Kirkjurnar eru þarna ekki undanþegnar. Viðbrögðin hafa víða verið að fólk hefur sagt sig frá þeim stofnunum sem það gat, t.d. gömlum stjórnmálaflokkum eða kirkjum. Sjálf samfélagsskipan Vesturlanda sem varð til eftir Seinni heimstyrjöld á undir högg að sækja.
Þá sjáum við með auknum innflytjendastraum vaxandi fjölhyggju þar sem fæstir tilheyra ríkjandi trúar brögðum hins nýja heimalands.
Loks má nefna þá skoðun meðal ungs fólks að börnin þeirra eigi sjálf að ákveða sína lífsskoðun en ekki foreldrarnir.

Þróun búsetu hefur ýtt undir þróunina. Sífellt fleiri kjósa að búa í borgum en að sama skapi fækkar í dreifbýli. Unga fólkið hefur flykkst til borganna síðustu áratugi í leit að tækifærum en eftir situr gamla fólkið með sínar hefðir.
Lýðfræðilega virðast þetta vera einkenni þeirra sem tilheyra kirkjunum; það fólk er eldra, býr frekar úti á landi, fleiri konur, eru minna menntuð með lægri tekjur og íhaldssamari í lífsstíl og stjórnmálaskoðunum.
Þau sem lýðfræðilega tilheyra ekki kirkjum og trúfélögum virðast vera; yngri, búa frekar í borgum, eru betur menntuð og með hærri tekjur, eru oft frjálslyndari, jafnvel róttækari en hinn hópurinn.

Allt annað er uppi á teningnum í öðrum heimsálfum; kristnin hefur sótt í sig veðrið í Afríku, jafnvel sum staðar í Asíu og íhaldssamur kristindómur mótmælenda hefur vaxið hratt í S-Ameríku. Á sama tíma hafa hægri öfgaöfl nuddað sér utan í kristindóminn í Evrópu undir því formerki að verja þurfi hina kristnu Evrópu fyrir Islam og innflytjendum. Þá virðist oftast átt við þennan valdabræðing kirkju og ríkis sem ég nefni hér kristin-dóm – enn eitt dæmið þar sem menn nota kristnina í hugmyndafræðilegum tilgangi sem oft er öndverður við grunngildi kristninnar.

Kynlíf og öfgatrú

Ýmislegt hefur óneitanlega flýtt fyrir afhelgun Vesturlanda. Þarf ekki annað en fylgjast með fréttum og oftar en ekki eru það sömu hlutirnir sem koma á daginn.
Fyrir nokkrum misserum las ég ágæta yfirlitsgrein í Guardian um stöðu kirkju og kristni á Vesturlöndum. Höfundur greinarinnar kaus að fella flest vandamál kirknanna undir einn hatt: Kynlíf! Hélt hann því fram að kirkjurnar settu sig gjarnan upp á móti því almenna siðferði sem var að þróast á Vesturöndum í kjölfar kynlífsbyltingarinnar. Nefndi hann kynlíf utan hjónabands, fóstureyðingar og samkynhneigð og taldi svo dæmi um oft vandræðalega afstöðu kirknanna í þessum málum. Þær vildu jafnvel enn teygja sig inn í svefnherbergi fólks sem og plagsiður var hjá valdhöfum fyrri alda.

Ofan í kaupið eru svo hin fjölmörgu dæmi sem upp hafa komið, bæði hérlendis og erlendis um kynferðislega áreitni kirkjulegra þjóna, jafnvel hreint kynferðisofbeldi. Nú um stundir er hart sótt að rómversk-kaþólsku kirkjunni víða um heim vegna þeirra fjölmörgu mála er snerta barnaníð kaþólskra presta.

Þá hefur bókstafstrú vaxið fiskur um hrygg síðustu áratugi víða um heim og í flestum trúarbrögðum. Ef islamisti drepur fjölda fólks í Afganistan hrópandi „Allah akbar“ þá bitnar það á trúuðu fólki uppi á Íslandi. Í bókinni „The Golden Compass“ eftir Philip Pullman er „Kirkjan“ með stóru kái illvirkinn og Guð heldur veiklulegur karakter með uppdráttarsýki. Þegar bókstafstrúarfólk, hvort sem það er hér á Íslandi eða annars staðar telur sig þekkja vilja Guðs og beitir þeim „vilja“ á andstæðinga sína þá grefur það undan trúnni á Guð. Þegar bókstafstrúaðir hvítir Ameríkanar segja að Trump sé Guðs útvaldi kemur það óorði á alla trú enda maðurinn nokkurn veginn eins fjarri kristnu siðferði og hugsast getur.

Kannski getum við sagt að bókstafshyggjan hafi mjög ýtt undir það óþol sem nútímafólk margt hvert hefur á orðtáknunum guð, kirkja og trú.

(Framhald í grein 2. Framtíðarsýn óskast – staðan á Íslandi)

Halldór Reynisson · 20. nóvember 2018


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar